Heimild: https://www.youtube.com/watch?v=nSbzyEJ8X9E
A Star Is Born
Elín Guðrún Þorleifsdóttir, Erla Valgerður Birgisdóttir, Erna Jóna R. Guðmundsdóttir, Sigurlaug Sara Gylfadóttir.
I. kvikmyndin
Við völdum að horfa á fjórðu útgáfu kvikmyndarinnar A Star Is Born sem kom út árið 2018. Myndin var fyrst gefin út árið 1937, aftur 1954 og svo í þriðja sinn árið 1976 en þá fóru stórstjörnurnar Barbara Streisand og Kris Kristofferson með aðalhlutverkin. Vert er að taka fram að myndin er ekki byggð á sannsögulegum atburðum.
Myndin fjallar um samband rokkstjörnunnar Jackson Maine (Jack) og Ally. En þau kynnast fyrir tilviljun á bar í New York borg þar sem Ally er að syngja á meðan Jack situr að drykkju. Jack hjálpar Ally að láta draum hennar um tónlistarframa verða að veruleika með því að bjóða henni með sér á tónleikaferðalag. Ally verður fljótt ljósið í lífi Jack og enda þau á að gifta sig. Samband þeirra er þó ekki það eina sem þróast hratt í lífi Ally en brátt fer hennar stjarna að skína bjartar en hans og fær hún eigin plötusamning sem og tónleikaferðalag.
Jack, sem hafði greinilega lengi glímt við áfengisdjöful, fellur dýpra og dýpra í fíknina á meðan allt er á uppleið hjá Ally. Á endanum verður neysla hans það mikil og stíf að hún veldur töluverðum erfiðleikum í þeirra sambandi. Þau rífast æ tíðar og verður hegðun Jacks til þess að valda Ally mikilli skömm, t.d. pissar hann á sig á sviði verðlaunahátíðar þar sem hún er að taka á móti sínum fyrstu verðlaunum. Jack lagði einnig á hana hendur en biðst þó fyrirgefningar þegar rennur af honum og virðist skammast sín mjög fyrir það hvernig hann hagar sér í áfengisvímunni. Hann reynir að fara í meðferð en virðist ekki geta unnið á rót vandans. Myndin endar á því að Jack fremur sjálfsvíg á sameiginlegu heimili þeirra á sama tíma og Ally heldur eina sína stærstu tónleika.
Myndin er framleidd og leikstýrð af Bradley Cooper sem fer einnig með aðalhlutverkið í myndinni ásamt söngkonunni Lady Gaga. Þeir Bradley Cooper, Eric Roth og Will Fetters skrifuðu handrit myndarinnar og ásamt Bradley Cooper og Lady Gaga leika Sam Elliot, Alec Baldwin, Andrew Dice, Brandi Carlile, Ron Rifkin og Barry Shabaka Henley í myndinni. Það má með sanni segja að myndin sé hlaðin stórstjörnum. A Stair Is Born fær 7,6 af 10 mögulegum í einkunn á síðunni IMDB (Full Internet Movie Database) og hefur fengið fjölda verðlauna og eru þau m.a. Óskars-, Golden Globe og BAFTA verðlaun.
II. val myndar
Við völdum þessa mynd af nokkrum ástæðum, sú fyrsta er hve vel myndin sýnir hvað glæsilega lífið í Hollywood er í raun ekkert eins og fjölmiðlar vilja láta okkur halda að það sé. Fallega og fræga fólkið er alveg jafn mennskt og við hin, þau glíma við sín vandamál alveg eins og allir aðrir. Þeirra vandamál eru mögulega kannski stærri en okkar hinna þar sem þau þurfa að takast á við þau í sviðsljósinu. Því hlýtur einnig að fylgja aukið álag að þurfa að takast á við persónuleg vandamál líkt og þunglyndi, kvíða og fíkn undir smásjá alheims-fjölmiðla. Þar sem allir hafa skoðun á því hvernig þú hagar þér og ekkert má út á bera í framkomu þinni án þess að allur heimurinn viti og tali um það.
