Kansas

Dennis Rader - BTK

Alma Einarsdóttir & Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir

Kynning

Dennis Rader, betur þekktur sem BTK morðinginn, er bandarískur raðmorðingi sem myrti 10 manns yfir þrjá áratugi í Wichita, Kansas. Hann kom sjálfur með skammstöfunina BTK, en hún kom til vegna þess að hann batt (e. bound), pyntaði (e. tortured) og myrti (e. kill) fórnarlömb sín, en flest fórnarlömb hans voru konur. Rader lék lausum hala í 14 ár eftir síðasta morðið, en það sem varð honum að falli að lokum var athyglissýki hans.

Dennis Rader í réttarsalnum, algerlega afslappaður.

Glæpurinn

Eins og hefur nú þegar komið fram, þá myrti Rader 10 manns. Fjórir meðlimir Otero fjölskyldunar urðu fyrst fyrir barðinu í janúar árið 1974, en hann braust inn til þeirra og myrti þau, þar með talin 2 af 5 börnum hjónanna. Í því tilfelli notaði hann reipi til að kyrkja móðurina og dótturina, en hann hengdi einnig hina 11 ára Josephine upp á reipinu sem hún var kyrkt með og fróaði sér yfir eða við líkið. Hann kæfði hinsvegar karlmennina, föðurinn og 9 ára son hjónanna, með plastpoka. Hann skrifaði nákvæma lýsingu á morðunum í bréf, sem hann síðan geymdi í bók sem var geymd á Wichita Public bókasafninu. Þremur mánuðum síðar myrti hann hina 21 árs Kathryn Bright. Hann reyndi að kyrkja hana, en þar sem hún barðist of mikið um þá stakk hann hana þrisvar sinnum. Hann reyndi einnig að kyrkja yngri bróðir hennar, sem var vitni af árásinni, en endaði síðan á að skjóta hann þegar hann barðist á móti. Hann lifði hinsvegar árásina af.

Myndin sýnir lík eins fórnarlambs Dennis.

Hann myrti síðan ekki aftur fyrr en 1977, en þá myrti hann þriggja barna móðurina Shirley Relford. Hann læsti börnin þrjú inn á baði áður en hann batt hana, kyrkti hana með reipi og kæfði hana með plastpoka. Heilum 9 mánuðum seinna kyrkti hann hina 25 ára Nancy Fox með sokkabuxum inni á heimili hennar. Skömmu eftir morðið á Nancy Fox sendi hann bréf til sjónvarpsstöðvar í Wichita þar sem hann tók ábyrgð á öllum morðunum sem hann hafði framið til þessa. Þar fór hann fram á að málunum yrði gefin viðeigandi athygli og kom sjálfur með margvíslegar uppástungur á nöfnum sem gætu passað fyrir hann, en þar á meðal var skammstöfunin BTK. Hann nefndi einnig í þessu bréfi að hann hafi verið undir áhrifum af þætti X (e. factor X), sem hann lýsti sem yfirnáttúrulegum krafti sem hafði einnig hvatt aðra raðmorðingja til þess að myrða. Hann myrti ekki aftur fyrr en árið 1985, en þá kyrkti hann hina 53 ára Marine Hedge með sokkabuxum. Á þeim tíma var hann forseti í kirkjuráði Christ Lutheran kirkjunni, en hann fór með lík hennar í kirkjuna og tók þar myndir af líkinu í ýmsum bindingar stellingum áður en hann henti líkinu í yfirgefinn skurð. Hann kyrkti síðan hina 28 ára Vicki Wegerle, enn og aftur með sokkabuxum, inni á heimili hennar árið 1986. Síðasta fórnarlamb hans var hin 62 ára Dolores Davis sem var einnig bundin og kyrkt með sokkabuxum inni á heimili sínu, en hann myrti hana árið 1991.

Persónan

Það bendir allt til þess að Dennis Rader hafi átt venjulega barnæsku og var honum lýst sem venjulegum, vel til höfðum og kurteisum dreng. Þrátt fyrir þessar lýsingar viðurkenndi Dennis seinna meir að hann hafi hann verið með sadískar kynlífs fantasíur um bindingar á unga aldri og hafði hann unun að því að drepa og pynta lítil hjálparlaus dýr, þá sérstaklega að hengja ketti. Honum tókst augljóslega að fela þetta fyrir öðrum. Dennis útskrifaðist úr menntaskóla með einkunnir í meðallagi og þá lá leið hans í háskóla, en hann hætti ári seinna og fór í herinn. 4 árum síðar var hann leystur frá störfum og árið 1971 giftist hann konu að nafni Paula Dietz, en þau voru gift allt að handtöku Dennis og eiga þau 2 börn saman.

