Trailer: https://www.youtube.com/watch?v=auVZKcxV7XQ
Alda Marín Ómarsdóttir, Birta Sóley Árnadóttir, Freyja Mist Ólafsdóttir Clausen og Ástrós Sigurjónsdóttir.
I. Kynning
Kvikmyndin sem við völdum var Swallow og er henni lýst sem sálfræðitrylli. Hún fjallar um unga konu sem er tilfinningalega kæfð í hjónabandi sínu og heimilislífi og fær hvata til að neyta hættulegra hluta. Myndin var frumsýnd á Tribeca Film Festival árið 2019 en kom út ári síðar í Frakklandi og Bandaríkjunum. Henni var leikstýrt af Carlo Mirabella-Davis en hann skrifaði einnig handritið. Haley Bennett fer með aðalhlutverkið og mótleikarar eru Austin Stowell, Elizabeth Marvel, David Rasche, og Denis O'Hare. Myndin kom út í Bandaríkjunum við upphaf COVID-19 og voru box-office tekjur hennar 276.365$. Hún hlaut 6,5 á imdb og 8,7 á Rotten Tomatoes.
Í byrjun myndarinnar kynnumst við Hunter sem er nýgift inn í ríka fjölskyldu. Við fáum innsýn í líf hennar sem húsmóðir og eiginkona sem virðist líf hennar einmanalegt. Hún eyðir tíma sínum í að þrífa húsið og elda mat fyrir eiginmann sinn, Richie, sem sýnir henni litla ást og athygli. Hunter kemst fljótlega að því að hún er ólétt (07:28) og deilir Richie fréttunum með foreldrum sínum. Hjónin fara með foreldrum Richie út að borða og við sjáum upphaf geðröskunarinnar þegar Hunter fær sterka löngun í að borða klaka (09:57). Daginn eftir kyngir Hunter glerkúlu (e. marble) en það þróast hratt yfir í hættulegri hluti eins og teiknibólu og batterí. Ýmsir óvenjulegir hlutir sjást í ómskoðun hennar og er hún send í aðgerð til að fjarlægja þá (34:24). Hunter er í kjölfarið greind með fæðuröskunina Pica. Tengdaforeldrar hennar senda hana í viðtalsmeðferðir hjá sérfræðingi og kom ýmislegt um fortíð hennar í ljós eins og það að hún hafi verið getin í kjölfar nauðgunar móður sinnar (52:20). Luay, fjölskylduvinur Richie, er ráðinn til þess að fylgjast með Hunter á meðan hún er ein heima. Einn daginn finnur hann hana á gólfinu eftir að hafa gleypt lítið skrúfjárn og hringir á neyðarlínuna (1:03:13). Richie og foreldrar hans vilja senda Hunter á geðspítala næstu sjö mánuðina, en Luay hjálpar Hunter að flýja (1:08:10). Hunter hringir í Richie og útskýrir fyrir honum að hún hafi gifst honum og orðið ólétt of snemma í sambandinu einungis til að þóknast honum (1:11:00). Þegar hún neitar að koma til hans, öskrar hann á hana og talar niðurlægjandi til hennar. Í kjölfarið brýtur Hunter símann sinn og borðar mold á meðan hún horfir á sjónvarpið. Daginn eftir heimsækir hún blóðföður sinn sem lýsir skömm sinni yfir nauðguninni. Hún spyr hann hvort hann skammist sín fyrir hana og hvort hún sé eins og hann, og hann neitar því (1:26:00). Til að byrja lifa lífinu fyrir sjálfa sig fer hún til læknis sem ávísar henni lyfjum sem koma af stað þungunarrofi og missir hún fóstrið á almenningsklósetti í verslunarmiðstöð.
