Fight Club

David Fincher. 1999. Fight Club (Imdb 8,8*).

David Fincher. 1999. Fight Club (Imdb 8,8*).

Fight club

Guðrún Eir Jónsdóttir, Karen Ósk Sverrisdóttir og Karen Rós Smáradóttir.

 

Kynning

Kvikmyndin sem varð fyrir valinu var Fight Club sem gefin var út árið 1999. Myndin byggist á samnefndri skáldsögu eftir Chuck Palahniuk sem gefin var út árið 1996. Jim Uhls skrifaði handritið fyrir kvikmyndina og David Fincher leikstýrði. Myndin fékk góða dóma á IMDb eða 8,8 í einkunn. Fight Club var tilnefnd til margra verðlauna og vann meðal annars ,,Best DVD” á Online Film Critics Society Awards. Aðalleikarar myndarinnar voru þeir Edward Norton og Brad Pitt.

Myndin fjallar um: The Narrator eða sögumanninn, en Edward Norton fór með það hlutverk. Sögumaðurinn gat ekki sofið og fór reglulega á ýmsa stuðningsfundi fyrir mismunandi sjúkdóma til þess að losa um tilfinningar sínar og til þess að gráta. Hann var ekki náinn neinum en þráði samt sem áður nánd og hann fékk hana á þessum fundum. Eftir að hafa farið á þessa stuðningsfundi gat  sögumaðurinn sofið. Dag einn byrjaði kona að nafni Marla að mæta á sömu stuðningsfundi. Þá hættir hann að geta grátið og þar af leiðandi hættir hann aftur að geta sofið. Það truflaði  sögumanninn að hún var eins og hann, hún var ekki heldur með þá sjúkdóma sem stuðningsfundirnir stóðu fyrir og vissi leyndarmálið hans. Þau tvö gerðu samkomulag um að skipta á milli sín dögunum svo þau mæti aldrei á sama fundinn, aðeins þá gat hann aftur byrjað að gráta á stuðningsfundunum. Sögumaðurinn fer síðan einn daginn í vinnuferð. Í flugvélinni á leiðinni heim úr ferðinni hitti hann áhugaverðan mann sem selur sápur. Þessi sölumaður hét Tyler Durden og fór hin frægi leikari Brad Pitt með hlutverk hans. Sögumaðurinn hreifst mikið af Tyler. Þegar hann kom síðan heim til sín eftir ferðina þá var búið að sprengja upp íbúðina hans. Íbúðin hans skipti hann mjög miklu máli, þar voru verðmætir hlutir sem hann hafði lagt mikið á sig síðustu ár að eignast. Hann vissi ekki hvar hann ætti að sofa og hringdi í Tyler, sölumanninn sem hann hitti í flugvélinni. Hann svaraði ekki en síminn hringdi fljótt til baka. Þeir hittast og ákveða að fara saman á bar í nágrenninu. Þeim kom mjög vel saman og byrja að slást fyrir utan barinn, þó þeir eru langt frá því að vera óvinir. Eftir slagsmálin finna þeir báðir fyrir miklum létti og frelsi. Tyler ýtir á hann að vera ekki feiminn, drífa þetta af og spyrja hann um að fá að gista, hann gerir það og þeir fara heim til Tylers í yfirgefið ónýtt hús. Þeir verða nánast óaðskiljanlegir og eyddu miklum tíma saman. Þeir byrjuðu að stunda það að fara í slag við aðra menn og stofna Fight Club. Þessi klúbbur varð sífellt vinsælli og hann stækkaði ört. Fight Club var háleynilegur klúbbur þar sem ekki mátti spyrja neinna spurningar eða efast um neitt. Bardagarnir áttu sér stað á ýmsum stöðum um bæinn. Tyler Durden og Marla byrja síðan að sofa saman og Tyler segir ekki lengur sögumanninum jafn mikið hvað er á dagskránni hjá Fight Club. Tyler tekur algjöra stjórn á klúbbnum og byrjar verkefni sem kallast Project Mayhem. Project Mayhem gekk út á það að taka niður nútíma menningu og þeir gerðu það með því að skemma bíla, sprengja upp blokkir og valda miklu tjóni í bænum. Sögumaðurinn  var ósáttur, fannst þetta of langt gengið en er líka sár að honum var ekki lengur boðið að vera með. Hann reynir að stöðva þessa hryðjuverkastarfsemi en Tyler lætur sig þá hverfa. Sögumaðurinn leitar að Tyler  út um allt en finnur hann hvergi. Sögumaðurinn talaði við ýmsa meðlimi klúbbsins og fór þá að leggja saman tvo og tvo og átta sig á  að hann og Tyler væru sama manneskjan og að hann væri veikur. Hann trúði því ekki í fyrstu en fjöldi manns úr Fight Club komu fram við hann eins og að hann væri allt í einu Tyler  sem  hann fann hvergi. Síðan hittir hann loksins Tyler og þá er hann búinn að gera sér grein fyrir því að Tyler væri ranghugmynd hans. Eina leiðin til þess að losna við Tyler var að drepa hann, en vandamálið var að þá myndi hann drepa sjálfan sig líka. Hann endar með að skjóta sig í höfuðið, Tyler Durden deyr en sögumaðurinn er enn á lífi en alvarlega slasaður. Hann náði ekki að stöðva hryðjuverkaárásina Project Mayhem því stutt eftir að hann skaut sig sprungu fjöldi fjármálabygginga, þannig að skuldir allra fara í núll og að það séu ekki til færslur um skuldir lengur. Marla tók hann í sátt eftir að hann útskýrði allt fyrir henni og sagði henni frá ranghugmyndum sínum. Það er síðan undir áhorfendanum komið að áætla hvað gerist í raun í lokin. Ekki er sýnt frá því hvort að hann dó síðan vegna sára sinna eða hvort Tyler Durden hvarf endanlega.

