The Perks of Being a Wallflower

Stephen Chbosky. The Perks of Being a Wallflower (Imdb 8,0*).

Stephen Chbosky. The Perks of Being a Wallflower (Imdb 8,0*).

Heimild: https://www.youtube.com/watch?v=n5rh7O4IDc0

Friðlín Björt Ellertsdóttir, Kristín Margrét Norðfjörð, Kristófer Birkir Baldursson og Jóhann Kristinn Indriðason.

I. Kynning á myndinni sem við völdum

Kvikmyndin The Perks of Being a Wallflower var gefin út árið 2012. Í myndinni fáum við að fylgjast með lífi Charlie (leikinn af Logan Lerman; 3:10 to Yome, 2007) sem busa í menntaskóla. Myndin er há-dramatísk og kemur inn á marga fleti Áfallastreituröskunar og þeirra afleiðinga sem sú röskun getur haft á líf og störf þeirra sem af henni þjást. Í gegnum myndina skrifar Charlie bréf til ónefnds vinar og segir þar frá raunum sínum í baráttunni við röskunina, lífið í skólanum og ástina. Í byrjun myndarinnar hefur áhorfandinn litla sem enga tilfinningu fyrir því hvert hún stefnir. Snemma kemur þó fram að Charlie er að koma úr veikindaleyfi og svo eru atburðir úr fortíðinni hægt og rólega dregnir fram sem útskýra vel þá vanlíðan sem Charlie ber innra með sér. Myndin kemur með sterkum og sannfærandi hætti inn á hluti sem margir eiga erfitt með að tala um eins og kynhneigð, vímuefnaneyslu, nauðganir, sifjaspell og svo auðvitað geðheilsu.

Leikstjórn var í höndum Stephen Chbosky en myndin er gerð upp úr samnefndri bók hans sem kom út árið 1999. Með önnur hlutverk í myndinni fara Emma Watson (Harry Potter, 2001 ->), Ezra Whitman (The Stanford Prison Experiment; 2015, Justice League, 2017), Mae Whitman (Independence Day, 1996), Kate Whitman (Scary Movie 5, 2013), Dylan McDermott (Texas Rangers, 2001), Joan Cusack (In & Out, 1997) og Paul Rudd (The 40-Year-Old Virgin, 2005).

IMDB 8,0

Rotten Tomatoes 85 – 89%

Roger Ebert 3,5/4

 

II. Stutt ástæða fyrir því að velja þessa mynd

Myndin snertir á viðkvæmum málefnum sem eru oft falin í samfélaginu og hlutum sem fólk reynir oft að fela sjálft – stundum svo vel að það felur þá fyrir sjálfu sér. Það sem heillaði okkur hvað mest við myndina er að maður veit aðeins jafn mikið og aðalpersónan og áhorfandinn upplifir og uppgötvar hluti á sama tíma sú persóna. Myndin fjallar líka um vináttu, ást, áföll, það að fullorðnast og allt sem fylgir því, sem tengir áhorfandann vel við atburði myndarinnar. Aðalpersónan glímir við Áfallastreituröskun og því litast líf hans af því, áhorfandinn áttar sig á að það er eitthvað að en fær ekki að vita strax hvað það er, það eru aðeins gefnar vísbendingar um hvað er í gangi sem er í takt við það sem aðalpersónan er að upplifa – hann áttar sig heldur ekki alveg á því hvað er í gangi fyrr en líða fer á myndina. Birtingarmyndir Áfallastreituröskunar í kvikmyndum eru oft tengdar við hermenn og því fannst okkur áhugavert að þessi mynd sýnir hvernig einkennin geta birst í daglegu lífi ungs drengs sem hefur vissulega upplifað áföll, en þó ekki í tengslum við stríð eins og svo oft er sýnt frá í kvikmyndum. Geðræn vandamál eru eitthvað sem þörf er á að sýna meira frá í kvikmyndum og að okkar mati þarf að normalisera þau meira og tengja þau meira við daglegt líf fólks, en það er akkurat það sem okkur fannst takast vel í þessari mynd og ein af ástæðunum fyrir því að við völdum hana.

