The King's Speech

Tom Hooper. 2010. The King’s Speech (Imdb 8,0*).

Tom Hooper. 2010. The King’s Speech (Imdb 8,0*).

 

The King‘s Speech

 

Ágústa Sól Stefánsdóttir Thors.

Um myndina

Útgáfuár: 2010.

Leikstjóri: Tom Hooper.

Handrit: David Seidler.

Framleiðendur: Iain Canning, Emile Sherman, Gareth Unwin.

Leikarar:

·      Colin Firth – Georg VI Bretakonungur (Bertie).

·      Helena Bonham Carter – Elísabet, eiginkona Georgs.

·      Geoffry Rush – Lionel Logue (talmeinafræðingur).

·      Guy Pearce – Edward VIII Bretakonungur (David).


Kvikmyndadómar: IMDB: 8,0 - Rotten Tomatoes: 94% - Metacritic: 88%.

Tónlist: Alexandre Desplat.

Kvikmyndataka: Danny Cohen.

Klipping: Tariq Anwar.

Lengd: 118 mínútur.

Kostnaður: 15.000.000 $. Tekjur: 427.400.000$.

Verðlaun:

·      Óskarsverðlaun: 4 Óskarsverðlaun og 8 tilnefningar.

·      BAFTA: 7 verðlaun og 8 tilnefningar.

·      Golden Globes: 1 verðlaun og 6 tilnefningar.

Er kvikmyndin byggð á sannsögulegu máli? Já, hún byggir á sögu um Georg VI Bretakonung og hvernig hann komst yfir talörðugleika. Hann stamaði mikið og myndin sýnir hvernig hann lærir, með hjálp Lionel Logue, að nýta ýmsar aðferðir til að stama minna.

Af hverju valdi ég þessa mynd?

Ég valdi þessa mynd því ég hef mikinn áhuga á sögu og sérstaklega því tímabili sem George VI var við völd, þ.e. í kringum seinni heimstyrjöldina. Mér finnst líka myndir og þættir sem tengjast konungsfjölskyldunni og breskri sögu og pólitík almennt áhugaverðar svo þessi kvikmynd hentaði vel. Myndin er mjög góð að mínu mati og virkilega gaman að horfa á hana bæði vegna sögunnar sjálfrar en einnig vegna þess að öll umgjörðin er svo flott. Eins og fram kom að ofan hlaut myndin fjölmörg verðlaun og tilnefningar í öllum mögulegum flokkum sem endurspeglar hversu vönduð hún er.

Georg og frú.

Georg og frú.

Umfjöllun um aðalpersónu: Georg VI (Bertie)

Georg VI fæddist árið 1895 og var yngri sonur Georgs V Bretakonungs og barnabarnabarn Viktoríu Bretadrottningar. Þegar hann fæddist var hann fjórði í erfðaröðinni á eftir afa sínum, föður og eldri bróður, Játvarði VIII (sem er kallaður David í myndinni). Eftir fráfall Georgs V konungs, tók eldri bróðir Georgs VI við völdum en í mjög stuttan tíma, frá janúar 1936 til desember sama ár. Ástæðan fyrir stuttri valdatíð hans var sú að hvorki konungsfjölskyldan né enska biskupakirkjan samþykktu bandaríska, fráskilda kærustu David sem næstu drottningu Bretlands. Þar með varð Georg VI næsti konungur Bretlands og ríkti frá 1936, þar til hann lést 6. febrúar 1952. Í upphafi myndarinnar er Georg þó ekki orðinn konungur, heldur ber hann titilinn hertoginn af York.

Í myndinni er Georg mjög skapmikill og fljótur að reiðast. Hann á það til að öskra skyndilega, t.d. þegar honum líkar ekki eitthvað, þegar hann þreytist í talþjálfun sem hann er í vegna stams eða finnst ekki ganga nógu vel. Hann á hins vegar í góðu sambandi við eiginkonu sína, Elísabetu og þau virðast hamingjusöm saman. Utan við hjónabandið er Georg feiminn, óöruggur og ekki tilbúinn til að deila tilfinningum sínum með öðrum, nema jú kannski þegar hann reiðist. Elísabet gerði allt sem hún gat til að hjálpa honum með stamið og hafði leitað til margra sérfræðinga eftir aðstoð. Georg var við það að gefast upp þegar hún fór með hann til talmeinafræðingsins, Lionel Logue og saman náðu þeir hægt og sígandi góðum árangri.

Lionel og Georg urðu með tímanum góðir vinir. Georg segir Lionel frá því að hann hafi byrjað að stama í kringum fjögurra til fimm ára aldur. Fjölskyldan hans hafi gert grín að honum og gerði í raun enn. Þau höfðu litla þolinmæði fyrir vandanum og sýndu honum lítinn skilning. Georg fékk óhefðbundið uppeldi þar sem lítið var um ástúð og umhyggju. Eins og tíðkaðist í konungsfjölskyldunni á þessum tíma, var hann alinn upp af barnfóstrum og þær voru misgóðar við hann. Stamið var ekki eina vandamálið sem fjölskylda hans var „ósátt“ við. Georg var örvhentur en var neyddur til að læra að nota hægri hendina. Að auki var hann kiðfættur og var látinn nota óþægilegar spelkur til að bæta úr því.

Talmeðferðin í gangi.

Talmeðferðin í gangi.

Geðröskun: Stam

Stam er tjáningarröskun sem einkennist af því að einstaklingur endurtekur eða framlengir hljóð og orð. Þetta truflar eðlilegt flæði máls og gerir þeim erfitt fyrir að eiga í samræðum við aðra (Kristján Guðmundsson, 2014). Til að einstaklingur fái greininguna Stam í DSM-5, þarf röskun á tali að uppfylla eitt eða fleiri af eftirfarandi einkennum:

·      Endurtekning hljóða eða atkvæða. 