Stutt ástæða okkar fyrir því að velja þessa mynd

Við völdum myndina Fight Club því þetta er vel þekkt mynd, með góðum leikurum og hún fékk góða dóma. Við vildum taka að okkur krefjandi verkefni og okkur fannst geðraskanir aðalpersónu myndarinnar vera mjög áhugaverðar. Myndin sýnir vel þær afleiðingar sem svefnleysi getur haft í för með sér þó svo að þetta hafi ekki verið sett fram á mjög raunverulegan hátt. Okkur langaði því að taka þessa kvikmynd að okkur og greina hana út frá því námsefni sem við höfum lært í Klínískri sálfræði þessa önnina og horfa á myndina með gagnrýnum augum.

 

Almenn umfjöllun um þá persónu sem við einbeitum okkur að

Persónan sem við ákváðum að fjalla um og greina er aðal persónan sem var leikinn af Edward Norton en hann er nafnlaus alla myndina. Hann er kallaður “sögumaður” sem er heitið sem við ætlum að nota við umfjöllunina. Sögumaðurinn var undir miklu álagi í vinnu sinni og mjög ósáttur með þann stað sem hann var á, sem olli því að hann gat ekki sofið og var hann því með svokallaða Svefnleysisröskun. Sögumaðurinn  fór til læknis til að leita sér hjálpar en læknirinn sagði honum bara að finna sér stuðningsfundi til að sjá hvernig alvöru sársauki liti út. Sögumaðurinn  mætti nokkrum sinnum í viku á stuðningsfundi til þess að gráta, það hjálpaði honum að sofa. Veika fólkið á stuðningfundunum hlustuðu virkilega á hann og í raun eina stuðningskerfið hans. Hann ferðaðist mikið á vegum vinnunnar og hann kunni vel við sig í flugvélum þar sem hann var farinn að líta á allt sem einn skammt (e. single serving), maturinn var einn skammtur, drykkirnir, og hann hitti fólkið bara einu sinni og svo aldrei aftur. Hann óskaði þess í hvert skipti sem hann flaug að flugvélin myndi hrapa, hann yrði ekki hræddur ef það myndi gerast og fannst þetta góð tilhugsun. Allt heimilið hans var í einum stíl og þurfti allt á einhvern hátt að minna hann á Yin-Yang. Hann eyddi miklum tíma í að kaupa hluti fyrir heimilið sitt sem skilgreindu persónuleikann hans. Hann átti allt sem honum langaði í. Sögumaðurinn var þreyttur á því að gera allt sem honum var sagt, hann var þreyttur á vinnunni sinni og hann fann ekki hamingju í neinu sem hann gerði. Hann bjó einn, átti ekki marga vini og samband hans við fjölskyldu sína var ekki gott og hann var alveg búinn að loka á foreldra sína. Hann var ringlaður, reiður og þráði eitthvað nýtt og betra og það er þess vegna sem hann byrjar að ofskynja Tyler Durden. Hann og Tyler Durden stofna karla klúbb sem hét Fight Club. Fight Club gekk síðan of langt og var orðin að hryðjuverkasamtökum, Hann vildi aldrei að þetta myndi ganga svona langt og samviskan var byrjuð að hafa áhrif á hann þar sem afbrotin voru orðin mjög alvarleg. Hann ákvað að reyna að stoppa næstu hryðjuverkaárásina sem kallaðist Project Mayhem. Þá var Tyler hvergi að finna, hann fór á alla mögulega staði sem Tyler gæti verið á en það var eins og að hann hvarf. Það tók hann langan tíma að átta sig á því að hann var sjálfur Tyler, meðlimir klúbbsins komu allt í einu fram við hann eins og Tyler og hann var farinn að taka raunveruleikann í sátt. Hann var þó enn smá skeptískur. Það er síðan ekki fyrr en í enda myndarinnar sem sögumaðurinn áttaði sig fullkomlega á því að hann og Tyler Durden eru sama manneskjan. Hann reyndi að losa sig við Tyler og skjóta á hann en áttaði sig síðan á því að það virkaði ekki að skjóta út í loftið á ímyndun. Hann tekur síðan þá ákvörðun að skjóta sig sjálfan í hausinn til þess að drepa Tyler Durden.

