As Good as it Gets

James L. Brooks. 1997. As Good As It Gets (Imdb 8,2*).

James L. Brooks. 1997. As Good As It Gets (Imdb 8,2*).

 Heimild: https://www.youtube.com/watch?v=p_c-LiN9HNw

As Good as it Gets

Helga Guðmundsdóttir, Júlía Kristine Jónasdóttir og Tinna Kristín Indíana Kristinsdóttir.

 

I: Um myndina

Kvikmyndin As Good as it Gets varð fyrir valinu fyrir þetta verkefni. Hún fjallaði um skáldsagnahöfundinn Melvin Udall, einstæðu móðurina Carol Connelly, son hennar Spencer og samkynhneigða listamanninn Simon Bishop ásamt hundi sínum Verdell. Melvin bjó einn og átti það til að forðast félagslegar aðstæður. Hann borðaði morgunmat hvern einasta dag á sama borðinu á sama veitingastaðnum þar sem Carol Connelly vann sem þjónustustúlka. Carol var sú eina á veitingastaðnum sem gat borið ósveigjanleikann og ókurteisina í Melvin. Nágranni hans, Simon, varð fyrir líkamsárás þegar hann kom að þjófum í íbúð sinni og þá neyddist Melvin til þess að líta eftir hundinum hans. Í fyrstu reyndist það honum erfitt þar sem hann var gjarn á að passa sérstaklega vel upp á hreinlæti og var mjög ósveigjanleg manneskja þegar kom að hans daglega lífi og rútínu. Í kjölfarið myndaðist vinátta á milli Melvin og Simon, sem og þjónustustúlkunnar Carol. Melvin varð síðan ástfanginn af Carol þegar leið á myndina, líklegast vegna þess að hún var sú eina sem gat átt í eðlilegum samskiptum við hann. Þar að auki virtist hún geta sagt rétta hluti við hann án þess að hann reiddist henni á móti.

Leikstjóri myndarinnar er James L. Brooks, en hann skrifaði handritið ásamt Mark Andrus. Með aðalhlutverk í myndinni fara Jack Nicholson (Melvin), Helen Hunt (Carol) og Greg Kinnear (Simon). Aukaleikarar eru meðal annars Cuba Gooding Jr., Skeet Ulrich og Shirley Knight. Myndin fékk góða dóma á IMDB, eða 7,7 í einkunn og 85% á Rotten Tomatoes. Jack Nicholson og Helen Hunt hlutu bæði Óskarsverðlaun fyrir leik sinn í myndinni. Auk þess var Greg Kinnear tilnefndur til verðlauna í flokki aukaleikara og myndin var einnig tilnefnd sem besta myndin á Óskarverðlaunahátíðinni. Þess utan fékk myndin þrjár aðrar tilnefningar.

Heimild: https://www.google.com/search?q=as+good+as+it+gets&rlz=1C5CHFA_enIS894IS894&hl=en&source=lnms&tbm=isch&sa=X&ved=2ahUKEwim14_5gujvAhUmg_0HHV54B6QQ_AUoAXoECAEQAw&cshid=1617657492037719&biw=1550&bih=1169#img…

Heimild: https://www.google.com/search?q=as+good+as+it+gets&rlz=1C5CHFA_enIS894IS894&hl=en&source=lnms&tbm=isch&sa=X&ved=2ahUKEwim14_5gujvAhUmg_0HHV54B6QQ_AUoAXoECAEQAw&cshid=1617657492037719&biw=1550&bih=1169#imgrc=D8W5-wE1eJ7OlM

II: Ástæða fyrir vali

Ástæðan fyrir vali okkar á þessari mynd var sú að okkur þótti hún bæði skemmtileg og vel leikin. Hún sýndi tiltekið geðrænt vandamál á eðlilegan og skýran hátt. Áhugavert var að sjá að þrátt fyrir að persónur myndarinnar voru mjög ólíkar þá ná þær vel saman á endanum og það kom á óvart hvað þær gátu allar hjálpað hvor annarri í ýmsum aðstæðum með styrkleikum sínum. Myndin er klassísk fjölskyldumynd sem að flestir hafa gaman af og var því tilvalin fyrir þetta verkefni.

III: Almenn umfjöllun

Myndin leyfði manni að fylgjast með persónunni Melvin Udall og áhorfandinn var leiddur í gegnum hans sérstaka, daglega líf. Hann bjó einn síns liðs í sambýlishúsi í New York og virtist ekki ætla að breyta því við fyrstu sýn. Hann var ekki vel liðinn af nágrönnum sínum, enda gerði hann margt sem fór í taugarnar á þeim, móðgaði þá og líkaði verulega illa við þá. Dæmi má nefna þegar hann sá hund nágranna síns, Simon Bishop, á stigaganginum og setti hann í ruslalúguna svo að hann myndi ekki pissa á gólfið. Í myndinni kynntist Melvin konunni Carol betur og betur þar sem hann hitti hana daglega á veitingastaðnum sem hann borðaði á. Þar þóttist hann eiga eitt ákveðið borð út af fyrir sig. Carol átti son sem glímdi við asma og er hún sú eina sem lét sig hafa erfiða framkomu Melvin þegar hann borðaði á veitingastaðnum. 

Einn karakter myndarinnar, módelið Vincent Lopiano, sem hafði setið fyrir hjá Simon Bishop, lét vini sína ræna íbúð Simons. Simon komst að því og þá brugðust innbrotsþjófarnir við með því að lemja hann í klessu og Simon stórslasaðist í kjölfarið. Þar af leiðandi þurfti Simon að fara á spítala og Melvin sat uppi með að passa hund Simons. Eftir því sem leið á myndina byrjaði Melvin að finna væntumþykju gagnvart hundinum Verdell. Í rauninni líkaði honum betur við hundinn en nokkra aðra manneskju. Þessi ást sem hann fann fyrir hundinum er ólíkt þeim einstaklingum sem eru með Áráttu-þráhyggjuröskun að finna. Ástæðan er sú að þeim finnst dýr yfirleitt ekki vera nægilega snyrtileg.

