Helga Guðmundsdóttir og Júlía Kristine Jónasdóttir
Þann 22. maí árið 2013 fannst átta ára drengur, Gabríel Fernandez, meðvitundarlaus á heimili sínu í Palmdale, Californíu eftir að móðir hans, Pearl Sinthia Fernandez, hafði hringt á neyðarlínuna til að tilkynna slys. Hún sagði lögreglunni að Gabríel hefði dottið yfir kommóðu, eftir gannislag við kærasta hennar, Isauro Aguirre og fengið högg á höfuðið. Þegar sjúkrabíllinn kemur á vettvang sjá þeir eldri bróður hans Ezequel standa úti og leiðbeina þeim hvert ætti að fara.
Sjúkraflutningamennirnir komu að Gabríel liggjandi á gólfinu. Hann var nakinn og blautur, með brotna höfuðkúpu, þrjú brotin rifbein, tennurnar barðar út með kylfu, rifið skinn, bitför og fjölda ytri áverka á öllum líkama hans. Á þeim tíma voru hvorki mamma hans né stjúppabbi að veita honum endurlífgun og sátu í sófanum og ekki með tár sjáanlegt á andliti. Sjúkraflutningamennirnir hófu samstundis endurlífgun, gáfu honum adrenalín (e. epinephrine) í æð til þess að fá hjartað í gang. CodeRED var sett í gang þar sem vegum var lokað, lögreglufylgd á sjúkrahúsið og með sírenur í gangi. Tveimur dögum seinna, þann 24. maí, 2013 er Gabríel tekinn úr öndunarvél og úrskurðaður látinn.
Pearl Sinthia Fernandez varð ófrísk af Gabríel Fernandez 23 ára gömul og var þetta þriðja barn þeirra Pearl Fernandez og Arnold Contreras sem var í fangelsi á þessum tíma. Eldri systkini Gabriels heita Ezequel og Virginia. Pearl vildi ekki halda meðgöngunni áfram eftir að hún komst að því að hún væri ófrísk af Gabríel. Þegar hún eignaðist hann yfirgaf hún sjúkrahúsið og skildi hann þar eftir. Hún afhenti frænda sínum forsjá yfir barninu, Michael og sambýlismanns hans, David. Þeir hugsuðu vel um Gabríel sem var alltaf brosandi, vel til fara og grét lítið. Hann var hjá þeim í næstum fjögur ár. Þegar Gabríel er í umsjá frænda síns þá fær Pearl símtal um að grunur liggi fyrir að Gabríel hafi verið misnotaður af honum. Enginn hefur raunverulega getað staðfest eða neitað þessum ásökunum. Michael sjálfur segir frá því í viðtali að þessar ásakanir séu rangar og að hann myndi aldrei nokkurn tímann detta í hug að gera slíkt. Ástæðan fyrir þessu er mögulega sú að bæði Isauro og Pearl kölluðu hann samkynhneigðan í særandi merkingu. Í kjölfarið flytur hann til ömmu sinnar og afa, Söndru og Robert. Árið 2012 fékk mamma hans og sambýlismaður hennar, Isauro, forræði yfir Gabríel. Pearl gaf í skyn að hún hefði áhyggjur af honum hjá ömmu sinni og afa en talið er að þau tóku hann eingöngu að sér til að fá meiri barnabætur frá ríkinu (Failure at all levels, Netflix; Sigrún Sigurpálsdóttir, 2020).
