Bergþóra H. Bergþórsdóttir og Rebekka Rós Ágústsdóttir.
STILL ALICE
I.
Kvikmyndin Still Alice fjallar um aðalpersónuna Alice, virta málvísinda konu sem hefur afrekað mikið á lífsleiðinni. Myndin fjallar um það þegar Alice uppgötvar að hún er komin með Alzheimer sjúkdóm. Hún þarf, ásamt eiginmanni sínum og börnum þeirra þremur, Anna, Lydia og Tom að takast á við vaxandi afleiðingar sjúkdómsins. Alice reynir að nýta þann tíma sem hún á eftir til þess að lifa í núinu, hún vill lifa lífinu sem allra best á meðan sjúkdómurinn er að skríða upp að henni. Sjúkdómur tekur völdin á ógnarhraða og brátt er Alice einungis skugginn af þeirri hraustu, lífsglöðu og snjöllu konu sem hún áður var. Saga Alice er sýnd á persónulegan og einlægan hátt í kvikmyndinni. Still Alice sýnir sögu Alice frá hennar sjónarhorni, og áhorfandinn horfir á hvernig hún reynir að fela sjúkdóminn í upphafi, hvernig hún tekst á við hann og hversu mikil áhrif hann hefur á líf hennar. Óbeinu skilaboð kvikmyndarinnar eru þau að það sé meiri missir þegar sjúkdómurinn kemur fyrir hana, hrausta konu á besta aldri, heldur en fyrir þá sem eldri eru.
Kvikmyndin er byggð á samnefndri skáldsögu, sem var gefin út árið 2007. Skáldsagan var skrifuð af Lisa Genova, sem er taugafræðingur og fékk hún innblástur af skáldsögunni þegar amma hennar greindist með Alzheimer sjúkdóminn. Ein helsta ástæða þess að Genova ákvað að gera aðalpersónu sögunnar unga, var til að leggja áherslu á að Alzheimer sjúkdómurinn er ekki einungis fylgifiskur ellinnar. Still Alice er ekki byggð á sannsögulegum atburðum, en þrátt fyrir það er þetta kvikmynd sem hefur áhrif á marga, svo sem aðstandendur Alzheimers sjúklinga. Kvikmyndin þjónar uppfræðandi tilgangi og leyfir áhorfendum að upplifa Alzheimer sjúkdóminn og sjá áhrifin sem hann hefur á líf einstaklings.
Leikstjórar kvikmyndarinnar eru Richard Glatzer og Wash Westmoreland og skrifuðu þeir einnig handrit kvikmyndarinnar auk þess að nýta skáldsögu Lisu við framkvæmd. Stuttu áður en framleiðsla hófst á kvikmyndinni Still Alice, þá greindist Glatzer með taugasjúkdóminn MND. Ástand Glatzer fór versnandi með hraði, líkt og hjá aðalpersónu kvikmyndarinnar, og hægt að sjá að upplifun hans á sínum eigin sjúkdóm er til staðar í kvikmyndinni.
Aðalleikarar kvikmyndarinnar eru Julianne Moore, Alec Baldwin, Kristen Stewart og Kate Bossworth. Aðalleikonan Julianne Moore hlaut Óskarsverðlaun sem besta leikkona í aðalhlutverki fyrir frammistöðu sína í Still Alice. Kvikmyndin hefur hlotið góða dóma, IMDb gaf myndinni einkunnina 7,5 og Rotten Tomatoes gaf myndinni 85%.
II.
Helsta ástæða þess að við völdum kvikmyndina Still Alice er sú að við höfum báðar upplifað sjúkdóminn í gegnum störf okkar og persónulegt líf. Við höfum báðar starfað á hjúkrunarheimilum Hrafnistu og kynnst fólki sem hefur þjást af Alzheimer sjúkdómnum. Við höfum því aðstoðað Alzheimer sjúklinga við athafnir daglegs lífs, og hafa þeir verið á ýmsum stigum sjúkdómsins. Einnig eigum við báðar nákomin skyldmenni sem hafa greinst með Alzheimer og fallið frá. Við höfum því horft upp á einstaklinga í kringum okkur þróa með sér Alzheimer sjúkdóminn, og fengið að upplifa þau hræðilegu áhrif sem hann hefur bæði á sjúklinginn og aðstandendur. Þeir einstaklingar sem við höfum umgengst og hafa greinst með Alzheimer sjúkdóminn, eru / voru á aldrinum 65 ára eða eldri. Það flokkast því undir síðkomið Alzheimer. Í kvikmyndinni sem við völdum okkur, er sýnt frá heilbrigðri fimmtugri konu sem greinist með snemmkomið Alzheimer. Tiltölulega lítið er vitað um Alzheimer sjúkdóminn, og er orsök hans enn ókunnug. Fjöldi þeirra sem greinast með Alzheimer er frekar hár, en þó eru ekki margir sem greinast með snemmkomið Alzheimer og fannst okkur því áhugavert að horfa á, og fjalla um kvikmyndina Still Alice. Í tilfelli Alice, sem er aðalpersóna myndarinnar greinist hún með snemmkomið Alzheimer. Talið er að hún hafi erft sjúkdóminn frá föður sínum, og hætta er á því að hún hafi komið sjúkdómnum áfram í börnin sín. Engin lækning er til við Alzheimer, en til eru lyf sem geta dregið úr einkennum og í sumum tilfellum tafið þróun sjúkdómsins tímabundið. Í kvikmyndinni fékk Alice lyfin Aricept og Numenda og áttu þau að draga úr einkennum sjúkdómsins hennar, en þau geta ekki dregið úr sjúkdómnum.
