The Act
Elva Björk Pálsdóttir, Haggai Birnir Moshesson, Sandra Sif Gunnarsdóttir og Sigurbirna Hafliðadóttir.
I. kvikmyndin sjálf
Þættirnir sem fjallað verður um í þessu verkefni heita The Act og eru alls 8 þættir. Handrit þáttanna er skrifað af Nick Antosca og Michelle Dean, það var svo Laure de Clermont-Tonnerre sem leikstýrði þáttunum. Helstu leikarar þáttanna eru Patricia Arquette (Dee Dee Blanchard), Joey King (Gypsy Rose Blanchard), AnnaSophia Robb (Lacey, vinkona Gypsy), Chloë Sevigny (Mel, móðir Lacey / nágrannakona mæðgnanna) og Calum Worthy (Nick Godejohn).
Þættirnir byggja á sannsögulegum atburðum. Þessir þættir fjalla um mæðgurnar, Dee Dee Blanchard og Gypsy Rose Blanchard. Mæðgurnar búa í fallegu húsi í Missouri en þær bjuggu áður í New Orleans en eftir fellibylinn Katrina sem reið þar yfir árið 2005 þá neyddust þær til þess að flytja til Missouri. Þættirnir fjalla um hörkulega baráttu Gypsyar við hina ýmsu sjúkdóma, eins og hvítblæði, vöðvarýrnun, flogaveiki, öndunarfærasjúkdóma, einnig sem hún átti að hafa verið með sjónskerðingu, heyrnarskerðingu, sykur bráðaofnæmi og þroskaskerðingu. En ekki er alltaf allt sem sýnist, því einstaklingurinn í þáttunum sem glímir við geðröskun eða önnur vandamál er ekki Gypsy, heldur móðir hennar Dee Dee, en hún er greind með Uppgerðarröskun á öðrum, betur þekkt sem Munchausen by proxy. Þessi geðröskun í stuttu máli er röskun sem felur það í sér að einstaklingur gerir öðrum upp veikindi sem ekki eru til staðar. Gypsy glímdi því aldrei við neina af þessum sjúkdómum sem eru taldir hér upp að ofan í raun og veru, heldur eru þeir allir hugarburður móður hennar. Í þáttunum sjáum við hvernig Gypsy smám saman kemst að því að hún er í raun og veru ekki veik, heldur séu veikindi hennar allt uppgerð af móður hennar. Gypsy vill vera eins og hver önnur stelpa, hana dreymir um að eiga kærasta og vinkonur og að geta málað sig. Gypsy nýtir næturnar til þess að standa upp úr hjólastólnum sem móðir hennar lætur hana nota og teygja aðeins úr sér. Hún stelst til þess að fá sér mat með sykri, þrátt fyrir að vera með matar sondu (e. feeding tube) og meint sykur ofnæmi, hún stelst einnig í tölvu móður sinnar þar sem hún kynnist fólki, þar á meðal Nick Godejohn. Stuttu eftir fyrstu kynni þeirra á netinu hefja Gypsy og Nick ástarsamband yfir netið. Nick var ekki allur þar sem hann er séður en hann sagðist glíma við Hugrofssjálfsmyndarröskun. Eftir tveggja ára samband þá er Gypsy farið að líða mjög illa heima við og er móðir hennar farin að beita hana miklu andlegu og líkamlegu ofbeldi. Gypsy leitar hjálpar til Nicks og biður hún um að fá að tala við Viktor, ofbeldisfulla persónuleika Nicks og biður hann um að drepa Dee Dee fyrir sig. Gypsy sér enga aðra leið til þess að komast undan móður sinni og hinn örlagaríka dag, 10. júní 2015, þá kemur Nick heim til Gypsyar og drepur Dee Dee. Fjórum dögum síðar finnst líkið og slóðin er fljótlega rakin til Gypsyar og Nicks. Gypsy var dæmd í 10 ára fangelsi fyrir annars stigs morð á meðan Nick var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir fyrsta stigs morð. Aðstæðurnar og ofbeldið sem Gypsy bjó við er ástæðan fyrir því að hún hlaut ekki lífstíðar eða dauðadóm, verknaðurinn var talinn vera sjálfsbjörg.
