DAHMER, Jeffrey Lionel

Milwaukee mannætan Jeffrey Lionel Dahmer

Ása María Ásgeirsdóttir, Jana Þórey Bergsdóttir, Magnea Björg Friðjónsdóttir, Súsanna Ísabella Jóhannsdóttir

Kynning efnis

872745.jpg

Í þessu verkefni munum við koma til með að fjalla um ævisögu Jeffrey Dahmer og glæpaferil hans. Jeffrey Dahmer er einnig þekktur undir nafninu Milwaukee mannætan eftir hryllilegu morðin sem hann framdi. Dahmer var bandarískur raðmorðingi sem tók 17 karlmenn af lífi á árunum 1978 til 1991. Dahmer fæddist þann 21. maí árið 1960 og bjó hann í Milwaukee, Wisconsin til 6 ára aldurs en ólst hann upp í Ohio. Fjölskyldulíf hans einkenndist mikið af rifrildum milli foreldra hans. Móðir hans var mjög þunglynd og faðir hans fjarlægur. Það má segja að glæpaferill Dahmers hafi byrjað snemma þar sem hann byrjaði ungur að drepa dýr og safna þeim inn á heimili sitt. Á seinni unglingsárum Dahmers var hann byrjaður að fantasera um að sofa hjá meðvitundarlausum líkömum ungra karla. Þessar fantasíur urðu svo að raunveruleika þegar hann drap fyrsta fórnarlamb sitt aðeins 18 ára að aldri. Hann náði fórnarlömbum sínum með loforði um peninga eða kynlíf, í kjölfarið á því bauð hann þeim heim til sín þar sem hann byrlaði þeim lyf og kyrkti þá til bana. Dahmer er þekktur fyrir að hafa misþyrmt líkum fórnarlamba sinna ásamt því að geyma margvíslega minjagripi af þeim en það sem hann er allra þekktastur fyrir er að hafa borðað líkamshluta þeirra. Það var ekki fyrr en hann var orðinn 31 árs þegar hann loks náðist eftir langan glæpaferil. Jeffrey Dahmer var andstyggileg manneskja sem framdi ómannúðlega glæpi. Dahmer fellur undir allskyns mælikvarða sem allir hafa þann sameiginlega eiginleika að lýsa mannvonsku hans. Mælikvarðarnir sem við teljum hann falla best undir eru ýmsir flokkar DSM-5, Stones skalinn, Holmes og Deburger kvarðinn, hringkenninguna, Norris fasana og einn undirflokk dauðasyndanna sjö. Þessa mælikvarða munum við fara nánar í hér að neðan.

Glæpurinn sjálfur

Dahmer var varkár með að velja fórnarlömb sín á jaðri samfélagsins, því helst þau sem voru oft á ferð eða glæpsamlegir. Þetta gerði hann til þess að gera hvarf þeirra minna áberandi og draga úr líkum á handtöku hans. Hann leitaði til karlmanna, aðallega ameríska karlmönnum af afrískum uppruna, á samkynhneigðum börum, verslunarmiðstöðvum og strætóskýlum. Fyrsta tilraun hans til að misnota annan mann var þegar hann var 16 ára. Sú tilraun gekk þó ekki eftir en var þó byrjun hans á löngum glæpaferli. Dahmer var aðeins 18 ára gamall þegar hann framdi sitt fyrsta morð. Hann var á leið heim úr matvöruverslun þegar hann sá Stephen Hicks, puttaling. Dahmer bauð honum upp í bíl til sín og enduðu þeir heima hjá Dahmer. Þeir drukku saman en þegar Hicks vildi fara heim tók Dahmer það ekki í mál sem leiddi til átaka. Dahmer kom aftan að Hicks þegar hann sat á stól og sló hann tvisvar í höfuðið með lóði. Við það missti hann meðvitund og í kjölfar þess kyrkti Dahmer hann svo til dauða. Hann afklæddi lík Hicks og stundaði sjálfsfróun á meðan hann stóð yfir því. Dahmer limlesti lík Hicks með eggvopni en með sleggju muldi hann beinin niður sem hann dreifði um eign foreldra sinna og loks setti hann líkamshlutana í plastpoka sem hann gróf í garði foreldra sinna. Stephen Hicks var 18 ára nýstúdent þegar Dahmer drap hann. Þegar Dahmer lokkaði hann upp í bílinn sinn var Hicks á leið sinni á rokk tónleika á Chippewa Lake Park. Foreldrar Hicks höfðu ekki miklar áhyggjur af honum þegar hann hafði ekki skilað sér heim um nóttina þar sem hann var vanur að koma seint heim og þau ályktuðu því að hann hefði einfaldlega bara gleymt því að láta vita af sér. Það var ekki fyrr en sex dögum eftir að hann hafði ekki skilað sér heim þegar foreldrar hans tilkynntu hann týndan.