Carol þurfti einn daginn að taka sér frí frá vinnunni til að hugsa um veikan son sinn og þann dag varð því röskun á daglegri rútínu Melvins, sem olli honum miklum kvíða. Þetta varð til þess að Melvin mætti heim til Carol og varð vitni að asmakasti sem sonur hennar fékk. Í kjölfarið sendi Melvin lækninn sinn Dr. Martin Bettes til hennar og Carol varð afskaplega þakklát fyrir þetta góðverk, þar sem hún átti ekki efni á slíkri þjónustu fyrir barnið sitt. Í raun gerði Melvin þetta til þess að fá Carol aftur til að koma í vinnuna og þjóna honum. Melvin, Carol og Simon fóru saman í ferðalag á blæjubíl. Í þeirri ferð byrjaði að myndast ástarsamband á milli Melvin og Carol. Klaufaskapurinn í Melvin reitti þó Carol til reiði, en þegar komið var aftur til New York sættust þau á ný.

IV: Útskýrð geðröskun

Í kvikmyndinni As Good as it Gets leikur Jack Nicholson einstakling með Áráttu-þráhyggjuröskun einstaklega vel, en hún er erfið kvíðatengd röskun. Samkvæmt skilgreiningu í DSM-5 einkennist Áráttu-þráhyggjuröskun af endurtekinni og viðvarandi hegðun með það markmið að draga úr kvíða. Með þráhyggjum er átt við hugsanir, hvatir eða ímyndir sem viðkomandi skynjar. Þessar þráhyggjur þrýstast fram og geta valdið vanlíðan og þjáningu. Áráttur eiga við um hegðun eða endurtekin andleg ferli sem einstaklingnum finnst hann verða að framkvæma sem svar við þráhyggjunni. Þannig myndast hringrás í lífi einstaklinganna sem er erfitt að greiða úr.

Eins og nefnt var áður býr Melvin einn síns liðs í fjölbýli til að byrja með og hann hefur allar sínar kúnstir út af fyrir sig. Til að mynda er hann mjög sýklahræddur. Dæmi um það er þegar hann þvær á sér hendurnar undir sjóðandi vatni, opnar í hvert einasta skipti nýja sápu sem hann notar einungis í nokkrar sekúndur hendir í ruslið og opnar þá nýja. Þegar Melvin fer í sturtu notar hann aftur sjóðandi vatn og er mun lengur en talið er eðlilegt. Hann vill ekki að neinn snerti sig og notar hanska þegar hann fer út af því hann vill sjálfur ekki snerta neitt með berum höndum. Hugsunin sem virðist spretta fram hérna er eins og hann sé sífellt að segja sér að eitthvað hræðilegt gerist ef hann framkvæmir ekki hegðunina til að draga úr kvíðanum.

Svo þegar hann kveikir eða slekkur ljósin eða læsir hurðinni á heimili sínu þá snýr hann lásnum fimm sinnum í hvert einasta skipti. Í gegnum myndina kemur skýrt fram hvað Melvin er ósveigjanlegur og óumhverfisvænn. Hann borðar á sama staðnum alla daga og vill sitja á sama borðinu í hvert skipti. Hann kemur með sín eigin einnota hnífapör í plasti og pantar nánast alltaf sama matinn. Auk þess vill Melvin hafa allt í röð og reglu og þegar hann er að pakka í ferðatösku hefur hann mikið skipulag. Svo virðist vera að hann gangi á mörk annarra bara til að slá á eigin kvíða, til dæmis hvernig hann sýnir dónaskap gagnvart fólkinu á veitingastaðnum. Ef röskun verður á daglegri rútínu hans, eins og þegar Carol mætti ekki til vinnu, fær hann mjög mikinn kvíða og finnst hann ekki hafa stjórn á eigin lífi. 

Þessar hugsanir hans og athafnir trufla daglegt líf hans mjög mikið og það snýst mest megnis um það að draga úr kvíða hans. Hann verður að fá að framkvæma þessar athafnir, annars fer hann á taugum.

Heimild: https://www.youtube.com/watch?v=PLs7OoHh2n4

V: Að lokum

            Stærsta vandamál Melvins sem viðkom hans geðröskun var sýklahræðslan. Þar af leiðandi var mjög sérstakt að sjá að honum tókst að sjá um hundinn Verdell þrátt fyrir þessa hræðslu, vegna þess að hundar eru ekki mjög hreinlætislegir. Líklegt er að þetta hafi verið sú meðferð sem hafði mest að segja fyrir hann og olli því smám saman að hann lærði að vinna með þráhyggjuna og svara ekki með áráttuhegðuninni. Melvin fór því í einhvers konar afhjúpunarmeðferð án þess að gera sér fulla grein fyrir því sjálfur. Carol þrýsti svolítið á mörkin hjá honum en gætti þess að fara ekki yfir strikið og valda honum of miklum óþægindum. Út myndina var sýnt frá því hvernig Carol olli því að Melvin varð sveigjanlegri. Hann gleymdi að bregðast við þráhyggjunum þegar hann var með henni. Seinasta atriði myndarinnar var mjög sterkt, þar var sýnt frá því hvernig þau labba hlið við hlið á gangstétt án þess að Melvin passi sig á því að stíga ekki á línur.