·      Lenging hljóða, bæði sérhljóða og samhljóða.

·      Brotin orð (t.d. pásur í miðju orði).

·      Fylltar eða ófylltar pásur í tali.

·      Umorðun til að forðast orð sem valda stami.

·      Orð sögð með of mikilli áherslu.

·      Heil orð endurtekin í setningu.

Að auki þurfa þrír aðrir þættir að vera til staðar: A) Stamið dregur úr náms- og atvinnumöguleikum sem og félagslegum samskiptum, B) stam er meira ef mál-, hreyfi-, eða skynhömlun er einnig til staðar og C) stamið er ekki útskýrt af öðrum ástæðum s.s. taugafræðilegum eða annarri geðröskun.

Í fyrsta atriði myndarinnar er Georg VI að halda ræðu yfir fjölda fólks. Í ræðunni uppfyllir hann a.m.k. þrjú af einkennunum sem DSM-5 tekur fram að þurfi að vera til staðar til að einstaklingur sé með stam. Georg kemur í raun varla upp orði og á í miklum erfiðleikum með að flytja ræðuna. Hann endurtekur hljóð og hluta orða og tekur langar pásur bæði í miðju orði og á milli orða. Þessi einkenni í tali hans koma svo endurtekið fram í gegnum myndina, enda er „barátta“ hans við stamið meginviðfangsefni hennar. Það er því ljóst að Georg uppfyllir greiningarskilmerkin fyrir Stam. Stamið hefur verulega truflandi áhrif á líf hans og veldur honum mikilli vanlíðan. Það fylgir starfi hans að flytja ræður og almennt að tala við fólk, svo að stamið hamlaði honum mikið. Stamið kom fram í flest öllum samskiptum hans. Hins vegar stamaði hann ekki þegar hann söng, öskraði blótsyrði með Lionel eða þegar hann heyrði ekki í sjálfum sér tala. Stamið varð meira því kvíðnari sem hann var og þar af leiðandi verra þegar hann kom fram opinberlega. Streituvaldandi aðstæður höfðu líka neikvæð áhrif, honum fór t.d. aftur fyrst eftir að hann frétti af því að hann ætti að verða næsti konungur Bretlands.

Stamið hefur þá afleiðingu að Georg upplifir mikinn kvíða. Að mínu mati uppfyllir hann flest öll einkenni Félagskvíðaröskunar. Þeir sem þjást af þessari röskun upplifa mikinn kvíða við félagslegar aðstæður, til að mynda í félagslegum samskiptum og þegar þeir þurfa að framkvæma verkefni fyrir framan aðra (Kristján Guðmundsson, 2014). Einstaklingurinn hræðist að gera eitthvað sem getur orðið honum til skammar og forðast félagslegar aðstæður eins og hægt er. Georg sýnir greinilega þessi einkenni. Hann upplifði mikinn kvíða í hvert sinn sem hann þurfti að halda ræðu, tala í útvarp eða koma fram opinberlega. Hann hafði miklar áhyggjur af því að gera sig að fífli fyrir framan almenning og kvíðinn jókst alltaf eftir því sem þessir viðburðir, ræður og samkomur færðust nær. Hann forðaðist samskipti ef hann gat og virtist skammast sín fyrir stamið. Almennt átti hann þó auðveldara með að tala við eiginkonu sína, dætur og aðra sem hann virtist vera öruggur í kringum. Félagskvíðinn sem hann upplifði var að öllum líkindum afleiðing þess að hann stamaði og olli honum enn meiri þjáningu og erfiðleikum. Þetta varð að samspili tveggja raskana sem má segja að hafi að einhverju leyti drifið hvor aðra áfram. Hann var kvíðinn af því að hann stamaði og hann stamaði meira af því hann var kvíðinn.

Er myndin rugluð?

            Í kvikmyndinni uppfyllir Georg klárlega greiningarskilmerki fyrir Stam og að öllum líkindum fyrir Félagskvíða líka, þó svo það sé bein afleiðing af staminu. Það er því ekki beint hægt að segja að það sé eitthvað sem passi illa eða sé óskýrt. Ég hugsa að helstu gallar myndarinnar séu tengdir sögulegu ósamræmi, ef galla mætti kalla. Það er rétt að Georg VI stamaði mikið frá barnæsku og var mjög feiminn og óöruggur með tilheyrandi erfiðleikum við að koma fram. Það er líka rétt að hann hafði leitað allra mögulegra leiða til að laga vandann og var við það að gefast upp þegar hann fann Lionel. En helsta sögulega ósamræmið tengist einmitt Lionel. Í myndinni ná þeir félagar ekki almennilegum árangri fyrr en eftir að Georg tekur við völdum. En sannleikurinn er sá að þeir byrjuðu að vinna saman á þriðja áratug síðustu aldar, áður en hann varð konungur (Logue o.fl., 2010). Það er jú mun áhrifameira að þeir nái svona skjótum árangri á svo krítískum tímapunkti í lífi Georgs, en það er ekki alveg rétt. Það reynir á samband þeirra á ákveðnum tíma í myndinni sem virðist heldur ekki hafa verið rétt, því þeir voru góðir vinir. Ég gæti haldið áfram að telja upp dæmi um svona ósamræmi en læt þetta gott heita. Samkvæmt einhverjum spekingum er myndin þó í heildina sagnfræðilega rétt og helstu frávikin virðast vera til þess gerð að myndin verði áhrifameiri.

 

Heimildir

  1. Kristján Guðmundsson. (2014). DSM-5: Flokkun geðraskana.

  2. Logue, M., Conradi, P. (2010). The King's Speech: How One Man Saved the British Monarchy. Sterling.