Heimild: https://www.youtube.com/watch?v=705yRfs6Dbs
To the bone
Eldey Ósk Mánadóttir, Katrín Hrönn Harðardóttir, Kristín Helgadóttir og Rebekka Steinarsdóttir.
1. Kynning
Kvikmyndin To the Bone var gefin út árið 2017. Myndin fjallar um unga konu að nafni Ellen sem glímir við lystarstol. Kvikmyndin leiðir áhorfendur í gegnum líf Ellenar og sjúkdóminn sem hún glímir við. To the Bone sýnir óhefðbundnar leiðir til að takast á við átröskun. Leikstjóri myndarinnar er Marti Noxon en hún skrifaði einnig handritið. Kvikmyndin byggir að mörgu leyti á eigin baráttu Marti Noxons við lystarstol. Læknir hennar, Dr. MacKenzie tileinkaði sér það að halda sínum sjúklingum heima frekar en að leggja þá inn á meðferðarstofnun. Dr. MacKenzie hvatti Marti við skrif á handritinu og gaf hann sína þekkingu og sitt álit varðandi átröskun við skrif á handritinu og gerð myndarinnar.
Í myndinni fer Lily Collins með aðalhlutverkið sem Ellen. Keanu Reeves fer með hlutverk læknisins Dr. William Beckham. Liana Liberto fer með hlutverkið Kelly systur Ellenar. Carrie Preston fer með hlutverkið Susan, stjúpmóður Ellenar. Að lokum fer Alex Sharp með hlutverkið Luke vin Ellenar.
Í kvikmyndinni er læknirinn, Dr. Beckham byggður á Dr. MacKenzie, en hann rekur óhefðbundið meðferðarheimili fyrir sjúklinga með Átröskun. Ellen fær pláss inn á meðferðarheimilinu og þar kynnist hún einstaklingum sem glíma við mismunandi Átraskanir. Reglur innan meðferðarheimilisins eru meðal annars þær að það eru engar hurðir á herbergjum nema inn á baðherberginu, raftæki eru bönnuð, allir þurfa að mæta í allar máltíðir og enginn má minnast á mat eða kaloríur. Auk þess má enginn yfirgefa matarborðið um kvöldmatarleytið og baðherbergið er læst í 30 mínútur eftir matartíma til að koma í veg fyrir að sjúklingar kasti upp. Hluti af meðferð Dr. Beckhams var meðal annars að hvetja Ellen til að fá útrás með því að öskra út í loftið, breyta nafninu sínu úr Ellen yfir í Eli. Þar að auki reyndi hann að fá Ellen til að uppgötva ástríður sem hún elskaði áður.
Imdb gefur kvikmyndinni 6,8 af 10 í einkunn. Rotten Tomatoes gefur kvikmyndinni 71% í einkunn en áhorfendur gáfu 64%. Metacritic gefur myndinni 64 af 100.
2. Stutt ástæða fyrir því að velja þessa mynd
Kvikmyndin, To the bone var valin þar sem hún snýr að óhefðbundinni meðferð gegn Átröskun. Okkur fannst áhugavert að kynnast þeirri nálgun sem meðferðin í kvikmyndinni snéri að, með það í huga að áhersla meðferðar á Íslandi er á þyngdaraukningu, heilbrigðar matarvenjur og að minnka önnur einkenni tengd Átröskun. Áhersla meðferðar á Íslandi er að mörgu leyti ólík áherslunum á meðferðarheimilinu í kvikmyndinni. Sem dæmi þá er ein af reglunum að ræða ekki um mat eða matarvenjur. Kvikmyndir er einnig góð birtingarmynd fyrir Lystarstol. Hún nær að fanga einkennin á raunverulegan hátt og sýnir frá öllum hliðum sjúkdómsins. Við fáum bæði að sjá Lystarstol út frá sjónarhorni Ellenar og út frá sjónarhorni aðstaðenda. Kvikmyndin var þung á köflum og það var erfitt að sjá hversu mikil vanlíðan fylgir sjúkdómnum.
3. Almenn umfjöllun um persónu
Ellen, aðal sögupersóna myndarinnar er tvítug stúlka sem glímir við Lystarstol. Foreldrar hennar eru fráskilin og sambandið þar á milli er ekki gott. Til að byrja með bjó Ellen hjá móður sinni en hún gafst upp á Ellen og hennar sjúkdóm og sendi hana til pabba síns, stjúpmóður og systur. Pabbi Ellenar sást aldrei í myndinni en stjúpmóður hennar er mjög annt um hana. Hún reynir að gera allt sem í hennar valdi stendur til að hjálpa Ellen en nálgast sjúkdóminn ekki á réttan hátt.