Þættirnir og sagan á bak við þættina hafa notið gífurlegra vinsælda á meðal almennings síðan þeir komu út árið 2019. Sagan á bak við þættina er mjög dramatísk, sorgleg og óhugnarleg. Sagan sem þættirnir byggja á vöktu mikinn óhug á meðal Bandaríkjamanna og íbúa út um allan heim. Gypsy og móðir hennar Dee Dee voru vel þekktar fyrir hörkulega baráttu Gypsyar við hina ýmsu sjúkdóma og kom það því mörgum á óvart hvað gekk á bak við luktar dyr. Þættirnir hafa fengið góðar viðtökur og hafa þeir fengið einkunnina 8/10 á IMDb.
II. ástæða fyrir vali efnis
Ein af ástæðunum fyrir því að við völdum þessa þætti er vegna þess hversu þekkt mál Gypsyar og Dee Deear er, þetta er eitt þekktasta málið þegar kemur að Uppgerðarröskun á öðrum og vita flestir, þó ekki allir eitthvað um þetta mál hvort sem það er eitthvað smá eða vita nánast alla söguna. Þættirnir eru líka til tölulega nýir og höfðu ekki allir í hópnum séð þessa þætti, svo var þetta mjög spennandi viðfangsefni. Okkur langaði einnig að fjalla um þessa röskun þar sem hún er ekki mjög algeng (algengi u.þ.b. 0,5%), samanborið við t.d. Þunglyndi (algengi u.þ.b. 20%), sem við þekkjum betur. Við ákváðum því að grípa þetta tækifæri til að kynna okkur betur röskun sem við hefðum mögulega ekki annars lært um. Einnig fannst okkur mjög áhugavert að taka fyrir geðröskun sem beinlínis bitnar á öðrum en þeim sem eru með geðröskunina. Flestar ef ekki allar geðraskanir hafa auðvitað áhrif á aðra sem eru í kringum þann sem er með geðröskunina, en Uppgerðarröskun á öðrum beinlínis felur það í sér að röskunin bitni á öðrum, ef röskunin gerði það ekki þá myndi fólk ekki ná greiningarviðmiðum hennar. Það er svo ótrúlegt að hugsa til þess að fólk hafi það í sér að geta gert öðrum, oft nákomnum sér, þetta og ganga svona ótrúlega langt, en mál Gypsyar og Dee Deear var mjög einkennilegt. Jafnvel er talið að ef Gypsy hafi ekki fengið Nick til þess að drepa mömmu sína þá hefði Dee Dee jafnvel gengið svo langt að drepa Gypsy á endanum. Annað sem okkur fannst áhugavert við þættina er að þeir hafa sætt gagnrýni fyrir að dramatísera sögu og að sumir atburðir séu ekki eins og þeir voru í raunveruleikanum. Gypsy hefur sjálf komið fram með gagnrýni á þættina aðallega varðandi að þeir notuðu sögu hennar og raunverulegt nafn án þess að fá tilsett leyfi frá henni sjálfri og fjölskylda Dee Deear hefur farið í mál við framleiðendur “The Act.” Gypsy hefur komið fram í viðtölum m.a. hjá Dr. Phil og nokkrar heimildarmyndir gerðar um þessa erfiðu en áhugaverðu sögu; 2017 gerði HBO heimildarmyndina “Mommy Dead and Dearest;” 2018 var gerð heimildarmynd “Gypsys Revenge.”
III. Almenn umfjöllun um persónu
Dee Dee Blanchard var áður gift Rod Blanchard, þau voru ekki lengi gift og skildu þau snemma árið 1991, stuttu áður en dóttir þeirra Gypsy Rose Blanchard fæddist 27. júlí 1991. Eftir skilnaðinn þá hitti Rod dóttur sína ekki mikið, Dee Dee lokaði á hann eins mikið og mögulegt var og hófst samband þeirra feðgina í raun ekki fyrr en Gypsy var komin í fangelsi.
Dee Dee og Gypsy voru mjög einangraðar og var það litla samband sem þær áttu við fjölskyldu sína furðulegt. Til að mynda var samband Dee Dee við móður sína mjög sérstakt en í þáttunum sést að móðir Dee Deear virtist ekki hafa mikið álit á dóttur sinni og treysti henni ekki beint til að sjá um Gypsy. Það er þó ekki ljóst hvort þetta hafi verið vegna þess hvernig Dee Dee hafði látið áður eða hvort þetta vantraust hafi kannski valdið einhverjum af einkennum Dee Dee-ar.
