Gone Girl
Jóhannes Geir H. Ólafsson, Lilja Hrönn Einarsdóttir og Matthildur S. G. Johansen.
Kvikmyndin sem varð fyrir valinu er myndin Gone Girl. Kvikmyndin Gone Girl er sálfræðitryllir sem kemur út árið 2014. Myndin fjallar um hjónin Amy og Nick Dunne sem eru leikin af stórleikurunum Ben Affleck og Rosamund Pike. Einnig fara leikararnir Neil Patrick Harris, Tyler Perry og Carrie Coon með stórleik í kvikmyndinni. Leikstjóri myndarinnar er David Fincher. Kvikmyndin er byggð á skáldsögu eftir rithöfundinn Gillian Flynn sem ber sama nafn og kvikmyndin. Amy og Nick eru ung, stílhrein og heillandi par. Á yfirborðinu lítur út fyrir að þau séu svokallað draumapar. Sagan byrjar á fimm ára brúðkaupsafmæli Amy’s og Nick. Nick Dunn kemur heim til sín seinnipart dags þar sem hann finnur sófaborðið brotið og eiginkonan er horfin. Hann tilkynnir þetta atvik strax til lögreglu. Lögreglan fer fljótt að gruna Nick um að hann hafi átt eitthvern þátt í hvarfi eiginkonu sinnar, að hann hafi myrt konu sína eða meitt hana alvarlega. Í gegnum myndina fáum við að kynnast sambandinu milli Amy og Nick. Þar kemur í ljós hversu óheilbrigt sambandið þeirra var orðið og var með engum hætti eins fullkomið og sýndist. Í ljós koma meðal annars mörg leyndarmál, svik og ummerki um undarlega hegðun hjá þeim báðum.
Nick Dunn er grunaður um morð á konu sinni í gegnum mest megnið af myndinni. Nick þurfti að berjast mikið fyrir mannorði og sakleysi sínu bæði hjá lögreglu og fjölmiðlum. Í seinni hluta myndarinnar fer að koma í ljós hver Amy var í raun og veru og hvernig hún hafi skipulagt sitt eigið “morð.” Ætlunarverk hennar var að sviðsetja morð á sjálfri sér og láta mann sinn sitja eftir í súpunni og vera sakaður um að hafa myrt hana. Þessi áætlun hennar gekk eftir, henni til mikillar gleði. Við fáum að kynnast óvenjulegu hegðunarmynstri Amyar í gegnum myndina og hvernig hugsunarháttur hennar er. Einnig fá áhorfendur að sjá hvernig hún réttlætir hegðun sína.
Gagnrýnendur gefa þessari mynd 8.1 í einkunn af 10 mögulegum samkvæmt IMDb. Á Rotten Tomatoes fær myndin 87% af 100% frá bæði gagnrýnendum og áhorfendum. Gagnrýnendur lýsa myndinni sem áhugaverðum og spennandi sálfræðitrylli sem heldur manni giskandi og hugsi í gegnum alla myndina.
Við ákváðum að velja myndina Gone Girl vegna þess að myndin hafði áður vakið áhuga okkar og þótti okkur birting geðröskunarinnar í myndinni áhugaverð. Enn frekar völdum við þessa mynd því okkur fannst aðstæðurnar sem sköpuðust í myndinni frekar raunhæfar í raunveruleikanum. Við gátum séð fyrir okkur að lesa frétt um svipaðar aðstæður og okkur fannst það gera myndina og greininguna enn áhugaverðari. Við vildum ekki velja mynd þar sem birting geðröskunar væri sett upp sem grín eða óraunveruleg einungis til þess að höfða til áhorfenda. Greiningin sem okkur þótti líklegust sem er Andfélagsleg persónuleikaröskun (siðblinda) er einnig líklega sú geðröskun sem algengast er sett fram í hryllings og spennutrylli myndum. Okkur þótti myndin einnig spennandi val því það er ekki augljóst á yfirborðinu hver geðröskunin er og ekki hvaða persóna það er sem greindur yrði. Gone Girl varð einnig fyrir valinu af því að hún fær góða einkunn frá gagnrýnendum og áhorfendum. Einnig er öflugur hópur leikara í myndinni sem við trúðum að myndi gera það bæði krefjandi og áhugavert að reyna greina hjá þeim geðröskun. Hins vegar er ein af helstu ástæðum þess að við völdum myndina Gone Girl sú að við vissum að þetta væri mynd sem við myndum hafa gaman af að horfa á og því ekki leiðast ef að við myndum kafa dýpra í hana.
Persónan sem við tókum fyrir er aðalpersónan Amy Dunne. Amy er ung og glæsileg kona frá New York sem starfar sem rithöfundur. Sem barn var Amy innblástur foreldra sinna á bókinni The Amazing Amy sem urðu vinsælar barnabækur. Karakterinn The Amazing Amy var stúlka sem var algjört undrabarn, fékk hæstu einkunnirnar í skóla, náði árangri í öllum þeim íþróttum sem hún tók þátt í og var hreint út sagt hin fullkomna dóttir. Amy lifði mestmegnis af æsku sinni í skugga hinnar Amazing Amy sem virðist vera algjörlega gallalaus.