Einnig fannst okkur efnistök myndarinnar mjög áhugaverð, sýnt er frá falli Jack á sama tíma og vonarstjarna Ally rís. Þó svo að Jack hafi fundið ástina í faðmi Ally er það ekki nóg til þess að hann geti unnið í eigin vandamálum. Að auki fannst okkur sá hluti sögunnar sem hefur að gera með meðvirkni Ally gagnvart hegðun og framkomu Jack áhugaverð. Sá hluti sögunnar sýnir svo vel hvað aðstandendur fíkla geta sogast inn í veikindi þeirra.
III. Almenn umfjöllun um persónu
Jackson Maine (Jack) fæddist og ólst upp á búgarði í Arizona fylki Bandaríkjanna ásamt föður sínum og hálfbróður. Móðir hans lést þegar hann fæddist og 13 árum seinna missir hann einnig föður sinn. Faðir hans hafði glímt við Áfengisvanda og var því ekki virkur uppalandi í lífi bræðranna. Jack var alinn upp af eldri hálfbróður sínum, Bobby eftir andlát föður síns. Jack var hæfileikaríkur tónlistarmaður og náði fljótt töluverðri frægð, Bobby bróðir hans fylgdi honum sem nokkurskonar umboðsmaður hans. Jack glímdi við Þunglyndi frá barnæsku sem stuðlaði án efa að Áfengis- og fíkniefnaneyslu hans síðar meir. Hann glímdi, eins og margar rokkstjörnur við eyrnasuð (e. tinnitus) og heyrnarskerðingu. Eyrnasuðið og heyrnarskerðingin hafði mikil áhrif á tónlistarferil hans og fíknin og þunglyndið sömuleiðis á samband hans og Ally. Hann fer að lokum í meðferð til þess að takast á við áfengisvandamál sín en það virðist ekki hjálpa honum að komast á beinu brautina.
Það er augljóst af söguþræði myndarinnar að vandamál Jack má rekja til erfiðrar æsku hans á búgarðinum og virðist hann eiga erfitt með að gera upp þá fortíð. Jack tók oft reiði sína út á Bobby bróður sínum og virtist þá reiðin byggjast á atburðum tengdum æsku þeirra. Jack var til dæmis mjög reiður út í Bobby þegar hann varð meðvitaður um að Bobby hafði selt búgarð fjölskyldunnar undir vindmyllugarð. Kom þó fljótt í ljós að Bobby hafði þá þegar tilkynnt Jack frá áformum sínum en Jack mundi ekki eftir því þar sem hann hafði verið í vímu þegar samtalið átti sér stað.
Þrátt fyrir sína erfiðleika var Jack mjög heillandi persónuleiki, yfirvegaður og mjög opinn fyrir nýjum aðstæðum eins og sást vel þegar hann labbaði óvænt inn á drag-show í leit sinni að næstu áfengisflösku. Hann hafði einnig nef fyrir hæfileikum, sem sást til dæmis þegar hann hitti Ally fyrst, en hann heillaðist strax af hæfileikum hennar og kom henni mjög fljótt á framfæri á eigin kostnað. Hann var duglegur að styðja við hana og hrósa henni bæði fyrir hæfileika hennar og útlit en hún var óörugg með hvort tveggja. Til að mynda var hann duglegur að hrósa henni fyrir nef hennar sem hún var mjög óörugg með en hann notaði svo þennan veikleika hennar gegn henni þegar þau rifust og hann var undir áhrifum áfengis. Þegar hafði runnið af honum leið honum mjög illa yfir því að hafa sært hana. En þetta var ekki einsdæmi þar sem Jack upplifði ítrekaðar skapsveiflur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna og átti hann það til að særa sína allra nánustu með stjórnsemi og afbrýðisemi. Eftir þessi skapofsaköst sýndi hann mikla eftirsjá og vanlíðan yfir framkomu sinni og upplifði hann sig sem byrði á sína nánustu.