Í heimildarmyndinni Gypsys Revenge sem er um þessa atburði er rætt við fjölskyldumeðlimi Dee Dee og Gypsy sjálfa. Þar lýsa þau hvernig Dee Dee útilokaði Gypsy frá öllum fjölskyldu meðlimum sínum, fann nýja lækna ef þeir neituðu Gypsy um meðferð og einnig hvernig Dee Dee var ómenntuð og án starfsframa en hún hafði þó sinnt starfi sem aðstoðarkona hjúkku. Þau lýsa því einnig hvernig hún átti sér fyrri sögu af fjársvikum sem gæti hafa ýtt þessari hegðun af stað. Meðal þess sem ættingjar Dee Deear segja um hana er að hún hafi átt það til að stela frá fjölskyldu sinni og jafnvel ollið dauða móður sinnar með því að neita henni mat. Þetta kom einnig fram í þáttunum þar sem hún bæði stelur hálsmeni fyrir dóttur sína og hunsar dóttur sína þega hún kallar á hjálp úr öðru herbergi.
Flestir lýstu Dee Dee sem mjög ljúfri og góðri móður og flestir dáðust af henni fyrir að helga lífi sínu umönnun dóttur sinnar Gypsy. Eftir að Dee Dee var myrt hefur pabbi Gypsyar sagt að hann hafi ekki á nokkurn hátt séð í gegnum hegðun hennar, þó hún hafi verið furðuleg á köflum og dáðst af elju hennar og óhikað borgað henni áfram meðlag jafnvel þó hann þurfti ekki lengur að greiða. Þetta sýnir hvernig Dee Dee tókst að slá ryki í augun á öllum í kringum sig.
Þegar kom að Gypsy þá leit samband þeirra mæðgna út fyrir að vera fullkomið. Fólk trúði því að Dee Dee væri hin fullkomna móðir og ekkert gæti stöðvað þær mæðgur í baráttunni við sjúkdóma Gypsyar. Dee Dee var góður leikari, því á bak við luktar dyr þá var Dee Dee ekki sú móðir sem hún þóttist vera. Á yngri árum Gypsyar voru þær bestu vinkonur og allt lék í lyndi, en þegar Gypsy eldist þá fór hún að vilja að vera meira sjálfstæð og eiga venjulegt líf, þá stirnaði í sambandinu og Dee Dee fór að verða strangari og ofbeldisfyllri í garð Gypsyar.
IV. Val ykkar á geðröskun
Við greindum Dee Dee með Uppgerðarröskun á öðrum (e. Munchausen by proxy) vegna þess, í fyrsta lagi áður en við horfðum á þættina þá vissum við að Dee Dee var greind með Uppgerðarröskun á öðrum, enda eins og fram hefur komið áður þá er mál þeirra mæðgna, Gypsy og Dee Dee sannsögulegt og mjög þekkt, í öðru lagi þá voru einkenni röskunarinnar mjög skýr hjá Dee Dee. En til þess að greinast með Uppgerðarröskun á öðrum þá þarf að ná eftirfarandi greiningarviðmiðum: A. Fölsun á líkamlegum eða sálfræðilegum vísbendum eða einkennum eða framkallaður skaði eða sjúkdómur, hjá öðrum, í tengslum við ætluð svik. B. Einstaklingurinn lætur sem að einhver annar (fórnarlambið) sé veikt, hamlað eða slasað. C. Undirförla hegðunin er augljós jafnvel þótt engar ytri styrkingar séu mögulegar. D. Hegðunin er ekki betur útskýrð með annarri geðröskun, eins og hugvilluröskun eða annarri geðrofsröskun. Ákvarða þarf hvort um eitt tímabil eða endurtekin tímabil sé að ræða, það er að segja að uppgerð á sjúkdómi og/eða skaði framkallaður 2 sinnum eða oftar.
