Heimild: https://www.youtube.com/watch?v=DBfsgcswlYQ
The Accountant
Aníta Ýr Hrafnsdóttir, Eyjólfur Sverrirsson, María Ýr Leifsdóttir og Tinna Rós Sigurðardóttir.
I. Kynning
Kvikmyndin sem varð fyrir valinu er The Accountant. Hún er ekta spennu / hasarmynd og er 128 mínútur að lengd. Myndin kom út árið 2016 og fjallar um Christian “Chris” Wolff, löggiltan endurskoðanda sem er greindur með Einhverfurófsröskun hjá Harbour Neuroscience ungur að aldri, nánar tiltekið Velvirk einhverfa (e. high functioning autism). Hann vinnur við að sjá um bókhaldið hjá hættulegum glæpasamtökum um allan heim sem vilja fela ólöglega starfsemi sína, eða réttara sagt er hann að kokka bækurnar fyrir þessi samtök. Leikstjóri myndarinnar er Gavin O-Connor en handritið er skrifað af Bill Dubuque árið 2008. Þegar Dubuque heyrði fyrst af hugmyndinni um myndina þá leyst honum ekki nægilega vel á hana en eftir að hafa hugsað um hana í nokkurn tíma þá hugsaði hann: Hvað ef að aðal karakterinn er einhverfur? Hann sagði í viðtali við Los Angeles Times að hann hafi alla tíð haft mikinn áhuga á því hvernig hugurinn virkaði: Hvað gerist í höfðinu á svona manni, hvernig vinnur hann úr upplýsingum og hvernig tjáir hann sig við restina af heiminum, hann vildi búa til ráðgátu innan ráðgátunnar. Aðalleikarar myndarinnar eru Ben Affleck, Anna Kendrick, J. K. Simmons, Jon Bernthal, Cynthia Addai-Robinson, Jeffrey Tambor og John Lithgow.
Myndin er ekki byggð á sannsögulegum atburðum en handritshöfundurinn Dubuque, leikstjórinn O’Connor og aðalleikarinn Affleck, reyndu allir eftir sinni bestu getu að hafa persónuleika sem og andlegt ástand Christian Wolff sem raunverulegast og tókst þeim það með sóma.
The Accountant hefur fengið góða dóma gagnrýnenda en myndin fær 7,3 af 10 í einkunn á IMDb. Rotten Tomatoes gefur myndinni 51% en hún fær 76% hjá áhorfendum. Myndin hefur hlotið fimm tilnefningar og hefur unnið til þriggja verðlaun. Í júní 2017 gaf Warner Bros. út að mögulega yrði gert framhald af myndinni og í febrúar 2020 þá ítrekaði Affleck að hann væri spenntur fyrir því að gera framhaldsmynd sem og möguleikann á því að gera þáttaröð byggða á þessum karakter sem hann lék.
II. Ástæða fyrir vali
Ástæða þess að viðkomandi kvikmynd varð fyrir valinu var meðal annars sú að við töldum þessa mynd vera mjög viðeigandi fyrir þetta tiltekna verkefni þar sem einnig er áhugavert er að skoða hvernig Einhverfur einstaklingur, sem hann Christian Wolff er, kljáist við óreiðu í hinum svokallaða óhefðbundna heimi, þó svo ýkjur á ýmsum sviðum einkennir oft amerískar bíómyndir.
Við erum öll sammála því að einhverfa almennt séð er mjög áhugaverð og birtingarmynd hennar í þessari bíómynd endurspeglar mikið það sem við bjuggumst við út frá því sem við höfum lært í námskeiðinu Klínísk sálfræði. Við vildum fræðast enn meira um Einhverfu og gaf kvikmyndin okkur góða innsýn inn í daglegt líf einhverfs einstaklings. Einnig vildum við horfa á og greina nýlega kvikmynd með góðum leikurum og kom The Accountant þar sterk inn.