Stjúpmóðir Ellenar bókar tíma hjá lækni sem heitir Dr. William Beckham. Hann rekur meðferðarheimili til að hjálpa sjúklingum sem glíma við Átröskun. Ellen fær innlögn á meðferðarheimilinu gegn hennar vilja, þar sem hún vill ekki þiggja hjálp frá öðrum. Í gegnum myndina má sjá að Ellen pælir ekki í því hvað öðrum finnst um hana og var með svartsýnan hugsunarhátt. Ellen er listamaður og tjáir list sína út frá sínum sjúkdómi. Hún teiknar meðal annars myndir af grönnum líkömum sem endurspeglar þá ímynd um hvernig hún vill líta út. Þar að auki teiknar hún myndir af sínum uppáhalds mat þegar hún er svöng og þegar hún nær ekki að sofna.
Hún hefur enga löngun á því að mynda tengsl við aðra og er í rauninni búin að gefast upp á lífinu. Í byrjun meðferðar var hún hvorki opin fyrir því að kynnast öðrum eða ná árangri í meðferðinni. Aftur á móti kynnist hún hægt og rólega öðrum einstaklingum á meðferðarheimilinu sem hjálpa henni að sjá lífið í öðru ljósi. Þar á meðal kynnist hún stráki sem heitir Luke og þau verða hrifinn af hvort öðru. Sem byrjun á nýju upphafi tekur hún upp nýtt nafn og vil ganga undir nafninu Eli. Í lok myndarinnar má sjá að Eli er tilbúin til þess að ná tökum á eigin lífi og þiggur meðferð.
4. Val okkar á geðröskun persónunnar
Við teljum að Ellen þjáist af Lystarstoli (10.4). Lystarstol er átröskun sem einkennist af því að viðkomandi finnur fyrir hungri, en er með mjög sterka hræðslu við að verða feitur, ásamt truflun á sjálfsímynd.
DSM-5 skilgreinir Lystarstol í 3 hluta: A, B og C.
Minnkuð orkuinntaka miðað við aðstæður, sem leiðir til merkjanlega lágrar líkamsþyngdar miðað við aldur, kyn, þroska og líkamlega heilsu. merkjanleg lág líkamsþyngd er skilgreind sem þyngd sem er minna en það sem er eðlilegt lágmark eða hjá börnum og unglingum, minna en væntanlegt lágmark.
Mjög sterk hræðsla við þyngdaraukningu eða að verða feitur eða viðvarandi hegðun sem truflar þyngdaraukningu, jafnvel þótt viðkomandi sé merkjanlega of léttur.
Brengluð upplifun á eigin þyngd eða líkamsvexti; óheftleg áhersla á áhrif líkamsþyngdar eða líkamsvaxtar á sjálfsmat eða afneitun á því hve alvarleg lág líkamsþyngdin er orðin.
Ellen sýnir sterk einkenni Lystarstols í gegnum myndina. Í myndinni kemur fram að hún vegur um það bil 40 kg og er 1.65 á hæð. Þessi þyngd er undir lágmarki hjá heilbrigðum einstaklingi.
Ellen sýnir mikla hræðslu við það að borða og þyngjast. Hún lýsir því þannig að það að borða valdi henni miklum kvíða og að henni líði eins og að heimurinn myndi hrynja ef hún borðar fæðu. Samt sem áður hafði hún mikinn áhuga á mat, til að mynda vissi hún alltaf nákvæmlega kaloríufjöldann á öllum mat og hafði gaman að því að teikna myndir af honum. Oft má sjá atriði í myndinni þar sem hún hrærir einungis í matnum sínum í stað þess að borða hann. Í einu atriði myndarinnar fara Ellen og Luke saman á veitingastað og Ellen neitar að borða. Luke pantar fyrir hana mat en í stað þess að borða hann þá tyggir hún hvern bita fyrir sig en kyngir ekki matnum heldur spýtur honum út úr sér.
Þegar Ellen fór í læknisskoðun hjá Dr. William Beckham kom í ljós að hún var með það sem kallast “Lanugo.” Það lýsir sér á þann hátt að viðkomandi fær mjúk, dúnkennd hár á handleggi og fætur. Þegar þetta gerist er líkaminn að vernda einstaklinginn gegn hitatapi þar sem einstaklingurinn er orðinn alltof grannur. Þar að auki tók Dr. William Beckham eftir því að Ellen var öll marin á bakinu eftir að hafa gert mikið af magaæfingum. Í læknisskoðuninni var Ellen einnig spurð að því hvenær hún hafi farið síðast á blæðingar og hún gat ekki munað hvenær það var. Tap á blæðingum er eitt af einkennum Lystarstols hjá konum þar sem að magn estrógens er óeðlilega lágt hjá þeim.