III. Almenn umfjöllun um þá persónu

Við ákváðum að taka fyrir Charlie Kelmeckis sem er bæði aðalpersóna og sögumaður myndarinnar. Áhorfandinn fylgir Charlie, ungum manni, í gegnum fyrsta árið hans í menntaskóla, en hann hafði eytt hluta af sumrinu fyrir skólagöngu sína á geðdeild eftir að besti vinur hans framdi sjálfsmorð. Charlie er kvíðinn fyrir því að hefja skólagönguna, gömlu vinir hans láta eins og hann sé ekki til og hann er mikið einn til að byrja með. Hann kynnist nokkrum eldri nemendum – Sam, Patrick, Mary Elizabeth og Alice sem verða seinna góðir vinir hans. Charlie er er mjög feiminn, gáfaður og hugulsamur og er góður vinur vina sinna. Hann er lagður í einelti í skólanum sem snýr aðallega að því að hann er afburðanemandi. Charlie er yngstur þriggja systkina og býr með foreldrum sínum og eldri systur en bróðir hans er í háskóla í öðrum bæ. Hann á gott samband við fjölskylduna sína en er þó mjög lokaður. Hann talar mikið um móðursystur sína Helen í gegnum myndina en hún lést í bílslysi á 7 ára afmælisdaginn hans þegar hún fór að sækja afmælisgjöfina hans. Charlie upplifir mikið samviskubit í tengslum við andlát hennar og finnst það vera honum að kenna að hún dó. Hann hugsar mikið um hana og endurupplifir reglulega brot af minningum tengdum henni sem hann ræður ekkert við. Hann glímir við Áfallastreituröskun en áttar sig ekki á því, en það á rætur sínar að rekja til þess að Helen misnotaði hann í æsku. Charlie á erfitt andlega í gegnum stærstan hluta myndarinnar, það hjálpar honum þó að hafa vini sína í kringum sig en á sama tíma tekur hann þarfir annara alltaf fram yfir sínar eigin sem veldur honum kvíða. Í gegnum vini sína fer hann að mæta í partý og prófar eiturlyf sem hann notar af og til, og leitar meira í tengt vanlíðan. Hann prófar LSD og fær slæmar endurupplifanir í tengslum við dauða Helen eftir fyrsta trippið sitt. Málin flækjast þegar hann verður ástfanginn af vinkonu sinni - Sam en byrjar að deita aðra vinkonu sína - Mary Elizabeth sem hann er ekki hrifinn af. Það kemst svo upp að hann er ástfangin af Sam og út frá því hætta vinir hans að tala við hann, en á þeim tíma fara hlutirnir hratt niður á við og endurupplifanirnar aukast jafnt og þétt. Charlie verður vitni að því að Patrick lendir í slag í skólanum og stoppar slagsmálin en lendir í algjöru blackout og man ekkert hvað gerðist. Vinirnir taka hann aftur í sátt en á þessum tíma eru þau öll að útskrifast og að fara í háskóla nema Charlie og tekur það virkilega á og honum fer versnandi. Charlie sefur hjá Sam daginn áður en hún flytur og fær þá skýrari endurupplifanir og útfrá því áttar hann sig almennilega á því að frænka hans hafi misnotað hann í æsku. Hann heldur áfram að fá endurupplifanir af allskyns slæmum hlutum og hringir í systur sína útfrá því vegna mikillar vanlíðan. Systir hans fattar að hann er að hugsa um að enda líf sitt, en hún hringir á lögregluna sem stoppar hann af. Hann rankar við sér eftir annað blackout á geðdeild. Þar vinnur hann úr misnotkuninni og fjölskyldan hans kemst þá fyrst að sannleikanum. Hann fer að átta sig á innbyrgðu minningunum og endurupplifunum og byrjar í reglulegri meðferð hjá geðlækni. Hann heldur sambandi við Sam og Patrick, finnst framtíðin vera björt og fer að geta sett fortíðina þar sem hún á heima. Hann áttar sig á hvað honum var búið að líða illa lengi og er í mun betra andlegu jafnvægi í lokin.