1_pbWDOlFKIZ3jYOP7RpRk8w.png

Aðferð Dahmers til að drepa og misnota fórnarlömb sín voru mjög sambærilegar fyrsta morði hans á Hicks. Eftir því sem hann drap fleiri því verr fór hann með lík fórnarlamba sinna, til dæmis nauðgaði hann þeim. Dahmer, eins og margir raðmorðingjar, geymdi minjagripi. Hann vildi að fórnarlömb hans væru hluti af honum að eilífu og borðaði hann því hluta af líkum þeirra. Í mælikvarða Holmes og Debruger fellur þessi hegðun undir flokk 3.E. Hann geymdi einnig líkamshluta líkt og höfuð og höfuðkúpuna ásamt því að taka myndir af þeim til þess að endurupplifa morðin og einnig til frekari kynlífsathafna. Hann geymdi þessa minjagripi á víð og dreif um um íbúðina sína, þar á meðal inn í ísskápnum sínum, frystinum en einnig geymdi hann kynfæri þeirra í krukkum. Hér kemur vel í ljós áráttu og þráhyggju hegðun hans. Jeffrey talaði einnig um það að hafa borað í höfuð lifandi fórnarlamba sinna og sprautað múratsýru þar inn.

Persónan sjálf

Jeffrey Dahmer var bandarískur raðmorðingi sem tók 17 karlmenn af lífi á árunum 1978 til 1991. Dahmer fæddist þann 21. maí árið 1960 og bjó hann í Milwaukee, Wisconsin til sex ára aldurs en ólst upp í Ohio. Er móðir Dahmers gekk með hann neytti hún óhóflegs magns lyfseðilsskyldra lyfja sem gæti hafa haft einhver vitsmunaleg áhrif á hann. Hann var nokkuð eðlilegt barn fram að fjögurra ára aldri, en þá fór hann í aðgerð vegna kviðslits sem virtist hafa áhrif á hegðun hans. Þegar Dahmer var ungur byrjaði hann að draga sig í hlé og átti fáa vini þar sem jafnöldrum hans fannst hann undarlegur. Erfiðleikar voru heima við þar sem móðir hans var mjög þunglynd og faðir hans fjarlægur. Fjölskyldulíf hans einkenndist mikið af rifrildum milli foreldra hans. Jeffrey fékk þráhyggju fyrir dauðum dýrum í kringum fjögurra ára aldur, það byrjaði líklega eftir að pabbi hans hafi verið að veiða dýr og verka þau. Samkvæmt föður hans fékk Dahmer unaðstilfinningu við að heyra beinin í þeim brotna. Upp frá þessu safnaði hann dauðum dýrum og þá helst stórum skordýrum, til dæmis fiðrildum, í krukkur sem þróaðist út í stærri dýr eins og hunda. Á unglingsárum fór hann að limlesta og kryfja dýr, ásamt því að misþyrma þeim. Þessi hegðun sýnir að hann hafi verið með áráttu og þráhyggjuröskun sem kom betur í ljós seinna á glæpaferli hans. Þegar Dahmer var á 8. ári var hann misnotaður kynferðislega af nágranna sínum. Þessi atburður gæti verið einn af þeim þáttum sem ýttu undir glæpsamlega hegðun hans í framtíðinni. Dahmer byrjaði ungur að neyta áfengis og sagði hann jafnöldrum sínum að þetta væru lyfin hans. Við kynþroska Dahmer áttaði hann sig fljótt að því að hann væri samkynhneigður en hann viðurkenndi það þó aldrei fyrir foreldrum sínum. Hann átti í skömmu ástarsambandi við unglings dreng en þeir stunduðu þó engar samfarir. Eftir að hann áttaði sig á því að hann væri samkynhneigður fór hann að fantasera um að misnota meðvitundarlausa karlmenn en þessar fantasíur urðu að raunveruleika þegar hann myrti  sitt fyrsta fórnarlamb. Foreldrar Jeffrey Dahmer skildu þegar hann var 18 ára og taldi hann það hafa verið hvati hans til að framkvæma fantasíur sínar um að misnota meðvitundarlausa menn. Þessar tilraunir mistókust og fór hann út frá því að nauðga líkum fórnarlamba sinna, samkvæmt DSM-5 sýnir þessi hegðun að hann var náriðill. Jeffrey sagðist ekki hafa verið á sakaskrá sem fullorðinn. Hann var samt sem áður handtekinn þrisvar sinnum fyrir að vera fullur á almannafæri. Ásamt því að hafa verið dæmdur fyrir kynferðisbrot af annarri gráðu á ungum dreng og var settur á skilorð í fimm ár. Dahmer var handtekinn fyrir að fróa sér fyrir fyrir framan tvo 12 ára drengi. Hann játaði einnig fimm fyrri tilvik um sjálfsfróun á almannafæri. Þetta er dæmi um strípihneigð sem er undir kynfráviksröskunum í DSM-5 mælikvarðanum en undir sama flokki er það að vera sadisti og náriðill sem hann sýnir seinna á ævinni. Fyrsta tilraun hans til að misnota annan mann var þegar hann var 16 ára gamall en þar faldi hann sig í runna með hafnaboltakylfu og beið eftir fórnarlambi sínu sem hann hafði valið vandlega nokkrum dögum áður. Þessi tilraun gekk ekki eftir en var þó byrjun hans á löngum glæpaferli.