Heimild: https://www.simbasible.com/wp-content/uploads/2020/08/1-2.gif
II. Ástæða fyrir val okkar á myndinni
Þegar við áttum að velja geðröskun til að taka fyrir vildum við velja röskun sem fáir vissu um og á sama tíma fræðast sjálfar um hana. Við byrjuðum á því að fara í gegnum DSM-5 bókina til að finna röskun sem við höfðum litla vitneskju um og rákumst þá á fæðuröskunina Pica. Tíðni hennar ekki vituð sem vakti áhuga okkar. Við horfðum á trailerinn og okkar fannst myndin gefa góða sýn á röskunina. Okkur fannst Pica geðröskunin mjög áhugaverð og einstök vegna þess að hún er ekki þessi týpíska geðröskun sem að flestir þekkja eða vita jafnvel um. Okkur finnst þurfa meiri vitundarvakningu um raskanir sem að fólk þekkir ekki og Pica er einmitt ein af þeim. Hún getur verið og er almennt mjög hættuleg því að einstaklingar eru oft að innbyrða t.d. hættulega, oddhvassa og skaðlega hluti sem geta haft enn frekari áhrif þegar að einstaklingur er þungaður / óléttur. Aðalpersónan var ólétt í myndinni og það vakti m.a. áhuga okkar í ljósi þess að hún var að innbyrða hættulega hluti þrátt fyrir það. Okkur langaði til að skilja hvað felst í því að hafa þessa röskun og hvernig hún hefur áhrif á daglegt líf einstaklingsins sem þjáist af henni. Auk þess vildum við komast að því hvaða áhrif þetta hefur á líf aðstandenda og hverjar mögulegar ástæður geta verið fyrir því að einstaklingur þrói röskunina með sér.
III. Almenn umfjöllun um persónu
Hunter er ung kona sem kemur úr fátækri fjölskyldu. Hún giftist ungum manni að nafni Richie Conrad. Hann kemur úr hátt settri og vel efnaðri fjölskyldu og í byrjun myndarinnar tekur hann við stjórnunarstarfi í fyrirtæki föður síns. Í myndinni er að okkar mati afar áberandi hvernig Hunter setur sig í ákveðið hlutverk og felur sinn eigin persónuleika og skoðanir til þess að fylgja fyrir settum reglum og þóknast samfélaginu, makanum og tengdaforeldrunum. Hún er afar óörugg og setur þarfir annarra fram fyrir sínar eigin og það skín af henni vanlíðan. Hunter upplifir litla stjórn á eigin lífi. Eitt atriði í myndinni lýsir aðstæðum hennar vel, þegar Hunter er búin að gera sig fína og búin að útbúa mat fyrir manninn sinn sem kemur síðan heim (5:23). Þau borða saman kvöldmat en Riche er afar fjarlægur og tekur illa undir tilraunir hennar að samræðum. Þegar Hunter kemst að því að hún sé ólétt (7:28) sýnist hún óviss um tilfinningar sínar um að eignast barn. Hún virðist bæði ánægð með að geta glatt fólkið í kringum sig en á sama tíma hrædd og ekki viss hvort hún vilji þetta sjálf. Hunter fær ekki tækifæri til þess að segja sínar skoðanir eða hvernig henni líður. Það fyrsta sem eiginmaður hennar gerir er að hringja í foreldra sína og segja þeim frá fréttunum og notar orðin ,,við erum ólétt’’og verður Hunter fyrir þrýsting frá þeim varðandi hana og barnið.
Einkennilegt samband Hunter við eiginmann sinn og tengdaforeldra er áberandi í senu þar sem þau fara saman út að borða. Þau taka henni sem sjálfsögðum hlut og hlusta lítið á það sem hún segir eða sína henni áhuga. Bæði eiginmaður Hunter og tengdaforeldrar gefa til kynna að hún sé lítils virði án þeirra og hún eigi að vera þakklát fyrir hvað þau gefa henni mikið. Hún gerir nokkrar tilraunir til þess að taka þátt í samræðum án mikils árangurs (9:39). Eftir að hafa gefist upp á að taka þátt byrjar hún að velta vatnsglasinu sínu fyrir sér og fyllist gleði og áhuga. Í glasinu voru klakar og löngun hennar í að borða þá eykst þar til hún að borðar þá með miklum látum (10:30). Þetta er í fyrsta sinn í myndinni þar sem gefið er í skyn að hún hafi tilhneigingu til að setja upp í sig eitthvað annað en mat.