Þetta er víst Dennis sjálfur. Hér er hann klæddur í föt eins fórnarlambs síns og bundinn til að uppfylla kynlífsfantasíur sínar, en hann vildi upplifa glæpinn aftur. En hver tók myndina?

Hann flakkaði svolítið á milli starfa og reyndi að fara aftur í háskóla, en á þeim tíma sem Dennis var atvinnulaus átti hann það til að labba milli skólasvæða og um ákveðin hverfi til að skoða verðandi fórnarlömb á meðan að kona hans var í vinnunni. Hann ímyndaði sér hvernig það myndi vera að drepa og pynta konur með bindingum og með ýmsum ofbeldisfullum leiðum. Það var ekki svo löngu síðar sem hann ákvað að finna sér alvöru fórnarlömb, en ekki bara ímynduð og þar með hófust morðin árið 1974. Í einni af löngu pásunum hans frá morðunum milli 1977-1985 var hann kominn í fullt starf, var orðinn forseti kirkjuráðs í Christ Lutheran kirkjunni og tveggja barna faðir. Hann sagði aldrei beint hver ástæða pásunnar var, en viðurkenndi þó að hann var alltaf að leita að fórnarlömbum. Dennis sagði einnig frá því að hann hafði þóst vera kvenkyns fórnarlömb hans sem partur af kynlífs fantasíum sínum. Það eru til myndir af honum (t.d. þessi hér að ofan) bundnum, í fötum kvennanna sem hann drap til þess að hann gæti upplifa þessa ánægju tilfinningu sem hann fékk þegar hann drap þær að nýju. Staðreyndin er samt sú að hann náði einhvern veginn að fela sínar sjúku langanir og afbrot fyrir öllum, sem kemur á óvart miðað við hversu þekktur hann var í samfélaginu. En fólki hefur líklega ekki grunað hann, einmitt vegna þess að hann kom fyrir sem hinn hefðbundni fjölskyldumaður.

Það er hægt að færa rök fyrir því að Dennis Rader hafi verið með Andfélagslega persónuleikaröskun (18.2.1. í DSM-5) og hefur það verið tilgreint í mörgum heimildum að svo sé raunin. Hann byrjaði ungur að pynta og drepa dýr, ásamt því að vera með draumóra um að pynta annað fólk. Hann hélst illa í námi og lengi vel hélst hann illa í vinnu, en fyrst og fremst sýndi hann aldrei neina eftirsjá. Einu viðbrögðin sem hann sýndi hvað varðaði morðin var í rauninni stolt. Það væri líka hægt að greina hann með Sadisma (19.6. í DSM-5), þar sem hann örvaðist kynferðislega á því að horfa á fórnarlömb sín þjást og gerði það sem hann vildi við þær algjörlega gegn þeirra vilja, augljóslega. Það er líka hægt að færa rök fyrir því að Dennis hafi verið Masókisti (19.5. í DSM-5), þar sem hann batt einnig sjálfan sig sem partur af fantasíunni og er hann því í rauninni með greininguna sadomasochism.

Endirinn

Dennis Rader var handtekinn í febrúar árið 2005, þá 14 árum eftir síðasta morðið. Á því tímabili sem hann var að myrða fólk lék hann sér að því að minna lögregluna á það að hann væri enn þarna úti, en eftir síðasta morðið heyrðist ekki múkk frá honum. Það breyttist hinsvegar þegar birt var grein í fréttablaði árið 2004, 30 árum eftir að morðin hófust, sem fjallaði um mál BTK morðingjans og var því haldið fram í þeirri grein að morðinginn væri líklega annað hvort látinn eða sæti í fangelsi. Þá tók hann sig til og byrjaði að senda lögreglu bréf og myndir að nýju, þá sérstaklega hvað varðaði síðasta morðið. Það sem varð honum að falli að lokum var þegar hann spurði lögreglu, í bréfi sem hann sendi þeim, hvort hægt væri að rekja til hans disk ef hann myndi senda þeim eintak. Þeir svöruðu honum í auglýsingadálki í fréttablaði að svo væri ekki og það væri í lagi fyrir hann að senda diskinn, sem hann svo gerði. Lögreglan náði að rekja gögn af disknum, sem gaf þeim upplýsingar um tölvuna sem hefði verið notuð. Tölvuna var hægt að rekja til Christ Lutheran kirkjunnar, þar sem hann var forseti kirkjuráðsins, og fundu þeir einnig að notandinn bæri nafnið Dennis.