IV. geðröskun persónunnar
Vandi Jacks er tvíþættur, hann glímir við Efnamisnotkun og Þunglyndi. Við ætlum að gera tvær greiningar fyrir efna-vanda hans, sú fyrri er Áfengisvíma (DSM 16.1.1). Til þess að uppfylla greiningarviðmið þessa flokks skv. DSM-5 þarf eftirfarandi að vera til staðar: (A) Áfengi er nýlega innbyrt, (B) Klínískt merkjanlega miður uppbyggileg hegðunar- og sálfræðilegar breytingar (t.d. óviðeigandi kynferðisleg eða ofbeldishneigð hegðun, skapsveiflur, skert dómgreind, minnkuð félagsleg- eða atvinnuvirkni sem á sér stað á meðan eða rétt á eftir inntöku áfengis. Þetta á klárlega við um Jack sem til dæmis beitir Ally ofbeldi í áfengisvímu, eitthvað sem hann sér svo mjög eftir þegar runnið er af honum. Hann virðist einnig draga sig frá félagslegum samskiptum á meðan á neyslu hans stendur sem og nefnir bróðir hans að hann standi sig verr í spilamennskunni undir áhrifum. (C) 1 (eða fleiri) af eftirfarandi einkennum, sem þróast á meðan eða rétt á eftir inntöku áfengis: 1. Óskýrt tal, 2. Óstöðugleiki í hreyfingum, 3. Óstöðugt göngulag, 4. Augntinun, augnriða (nystagmus), 5. Takmörkuð athygli eða minnistruflanir, 6. Sljóleiki, deyfð eða meðvitundarleysi. Fjölmörg dæmi eru í myndinni um flest þessara einkenna, til að mynda þegar hann bæði tekur þátt í tónlistaratriði á stórri verðlaunaafhendingu undir áhrifum og seinna á sömu hátíð þegar hann pissar á sig á sviðinu. Þá sjáum við óskýrt tal, óstöðugleika í hreyfingum og göngulagi sem og sljóleika og meðvitundarleysi. Að lokum er forsenda þessarar greiningar sú að (D) Einkennin eru ekki vegna almennrar læknisfræðilegrar ástæðu og eru ekki betur útskýrð með annarri geðröskun (Kristján Guðmundsson, 2014). Engin önnur ástæða virðist liggja að baki þessum einkennum sem Jack sýnir.
Seinni greiningin er Efnavíma (DSM 16.Þ). Samkvæmt DSM-5 þurfa eftirfarandi einkenni að vera til staðar svo hægt sé að veita þá greiningu: (A) Þróun á tímabundnum einkennum ákveðinna efna vegna inntöku (eða nálægð við) efnið. (B) Merkjanleg illa aðlöguð hegðun eða sálfræðileg breyting vegna áhrifa efnisins á miðtaugakerfið (vanlíðan, geðsveiflur, truflun á vitrænum ferlum, truflað gildismat og minnkuð félags- eða atvinnufærni), sem hefst skömmu eftir inntökuna. (C) Einkennin eru ekki vegna almennra læknisfræðilegra þátta og er ekki hægt að útskýra með tilvísun til geðrænna vandamála (Kristján Guðmundsson, 2014). Hér eiga í raun sömu rök við og hefur áður verið minnst á fyrir áfengisvímu.
Við ætlum að lokum að greina þunglyndisvanda hans sem Efna / lyfja-orsakað þunglyndi (DSM 4.5). Við veljum þessa greiningu fram yfir Verulega þunglyndisröskun (DSM 4.2) þar sem þunglyndi hans virðist eiga rætur sínar að rekja til áfengisneyslu hans. Það kom fram í myndinni að hann byrjaði mjög ungur að drekka í samneyti við föður sinn og á fullorðinsárum helst þunglyndi hans í takt við áfengis / vímuefnaneyslu. Til þess að uppfylla greiningarviðmið fyrir Efna / lyfja-orsakað þunglyndi þarf að vera til staðar: (A) Mikil og viðvarandi truflun á skapi með einkennum þunglyndis eða áberandi minnkaður áhugi eða ánægja á öllum eða nær öllum sviðum og (B) Vísbendingar um bæði það að einkenni A þróist á meðan eða innan mánaðar frá efnaáhrifum eða fráhvarfi eða eftir læknalyfjainntöku og að efnið/lyfið geti orsakað einkennin í A-lið (Kristján Guðmundsson, 2014). Jack uppfyllti bæði þessi skilyrði. Þegar hann neytti áfengis sjáum við viðvarandi þunglyndiseinkenni sem virðast heltaka líf hans. Hann hættir að sinna sjálfum sér, er áberandi skítugur, með sítt óumhirt hár, skegg og virðist lítið pæla í útliti sínu. Hann sýnir heldur engan áhuga á því sem er að gerast í kringum hann og virðist fá litla ánægju út úr neinu nema að viðhalda stanslausri vímu. Eina undantekningin á þessari hegðun er þegar hann kynnist Ally en þá virðist færast yfir hann einhver gleði en bróðir Ally staðfestir við hana að langt sé síðan Jack hafi lifað sig inn í tónlistina eins og hann gerir þegar þau koma fyrst fram saman.