Í bók sem Hunter fékk í gjöf frá tengdamóður sinni stóð að maður ætti að gera nýjan hlut á hverjum degi (10:35). Fyrir Hunter var þetta hvatning að kyngja óætum hlutum og í kjölfarið kyngir hún glerkúlu (14:00) sem var fyrsta tilraun Hunter til að kyngja hlut sem ekki var matur eftir að hún borðaði klaka. Þetta gaf henni tilfinningu um stjórn í lífi sínu og var hún afar stolt af sjálfri sér. Í kjölfarið borðar hún fleiri hluti án vitneskju annarra, eins og teiknibólu (25:10) og batterí (32:00) og safnar hún hlutunum sem komast í gegnum meltingarkerfið hennar á glerbakka eins og einskonar minjagripi (33:40). Í viðtalstímum fyrir geðræn vandamál Hunter kemur í ljós að móður hennar var nauðgað og hún getin í kjölfarið. Þetta hafði augljóslega mikil áhrif á Hunter og hún hafði ekki unnið úr tilfinningum sínum varðandi þetta og gerði lítið úr upplifun sinni. Þegar Hunter flýr aðstæður sínar (1:08:20) fær hún í fyrsta sinn í myndinni kraft og tækifæri til þess að taka málin í sínar eigin hendur. Það virðist sem Hunter hafi tekist á við rót vandans: að hún var í óheilbrigðum aðstæðum og var að lifa fyrir aðra en sjálfan sig. Í stað þess að reyna finna fyrir tímabundinni stjórn með því að kyngja óætum hlutum ákveður hún að hitta blóð föður sinn. Hún fær hann til að segja það sem hún þurfti alltaf að heyra, að hún væri ekki eins og hann og að hún hefði ekki gert neitt rangt. Það hjálpaði Hunter sem fór í kjölfarið til læknis og í þungunarrof. Endir myndarinnar sýnir hana taka stjórnina til baka og lifa fyrir sjálfan sig þar sem hún var bara eignast barn til að þóknast eiginmanni sínum. Þegar eiginmaður hennar hótar henni um að hún sé einskis virði og hann muni leita að henni brýtur hún símann sinn og heldur áfram með lífið. Hún hættir að láta svona fólk stjórna sér.
IV. Val á geðröskun persónunnar
Ástæða þess að við teljum Hunter vera með fæðuröskunina Pica er vegna fjölda sena í myndinni sem sýna hana borða óæta hluti. Það eru ekki aðrar raskanir sem fela slíkt í sér ásamt því að hún fær greiningu á Pica í myndinni og uppfyllir skilyrði DSM-5. Samkvæmt DSM-5 einkennist Pica (borið fram pæka) af þeirri tilhneigingu að setja upp í sig annað en mat. Þar má nefna liti, plástur, hár og klæði. Samkvæmt kennslu í klínískri barnasálfræði telst eðlilegt að setja upp í sig sand og annað óætt á leikskólaaldri þar sem skynfærin eru ekki nógu þroskuð á þeim aldri. Barnið notar þá munninn til að fá heildarskynjun á hlutnum. Langt flestir vaxa upp úr þessari tilhneigingu en sumir sem eru með mikla eða alvarlega greindarþroskaröskun eða einstaklingur með afbrigði af vitglöpum heldur áfram að setja upp í sig óæta hluti. Eitt af formlegum greiningarskilyrðum Pica í DSM-5 er einmitt að átið á næringarlausum efnum sem eru ekki matarkyns sé óviðeigandi fyrir einstakling á þessu þroskastigi. Þar með myndum við ekki greina leikskólabarn sem borðar sand með Pica, en Hunter er fullorðin og barnshafandi, og telst þessi hegðun því óeðlileg. Hunter setur upp í sig og kyngir klaka, glerkúlu, teiknibólu, mold ásamt öðrum oddhvössum hlutum. Önnur greiningarskilyrði Pica eru að þessi tiltekna áthegðun vari í að minnsta kosti mánuð og margt bendir til að myndin hafi gerst yfir um það bil tvo mánuði. Þriðja greiningarskilyrði Pica er að áthegðunin sé ekki hluti af menningarlega studdri eða félagslega viðeigandi venju. Hunter mætir þessu skilyrði þar sem fólkið í kringum hana sýnir þessu lítinn skilning og talar við hana eins og hún sé ,,snarklikkuð.” Seinasta atriðið sem kemur að skilgreiningu Pica er að ef áthegðunin á sér stað á meðan á annarri geðröskun stendur eða læknisfræðileg ástæða, t.d. þungun, þá er röskunin það alvarleg að kalla þarf eftir sértæku inngripi. Einkenni Hunter voru tekin mjög alvarlega þar sem hún var barnshafandi. Hún var þar með ekki bara setja sjálfan sig í hættu heldur líka fóstrið. Sértæk inngrip voru meðal annars tvær aðgerðir þar sem hlutunum sem hún náði ekki að skila var náð úr.