160px-Jeffrey_Dahmer_HS_Yearbook.jpg

 Endir málsins

Alls myrti Dahmer 17 fórnarlömb og fellur því vel undir flokk 16 í Stone skalanum. Á árunum 1989 til 1991 myrti hann alls 13 karlmenn, en fyrir það hafði hann drepið fjóra. Tveimur mánuðum fyrir handtöku Dahmers hafði lögreglan fengið tilkynningu frá nágranna hans um ungan asískan dreng sem hljóp nakinn og blóðugur undan Dahmer. Lögreglan fylgdi þeim aftur heim og trúðu þeir lygum Dahmers, þar sem hann hafði sagt þeim að drengurinn væri 19 ára elskhugi hans. Lögreglan hafði ekki frekari afskipti af þeim og myrti Dahmer í kjölfarið unga drenginn sem var í raun aðeins 14 ára gamall. Eftir þessi afskipti Dahmers við lögregluna myrti hann fjögur fórnarlömb til viðbótar. Þann 22. júlí árið 1991 var Dahmer síðan handtekinn eftir að Tracy Edwards náði að flýja undan honum. Edwards ráfaði um göturnar þar til að lögreglumenn tóku eftir honum og leiddi Edwards þá að heimili Dahmers þar sem hann sagði ásakaði Dahmer um morðtilraun. Í kjölfarið ákváðu þeir að rannsaka íbúð Dahmers og fundu þar ljósmyndir af aflimuðum líkum auk annarra sönnunargagna eins og til dæmis líkamsleyfar sem hann hafði safnað að sér í gegnum glæpaferil sinn. Dahmer fékk á sig 15 lífstíðardóma og var ekki talinn ósakhæfur af dómstólum. Hann tók ekki út allan dóminn þar sem hann var myrtur af fanganum Christopher Sarver árið 1994 og sat þar af leiðandi einungis í þrjú ár. Dahmer sat inni á Columbia Correctional Institution í Portage, Wisconsin. Á meðan hann sat af sér dóminn er Dahmer sagður hafa fundið til eftirsjár fyrir gjörðum sínum og óskaði þess að hann myndi deyja. Við teljum að Dahmer hafi skáldað eftirsjá sína þar sem hann framdi fjölmarga grimmdarlega glæpi með hlé-tímum á milli þar sem hann hafði nægan tíma til að finna fyrir eftirsjá og leita sér hjálpar en gerði það aldrei. Þetta lýsir vel sadisma. Hann las biblíuna og lýsti því yfir að hann hafði endurfæðst í kristna trú, tilbúinn fyrir lok dómsins. Í tvígang var ráðist á Dahmer af meðföngum sínum. Í fyrri árásinni var reynt að skera hann á háls en hlaut hann einungis grunn sár og náði hann fullum bata af þeirri árás. Þann 28. nóvember árið 1994 var ráðist á Dahmer af Scarver á meðan þeir voru að þrífa sturtur fanganna. Dahmer var ennþá lifandi þegar hann var fundinn en lést á leiðinni á spítalann vegna mikilla höfuðáverka.