Til að negla hann endanlega fengu þeir heimild til að bera saman DNA sýni sem höfðu fundist á glæpavettvöngum og leghálssýni sem hefði verið tekið hjá dóttur Dennis. Niðurstöður leiddu í ljós að dóttir Dennis hefði klárlega náin fjölskyldutengsl við þann sem hefði myrt allt þetta fólk og var Dennis Rader handtekinn í kjölfarið og ákærður fyrir morðin. Hann lýsti yfir sekt sinni og fékk þar af leiðandi 10 lífstíðardóma fyrir morðin. Dómur hans er því að lágmarki 175 ár, án möguleika á reynslulausn. Dennis Rader er enn á lífi og er í dag 78 ára, en hann mun sitja það sem eftir er ævinnar í fangelsi fyrir morðin.

Heimild: https://www.youtube.com/watch?v=ZXa_YreEFEs

Mælikvarðar

 

Mælikvarði 8: cleckley 16 atriði

Dennis Rader passar líklega betur við mælikvarða 8, en hann er vissulega ekki með öll 16 einkennin sem Checkley nefnir sem einkenni siðblingja. Hann var líklega ekki óáreiðanlegur, eða með litla félagslega svörun þar sem hann var forseti kirkjuráðs og virtist vera almennt vel liðinn af þeim sem þekktu til hans. Það er síðan ekki nægilega mikið vitað um kynlíf hans til að draga ályktanir um það hvernig það var, en hann eignaðist allavega tvö börn með konunni sinni þannig að eitthvað kynlíf hefur verið stundað. Hvort það hafi verið sjaldan og ópersónulegt vitum við hreinlega ekki. Þau 13 atriði sem standa eftir af einkennalista Cleckley á síðan í rauninni bara frekar vel við Dennis, með sinn yfirborðsjarma, óheiðarleika gagnvart fjölskyldu og vinum um það hvaða mann hann hefði í raun að geyma, og algjöran skort á eftirsjá svo eitthvað sé nefnt.

 

Mælikvarði 19: Babiak & hare flokkunin

Dennis Rader er kjörið dæmi um skilgreiningu Hera og Babiak í mælikvarða 19 á Stjórnandi siðblindingja (e. manipulative psychopath). Hann blekkti og notaði sjarma á fjölskyldu og nágranna sína, enda kom hann fyrir sem hinn hefðbundni fjölskyldumaður sem var einnig forseti í kirkjuráði. Hann var ekki fljótfær, allavega ekki þegar kom að morðunum, enda búinn að fylgjast með flestum fórnarlömbum sínum áður til að ákveða hvenær væri best að ráðast til atlögu út frá dagskrá þeirra. Lífstíll hans gaf heldur engan veginn til kynna hvað væri í gangi bak við tjöldin.

 

Mælikvarði 15: CCM flokkunin

Í mælikvarða 15 fellur Dennis Rader undir atriði 134: Sexual homicide, sadistic. Hann passar þar vegna þess að hann var með þessar kynferðislegu langanir að binda fólk og pynta það, sem leiddi síðan til dauða fórnarlamba hans. Hann var búinn að vera með þessar fantasíur lengi og ákvað svo að lokum að gera þær að raunveruleika. Dennis fékk eitthvað út úr því kynferðislega að pynta fórnarlömb sín, þar sem hann stjórnaði þeim oftast algjörlega. Eins og hefur komið fram þá fannst oft sæði nálægt kvenkyns fórnarlömbum hans, sem sýnir okkur að hann örvaðist kynferðislega þegar hann uppfyllti þessa kynferðislegu löngun sína að drepa þær með kyrkingum og fróaði sér svo.

 

Mælikvarði 17: NOrris 7 fasar

Norris fasarnir í mælikvarða 17 passa ágætlega við Dennis Rader. Til að byrja með þá eru morðin sem Dennis framdi allt vegna fantasía hans, en það er vísað í fantasíur í hugrofsfasanum. Fantasíur Dennis byrjuðu þegar að hann var bara lítill strákur, en með tímanum urðu fantasíurnar ekki nóg og þá byrjaði hann að framkvæma þær í raunveruleikanum. Þá komum við að veiði fasanum, en hann sat oft um fórnarlömb sín dögum saman til að sjá hverjar venjur þeirra voru, hvernig best væri að fremja morðið o.s.frv. Þá er hægt að nefna að áður en hann myrti eitt fórnarlamb sitt, þá var hann búinn að undirbúa allt sem hann ætlaði sér að nota í morðinu daginn áður svo allt væri nú fullkomið. Dennis passar hinsvegar ekki beint í fasa 3, biðils fasann, þar sem að hann var ekki mikið fyrir það að biðla til fórnarlamba sinna. Þau vissu ekkert af honum og áttu í engum samskiptum við hann, nema kannski rétt undir lokin áður en hann drap þau. Dennis passar síðan vel í fasa 4, handtöku fasann, enda beitti hann miklu ofbeldi oft á tíðum til að afvopna fórnarlambið þar sem hann beið oft inni á heimili þeirra áður en hann réðst til atlögu. Hann fékk kynferðislega útrás með því að fremja morðið og voru morðin hápunkturinn hjá Dennis. Því má segja að hann passi vel inn í fasa 5, morð fasann. Dennis passar síðan nokkurn veginn í fasa 6, minjagrips fasann, en ekki að öllu leiti. Dennis tók vissulega með sér heim einhverja minjagripi eftir sum morðin, en hann gerði það ekki til þess að setja morðið á stall. Hann tók minjagripi til þess að eiga og til þess að skrifa um, senda eða sýna fjölmiðlum til þess að monta sig af morðunum. Það sem passar síðan ekki alveg í 6. fasa er að Dennis virtist ekki vera þunglyndur eftir morðin eða uppgefinn, heldur frekar ánægður með sig og því passar hann ekki alveg inn í fasa 6. Það sama á við um fasa 7, þunglyndis fasann, en hann kemur inn á það að morðingjar verði þunglyndir og sendi þess vegna fjölmiðlum eða lögreglu bréf eða vísbendingar. Dennis sendi ekki lögreglu eða fjölmiðlum bréf eða vísbendingar um morðin vegna geðlægðar, heldur sendi hann þessar vísbendingar vegna athyglissýki og stolti yfir gjörðum sínum.