 

Val okkar á geðröskun persónunnar

Við teljum að aðalpersóna Fight Club hafi verið  með nokkrar af þeim geðröskunum sem má finna í DSM-5. Yfir myndina sýnir hann einkenni Svefnleysisröskunar, Hugrofssjálfsmyndarröskunar, Verulegs þunglyndisröskunar og í Hugrofi þegar hann upplifði sig sem Tyler var hann með skýr einkenni Andfélagslegrar persónuleikaröskunar.

Svefnleysisröskun (12.1.1. í DSM - 5)

Sögumaðurinn þjáist kláralega af Svefnleysisröskun. Samkvæmt DSM - 5 þá þarf “einstaklingur að eiga í erfiðleikum með að sofna og eins með að viðhalda svefni sem einkennist þá af því að vakna oft um nætur eða eiga í erfiðleikum með að sofna aftur eftir að vakna upp.” Sögumaðurinn átti erfitt með að sofna og erfitt með að halda svefni. Við teljum að ástæða þess að sögumaðurinn var með svefnleysisröskun sé vegna þess að hann var með Verulega þunglyndisröskun sem getur valdið vansvefni. Okkur grunar að svefnleysið sem sögumaðurinn upplifir  séu ein af orsökunum af Hugrofssjálfsmyndarröskuninni. Hann var líka undir miklu álagi í vinnunni þar sem hann ferðaðist mikið sem hefur líklega haft áhrif á svefn hans og dægurklukku.

Hugrofssjálfsmyndarröskun[1]  (8.1. í DSM - 5)

Það eru mörg dæmi í myndinni sem leiða í ljós að sögumaðurinn var með Hugrofssjálfsmyndaröskun. Samkvæmt DSM-5 þá er einstaklingur sem er með Hugrofssjálfsmyndarröskun með truflun á sjálfsmynd sem einkennist af tveimur eða fleiri sjálfstæðum persónuleikavitundum. Það er einmitt það sem einkennir aðalpersónu myndarinnar, hann var með Rofinn persónuleika og upplifði sig stundum sem sig sjálfan og stundum Tyler Durden. Tyler Durden var allt sem sögumaðurinn var ekki og allt sem hann vildi vera. Tyler Durden var frjálslegur, öruggur með sig, átti engar eignir sem heftu hann og hann bar ekki ábyrgð á neinu. Það var eins og sögumaðurinn hafi ekki aðgang að minni Tylers. Hann hafði aðeins aðgang að því sem hann sá Tyler Durden gera. Til dæmis man sögumaðurinn alls ekki eftir að hafa sofið hjá Marla vegna þess að það var Tyler Durden sem var að sofa hjá henni. Sögumaðurinn hefur ekki aðgang að þessum minningum þó svo að líkami hans hafi verið að vinna verkið. Hugrofið byrjaði í flugvélinni þar sem hann sá Tyler Durden fyrst og það er engin tilviljun að þegar hann kom heim var búið að sprengja upp íbúðina hans. Þetta voru  tímamót þar sem líf hans breyttist og hann byrjaði að hanga með Tyler Durden og lifa áhyggjulausu og frjálsu lífi. Íbúðin og hlutirnir hans voru ekki að binda hann lengur niður né vinnan hans. Þegar litið er tilbaka eru vísbendingar sem styðja rökin að hann sé með Hugrofssjálfsmydarröskun því þegar hann ætlaði að hringja í Tyler þá svaraði enginn, síðan upplifir hann það að Tyler hringir í sig tilbaka sem hefur líklega bara verið ímyndun. Hér hefur enginn svarað því Tyler var ekki raunverulegur.