III. Almenn umfjöllun um persónuna
Þegar Christian Wolff var yngri var hann greindur með Einhverfurófsröskun, hann var með alvarlega hindrun bæði í félagslegum tjáskiptum og samskiptum. Þrátt fyrir það sýndi hann einstaka sérhæfileika í öðrum hlutum eins og t.d. í stærðfræði og púslum. Ef hann náði ekki að klára verkefni sem hann var að gera þá fann hann fyrir óstjórnlegri vanlíðan sem braust oft á tíðum út í órökrétti hegðun eins og öskrum og lemja frá sér og / eða í hluti. Christian þoldi einnig illa há hljóð, skær ljós, snertingu og horfði sjaldan í augun á fólki. Faðir hans var mjög harður við hann og neitaði að setja hann á heimili eða á stað þar sem fagfólk gæti hjálpað Christian. Faðir hans trúði því að ef hann þoldi illa áreiti eins og skær ljós og há hljóð þá þyrfti hann einfaldlega meira af þeim. Röskun Christians varð of mikið fyrir móður hans, flutti hún út og hafði aldrei samband við feðgana aftur. Faðir hans lét Christian ásamt bróður hans læra bardagaíþróttir þar sem engin miskunn var sýnd og þar með kom hann honum í snertingu við fleiri áreiti eins og sársauka. Þegar Christian var orðinn eldri þá mætti hann ásamt föður sínum í jarðarför móður sinnar þar sem slagsmál brutust út sem endaði með dauða föður hans. Út frá því fór Christian í fangelsi þar sem hann kynnist manni að nafni Francis sem var herbergisfélagi hans. Alla daga næstu 2 árin kenndi Francis honum félagsfærni ásamt öllu sem viðkom peningaþvætti og kom honum í tengingu við þessi hættulegu glæpasamtök sem hann vann svo fyrir síðar. Christian viðhélt þeim æfingum sem faðir hans hafði predikað alla hans æsku. Hann setti reglulega á mjög háa tónlist, blikkandi ljós og nuddaði og barði sköflunginn á sér með trékylfu til að viðhalda skynfæraálaginu. Maturinn hans mátti ekki snertast og áður en hann gerði eitthvað þurfti hann að blása á puttana sína áður. Hann lifir mjög einföldu lífi burtséð frá vinnunni sinni og hefur mikinn áhuga á því að skjóta úr byssu og er hann virkilega fær í því. Hann geymir hjólhýsi með öllum sínum verðmætum í geymsluskúr. Á meðal verðmæta hans eru t.d. verk eftir Jackson Pollock og Renoir málverk ásamt miklu magni af peningum og vopnum. Þó Christian hafi unnið fyrir mjög hættulegt fólk var hann góður maður, hann gaf nánast allan peninginn sem hann þénaði til Harbor Neuroscience sem var einmitt staðurinn sem greindi röskun hans eins og kom fram hér að ofan. Hann hjálpaði einnig lögreglunni sem var á eftir honum að handsama fjöldann af glæpamönnum.
IV. Val okkar á geðröskun persónunnar
Einhverfurófsröskun er ein af þeim röskunum sem ekki er sýndur nægur skilningur af öðrum. Við höfðum flest öll séð þessa mynd fyrir nokkrum árum en þegar við horfðum á myndina aftur við gerð þessa verkefnis, þá horfðum við á hana með allt öðru hugarfari og með talsvert meiri vitneskju um þessa tilteknu geðröskun. Þetta gerði okkur kleift að grípa atriði úr myndinni jafnóðum og tengja við námsefnið sem við hefðum mögulega aldrei gert áður þar sem þekkingin var einfaldlega ekki til staðar.
Einhverfurófsröskun (1.3.1.) í DSM-5 hefur eftirfarandi skilgreiningar einkenni: ,,Alvarleg hindrun í félagslegum tjáskiptum og félagslegum samskiptum’’ og einnig ,,Þröng endurtekin og dæmigerð hegðun, áhugamál og virkni’’ en aðalpersóna kvikmyndarinnar hann Christian fellur undir 1.3.1. Einhverfurófsröskun samkvæmt DSM-5.