Um Gabriel Fernandez
Gabriel Fernandez bjó hjá Pearl og Isauro síðustu átta mánuðina í lífi sínu, þar sem átta ára Gabríel, algjörlega hjálparlaus, varð fyrir hrottalegu andlegu og líkamlegu ofbeldi af hálfu móður sinnar, Pearl og stjúpföður sínum, Isauro. Þegar skoðað var betur hvernig hlutirnir þróuðust þá virðist vera eins og að þau tvö tengdust á einhvern hátt með því að lemja Gabríel sundur og saman. Til er það sem nefnist fjölskyldu fórnarlambs heilkenni (e. family scapegoat syndrome), þar sem eitt barn fær að finna mest fyrir mistökum fjölskyldunnar, eftirsjá og skömm. Af einhverjum ástæðum, þá var það Gabriel Fernandez í þessu tilfelli. Ekki er til sönnun um að Ezequel og Virginia hafi verið misnotuð. Pearl lamdi Virginu í eitt skipti en í engri líkingu við það sem Gabríel þurfti að þola. Gabríel var meðal annars skotinn oft með loftbyssu (e. bb gun), hann var með skallabletti á höfðinu, laminn með belti, brenndur með sígarettustubbum og neyddur til þess að klæðast kjólum í skólann. Umsjónarkennari Gabríels tók eftir þessu þar sem hann mætti í skólann mjög illa farinn og margt benti til alvarlegs heimilisofbeldis. Hún tilkynnir þetta til Los Angeles county social workers og hringir þangað oftar en einu sinni (Failure at all levels, Netflix).
Í réttarhöldunum greinir Ezequiel, bróðir Gabríels, frá við hvaða heimilisaðstæður Gabríel lifði. Hann nefnir að Isauro tók hann oft upp með því að grípa utan um hálsinn á honum og lyfti honum þannig upp frá gólfinu og þrýsti honum upp við vegg. Einnig var Gabríel neyddur til þess að taka upp skít eftir kettina á heimilinu og þegar Gabríel gerði það ekki rétt þá þurfti hann að borða skítinn. Gabríel var geymdur í litlum skáp í herberginu hjá Pearl og Isauro. Hann svaf inni í þessum litla skáp, oft geymdur þarna inni á daginn og földu þau hann fyrir félagsráðgjöfum með því að læsa hann inn í skápnum þegar þeir komu í heimsókn. Skápurinn var læstur með handjárnum og þar sem Gabríel fékk lítið sem ekkert að borða þá reyndi bróðir hans, Ezequiel, stundum að troða banana í gegnum skápinn. Oft á tíðum var það erfitt þar sem hann var með bundið fyrir augun og sokk upp í munninum. Ekki nóg með það þá fékk Gabríel ekki alltaf að fara á klósettið og þurfti að gera þarfir sínar inni í skápnum og þrífa það svo sjálfur upp. Þegar Gabríel var ekki læstur inni í skápnum þá varð hann fyrir miklu andlegu og líkamlegu ofbeldi, þau kölluðu hann samkynhneigðan, slóu hann með kylfu á líkamann og höfuðið sem var til þess að tennur hans brotnuðu. Gabríel var stundum látinn í sturtu og spreyjað framan í hann með piparúða. Áður en Gabríel fór út úr húsi þá reyndu Pearl og Isauro að láta hann í kalda sturtu svo marblettirnir hyrfu og notuðu andlitsmálningu til að fela sárin sem höfðu myndast (Improper regard of indifference, Netflix).
Mælikvarðar
Klínískur sálfræðingur gaf út skýrslu sem snéri að taugafræðilegu mati á Pearl eftir að hafa talað við hana í tíu klukkustundir sem náði yfir fjóra daga. Niðurstöðurnar voru þær að Pearl hafði mjög takmarkaða vitsmunalega getu, var á mjög lágum skala í næstum öllum vitrænum prófum sem voru sett fyrir hana. Hún fór ekki í skóla eftir áttunda bekk og byrjaði að nota eiturlyf frá mjög ungum aldri. Þar af leiðandi eru miklar líkur að varanlegar skemmdir hafi orðið á heilaþroska hennar á þessum tíma við að nota eiturlyf. Pearl hefur ýmist verið greind um ævina með þunglyndissjúkdóm, þroskahömlun, hugsanlega persónuleikaröskun, hugsanlega áfallastreituröskun, frávik í heilaþroska og átröskun. Hún er augljóslega að glíma við mikið alla daga, allan daginn. Í skýrslunni er rakin saga um hópnauðgun sem hún varð fyrir og nauðgunartilraun af frænda hennar. Auk þess varð hún fyrir heimilisofbeldi, sem barn og fullorðin. Pearl sjálf greinir frá því að Sandra, móðir hennar, hataði hana. Sem barn flúði hún að heiman aðeins ellefu ára gömul (Failure at all levels, Netflix).