Annað inngrip var að fá hjúkrunarfræðing sem fylgdist með henni þegar hún var ein heima, hjálpa henni að búa til næringarríkan mat og í lokin átti að senda hana á geðdeild. Það sorglega var að tengdafjölskyldan hafði aðallega áhuga á að bjarga barninu og eiginmaður Hunter var tilbúinn að skilja við hana.
Helsti samsláttur við aðrar raskanir er Greindarþroskaröskun (1.1.1), Einhverfurófsraskanir (1.3), Geðklofaraskanir (2.0.), Áráttu-þráhyggjuröskun (6.1), Hárreytiæði (6.4) og Skinnklórunarröskun (6.5). Ekki er hægt að fullyrða að Hunter hafi verið með einhverja af þessum fylgiröskunum. Hins vegar má álykta að fæðuröskunin sé tilkomin vegna mikillar sektarkenndar, lágu sjálfsmati og þörf fyrir að ná einhverri stjórn á lífi sínu. Hún finnur fyrir sektarkennd yfir því að vera til og upplifir sig aldrei vera nóg, enda eru það skilaboðin sem bæði eiginmaður hennar og tengdaforeldrar gefa til kynna. Þegar hún verður ófrísk ýtir það undir þróun einkenna Pica hjá henni. Mikill járnskortur getur valdið mikilli löngun í að borða klaka og mold, og þar sem Hunter borðaði þetta má álykta að áthegðun Hunter hafi að einhverju leyti stafað af járnskorti. Barnshafandi konur þurfa mun meira járn fyrir bæði sig og fóstrið samanborið við konur sem eru ekki barnshafandi.
V. hvaða spurningum er ósvarað?
Það er óskýrt hvort Hunter hafi náð tökum á röskuninni en hún virðist hins vegar vera að taka skref í rétta átt með því að fjarlægja sig úr óheilbrigðum aðstæðum og takast á við sálræn vandamál. Það eru þó ekki endilega góð skilaboð að hún hafi flúið frá því að fá faglega aðstoð og tekist á við vandann sjálf. Í mörgum tilfellum eru fæðu- og átraskanir það alvarlegar að það er mjög mikilvægt að fá faglega aðstoð sem fyrst og það að reyna takast á við geðröskunina einn getur verið lífshættulegt. Það er þó vert að nefna að faglega aðstoðin sem Hunter var boðið var ekki á réttum forsendum og stjórnaðist af óheilbrigðum einstaklingum og samböndum í lífi hennar. Hunter virðist þó vera taka skref í rétta átt, en í þetta sinn á réttum forsendum; fyrir sig en ekki aðra. Viðeigandi framhald væri að eftir að hún er búin að fjarlægja sig úr óheilbrigðum aðstæðum, fengi hún faglega aðstoð þar sem hennar hagsmunum væri gætt.
Til gamans má hér sjá síðu úr glósubók leikkonunnar þar sem hún skrifaði niður ýmislegt um Hunter og þar sem lá á bak við hegðun hennar, í þeim tilgangi að setja sig betur í hlutverkið.