Mikil vöntun er hjá honum á félags- og tilfinningalegum samskiptum. Hún kemur fram í afbrigðilegri félagslegri nálgun og skorti á eðlilegu fram og tilbaka eðli sambands. Mikill skortur er hjá honum að hefja samtöl eða að svara í félagslegum samskiptum. Þetta má sjá strax í byrjun myndarinnar þar sem hann á í samskiptum við kúnna hjá sér og getur hann því varla horft í augun á þeim, heldur horfir hann oftast niður. Christian á það einnig til að svara öðrum með þeim hætti að samskiptin eru sem allra styðst. Hann á erfitt með augnsamband og sýnir skilningsleysi á andlitstjáningu og ómálrænni tjáningu annara. Christian var vinafár og með vöntun á að þróa, viðhalda og að skilja sambönd. Hann virtist einungis treysta einni manneskju, sem reyndist vera stelpa sem hann hafði kynnst á stofnuninni sem greindi hann þegar hann var ungur. Hann var með mikla rútínu og fann fyrir mikilli vanlíðan ef hann ekki fékk að klára hluti sem hann hafði byrjað á. Christian var ofvirkur gagnvart skynáreitum, átti mjög erfitt með hávaða, skær ljós og snertingu á sínum yngri árum. Þó er vert að nefna að flest þau einkenni sem nefnd voru hér að ofan voru alvarlegri þegar hann var yngri og með stanslausu skynáreiti (e. sensory overload) náði hann að minnka nánast öll þau einkenni sem einkenna Einhverfurófsröskun. Hann var mjög fastheldinn með ákveðna hluti eins og t.a.m. þegar hann undirbýr sig fyrir það að borða mat þá sýnir hann endurtekna hegðun trekk í trekk undir sömu kringumstæðum. Hann blæs á puttana og raðar matnum svo á sérkennilegan hátt á diskinum áður en hann byrjar að borða ásamt því að borðbúnaðurinn þarf að vera uppsettur á ákveðinn hátt, hvort sem hann sé ofan í skúffu eða uppi á borðinu. Undir öðrum kringumstæðum má einnig heyra hann þylja upp sömu vísuna aftur og aftur, nákvæmlega eins í hvert skipti og virðist þessi vísa róa hann niður þegar hann er undir stressi eða á mörkunum að missa stjórn. Þessi síendurtekna upptalning á vísu er í myndinni sjálfri talin vera vegna áfalls úr æsku hans sem má vel vera þar sem æska hans var mjög óhefðbundin. Hluti af hans rútínu má sjá m.a. í því hvernig hann ýtir alltaf á bílskúrshurðaopnarann á sama stað í götunni til þess að hann nái að keyra bílinn beint inn án þess að bíða þegar hann kemur heim til sín. Eitt skipti eftir að hafa ekki náð að klára hlut sem hann hafði byrjað á stressast hann upp og brunar heim til sín. Hans endurtekna hegðun að opna hurðina á réttum tíma klikkar sem veldur því að hann þarf að stoppa og bíða ásamt því að hann leggur ekki nægilega innarlega í bílskúrnum og því lokast hurðin á bílinn hans. Í framhaldi verða því snjóbolta áhrif sem valda því að fleiri hlutir fara úrskeiðis hjá honum.
V. Ósvaraðar spurningar
Myndin var að mestu leyti mjög vönduð, hún sýnir og segir vel frá aðalpersónunni. Að okkar mati er myndin góð dæmigerð spennumynd sem veitir afþreyingu en á sama tíma innsýn inn í líf einstaklings með Einhverfu. Strax í upphafi myndarinnar má sjá viðmót föður hans gagnvart því hversu ’’öðruvísi’’ sonur sinn er og sjáum við þetta viðmót því miður tíðkast víða í heiminum í dag, hvort sem að það er gagnvart einstaklingum með Einhverfu eða ýmist aðra geðröskun.
Maður veltir því fyrir sér hvernig Einhverfa og siðblinda fara saman, því í myndinni virðist Christian svívirðilega drepa verulega marga aðila án nokkurar tilhugsunar. Þetta gæti e.t.v. tengst hans svona ’’fixation’’ á hlutum og það að hafa einungis einn tilgang eins og t.d. það að bjarga stelpunni (Anna Kendrick) og hann þarf því að drepa þá sem standa í vegi fyrir honum.
Heimildir:
Bustle. Sótt 1.apríl 2021 af https://www.bustle.com/articles/188011-the-accountant-isnt-a-true-story-but-ben-afflecks-thriller-shines-a-light-on-autism
IMDb. The Accountant. Sótt 2.apríl 2021 af https://www.imdb.com/title/tt2140479/
Kristján Guðmundsson. (2014). DSM-5: Flokkun geðraskana.
Wikipedia. Sótt 1.apríl 2021 af https://en.wikipedia.org/wiki/The_Accountant_(2016_film)