Eins og kom fram í mati klíníska sálfræðingsins sem greint var frá hér að ofan, þá nefndi hann að hugsanlega væri Pearl með áfallastreituröskun (e. post-traumatic stress disorder) í kjölfar áfalla í æsku, til að mynda líkamlegs- og andlegs ofbeldis. Einkenni röskunarinnar eru skelfing, hjálparleysi eða hryllingur og stöðugar hugsanir um atburðinn þar sem viðkomandi endurupplifir hann sífellt. Þar með teljum við margt benda til þess að Pearl sé líklega með áfallastreituröskun.
Pearl Fernandez virtist fá út úr því að koma illa fram við Gabríel, stjórna og fá sínu fram á ólöglegan hátt. Okkar mat á henni er að hún sé greind með andfélagslega persónuleikaröskun (e. antisocial personality disorder), þar sem viðkomandi sér aðra sem veikburða, til notkunar og ræðst gegn þeim. Hún vildi fá forræði yfir Gabríel þegar hann var 7 ára gamall í þeim eina tilgangi að fá auknar barnabætur frá ríkinu. Þar að auki sýndi hún honum aldrei ást og umhyggju allt hans líf. Síðan þegar réttarhöldin áttu sér stað þá virtist Pearl ekki hafa neina eftirsjá og sýndi engar tilfinningar í garð verknaðsins sem hún framdi.
Fyrir Pearl var Gabríel varla manneskja og leit frekar á hann sem hlut eða tákn fyrir eitthvað sem jafnvel minnti hana á fyrri tíma ævi sinnar. Mögulega sá hún eitthvað af sjálfri sér í honum sem henni líkaði ekki við og barðist gegn því. Út frá dauðasyndunum 7 ætlum við að tala um heiftarreiði sem birtist í sinni hreinustu mynd sem óstjórnanleg tilfinning af ofsareiði og ofbeldi sem leiðir til alvarlegra áverka og dauða. Jafnframt birtist reiðin sem hatur sem leitar til hefndar. Þessi mælikvarði virðist eiga vel við ef horft er á daginn sem Gabríel lést, hvernig reiði og hefnd móður hans, Pearl Fernandez, náði yfirhöndinni með þeim afleiðingum að hann lést af völdum alvarlegra áverka.
Ljóst er að Pearl er með margs konar raskanir, til að mynda þroskaskerðingu, geðröskun sem og þunglyndi. Allt þetta samofið ýtti enn fremur undir það að hún gæti framið svona hrottalegan glæp. Samkvæmt Stone 22 listanum eru glæpir flokkaðir í alvarleikaröð, allt frá morði af völdum sjálfsvarnar að kvalafullu pyntingarmorði. Flokkur 16 á við Pearl að okkar mati, þar kemur fram siðblindingi (e. psychopath) sem fremur margs konar grimman verknað, þar á meðal morð. Gabriel var vanræktur á margan hátt, líkamlega og andlega, í langan tíma. Einnig fannst okkur flokkur 22 sem er alvarlegasti glæpurinn eiga við hana. Þar kemur fram að morðinginn er einnig siðblindingi þar sem aðal hvöt hans er pynting. Allt sem Pearl og sambýlismaður hennar gerðu gagnvart Gabríel var pynting, hann fékk ekki nóg að borða, lúbarinn og var refsað við hið minnsta svo lengi mætti telja.
Kenning er til sem heitir hringkenningin og skiptist hún í níu þrep. Þessi kenning var upprunanlega um kynferðisglæpamenn en hefur nú verið yfirfærð á morðingja almennt. Fyrsta þrepið er vænting höfnunar, þ.e. hræðsla við höfnun annarra og er hún alvarlegri en reiði. Viðkomandi er félagslega vanhæfur bæði innan og utan heimilis. Þetta á vel við Pearl þar sem hún er ekki metin mikils innan fjölskyldunnar, skólakerfisins og var með slæmt orðspor á sér.