IV. Val ykkar á geðröskun

Í kvikmyndinni koma fram vísbendingar um ýmiskonar andlega erfiðleika, þó er sú röskun sem er hvað mest áberandi Áfallastreituröskunin sem Charlie þjáist af. Í greiningarhandbókinni DSM V eru greiningarskilmerki fyrir Áfallastreituröskun þau að viðkomandi þarf að hafa upplifað áfall beint, orðið vitni að áfalli, fengið fréttir um að nákominn hafi orðið fyrir áfalli eða síendurteknar upplifanir af smáatriðum fyrri áfalla. Áföllin sem um ræðir þurfa að falla undir kynferðislegt ofbeldi, alvarlegt slys, eða raunverulegan eða hótaðan dauða. Viðkomandi þarf að upplifa eitt eða fleiri af upptöldum atriðum og þarf að upplifa þau beint. Þá eru fleiri atriði sem einstaklingur þarf að hafa upplifað til þess að uppfylla greiningarskilmerki þar má nefna mikla og langvarandi vanlíðan, endurupplifanir, forðun eða tilraunir til þess að forðast minningar tengdar atburðinum og draumar sem tengjast atburðinum. Líkt og fram kemur í DSM V getur einstaklingur bæði þróað með sér áfallastreituröskun við það að verða sjálfur fyrir áfalli eða verða vitni af átakanlegum atburði. Charlie uppfyllir líklega nægilega mörg greiningarskilmerki Áfallastreituröskunar til dæmis að hafa orðið fyrir eða orðið vitni af áfalli, endurupplifun gamalla minninga, reiðiköst og sjálfskaðandi hegðun. Í tilfelli Charlie varð hann sjálfur fyrir áfalli en líkt og hefur komið fram þá var hann misnotaður í æsku af frænku sinni. Charlie virðist glíma við töluverð andleg veikindi, til að mynda er hann nýkominn af geðdeild í byrjun myndarinnar. Þá upplifir hann einnig reiðiköst og mikið samviskubit í tengslum við andlát frænku sinnar, sem möguleg mætti rekja til samviskubits vegna atviksins sjálfs. Í myndinni kemur einnig fram að Charlie endurupplifir gjarnan minningar tengdar frænku sinni Helen, sem var gerandinn í ofbeldinu gagnvart honum. Hann byrgir minningarnar inni og áttar sig því ekki endilega á öllum endurupplifunum - þær verða þó fleiri og skýrari eftir því sem líður á. Svo virðist sem Charlie hafi bælt minningarnar um ofbeldið töluvert en í myndinni kemur fram þegar þær koma upp á yfirborðið. Þegar minningarnar koma svo upp á yfirborðið upplifir hann atvikið endurtekið aftur og aftur en það er einnig í takt við þau atriði sem koma fram í DSM. Að lokum verða þessar upplifanir, og allir þeir þættir tengdir Áfallastreituröskun hans, honum ofviða sem leiðir til þess að Charlie gerir tilraun til sjálfsvígs.

 

V. hvaða spurningum er ósvarað?

Myndin byggir á atvikum sem er mjög erfitt að koma í kvikmynd, án þess að það sé beinlínis andstyggilegt. Þegar áhorfandinn er kynntur fyrir aðal persónunni, Charlie, gerir maður sér alls ekki grein fyrir áföllunum sem hann hefur orðið fyrir. Í gegnum myndina er maður alltaf að reyna að skilja hvað hafi orðið til þess að hann er eins og hann er. Við fáum lítið um svör um afhverju vinur hans fyrirfór sér. Við fáum að vita að Charlie hafi verið lagður inn á geðdeild sumarið fyrir menntaskóla en það er ekkert útskýrt meira.

Samband Charlie við frænku sína Helen er óskýrt. Sem áhorfandi virkar samband þeirra eins og það hafi verið gott og við upplifum það eins og Charlie sakni frænku sinnar, Helen. Áhorfandinn veit lítið sem ekkert um reynslu Helen, en það er aðeins komið inná að hún hafi lent í misnotkun á lífsleið sinni sem er líklega ástæða þess sem hún gerði við Charlie.

Endirinn á myndinni er sannkallaður „happy ever after“ endir þar sem það lítur út fyrir að allt endi vel. Við vitum ekki hvernig bati Charlie er eða hvernig hann vinnur úr áföllunum sínum en myndin endar tveim mánuðum eftir að hann útskrifast af geðdeild. Auðvitað vitum við að svona áföll valda eilífðar baráttu og hverfa ekki strax við innlögn á geðdeild, en það er svo sem skemmtilegra að enda myndina á þeim nótunum. Einkenni Áfallastreituröskunar koma nokkuð skýrt fram í myndinni þó erfitt sé að átta sig á því fyrst að það sé það sem Charlie er að glíma við, en það kemur þó skýrara fram eftir því sem líður á myndina og maður fer að geta púslað brotunum saman. Myndin er ekki rugluð að okkar mati þar sem hún sýnir röskunina í hversdagslegu ljósi og maður sér og skilur áhrifin sem hún getur haft á viðkomandi og þá sem eru í kringum hann.