Amy kynntist Nick Dunne í partýi en þá hét hún Amy Elliot. Þau náðu strax vel saman þar sem þau höfðu sömu áhugamál og störfuðu bæði sem rithöfundar. Eftir ekki langan tíma sem par bað Nick Amy um að giftast sér og urðu þau svo hjón. Vert er að taka fram að í lokaútgáfu bókarinnar um The Amazing Amy giftir hún sig einnig. Amy virtist vera vel liðin af fólkinu í kringum sig en hún átti fáa sem enga vini. Nick maður hennar hélt því fram að hún ætti enga vini þegar hann var spurður af lögreglu út í félagslíf hennar eftir hvarfið. Systir Nick virtist vera sú eina í myndinni sem var illa við Amy og tók fram að henni liði alltaf skringilega í kringum hana. Amy hafði átt í það minnsta tvo fyrrverandi kærasta sem fram koma í myndinni og virðist hún halda í við þá þangað til hún hefur ekki lengur not fyrir þá. Fyrrverandi kærasti hennar Desi Collings sendi henni reglulega bréf og í myndinni gaf það til kynna að hann væri heltekinn af Amy. Amy virðist nýta sér það og lætur líta út fyrir að hann sé eltihrellir sem lætur hana ekki í friði. Í ljós kemur síðar að Amy gaf honum von annað slagið og virtist halda honum í bakhorninu þangað til hún hafði not fyrir hann. Hún ásakar Tommy O’Hara, hinn fyrrverandi kærasta sinn, um nauðgun og setur líf hans algjörlega á hvolf. Hún vingast við eina konu í hverfinu sem hún og Nick búa í en það virðist einungis gert með þeim tilgangi til að ráðskast með hana og fá hana til að sinna hlutverki Amy í vil. Það er því eins og Amy sjái ekki tilganginn með vinasamböndum fyrir utan það hvernig hún getur notfært sér það henni í vil en ekki út af vinskap.
Val okkar á geðröskun á persónunni Amy Dunne er Andfélagsleg persónuleikaröskun (e. antisocial personality disorder). Samkvæmt DSM-5 er Andfélagsleg persónuleikaröskun “Langvarandi hegðunarmynstur vanvirðingar og brot á réttindum annarra, sem eiga sér stað frá 15 ára aldri.” Greining á sér stað ef einstaklingur er með þrjú eða fleiri af eftirfarandi einkennum: 1. Ef ekki er geta til að halda sig við félagsleg viðmið varðandi virðingu fyrir lögum. 2. Endurteknar lygar, misnotkun á fjarvistarsönnunum og að blekkja aðra einskis fyrir persónulegra gróða og ánægju, 3. Hvatvísi og skortur á áætlunargerð, 4. Ofbeldishneigð sem sést með endurteknum slagsmálum og ofbeldi, 5. Kæruleysi gagnvart annarra og sínu öryggi, 6. Ábyrðarleysi, helst illa meðal annars í vinnu, 7. Skortur á eftirsjá.
Í myndinni koma upp atvik sem við teljum augljós samkvæmt þessum skilgreiningum að um sé að ræða einstakling með Andfélagslega persónuleikaröskun. Dæmi má nefna úr myndinni þegar að Amy sýnir enga iðrun eftir að hún lætur fyrrverandi kærasta sinn sem var með hana á heilanum, halda að hún þyrfti á honum að halda. En það eina sem hún hafði í huga með því var að fá sínu framgengt. Í lokin drepur hún sinn fyrrverandi án þess að sýna nokkurs konar miskunn né eftirsjá. Sem er eitt af merkjum Andfélagslegs persónuleika. Einnig er hægt að bendla þetta atriði við ofbeldishneigð sem er einnig merki um Andfélagslega persónuleikaröskun sé að ræða. Amy sýnir í gegnum alla myndina að eina sem var henni mikilvægt var það hvað væri henni fyrir bestu og allar hennar athafnir gengu út á það. Án þess að hugsa um hvort að hinn einstaklingurinn hlyti skaða af eða yrði særður á einhvern hátt. Amy laug ef þess þurfti eins og má sjá í atriði þar sem hún laug að manni sínum þegar þau kynntust hver hún væri og hvert hennar auðkenni sem einstaklingur væri.
Að okkar mati var frekar óskýrt hvaða geðröskun það væri sem við ættum að greina Amy með. Hvort það væri Andfélagsleg persónuleikaröskun eða Sjálfhverf persónuleikaröskun. Þar sem að ákveðin líkindi eru á milli þeirra tveggja. Hins vegar eru nokkur greiningaratriði Andfélagslegrar persónuleikaröskunar sem Amy uppfyllir ekki, eins og meðal annars einkenni númer 3. sem kemur fram hér að ofan: Hvatvísi og skortur á áætlanagerð og einnig einkenni númer 6. Persónan er sífellt óábyrg. Þetta valdi því að það var erfiðara að greina hana og þurftum við að skoða betur öll atriðin til að komast að niðurstöðu. Við ákváðum þó að greina hana með Andfélagslega persónuleikaröskun því við töldum hana sýna einkenni um siðblindu. Einnig skorar hún í fleiri en þrjú af einkennum Andfélagslegri persónuleikaröskun og því komumst við að þessari niðurstöðu. Okkur þótti myndin ekki vera rugluð eða ruglandi á nokkurn hátt. Að okkar mati nálgast hún þetta á áhugaverðan hátt og við teljum þetta vera raunhæfar aðstæður fyrir einstakling með Andfélagslega persónuleikaröskun. Myndin skilur ekki eftir sig margar ósvaraðar spurningar en þó einhverjar. Spurningar líkt og: Hvað gerist eftir að Amy og Nick sameinast aftur, enda þau saman eða nær hann að skilja við hana? Komast fleiri en systir Nick að því að þetta var allt uppspuni hjá Amy? Mun barnið þeirra sem Amy var ólétt af í lok myndarinnar þjást af sömu geðröskun og Amy?
Þegar á heildina er litið, fannst okkar myndin Gone Girl mjög áhugaverð og spennandi. Við mælum með þessari mynd fyrir þá sem hafa áhuga á sálfræðitrylli sem skilur mann eftir hugsandi. Við sem hópur gefum myndinni 8,1 í einkunn af 10 mögulegum.