Fyrsti mælikvarði

Stone listinn

Stone listinn kemur úr bókinni The Anatomy of Evil eftir Michael H. Stone og kom hún út árið 2009. Það vakti mikla athygli að læknir skyldi rannsaka illsku vísindalega, skoða alla helstu glæpi, nauðganir, pyntingar og morð og setja það upp í lista vaxandi illsku. Listinn hefur 22 flokka og er flokkur 22 sá allra versti. Við teljum Jeffrey Dahmer falla undir flokk 16 í Stone listanum. Sá flokkur nær yfir einstaklinga með andfélagslega persónuleikaröskun sem fremja endurtekið grimmdarlega glæpi, þar á meðal morð. Dahmer framdi samtals 17 morð auk fjölmargra annars konar glæpa svo sem nauðgun og sjálfsfróun á almannafæri. Það að hann hafi  myrt 17 karlmenn og tekið sér hlé-tíma á milli fórnarlamba sinna gerir hann að raðmorðingja.

Annar mælikvarði: DSM-5

DSM stendur fyrir Diagnostic and Statistical Manual of mental disorders. Þessi handbók hefur að geyma upplýsingar og greiningar fyrir geðsjúkdómum. Í DSM-5 er hver geðsjúkdómur skilgreindur sem klínísk marktæk hegðunar- eða sálfræðilegt sjúkdómsmynstur einstaklinga. Okkur finnst Dahmer falla undir undirflokkana andfélagsleg persónuleikaröskun, nágirnd, sadismi og áráttu- og þráhyggjuröskun. Eitt af greiningaskilmerkjum í andfélagslegri persónuleikaröskun eru að einstaklingur framkvæmir margvíslega smáglæpi meðal annars að brjóta skilorð og að hafa fengið á sig dóma. Dahmer byrjaði ungur að fremja smáglæpi með misþyrmingu dýra. Hann var síðar dæmdur fyrir kynferðisafbrot og sat inni í tvö ár. Þessir ,,smáglæpir” leiddu hann síðan út í alvarlegri glæpi líkt og það að fremja morð.  

Áráttu- og þráhyggjuröskun einkennist af þrálátum hugsunum og endurteknum hegðunum sem hafa það markmið að draga úr þeim þrálátu hugsunum sem trufla daglegt líf. Þrálátu hugsanir Dahmers einkenndust af því að safna að sér dýrum og mannfólki. Þrálátu hugsanir hans þróuðust út í áráttukennda hegðun sem hann framkvæmdi með þeirri hrottalegu aðferð að drepa fólk og dýr. 

Undirflokkar kynfrávikisraskana eru meðal annars sadismi, strípihneigð og nágirnd. Nágirnd er það þegar að einstaklingur laðast kynferðislega að líkömum látinna einstaklinga. Þetta á einstaklega vel við Dahmer þar sem ein af ástæðunum fyrir morðum hans var til þess að geta nauðgað líkum fórnarlamba sinna. Þegar Dahmer framkvæmdi þessa hegðun var hann að uppfylla sínar dýpstu fantasíur. Það sem einkennir einstaklinga með sadisma er það að upplifa kynferðislega örvun við það að framkvæma eða fantasera um líkamlega sem og andlega þjáningu á öðrum einstaklingi, með eða án samþykkis þeirra. Dahmer byrjaði á að fantasera á kynferðislegan máta um þjáningu annarra. Eftir að hafa upplifað þessar fantasíur í nokkur ár færði hann þær yfir í raunveruleika með gjörðum sínum.

Þriðji mælikvarði:Holmes og Deburger

Holmes og DeBurger mælikvarðinn gengur út á það að útskýra ástæðu (e. motive) morða. Mælikvarðinn einblínir helst á raðmorðingja sem Jeffrey Dahmer er. Í mælikvarðanum eru ástæður morða flokkaðar í þrjá hluta en þeir eru ofsjónir, hugsjónir og sjálfselska. Sjálfselska hefur fimm undirflokka og er einn af þeim sá flokkur sem við teljum Dahmer falla best undir, en það er flokkur 3.E sem er félagsskapur. Þessir morðingjar eru atvinnumorðingjar og laða að sér fórnarlömb til að geta haldið þeim út af fyrir sig. Þeir drepa upp á þægindin og reyna að gera það í felum þegar tækifæri gefst. Við teljum að þetta sé hans ástæða fyrir því að taka þessa menn af lífi. Hann talaði um það að hann vildi að þeir yrðu partur af sér að eilífu, til þess át hann lík þeirra. Einnig geymdi hann ógrynni af líkamshlutum fórnarlamba sinna á víð og dreif um íbúð sína. Við teljum að þetta sé hans leið til þess að halda uppi félagsskap á heimili sínu.