Okkur finnst að truflun á skapi hans sé ekki betur útskýrð með annarri þunglyndisröskun en það er greiningarviðmið (C) Að truflunin sé ekki betur útskýrð með þunglyndisröskun. Þessi truflun á skapi helst, eins og áður hefur komið fram við efnamisnotkun hans og er hann er alls ekki í óráði á meðan á þessum tímabilum stendur sem er skilyrði (D) Truflunin á sér ekki eingöngu stað á meðan á óráði stendur. Síðasta skilyrðið er að (E) Röskunin veldur klínískt merkjanlegri þjáningu eða minnkun í félagslegri, atvinnulegri eða annarri mikilvægri mannlegri virkni (Kristján Guðmundsson, 2014). Þetta skilyrði uppfyllir Jack svo sannarlega en þegar hann sekkur í þunglyndisdal og efnamisnotkun sýnir hann engan áhuga á félagslegum samskiptum sem sést best í því hve fáa hann á í kringum sig. Hann á Ally og Bobby bróður sinn en engin önnur merkjan félagsleg sambönd. Hann virðist einnig hafa misst tökin á tónlistarferli sínum sökum neyslu sem sést einnig best þegar að hann er beðinn um að syngja á stórri tónlistarverðlaunaathöfn ásamt fleiri stjörnum en á síðustu stundu er annar yngri tekinn fram fyrir hann. Jack endar svo á að mæta í útsendinguna dauðadrukkinn. Hann sinnir heldur ekki sjálfum sér, eins og áður hefur komið fram þjáðist hann af eyrnasuði sem hann hunsaði og vildi lítið meðhöndla, hann hugsaði heldur ekki um sjálfan sig hvað útlit sitt varðaði.
Einnig er mikilvægt að hafa í huga í þessu samhengi að Jack endar líf sitt í lok myndarinnar en einn áhrifaþáttur sjálfsvíga er Áfengisfíkn, sem Jack svo sannarlega hafði. Samkvæt bók Comer og Comer (1992) eiga 20% þeirra sem gera tilraun til sjálfsvígs við króníska áfengisfíkn að stríða. Hættan eykst enn frekar ef viðkomandi á við önnur geðræn vandamál að stríða, eins og aðrar efnatengdar raskanir, sem áttu einnig við Jack.
V. hvaða spurningum er ósvarað?
Okkur finnst myndin fjalla um of eingöngu á samband Ally og Jack, það hefði verið áhugavert að vita meira um og skilja betur bakgrunn Ally. Hvað var það sem leiddi hana í samband með Jack þegar hann var augljóslega á slæmum stað í lífinu og hvað hélt henni með honum í gegnum alla hans erfiðleika. Áhorfandinn fær þá tilfinningu að hún vilji bjarga honum, sem sést best bæði í byrjun myndarinnar þegar hún kýlir aðgangsharðan aðdáenda hans og líka seinna þegar hann eyðileggur fyrir henni hennar fyrstu verðlaunaafhendingu með því að labba fullur á svið og pissa á sig en þá í staðinn fyrir að reiðast fer hún í hlutverk bjargvættarins. Við erum látin fá þá tilfinningu að hún sé vön því að bjarga/hugsa um föður sinn þar sem móðir hennar er fjarverandi úr lífi þeirra en meiri upplýsingar fáum við ekki.
Heimildaskrá
Comer, R. J., and Comer, J. S. (1992). Fundamental of Abnormal Psychology. 9.útgáfa. Worth Publishers.
Kristján Guðmundsson (2014). DSM-5 Flokkun geðraskana: Heildstæð samantekt á nýútkominni útgáfu af bandaríska kerfinu: DSM-5 (Diagnostic and Statiscital Manual of Mental Disorders) með samanburði á því Evrópska: ICD-10 (International Classification of Disorders). Handrit.