fuglahræða

Rökvilla 7: Fuglahræða

7.0. FUGLAHRÆÐA

Rökvillan Fuglahræða er nokkuð lík Þröngsýni og Klifun, í því að vera verulega léleg rök. Núna er þó áherslan á nýtt umræðuefni. Viðkomandi sigrar ímyndaðan andstæðing (kallað Straw man eða “fuglahræðu”) með því að innleiða ranglega nýtt umræðuefni. Kynnumst þessari rökvillu nánar.

Rökvillan í Fuglahræða fæst með því að ráðast á aðra skoðun en þá sem sá gagnrýndi hefur, þ.e. að gagnrýna einhvern fyrir skoðun sem hann (t.d. kommúnistar og aðrir eiturlyfjaneytendur!) hefur alls ekki.

Ef þú ræðst á einhvern eingöngu með því að ráðast á ákveðna skoðun sem þú segir að hann hafi, en hann hefur þó alls ekki, þá ert þú að reyna að plata hlustendur til að álykta ranglega um skoðun viðkomandi. Sá getur þá átt í nokkrum vandræðum með svar, því hann vill ræða eitthvað annað, en er þvingaður til að útskýra og þvo af sér ákveðna – oft óaðlaðandi skoðun – sem hann hefur alls ekki (eða sem kemur málinu ekkert við).

Fuglahræða er rökvilla vegna þess að viðkomandi er ekki gagnrýndur fyrir þá skoðun sem hann í raun hefur, heldur fyrir einhverja allt aðra – líklega vafasamari skoðun. Þessi villa er ótrúlega algeng, sérstaklega í stjórnmálaumræðu og umræðu um misrétti. Við erum því miður allt of oft að eigna fólki ákveðnar skoðanir sem það hefur alls ekki. Ef við ráðumst eingöngu á þessar ímynduðu skoðanir þeirra þá erum við sek um rökvilluna Fuglahræða.

 

7.1. SKILGREINING Á RÖKVILLUNNI FUGLAHRÆÐA

 

Formleg skilgreining á rökvillunni 7. Fuglahræða (straw man):

  1. X eignar Y ákveðna skoðun eða afstöðu.
  2. Y hefur ekki þá skoðun eða afstöðu, heldur einhverja allt aðra.
  3. X gagnrýnir Y, ekki fyrir þá skoðun sem hann raunverulega hefur, heldur þá sem X segir hann hafa.

 

7.2. DÆMI UM RÖKVILLUNA FUGLAHRÆÐA

Kanadíska vikublaðið Saturday Night fór á hausinn í október 1974. Lesandi nokkur, N.H., skrifaði í dagblað að þetta væri fínt og hefði jafnvel mátt hafa gerst mun fyrr þar sem hann læsi sjálfur aldrei neitt annað en hið frábæra Reader's Digest (Úrval), bandarískt blað, vel skrifað og með fjölbreytt efni. Annar Kanadamaður svaraði þessu: Við þurfum ekki að taka mark á vanhugsuðum orðum N.H. ... varðandi nokkurt kanadískt efni, þar sem smekkur hans eltir ómeltað rugl frá Reader's Digest.

 

7.3. ÚTSKÝRING Á DÆMI UM RÖKVILLUNA 7. FUGLAHRÆÐA

Hér er rökvillan Fuglahræða greinileg, því í stað þess að meta rök N.H., t.d. varðandi fjölbreytni blaðanna tveggja, þá er okkur sagt að ekki þurfi að taka mark á neinu sem kemur frá Reader's Digest. Fínt, en hvað með Saturday Night blaðið, það gleymdist alveg í umræðunni!

 

7.4. MYNDRÆN DÆMI UM RÖKVILLUNA 7. FUGLAHRÆÐA

 

Myndrænt dæmi 1 um Fuglahræðu: Step one: Assemble ...

 

Myndrænt dæmi 1 um Fuglahræðu: Góð útskýring á Fuglahræðu. SKREF EITT: Settu hann (fuglahræðuna) fyrst saman með afbökun, misskilningi og einföldun og í SKREFI TVÖ getur þú síðan auðveldlega ráðist á hann. SKREF ÞRJÚ: Þú ert búinn að vinna!

 

Myndrænt dæmi 2 um Fuglahræðu: They are flat-earthers!

 

Myndrænt dæmi 2 um Fuglahræðu: Þessir helvítis sköpunarsinnar (þeir sem vilja að sköpunarsaga Biblíunnar sé kennt a.m.k. jafnt á við þróunarkenninguna).
 

Myndrænt dæmi 3 um Fuglahræðu: Straw man Bingo!

 

Myndrænt dæmi 3 um Fuglahræðu: Önnur útgáfa af Fuglahræðu. Þú setur líka upp “Straw Man” með því að búa til auðvelda andstæðinga – t.d. með því að flokka þá alla saman – rétt eins og þeir séu allir með sömu skoðanir. Naysayers (þeir sem afneita e-u, t.d. e-u væntanlegu frumvarpi), gera það vegna þess að ... Eða “Cynics”, þ.e. “þessir neikvæðu” segja að við getum aldrei þetta eða hitt, en ég segi að ...

 

Myndrænt dæmi 4 um Fuglahræðu: Just Another Godless ...

 

Myndrænt dæmi 4 um Fuglahræðu: Þessi er góður. Hann tekur sjálfur af skarið og flokkar sjálfan sig sem ekki bara “Atheist” (trúleysingja), heldur sem “guðlausan, siðlausan, hrokafullan, fordekraðan, djöfladýrkandi, barnamorðingja, sjálfselskan, heiðingja, reiðan, illan, ónátturulegan og frelsis-hatandi TRÚLEYSINGJA”!

 

 

Myndrænt dæmi 5 um Fuglahræðu: Your argument did not ...

 
Myndrænt dæmi 5 um Fuglahræðu: Loks er það “Strawman” sjálfur!

 

Myndrænt dæmi 6 um Fuglahræðu: I accomplished nothing ...

 

Myndrænt dæmi 6 um Fuglahræðu: Sjáið hvernig hann ver sig. Tær snilld!

 

Skilaverkefni:

  1. Finndu eitt dæmi í fjölmiðlunum eða annars staðar um Fuglahræðu, útskýrðu stuttlega hvers vegna dæmi þitt er rökvilla.
  2. Búðu til eitt skýrt dæmi um rökvilluna, ekki nota neitt dæmi hér að ofan eða út tíma hjá okkur, heldur þitt dæmi. Útskýrðu val þitt.