Fjórði mælikvarði: Dauðasyndirnar 7 - Losti 

Dauðasyndirnar sjö draga uppruna sinn í kristna trú og er mælikvarði sem hefur sjö undirflokka. Fyrsti flokkur dauðasyndanna sjö er losti en það er sá flokkur sem við teljum Jeffrey Dahmer falla undir. Losti er illska vegna frávika í kynferðis- og persónulegum samskiptum, s.s. í sadisma, masókisma og yfirgangssemi. Eins og kom fram í DSM-5 mælikvarðanum þá teljum við Dahmer vera satista og vera með frávik í kynferðis- og persónulegum samskiptum. Glæpir hans eru virkilega grimmdarlegir og snérust um að hann gæti uppfyllt kynferðislegum löngunum sínum. Hann sýndi hvorki iðrun né samkennd með fórnarlömbum sínum. Hann hlutgerði fórnarlömb sín og fór mjög illa með líkama þeirra.

Fimmti mælikvarði: Norris fasarnir 

Morð Dahmers falla vel undir Norris fasana sjö. Norris mælikvarðinn lýsir ferli sem morðingi fer í gegnum. Þetta ferli felur í sér sterka fantasíu sem einstaklingurinn vill framkvæma. Undirbúningurinn inniheldur mikla eftirvæntingu og spenna morðingjans magnast eftir því sem einstaklingurinn nálgast verknaðinn sjálfan. Í kjölfar morðsins felst því oft þungt tímabil hjá morðingjanum og þegar þessu þunga tímabili léttir fer morðinginn að gera sig reiðubúinn til að hefja leikinn á ný. Fyrsti fasi mælikvarðans er hugrof, það er þegar morðingi fer að upplifa óraunveruleika tilfinningu. Þessi fantasía verður sterkari og sterkari þar til að einstaklingurinn færist nær því að framkvæma hugaróra sína. Jeffrey Dahmer var með þrálátar hugsanir um að drepa og sofa hjá meðvitundarlausum einstaklingum eða líkum. Fasi tvö felst í því að þegar hugrofsfasinn er orðinn það sterkur byrjar morðinginn að veiða og er það undirbúningur að því að ná sér í fórnarlamb. Þetta felst í því að velja aðferð, veiðivörur og veiðistaði. Aðferð Dahmers var að lokka til sín unga menn á ýmsum stöðum líkt og börum með því að borga þeim til að fara með sér heim. Næsti fasi kallast biðilsfasi, það felst í því að tæla fórnarlömb í gildrur en þetta gerði Dahmer með því að lauma svefn- eða eiturlyfjum í drykki mannanna. Því næst er það handtakan, þar sem sadismi morðingjans kemur all vel í ljós. Hann lokaði fórnarlömbin sín af á heimili sínu svo þau gætu ekki flúið ásamt því að byrla fyrir þeim. Morðfasinn tekur þá við en það er oft hápunktur ferilsins sem hófst með hugrofsfasanum. Hjá Dahmer var undirbúningurinn hápunkturinn og það sem kom í kjölfar morðsins. Þessi fasi er þegar einstaklingur framkvæmir loks hugaróra sína sem var í tilfelli Dahmers að nauðga meðvitundarlausum líkömum. Á þessu tímabili upplifir morðinginn miklar tilfinningar á borð við útrás, kvíða losun og kynferðislegri fullnægingu. Morðfasinn stendur stutt yfir og þá tekur minjagripsfasinn við. Tilfinningar hjaðna og morðinginn verður fyrst uppgefinn og svo þunglyndur. Dahmer sankaði að sér ýmsum minjagripum svo sem ljósmyndum og líkamshlutum og jafnvel át hann líkin til þess að þau yrðu partur af honum að eilífu. Seinasti fasinn er þunglyndisfasinn. Morðið uppfyllir ekki þrálátu hugsanir morðingjans og upplifir hann þá vonleysi og tómleikatilfinningu. Þegar þunglyndinu fer að létta fara þó fantasíurnar að byrja aftur og fer morðinginn aftur í hugrofsfasann og endurtekur ferlið.