III.
Still Alice fjallar um aðalpersónuna Dr. Alice Howland, hún er prófessor í málvísindum og er mikil fjölskyldukona. Hún hefur skrifað grundvallarrit í sínum fræðum og starfar við að halda fyrirlestra í Harvard University. Alice er gift Dr. John Howland, sem er einnig prófessor í Harvard University og eiga þau saman þrjú börn, Anna, Lydia og Tom. Vegna starfa þeirra hjóna, og mikils álags í vinnu eru þau svolítið fjarlægð og sjá ekki mikið af hvoru öðru.
Í upphafi myndarinnar byrjar Alice að gleyma ýmsum smávægilegum hlutum eins og orðum. Dæmi um þetta er fyrirlestur sem hún hélt í Harvard University, þar gleymir hún orði sem hún ætlaði að fjalla um og frýs. Annað dæmi er þegar hún var úti að hlaupa og varð ráðvillt þegar hún gleymdi skyndilega hvar hún væri stödd. Þessar upplifanir fá Alice til að leita til læknis, í fyrstu hélt hún að þetta væri í tengslum við blæðingar og hormónabreytinga. Eftir enn frekari rannsóknir, svo sem segulsneiðmyndatöku, minnispróf og jáeindaskoðun greinist Alice með snemmkomið Alzheimer. Myndirnar sem teknar voru af heilanum hennar, sýndu greinilega að ákveðin svæði innihéldu mikið af mýldum, og að uppsöfnun hefði líklega staðið yfir í nokkur ár. Greining Alice hefur mikil áhrif á líf hennar og fjölskyldu, þar sem um sjaldgæfa útgáfu af snemmkomnum arfgengum Alzheimer sjúkdóm er að ræða. Alice býður því börnum sínum að taka erfðapróf, til að athuga hvort sjúkdómurinn hefði farið áfram í börn hennar. Anna dóttir þeirra sýndi jákvæðar niðurstöður í erfðaprófinu, Tom var neikvæður en Lydia vildi ekki taka erfðaprófið.
Læknir Alice, sagði þeim hjónum að snemmkomið Alzheimer gæti haft í för með sér hraðari einkenni og að hjá fólki með mikla menntun, líkt og Alice gæti sjúkdómurinn ágerst enn hraðar en hjá öðrum sjúklingum. Alice reynir eins og hún getur að halda lífi sínu saman, en sjúkdómurinn hefur völdin og ágerist hratt. Hún neyðist því til að hætta störfum og smám saman fer hún að missa völdin á sjálfri sér, minningum og hugsunum sínum. Áður en sjúkdómur hennar tók öll völd, bjó hún til myndskeið í tölvunni sinni, og lýsti þar yfir að ef ástandið myndi versna þá ætti hún að fylgja ákveðnum leiðbeiningum til að enda líf sitt. Þegar Alice er orðin virkilega veik, þá sér hún myndskeiðið og ætlar að enda líf sitt. Henni mistekst þó þegar hún er trufluð af aðstoðarkonu sinni sem skyndilega kom inn um dyrnar. Vegna stöðugs versnandi ástand Alice ákveður John, eiginmaður hennar að taka við nýju starfi í New York. Hann treystir sér ekki til að horfa upp á sjúkdóminn yfirtaka Alice og vill á sama tíma framfleyta fjölskyldunni. Dóttir þeirra, Lydia býðst til að flytja aftur heim til að hugsa um móður sína.
IV.