Í þrepi tvö koma fram særðar tilfinningar sem eru afleiðingar af fyrri hræðslu og einmannaleika. Viðkomandi lýtur á sig sem fórnarlamb. Ef horft er á þetta út frá Pearl þá sá hún sig sem fórnarlamb en ekki Gabríel. Ýkt neikvæð sjálfsmynd kemur í framhaldi af þrepi tvö sem felur í sér ranghugmyndir um sjálfa sig. Neikvæða sjálfsmyndin lýsir sér á tvenna vegu, annars vegar mikil sjálfsvorkunn og hins vegar að morðinginn kennir öllum öðrum um. Pearl var virkilega lyginn og fólk virtist taka orð hennar fram yfir orð Gabríels, hvort sem það var, lögreglan, félagsráðgjafar eða starfmenn barnaverndarnefndar. Samkvæmt þrepi fjögur þá vill morðinginn gera allt í sínu valdi til að komast hjá því að sýna veikleika sína. Þessir veikleikar geta verið til að mynda félagslegir, tengt neyslu eða annarri einkennalegri hegðun. Pearl og Isauro reyndu að hylja sjáanlega áverka á líkama Gabríels fyrir öðrum. Samt sem áður voru þeir það miklir að hægt var að sjá í gegnum þá.
Þrep númer fimm segir frá frávikskenndum fantasíum, þær eru eldsneytið sem keyrir morðingjann áfram og hann getur orðið hvað sem er. Mögulega leitar hann athygli eða hefndar. Fagfólk hefur greint frá því eftir að hafa heyrt bæði samræður á milli Isauro og Pearl og hvernig þau töluðu saman í skilaboðum að framkoma þeirra við Gabríel hafi verið einhvers konar forleikur eða kveikti í þeim á kynferðislegan hátt. Auk þess, eins og hefur komið fram áður, þá virtist Pearl vera að hefna sín á Gabríel út frá eigin reynslu í æsku. Þrep númer sex talar um þjálfunarferli morðingjana, sem er fyrsta sem verður öðru utanaðkomandi fólki sýnilegt. Á þessu þessu stigi eru morðingjarnir að undirbúa morðið. Þetta á við um Pearl á þann hátt að það var mörgum sýnilegt hvernig hún kom fram við Gabríel, til að mynda kennaranum hans og nágrönnum. Aftur á móti þá var þetta ekki planað morð í grunninn en augljóst er að hún og Isauro voru að drepa hann hægt og bítandi. Glæpurinn sjálfur er þrep sjö, þar sem morðið á sér stað. Eins og kom fram í þrepi sex þá var þetta ekki planað morð í sjálfu sér. Samt sem áður þá var þetta tímaspursmál hvenær Gabríel myndi látast af völdum vanrækslu og ofbeldis. Í þrepi átta þá kemur fram tímabundin eftirsjá sem lýsir sér á þann hátt að fórnarlömb morðingjanna hlutgerast og morðingjarnir vorkenna sjálfum sér mikið. Eftirsjáin snýr einungis í garð þeirra en ekki fórnarlambanna. Þetta kemur skýrt fram í réttarhöldunum þegar Pearl gefur út tilkynningu þar sem hún biðst fyrirgefningar gagnvart fjölskyldu sinni og vonar að þau geti fyrirgefið henni einn daginn. Tilkynningin var í raun aðeins til að hún kæmi betur út til að fá mildari dóm en greinilegt var að hún sýndi engar tilfinningar í kjölfar morðsins. Þáttur níu er réttlæting hegðunar til að umbera eftirsjána. Morðinginn sannfærir sjálfan sig að hann hafi verið þvingaður til verknaðarins vegna þess að hann sér sig sem fórnarlamb, út frá áföllum eða bjagaðri stöðu innan samfélagsins. Pearl fékk að sleppa við dauðadóm þar sem lögfræðingur hennar taldi það ekki vera sanngjarn dóm þar sem hún var langt fyrir neðan meðalgreind. Hringkenningin á síðan að endurtaka sig, þrep eitt til níu, en þar sem þau sitja bæði í fangelsi með lífstíðardóm getum við ekki fullyrt að þau hefðu drepið aftur eftir þetta. Þrátt fyrir það er okkar ályktun að það hefði gerst út frá því hvernig Pearl hagaði sér í kjölfar verknaðsins.