Í gegnum myndina var Ellen stanslaust að athuga hvort hún gæti gripið utan um upphandlegginn á sér og á einum tímapunkti má sjá að henni tókst það. Eitt af einkennum þess að vera með Lystarstol er of mikil líkamsrækt. Þetta má tengja við Ellen þar sem hún greip hvert tækifæri til þess að hreyfa sig í laumi. Sem dæmi gerði hún sífellt magaæfingar upp í rúmi, hljóp upp og niður stigann á meðferðarheimilinu og vildi helst ganga hratt eða hlaupa þegar hún var að koma sér á milli staða.
Í seinna hluta myndarinnar var átröskunin búin að taka yfirhönd á líf Ellenar og í einu atriðinu má sjá hana liggja meðvitundarlausa á strætóstöð. Síðan í lok myndarinnar dreymir Ellen sjálfa sig, þar sem hún situr heilbrigð upp í tréi og horfir niður á sjálfan sig nakta liggjandi í mold. Á þessum tímapunkti sér hún hvað hún er grönn og að hún sé nær dauða en lífi. Hér sér hún sjálfan sig nýjum augum og í nýju ljósi. Þegar hún vaknar frá draumnum þá er hún tilbúin að þiggja meðferð og ná tökum á sínu eigin lífi.
5. Ósvaraðar spurningar
Spurningar vakna hvort að fyrirkomulag meðferðarheimilisins hafi haft góð áhrif á Eli og hvort að reglurnar á meðferðarheimilinu hefðu mátt vera sveigjanlegri. Á hverjum degi var Eli og aðrir meðlimir á meðferðaheimilinu beðin um að fara á vigt til þess að sjá hvort að þau væru að bæta á sig, að okkar mati gæti þetta ýtt undir afbrigði sjúkdómsins. Við setjum spurningamerki við hvort það hafi haft góð áhrif á Eli og hennar sjúkdóm, að hún vissi daglega hversu þung hún væri?
Vert er að benda á að meðferðarheimilið notaði umbunarkerfi. Fyrir hverja æskilega hegðun sem Eli sýndi þá fékk hún stig. Ef hún náði að safna ákveðnum mörgum stigum þá fékk hún verðlaun sem fólst í því að hún mátti velja sér eitthvað sem hún vildi gera, t.d fara í bíó, út að borða, fara á leikrit og fleira. Ef hún sýndi aftur á móti óæskilega hegðun þá var refsingin sú að hún missti stig. Í gegnum myndina má sjá að þessi neikvæða styrking ýtti undir mótþróa hjá Eli. Refsingin var notuð sem valdbeiting: You can’t stay at Threshold if you drop any more weight sem varð til þess að hún yfirgaf meðferðarheimilið og fór aftur til fjölskyldu sinnar.
Sálfræðingurinn og læknirinn, Dr. William Beckham beitir að vissu leyti hugrænni atferlismeðferð (HAM) til þess að hjálpa skjólstæðingum sínum að breyta ákveðnum hugsunarhætti sem getur fylgt átröskunum. Hann sýnir Eli skilning sem hún fékk aldrei frá fjölskyldu sinni. Það virðist sem að fjölskylda hennar hafi aldrei fengið viðeigandi fræðslu um Lystarstol og af þeim sökum vissu þau ekki hvernig þau áttu að sýna henni skilning og fullan stuðning. Þau áttu mjög erfitt með að skilja afhverju Eli borðaði einfaldlega ekki. Við veltum því fyrir okkur hvort fjölskyldan hennar hafi brugðist rétt við, sögðu þau réttu hlutina eða létu þau hana líða enn verr?
Í lok myndarinnar vakna upp margar spurningar. Eli snýr aftur tilbaka til meðferðarheimilisins en við fáum ekki að vita hvort hún nái fullum bata eða ekki. Auk þess vitum við ekki hvort meðferðin hafi hjálpað henni að einhverju leyti í lokin. Þrátt fyrir að við fáum ekki svör við spurningum okkar þá er þessi kvikmynd skylduáhorf fyrir alla í ljósi þess að Lystarstol er ennþá mikið “taboo” í nútímasamfélagi. Það er mikilvægt að velta því fyrir sér hvort meðferð við lystarstoli ætti að vera einstaklingsmiðuð eða einsleit.
Heimildir
Comer, R. J., og Comer, J. S. (2019). Fundamentals of Abnormal Psychology (9. útg.). Worth publishers.
Kristján Guðmundsson. (2014). DSM-5: Flokkun geðraskana.