Dee Dee sýndi mjög skýr einkenni Uppgerðarröskunar. Hún neyddi dóttur sína Gypsy til þess að vera í hjólastól þrátt fyrir að geta gengið. Hún rakaði allt hárið af dóttur sinni og vildi meina að þess þyrfti því hárið myndi hvort eð er detta af vegna hvítblæðisins sem Gypsy átti að hafa verið með. Gypsy var líka neydd til þess að notast við matar sondu, þrátt fyrir að þurfa þess ekki. Gypsy var einnig látin sofa með öndunargrímu á nóttunni. Dee Dee vakti mikla athygli á veikindum dóttur sinnar, fólk fann rosalega til með þessari einstæðu móður og sendi Dee Dee og Gypsy fullt af peningum til þess að ná höndum meira saman, Dee Dee notaði dóttur sína því sem eins konar peningavél. Dee Dee sótti líka til að mynda um í allskonar keppnum fyrir Gypsy, t.d. Barn ársins 2009, sem Gypsy vann og fékk hellings pening fyrr. Þó er stærsti sigur Dee Deear á svikum með veikindum dóttur sinnar líklega húsið þeirra í Missouri, en það var sérstaklega byggt fyrir þær vegna veikinda hennar Gypsy.
Dee Dee laug bæði að læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki um veikindi dóttur sinnar. Hún gekk svo langt að vera með fölsk læknisvottorð eða skýrslur og neitaði að sýna sjúkrasögu hennar Gypsy þegar hún var spurð um hana. Dee Dee passaði alltaf að vera með allar greiningar á hreinu og hafði mikla þekkingu á því hvaða lyf dóttir hennar þurfti. Í þáttunum falsaði Dee Dee jafnvel lyfseðla og til þess að leysa út sterk lyf fyrir Gypsy. Lyfjaskápurinn á heimilinu var stútfullur af allskonar lyfjum sem Dee Dee dældi í dóttur sína í gegnum matar sonduna. En Gypsy hefur greint frá því í viðtölum síðarmeir að hún hafi í raun aldrei vitað hvaða lyfjum móðir sín dældi í sig. Dee Dee fór ótal ferðir á spítalann eða til lækna á ári með Gypsy af nánast engri ástæðu. Dee Dee laug ekki aðeins um greiningar dóttur sinnar, hún laug líka um aldur dóttur sinnar, en hún komst upp með það þar sem hún sagði að fæðingarvottorð dóttur hennar hafði glatast í fellibylnum Katrina, Dee Dee vildi alltaf meina að dóttir hennar væri fædd árið 1995 þrátt fyrir að hún hafi fæðst árið 1991. Hún bannaði Gypsy að tala þegar þær voru í læknisheimsóknum og þannig gat hún látið læknana halda að hún væri bæði greindarskert og yngri en hún var. Dee Dee laug líka að félagsráðgjafa sem kom heim til þeirra mæðgna eftir að tilkynnt hefur verið um að eitthvað væri ekki í lagi á heimilinu, Dee Dee dældi þá svefnlyfjum í Gypsy til þess að gera hana sljóa og þá leit hún meira út fyrir að vera meira fötluð en raun ber vitni um. Þegar Gypsy varð svo 18 ára (þegar hún var í raun 22 ára), þá barðist Dee Dee mjög mikið fyrir því að fá forræði yfir dóttur sinni aftur, það gekk mjög brösulega en á endanum fékk hún pappíra í hendurnar sem hún neyddi Gypsy til þess að skrifa undir, sem sögðu að Dee Dee væri helsti umönnunaraðili Gypsy-ar og Gypsy væri ófær um að hugsa um sig sjálf og tæki móðir hennar því helstu ákvarðanir fyrir hönd dóttur sinnar.