Síðasti mælikvarðinn sem við ætlum að styðjast við í greiningu á Pearl Fernandez er Cleckley 16 sem felur í sér sextán persónueinkenni sem geta einkennt siðblindan einstakling. Pearl hafði mikla þörf til þess að vera vond og beita Gabríel ofbeldi, hún átti erfitt með að láta sér leiðast og má þar með segja að hún hafi fengið örvun með því að beita Gabríel ofbeldi. Pearl fékk Gabríel til að ljúga að félagsráðgjöfum, kennunum og öðrum. Skyldi hann bregðast henni þá yrði honum refsað. Til að mynda í síðasta skipti sem félagsráðgjafi kom á heimili þeirra þá laug Pearl að honum að Gabríel væri fluttur til Texas og ráðgjafinn trúði því án þess að hugsa sig tvisvar um. Sökum þess má styðjast við eiginleika númer þrjú og númer fjögur á listanum. Næsta persónueinkenni er stjórnsemi sem á við hana á marga vegu, til dæmis þá var greint frá því að hún stjórnaði kærustum sínum mikið og var í rauninni einstaklingurinn sem réði í sambandinu. Pearl setti strangar reglur um að Gabríel mætti ekki umgangast neinn og þar að auki mátti hann ekki leika við systkini sín. Auk þess sýndi Pearl enga sektarkennd gagnvart gjörðum sínum og sást það vel í réttarhöldunum þar sem hún sýndi enga samkennd þar og hafði ekki gert áður gagnvart Gabríel. Í heildina litið tók hún ekki ábyrgð á eigin gjörðum. Út frá þessu fellur Pearl undir einkenni sex, átta og sextán.
Ofangreind umræða gefur sterklega til kynna að Pearl hafi glímt við slæma hegðunarstjórnun (e. poor behavior control) sem er eignileiki númer tíu. Pearl tók á sínum yngri árum mikið af eiturlyfjum, hætti snemma í skóla og var í slæmum félagsskap. Þessi slæma hegðun á yngri árum passar við eiginleika tólf og átján.
Pearl sýndi ábyrgðarleysi (e. irresponsibility), sem er eiginleiki fimmtán, gagnvart öllum börnum sínum, sérstaklega Gabríel. Strax við fæðingu yfirgaf hún hann á spítalanum og vildi ekkert með hann hafa. Hún sinnti ekki grunnþörfum barna sinna, til að mynda heilsu, fæðu, námi og heimilisaðstæðum. Síðasti persónueiginleikinn á lista Checkley 16 er afbrotafjölhæfni. Út frá öllu sem fyrr var nefnt má styðjast við það, annars vegar ofbeldi og vanrækslu á hendur barna sinna og hins vegar eiturlyfjaneyslu og morð.
Kerfið
Kerfið brást Gabríel á allan hátt með þeim afleiðingum að hann var tekinn allt of snemma. Félagsráðgjafar, lögreglan, yfirmenn skólans og aðrir ráðgjafar höfðu öll tækifæri til að bjarga lífi Gabríels en Department of Children and Family services (DCFS) brást honum sérstaklega. Auk þess var starfsmaður sem vann hjá County of Los Angeles (DPSS) sem hringdi í 911 og tilkynnti hversu illa farinn Gabríel var og að heimilisofbeldi ætti sér stað. Hann fékk það svar að þetta væri ekki neyðartilfelli og því ætti hann að tilkynna þetta til sýslumanns (Sheriff‘s department), sem hann gerði. Kerfið vissi alla þessa hluti, sem þýðir að þau gátu notað það til sönnunar og gert miklu meira en þau gerðu. Þau hunsuðu mjög augljós viðvörunarmerki og unnu sína vinnu ófagmannlega. Félagsráðgjafar hjá Department of Children and Family services og starfsfólk hjá Sheriff‘s department voru ákærð fyrir dómi tengt þessu máli og er þetta fyrsta skipti sem starfsfólk í þessum geira hafa verið ákærð fyrir að sinna ekki starfi sínu á fullnægjandi máta. Til að mynda þegar starfsfólk sem var að vinna í þessu máli kom inn á heimili Pearl og fjölskyldunnar, þá töluðu þau ekki við Gabríel né skoðuðu hann heldur treystu öllu því sem móðir hans sagði við þau sem var eintóm lygi (Death has got him by the hand, Netflix).
