Námsefni

Rökvilla 12: Rauð síld

12. KYNNING Á RÖKVILLUNNI RAUÐ SÍLD

Tólfta og seinasta rökvillan er nokkuð lík Þröngsýni og Klifun, í því að vera nokkuð léleg rök. Enn er áherslan á vörn. Viðkomandi ver sig með því að innleiða ranglega nýtt umræðuefni. Enska nafnið er einkennilegt - red herring - og vísar til þess að skella "rauðri síld" - einhverju sem kemur ekki málinu við eða er jafnvel ekki til - inn í umræðuna. Kynnumst þessari rökvillu nánar.

Sá sem ræðst gegn skoðun sem einhver hefur ekki, býr til Skoðanamun; sá sem blandar alveg nýju efni inn í umræðuna, án þess að svara því sem um er rætt bætir inn Rauðri síld. Að innleiða nýtt umræðuefni er í sjálfu sér í lagi, en ekki ef það er gert til þess eins að forðast eitthvað annað umræðuefni. Þá er verið að verja sig með órökmætum hætti, því eftir situr upprunalega umræðuefnið, sem dettur – við þetta bragð – alveg út úr umræðunni. Það má svo sem skilja bragðið og „gagnsemi” þess, enda mikið notað af stjórnmálamönnum. Verst að fréttamenn skuli alltaf láta plata sig svona!

Rauð síld er rökvilla vegna þess að í stað þess að gagnrýna þá skoðun – þá stöðu eða það álit sem viðkomandi hefur, þá er svarað með því að bæta nýju og óskyldu máli inn í umræðuna. Ef nýja umræðuefnið er ótengt því fyrra, þá er hætta á því að umræðan fari þar með inn á aðrar brautir.

 

12.1. SKILGREINING Á RÖKVILLUNNI RAUÐ SÍLD

Formleg skilgreining á rökvillunni 12. Rauð síld (red herring):

  1. X hefur fullyrt um eða gagnrýnt skoðun eða stöðu sem Y hefur eða samþykkir.
  2. Y, í svari sínu til X, blandar nýju og óskyldu - ótengdu - máli inn í umræðuna og beinir þar með umræðunni inn á aðrar brautir.
  3. Y svarar X ekki með öðrum hætti.

 

12.2. DÆMI UM RÖKVILLUNA RAUÐ SÍLD

Starfandi ráðherra er spurður um slæmt ástand þeirra mála sem hann ber ábyrgð á (t.d. var fjárlagahalli á endanum meiri en gert var ráð fyrir í upphafi árs). Ef hann svarar með því að ræða um það hvernig seinasta stjórn var, hve illa henni gekk í stjórn fjármála, o.s.frv. þá er hann að færa umræðuefnið inn á fyrri ríkisstjórn. Kannski var hún slæm, kannski réð hún líka illa við fjárlagahallann. Það má rétt vera, en breytir þó engu um þá spurningu sem beint er að honum, starfandi ráðherranum.

 

12.3. ÚTSKÝRING Á DÆMI UM RÖKVILLUNA 12. RAUÐ SÍLD

Hér er rökvillan greinilega Rauð síld, þar sem ráðherrann hefur verið spurður ákveðinnar spurningar um eigið starf, en í stað þess að svara því, þá innleiðir hann nýtt efni, þ.e. um störf og árangur seinustu stjórnar. Gott svar fréttamanna eftir svona bull (að innleiða umræðu um Rauða síld! í stað þess að svara spurningunni) væri einfaldlega eftir svar ráðherrans að spyrja sömu spurningar aftur – orðrétt. Hann gæti líka sagt: „Já ráðherra, það má vel vera rétt um seinustu ríkisstjórn, en spurningu minni um ástand þeirra mála sem þú berð ábyrgð á er enn ósvarað“. Mikið vildi ég að fréttamenn gerðu það svo sem einu sinni!

 

12.4. MYNDRÆN DÆMI UM 12. RAUÐA SÍLD

 

Myndrænt dæmi 1 um Rauða síld: "That's the murderer ..."

 
Myndrænt dæmi 1 um Rauða síld: Súrrealískt dæmi! Sá sem myrðir gerir það með því að afvegaleiða þann sem hann svo myrðir með þessum brandara um Red herring! Rökvillan er rétt að þessu leyti að morðinginn innleiðir nýtt umræðuefni, breytir umræðuefninu.
 
 

 

 

Myndrænt dæmi 2 um Rauða síld: "I think I'll have ..."

 
Myndrænt dæmi 2 um Rauða síld: Red herring er nefnilega enska nafnið á þessari rökvillu. Skýrt dæmi sem byggir eingöngu á þessu einkennilega nafni á þessari einkennulegu rökvillu.

 

Myndrænt dæmi 3 um Rauða síld: "Scientific challanges to ..."

 
Myndrænt dæmi 3 um Rauða síld: Ef umræðuefnið er „scientific challenges to evolution“ þá er það Rauð síld að byrja að ræða um „aðskilnað kirkju og ríkis. Teikningin sýnir þetta og hundurinn er að benda rauðu síldinni (verst að teiknarinn veit ekki hvernig síld lítur út!) að hann sé búinn að afvega umræðuefnið („scientific challenges to evolution. This way“).

 

Myndrænt dæmi 4 um Rauða síld: "Red herring ..."

 
Myndrænt dæmi 4 um Rauða síld: Skýrt dæmi. Skilgreining 1 er fiskurinn en skilgreining 2 er „eitthvað sem dregur athyglina frá raunverulega umræðuefninu."

 

Myndrænt dæmi 5 um Rauða síld: "Decoy ducks ..."

 
Myndrænt dæmi 5 um Rauða síld: Algjört ofsóknaræði: „Decoy ducks (gervi-endur) on the lake, scapegoats (blóraböggull) in the paddock (engi), and red herrings on the fishing line. If this is a cover-up, it‘s big ...“. Sniðugt!
 

Skilaverkefni:

  1. Finndu gott dæmi í netheimum þar sem sá sem á að svara rökum gerir það ekki heldur býr til Rauða síld! Enn ætti Donald Trump að hjálpa nokkuð!
  2. Útskýrðu hvaða fyrri rökvilla líkist þessari - Rauðri síld - og hvers vegna.