Dee Dee laug ekki bara að læknum, heilbrigðisstarfsfólki og öðru fólki, hún laug líka að Gypsy. Hún sagði Gypsy að hún væri mikið veik og gæti ekki gengið og þegar hún gengi gæti ástand hennar, sem Dee Dee bjó til, versnað. Hún laug líka að Gypsy að hún væri með ofnæmi fyrir sykri, að hún væri með hvítblæði, að hún væri þroskaskert, heyrnarskert og sjónskert og margt fleira. Nokkrum árum áður en Dee Dee var drepin var Gypsy farin að sjá að hún væri ekki svona veik eins og mamma hennar vildi meina og þegar hún hegðaði sér ekki eins og móðir hennar vildi þá var hún beitt ofbeldi, bundin við rúmið sitt eða jafnvel lokuð af inni í herbergi klukkutímum saman án þess að fá mat. Þannig gat Dee Dee haldið tangarhaldi á Gypsy og haldið áfram að stýra henni til að ná áfram að nýta ,,ástand” hennar til að fá peninga. Þegar Gypsy var farin að átta sig á lygum móður sinnar fór hún að stelast til að eiga samskipti við aðra, sér í lagi kærastann sem hjálpaði henni að sjá raunveruleikann í öðru ljósi.
Eftir þessi umfjöllum má þá vera ljóst að Dee Dee sýndi skýr einkenni fyrir öll þau einkenni sem þarf til að greiningarviðmið uppfyllist fyrir röskuninni, en bæði gerði hún upp veikindi hjá dóttur sinni og framkallaði hjá henni einkenni með lyfjagjöf, í þeim tilgangi að fá athygli, vorkunn og peninga. Eftir á að hyggja eru einkenni ljós öllum og ekki var vitað til þess að Dee Dee hafði neina aðra röskun en þessa. Dee Dee sýndi einkenni, oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, þessi einkenni viðgengust í mörg ár.
V. hvaða spurningum er ósvarað?
Spurningum sem þættirnir svöruðu ekki og hefur í raun aldrei verið svarað eru spurningar eins og hvort Dee Dee hafi aldrei fengið neina hjálp og hvort hún hafi aldrei leitað neinnar hjálpar. Orsakir geðröskunar hennar Dee Dee voru aldrei ljósar. Einnig hvers vegna enginn í nær umhverfinu tók eftir að Gypsy var ekki svona veik, til dæmis pabbi hennar og stjúpmamma eða aðrir fjölskyldumeðlimir. Auk þess veltir maður fyrir sér hvort Dee Dee hafði áttað sig sjálf á því hversu veik hún væri og hvort hún hafi í raun elskað Gypsy eða bara séð hana sem peningavél fyrir sig. Það er einnig óvíst hvaða lærdóm má draga af þessu máli, hvað varðar að grípa fyrr inn í slíka hegðun hjá foreldri, það er líklega enn erfiðara í heilbrigðiskerfi líkt og er í Bandaríkjunum en hér á Íslandi. Eitt mál á Íslandi er eftirminnilegt, þar sem bresk barnaverndaryfirvöld gripu inn í og töldu mögulega að íslensk móðir langveikrar stúlku væri með þessa geðröskun, sem svo reynist vera rangt. Þessi móðir fór mikið í fjölmiðla hér heima þegar hún var að berjast fyrir sjúkdómsgreiningu fyrir dóttur sína og leitaði á endanum á náðir breskra lækna, en þar þótti hún hafa of mikla læknisfræðilega þekkingu og hringdi það því viðvörunarbjöllum þarlendra lækna. Annað sem má spyrja sig eftir að horft á þættina er hvers vegna Gypsy stóð ekki bara upp og fór úr aðstæðunum þegar hún var farin að átta sig á þessu og sagði frá lygunum og þannig hefði Dee Dee mögulega endað í fangelsi en Gypsy orðið frjáls. Áralöng kúgun Gypsyar hefur þó líklega hindrað hana í að sjá það sem möguleika, enda hafði móðir hennar stýrt hennar lífi fram til þessa.
Heimildir:
Gypsy Rose Blanchard Prison Interview Dr. Phil - Video (historyvshollywood.com)
Gypsys Revenge (2018) Full Documentary - YouTube (Áhugavert að skoða þegar við eigum að skrifa um geðröskunina hjá mömmu hennar og skrifa um hana sem persónu)
Gypsy Rose Part 3: Gypsy Blanchard on what happened the night mom was stabbed to death - YouTube
https://www.google.com/amp/s/www.refinery29.com/amp/en-us/2019/03/227898/was-gypsy-rose-sick-health-problems (listi yfir sjúkdómanna sem hun átti að hafa verið með)
https://www.youtube.com/watch?v=LD8zn4KF95Q heimildarmynd frá HBO sem kallast Mommy Dead and Dearest 2017