Sjötti mælikvarði: Hringkenningin

Einnig er hægt að skýra hegðun Dahmers út frá hringkenningu Emerick, Gray og Gray. Hringkenningin nær yfir morðingja sem hafa fengið slæmt uppeldi. Morðinginn hefur mjög neikvæða mynda af sjálfum sér og lítur á sig sem fórnarlamb. Hann þróar með sér mjög óheilbrigða aðlögun, miklar fantasíur og fer hann að framkvæma þessar fantasíur. Fyrsta stig kenningarinnar kallast vænting höfnunar og felur í sér hræðslu við höfnun annarra. Þessi hræðsla er alvarlegri en reiði og kemur til vegna lítillar færni. Dahmer var félagslega vanhæfur og bjóst við því versta frá öllum. Annað stig kenningarinnar er afleiðing af fyrri hræðslu og einangrun, þetta eru særðar tilfinningar. Tilfinningar einkennast af einmanaleika og örvæntingu og fer viðkomandi að líta á sjálfan sig sem fórnarlamb sem merkir að Dahmer var orðið sama um eigið líf og fór að taka óþarfa áhættur. Út frá særðum tilfinningum kemur neikvæð sjálfsmynd sem er ýkt og verður að ranghugmyndum. Neikvæða sjálfsmyndin birtist með tvennum ólíkum hætti. Það er opinber eða dulin neikvæð sjálfsmynd. Erfitt er að staðsetja Dahmer í þessum undirflokkum neikvæðrar sjálfsmyndar. Stig fjögur er óheilbrigð aðlögun það einkennist af því að halda ofangreindum þáttum leyndum fyrir öðrum. Þetta leiðir morðingjann áfram yfir í allskonar einkennandi hegðun. Einkennandi hegðun Dahmers var meðal annars mikil neysla áfengis, einangrun frá öðrum og árátta og þráhyggja. Frávikskenndar fantasíur koma í kjölfarið. Hjá Dahmer voru þær að sofa hjá meðvitundarlausum einstaklingum eða líkum og jafnvel borða þau. Þessar fantasíur voru eldsneytið sem keyrðu Dahmer áfram. Á þessu stigi sér hann sig ekki lengur á neikvæðan hátt. Næst á eftir kemur þjálfunarferlið en á þessu stigi nást flestir morðingjarnir. Þetta stig er það fyrsta sem er öðrum sýnilegt og er morðinginn að æfa sig og undirbúa sig. Þetta stig hjá Dahmer einkenndist af mörgum ferðum á skemmtistaði fyrir samkynhneigða menn þar sem hann valdi út möguleg fórnarlömb. Svo kemur að glæpnum sjálfum, Dahmer byrjaði ferill sinn á því að drepa dýr sem þróaðist út í stærri glæpi eins og tæla að sér unga karlmenn, drepa þá, nauðga líkömum þeirra og limlesta þá. Eftir glæpinn kemur tímabundin eftirsjá en þetta tímabil varir oft stutt og ristir ekki djúpt sem samsvarar Dahmer. Dahmer talaði um að hann vildi hlutgera fórnarlömb sín sem er sterkt einkenni á þessu stigi. Fyrir honum voru þetta ekki manneskjur heldur einungis líkamshlutar sem hann eignaði sér. Seinasta stig kenningarinnar er réttlæting. Á þessu stigi finnur morðingi afsökun fyrir hegðunum sínum til þess að umbera eftirsjá morðsins. Hann reynir að réttlæta sínar gjörðir með því að segja að hann hafi ekki verið andlega til staðar þegar sum morðin áttu sér stað.

Heimildir

  1. Biography.com Editors. (2020). Jeffrey Dahmer Biography. The Biography.com. Sótt af https://www.biography.com/crime-figure/jeffrey-dahmer.

  2. History.com Editors. (2020). Cannibal and serial killer Jeffrey Dahmer is caught. History. Sótt af https://www.history.com/this-day-in-history/cannibal-and-serial-killer-jeffrey-dahmer-is-caught.

  3. Inga Kristjánsdóttir. (þáttastjórnandi). (2019). Illverk. [Hlaðvarp]. https://illverk.is.

  4. Jeffrey Dahmer. (2020). Crime Museum. https://www.crimemuseum.org/crime-library/serial-killers/jeffrey-dahmer/.

  5. Plakon, E. (2016). Jeffrey Dahmer. Research Gate. Sótt af https://www.researchgate.net/publication/305993597_Jeffery_Dahmer.

  6. Tabor, M. B. W. (1991). Sorrow and Frustration On Trails of the Missing. The New York Times. Sótt af https://www.nytimes.com/1991/08/12/us/sorrow-and-frustration-on-trails-of-the-missing.html.