Í eitt skipti þegar félagsráðgjafi kom að heimili Gabríels sýndi Perl ráðgjafanum sjálfsvígsbréf þar sem Gabríel hafði skrifað eftirfarandi: “I love you so much that I will kill myself‘.” Þetta var eina skiptið sem Pearl ,,stóð upp fyrir honum“ eða gerði eitthvað fyrir hann sem myndi hjálpa honum. Aftur á móti þá var ekkert gert í því eins og í öll hin skiptin. Ástæðan var sú að Gabríel var ekki búinn að gera sjálfsvígsplan og að sögn móður hans skrifaði Gabríel þetta einungis til að fá athygli hennar (Failure at all levels, Netflix). Kvörtun eftir kvörtun var lögð inn í garð Pearl, annars vegar til barnaverndarnefndar og hins vegar til lögreglu en allar felldar niður. Þrátt fyrir rosalegar niðurstöður um alvarleika málsins, var því lokað. Leyndarmáli Gabríels og fjölskyldunnar var því ekki afhjúpað á þessari stundu (Sigrún Sigurpálsdóttir, 2020).
Síðustu dagarnir í lífi Gabríels
Á mæðradag, nokkrum dögum áður en Gabríel dó þá áttu krakkarnir að búa til mæðradagskort í skólanum. Umsjónarkennarinn hans greindi frá því að Gabríel hefði verið allan skóladaginn að gera kortið fyrir móður sína. Á kortinu stóð opnaðu hurðina og sjáðu hver elskar þig og þar var mynd af Gabríel. Hann skrifaði á kortið að móðir hans sýnir honum ást og að hún sé falleg. Auk þess skrifaði hann þrjár setningar þar sem segir: “I will wash the dishes,” “A time for me and you” og “I will be good.” Þetta gefur til kynna að það eina sem Gabríel vildi var að fá ást og umhyggju móður sinnar sem hann fékk aldrei að upplifa í lífi sínu.
Þann 22. maí árið 2013, dagurinn sem Gabríel lést, þá greinir Ezequiel frá því að hann kom heim til sín að kvöldi til og þar sá hann móður sína, Virginiu, systur sína og Gabríel í herbergi Virginiu. Mamma hans var reið vegna þess að Gabríel var að leika sér með Virginiu og byrjaði að lemja hann í andlitið. Hún dró hann inn í herbergi og Isauro fylgdi á eftir. Eftir það heyrði hann mikinn hávaða og skelli. Svo kom mamma hans fram og segir við Ezequiel að láta lögregluna vita eða sjúkraflutningamennina að Isauro og Gabríel hefðu verið að leika sér saman og að Gabríel hefði fengið högg á höfuðið.
Virginia segir einnig frá upplifun sinni þennan örlagaríka dag. Hún sat á endanum á rúminu og horfði upp á Isauro berja Gabríel þar til hann stóð ekki aftur upp. Þegar hann lá á gólfinu þá byrjuðu þau bæði að sparka í hann. Hann var laminn 20 sinnum í líkamann og 10 sinnum í höfuðið. Þau dróu hann í sturtuna og öskruðu á hann að vakna, þegar í ljós kom að Gabríel var meðvitundarlaus þá ákveður mamma þeirra að hringja á lögregluna og skipaði henni að ná í lak og þrífa upp allt blóðið sem var á gólfinu. Gabríel var síðan úrskurðaður heiladauður þann 24. maí 2013 (Improper regard of indifference, Netflix).