Sjúkdómurinn Vitglöp vegna Alzheimer, snemmkomið (e. dementia of the Alzheimer's type with early onset), er sá sem Dr. Alice Howland greinist með. Samkvæmt DSM-5 eru þeir einstaklingar sem greinast með snemmkomið Alzheimer að fá upphaf sjúkdómsins við 65 ára aldur eða yngri. Í kvikmyndinni Still Alice, byrjar upphaf sjúkdómsins að eiga sér stað þegar hún er aðeins 50 ára, og enn í blóma lífsins. Hún hélt upp á afmælið sitt á fínum veitingastað með fjölskyldunni í upphafi myndarinnar, og þar fengu áhorfendur að sjá þegar hún fer að gleyma smávægilegum hlutum. Í gegnum myndina fá áhorfendur að sjá Alzheimer sjúkdóm Alice ágerast.
Í upphafi sjúkdómsins, áður en læknarnir höfðu staðfest hvað um ræddi, hvarflaði ekki að Alice, og fjölskyldu hennar að þetta væri upphaf Alzheimer sjúkdómsins. Einstaklingar eiga oft erfitt með að trúa því að hraust fólk geti fengið þennan sjúkdóm á besta aldri. Alice var virt í vinnu sinni, og var hún góð fjölskyldukona og því var gerð krafa á henni á ýmsum sviðum. Einnig var hún í góðu formi andlega og líkamlega og því hvarflaði ekki að henni, né fjölskyldu hennar að eitthvað bjátaði á. Áður en hún vissi, var sjúkdómurinn byrjaður að taka völdin yfir lífi hennar og týndi Alice sér smám saman.
Í fyrstu þróaðist sjúkdómurinn hægt og voru fyrstu einkenni hans aðallega minnisleysi hjá Alice. Þegar hún talaði kom fyrir að hún gleymdi til dæmis einu stöku orði í setningu eða mundi ekki hvaða orð hún ætlaði að nota, hvort sem það var fræðilegt tal eða spjall við fólk. Þetta voru því smávægilegir hlutir sem hrjáðu hana daglega en sjúkdómurinn þróaðist áfram. Alice fór að eiga erfiðara með að skipuleggja sig og var gjörn á að gleyma nöfnum á fólki sem hún var að hitta í fyrsta skiptið. Til dæmis þegar Alice og John buðu börnunum sínum í matarboð. Tom, sonur þeirra kom með nýju kærustu sína með sér og kynnti hana fyrir móður sinni, svo settust þau niður við eldhúsborðið á meðan Alice hélt áfram að elda. Stuttu seinna kom Alice að eldhúsborðinu, sá þá kærustuna og kynnti sig fyrir henni aftur. Alice mundi ekki eftir því að hafa kynnt sig fyrir henni stuttu áður, og fjölskyldunni þótti skrítið að Alice hafi gleymt því. Eins og áður hefur komið fram var Alice hraust kona sem hugsaði vel um sig. Hún var mikið fyrir það að fara út að hlaupa og var því kunnug hverfi sínu. Einn morguninn lenti hún í því að villast og vissi ekki hvar hún væri, né hvernig hún myndi komast aftur heim.
Í DSM-5 er talað um að við greiningu á sjúkdómnum þarf að vera þróun á margþættri vitrænni vöntun, eins og kemur fram í bæði minnistruflunum og einni eða fleiri af eftirfarandi hugröskunum; málstoli, verkstoli, skynstoli og framkvæmdartruflun. Alice upplifði minnistruflanir, og í upphafi voru það smávægilegir hlutir sem hún var að gleyma, en ágerðist síðar í mun alvarlegri minnistruflanir. Fjölskylda hennar tók eftir minnistruflunum hennar en eins og Alice þá trúðu þau því að hún væri bara eitthvað utan við sig og að þetta myndi líða hjá, það gerðist þó ekki.
Í framhaldi fór Alice að upplifa framkvæmdartruflanir, sem voru farnar að hrjá hana. Hún átti erfitt með einfalda hluti, eins og til dæmis að elda rétti sem hún var vön að gera. Hún gleymdi hvaða hráefni hún átti að nota í réttinn, og hvenær hvert hráefni væri notað. Alice þurfti því að fletta uppskriftinni upp, sem hún var ekki vön að þurfa að gera. Alice var skipulögð manneskja og var því vön að setja hluti á sinn stað. Hún var hins vegar farin að lenda í því að setja hluti á vitlausa staði. Til dæmis setti hún símann sinn inn í ísskáp í staðinn fyrir mjólkina. Alice var einnig vön að setja lyklana sína alltaf á sama stað, en eftir að sjúkdómurinn ágerðist þá var hún byrjuð að setja lyklana á óvenjulega staði, þar sem hún gat ekki fundið þá.