Veruleg þunglyndisröskun (4.2 í DSM - 5)

Við sjáum að sögumaðurinn er með Verulega þunglyndisröskun þegar hann lýsir því að honum finnst eins og ekkert í kringum sig er raunverulegt. Hann hafði ekki ánægju né áhuga á neinu í lífinu sínu. Hann átti draumóra þegar hann var í flugvél og vonaðist eftir að flugvélin myndi hrapa í hvert skipti sem hann fór í flug og ímyndaði sér að það væri að gerast. Honum var alveg sama ef hann myndi lenda í flugslysi og deyja. Samkvæmd DSM-5 að þá eru einmitt endurteknar hugsanir um dauðann og endurteknar sjálfsvígshugsanir án sérstakrar áætlunar skilgreiningar viðmið fyrir Verulega þunglyndisröskun. Samkvæmt DSM-5 getur vansvefn einnig verið eitt einkenni Verulegrar þunglyndisröskunar og það var akkúrat það sem sögumaðurinn upplifði.

Andfélagsleg persónuleikaröskun (18.2.1. í DSM - 5)

Samkvæmt DSM-5 er Andfélagsleg persónuleikaröskun meðal annars“Langvarandi hegðunarmynstur vanvirðingar og brot á réttindum annarra” og “getur ekki haldið sig við félagsleg viðmið varðandi virðingu fyrir lögum, eins og meta má út frá endurteknum athöfnum sem varða handtöku.” Önnur einkenni eru líka lygar, misnotkun, hvatvísi, pirringur, ofbeldishneigð, eins og sjá má af endurteknum slagsmálum og árásum ásamt því að einstaklingur er sífellt óábyrgur.

Þegar aðalpersónan var í Hugrofi og upplifði sig sem Tyler þá var hann andstæðan af sjálfum sér. Þá var hann allt það sem hann vildi vera, frjálslegur, róttækur og yfir lögin hafinn. Tyler sýndi skýr einkenni Andfélagslegrar persónuleikaröskunar. Tyler þurfti ekki að borga fyrir húsnæði og bjó í yfirgefnu húsi, hann var ofbeldisfullur og braut ítrekað lögin. Hann seldi sápur sem voru gerðar úr mannafitu sem hann stal frá lýtalækningastofum og seldi síðan sápuna til snobbaðs fólks. Einnig var hann foringi hóps sem framdi sífellt hryðjuverkaárásir.

Ósvaraðar spurningar

Það var mjög óskýrt á meðan að maður var að horfa á myndina að Tyler Durden væri ekki til heldur væri hann bara ofskynjun hjá sögumanninum. Það kom ekki í ljós fyrr en í lok myndarinnar að sögumaðurinn hefði allan tímann verið Tyler, þá var slungið að velta fyrir sér hvernig hvert atriði var í raun og veru og að sögumaðurinn stóð einn á bakvið alla þessa þetta allt saman. Endirinn var líka frekar óljós. Það er eiginlega undir áhorfandanum komið að álykta um það hvernig myndin endar, þá hvort að sögumaðurinn deyji, hvort Tyler Durden dó í raun og veru eða jafnvel hvort að sögumaðurinn sameinaðist alter egoinu sínu sem var Tyler Durden og þeir urðu að einni manneskju. Það vöknuðu margar spurningar um sum atriði í myndinni eins og þegar sögumaðurinn og Tyler voru í slag, hvernig það fór fram. Var hann einn að ráðast á sig og kýla út í loftið? Þetta er ýkt dæmi um ofskynjun sem átti sér stað í langan tíma og spurning hvort að þetta sé raunverulegt. Að okkar mati var þessi kvikmynd alveg kolrugluð og það má svo sannarlega deila um það hvaða geðraskanir Sögumaðurinn var með, því hann er alveg 100% með nokkrar af þeim geðröskunum í DSM-5.

Hvor persónuleikinn fyrir sig hafði sitt eigið minni, sjálfstæði og hegðun og á ákveðnum tímapunkti, jafnvel endurtekið, gat persónuleikinn tekið fulla stjórn yfir líkamanum. Einnig var sögumaðurinn með mikið minnisleysi þegar hann er Tyler Durden.