Niðustaða dómsmálsins
Pearl gerði sáttmála í febrúar 2018 þar sem hún viðurkenndi morð af fyrstu gráðu sem gerði það að verkum að hún fékk ekki dauðarefsingu. Verjandi hennar hélt því fram að vegna lágrar greindarvísitölu hennar væri dauðarefsing „óviðeigandi.“ Fyrsta stigs morð er skilgreint sem ólögmætt morð sem er bæði gert af vilja og fyrirhugað. Pearl afplánar nú lífstíðardóm í Chowchilla State kvennafangelsinu. Hún mun aldrei eiga möguleika á skilorði eða fá tækifæri til að áfrýja refsingu sinni. Isauro Aguirre var fundinn sekur um fyrsta stigs morð og dæmdur til dauðarefsingar. Hann er enn á lífi og er á dauðadeild (e. death row) í San Quentin fangelsi í Kaliforníu. Frá árinu 1976 hafa aðeins 13 aftökur verið framkvæmdar og sú síðasta átti sér stað árið 2006 og því er líklegt að aftaka Isauro eigi sér ekki stað fljótlega. Andlátsdagur hans hefur ekki enn verið staðfestur og líklegt er að hann deyi í fangelsi frekar en að vera tekinn af lífi (Mitchell, 2020).
Mál Gabríel Fernandez var vikilega alvarlegt barnaníðsmál þar sem Barnavernd brást honum á allra versta hátt. Þetta mál hefur vakið upp gríðarlegt umtal um velferð barna um allan heim þar sem málið var gert opinbert með heimildarþáttum á Netflix. Fólk sem vann við barnavernd og komu nálægt þessu máli á einhvern hátt horfðu framhjá öllum viðvörunarmerkjum sem bentu á vanrækslu og ofbeldi í garð Gabríels. Áhugavert var að draga saman mögulegar ástæður sem lágu að baki voðaverki Pearls, móður Gabríels, með þeim hætti að tilgreina sex mismunandi mælikvarða á hana sem persónu. Ljóst er að Pearl hefur sjálf gengið í gegnum hræðilega hluti sem barn og hún sem fórnarlamb hafi ekki séð Gabríel sem barn sem þurfti á stuðningi að halda heldur var hún að sjá part af sjálfri sér í honum. Pearl lætur reiði og hatur sem hún þurfti að þola í æsku bitna á Gabríel og er líklegt að Pearl hafi aldrei fundist hún vera einhvers virði. Ofbeldi gagnvart börnum er alltof algengt í heiminum í dag og því er mikilvægt að upplýsa börn sem og fullorðna hvert skal leita ef viðkomandi verður fyrir ofbeldi eða verður vitni að slíku svo hægt sé að beita viðeigandi úrræði.
Heimild: https://www.youtube.com/watch?v=UlVZlF_4EpY&app=desktop.
Heimildaskrá
Knappenberger, B. (leikstjóri). (2020). The trials of Gabriel Fernandez: Death has got him by the hand [þáttur í sjónvarpsþáttaröð]. Netflix. Los Angeles, LA: Production Co: Luminant Media.
Knappenberger, B. (leikstjóri). (2020). The trials of Gabriel Fernandez: Failure at all levels [þáttur í sjónvarpsþáttaröð]. Netflix. Los Angeles, LA: Production Co: Luminant Media.
Knappenberger, B. (leikstjóri). (2020). The trials of Gabriel Fernandez: Improper regard of indifference [þáttur í sjónvarpsþáttaröð]. Netflix. Los Angeles, LA: Production Co: Luminant Media.
Mitchell, M. (2020, 2. september). Express. Gabriel Fernandez: Is Gabriel Fernandez’s killer still alive? Did Isauro Aguirre die? https://www.express.co.uk/showbiz/tv-radio/1251322/Gabriel-Fernandez-Is-killer-still-alive-Pearl-Fernandez-did-Isauro-Aguirre-die-death-row.
Sigrún Sigurpálsdóttir (framleiðandi). (2020, 4 mars). Hvað er málið? [hlaðvarp]. Sótt af https://podcasts.apple.com/is/podcast/hva%C3%B0-er-m%C3%A1li%C3%B0/id1490936811.