Framvinda sjúkdómsins jókst fljótt, og leiddi það smám saman til breytingar á málnotkun, málskilningi og getu til að framkvæma daglegar athafnir. Alice fór að gleyma orðum og lýsti því fyrir fólki að stundum sæi hún orðin fyrir sér, en hún átti erfitt með að koma þeim frá sér. Það var því oft erfitt fyrir hana að segja fullkláraða setningu án þess að hika. Alice skynjaði hluti en skynjunin hafði enga merkingu fyrir henni, sem bendir til skynstols. Hún gat séð hluti án þess að átta sig á því hverjir hlutirnir væru. Dóttir Alice, Lydia var að sýna leikrit sem Alice var viðstödd á. Eftir leikritið hittust þær, Alice fór upp að Lydiu og hrósaði henni fyrir góða frammistöðu, en hún áttaði sig ekki á að þetta væri dóttir sín. Þegar sjúkdómur Alice var orðinn slæmur, fór hún að upplifa verkstol. Alice gat ekki klætt sig sjálf í föt, og þurfti hún því mikla aðstoð við það. Einnig eignaðist Anna, elsta barn þeirra hjóna, tvíbura og var Alice ekki treystandi til þess að halda á nýfæddu börnunum á fæðingardeildinni. Anna og eiginmaður hennar höfðu áhyggjur af því að Alice myndi missa börnin.
Þegar sjúkdómur Alice fór að taka völdin, varð veruleg minnkun á félagslegri- og atvinnuvirkni hennar, og eru það einkenni af snemmkomnu Alzheimer í DSM-5. Yfirmaður Alice hafði fengið kvartanir frá nemendum um að hún væri að haga sér öðruvísi, og boðaði hana því í viðtal. Alice segir honum þá að hún sé nýlega greind með snemmkomið Alzheimer. Hún neyðist því til að hætta störfum sínum og var það átakanlegt fyrir þessa virtu málvísindakonu.
V.
Á heildina litið fannst okkur kvikmyndin Still Alice virkilega áhrifamikil mynd. Kvikmyndin var hrá, en tilfinninganæm á sama tíma. Hún var vel útfærð, og fannst okkur skilaboð myndarinnar komast vel til skila á hnitmiðaðan hátt, sem náði vel til áhorfenda.. Í myndinni fá áhorfendur að lifa sig inn í aðalpersónuna, Dr. Alice Howland og sjá hennar upplifanir og tilfinningar á meðan sjúkdómurinn ágerst. Okkur fannst virkilega áhrifaríkt að fá að sjá hennar sjónarhorn í gegnum alla kvikmyndina, þar sem hún var í aðalhlutverkinu og fjölskyldan í aukahlutverkinu. Margar kvikmyndir sem við höfum séð, sem fjalla um þegar einstaklingur greinist með einhvers konar sjúkdóm, þá eru oftar en ekki aðstandendur í aðalhlutverki. Eftir að hafa horft á myndina er sýnilegt hve mikinn metnað leikstjórar og fleiri höfðu. Þeir vildu greinilega leyfa kvikmyndinni alfarið að vera um Alice, hennar líf, umhverfi, tilfinningar, og baráttu við Alzheimer sjúkdóminn. Það var átakanlegt að sjá hrausta og flotta konu, greinast með þennan hræðilega sjúkdóm. Við þekkjum öll einstaklinga sem eru að gera það gott, og eiga frábært líf. Þessi mynd dregur mann því aðeins niður á jörðina og sýnir okkur hve brothætt lífið og sálin getur verið.
Það var einnig vel sýnt í gegnum alla myndina, hve sterk kona Alice væri. Hún óttaðist til dæmis aldrei að deyja úr sjúkdómnum, heldur hræddist hún það að missa sjálfa sig. Hún óttaðist það að muna ekkert og að týna sjálfri sér í þessu hræðilega ástandi sem upp var komið. Okkur þótti því sárt að horfa upp á bráðgáfaða og hrausta konu, missa tökin á lífinu og hvaða áhrif það hafði á aðstandendur hennar. Það var fræðandi að horfa á kvikmyndina Still Alice, hún gefur áhorfendum góða sýn á því hvernig er að greinast með snemmkomið Alzheimer og hvernig upplifanir aðstandenda er. Við hvetjum alla sem hafa áhuga, að horfa á kvikmyndina Still Alice.
Heimildir
1. Kristján Guðmundsson. (2014). DSM-5: Flokkun geðraskana.
2. Sony. (e.d.). Still Alice. Sótt af https://www.sonyclassics.com/stillalice/