 

Mælikvarði 14: mindhunter kenningin

Dennis passar að einhverju leyti við sum atriði Mindhunter kenningarinnar, sem er mælikvarði 14, en hann passar alls ekki við þau öll. Hann er vissulega hvítur karlmaður, en hann er ekki einhleypur þar sem hann var giftur og á börn. Það er ekki hægt að segja að Dennis sé yfir meðalgreind, en hann er frekar svona í kringum meðalgreind. Hinsvegar, halda flestar heimildir um hann því fram að hann hafi alltaf strögglað í skóla og að hann hafi aldrei verið með hærra en C í skóla. Hann hætti eftir 1 ár í háskóla og gekk í herinn í staðinn, en eftir það var hann oft á milli starfa og var því með frekar gloppóttan atvinnuferil. Eins og hefur verið nefnt átti Dennis frekar eðlilega barnæsku og því passar hann ekki í atriði 4-9 í Mindhunter kenningunni, sem fjalla öll um erfiða barnæsku eða sjálfsvígshættu á unglingsárum. Það er þó vert að taka fram að það hefur verið nefnt í fáeinum heimildum að Dennis hafi fundist hann hunsaður af móður sinni í æsku, en þar sem það er ekki alræmt er erfitt að segja til um hvort það sé rétt. Annars hafa heimildir ekki talað um að foreldrar hans hafi komið illa fram við hann á neinn hátt. Atriði 10 passar hinsvegar virkilega vel við Dennis, en hann talaði sjálfur um að í barnæsku var hann strax farinn að hafa áhuga á pyntingum og bindingum í kynlífi og að sá áhugi hafi þróast úr miklum fantasíum yfir í raunveruleg morð.

Mælikvarði 13: Holmes & Deburger flokkunin

Í mælikvarða 13, sem er kenning Holmes og DeBurger um ástæðu morða, falla morð Dennis undir sjálfselsku. Morðin falla síðan líklega í undirflokkinn Sjálfselsku girnd. Skilgreiningin á sjálfselsku girnd er sú að morðingjarnir æsast upp kynferðislega, sem Dennis gerði klárlega sem mátti augljóslega sjá á sæðinu sem hann skildi eftir sig á glæpavettvöngum.

Heimildaskrá

  1. Coulter, C. (2022, 24. janúar). BTK serial killer Dennis Rader who murdered 10 people in 20-year killing spree describes himself as 'a good person who did some bad things' to forensic psychologist who exchanged letters with him 'in code', new docuseries reveals. Daily Mail. https://www.dailymail.co.uk/news/article-10382673/BTK-killer-Dennis-Rader-thinks-monster-good-person-did-bad-things.html

  2. Crawford, M. I. (2023, 30. janúar). Dennis Rader, the BTK killer: Profile of a quintessential psychopath [bloggfærsla]. The Crime Wire. https://thecrimewire.com/true-crime/Profile-of-a-Serial-Killer-Part-5-Dennis-Rader-The-BTK-Killer

  3. Dennis Rader. (2023). Wikipedia. https://en.wikipedia.org/wiki/Dennis_Rader

  4. Hayden, A. V. og Smith, B. H. (2018). Sönnunargögn [mynd]. Oxygen. https://www.oxygen.com/snapped/crime-time/crime-scene-photos-btk-killer-murders

  5. Oliver, M. (2022, 20. september). The Grisly Story Of Dennis Rader, The Man No One Suspected Was The BTK Killer. All that’s interesting. https://allthatsinteresting.com/dennis-rader-btk-killer

  6. Sederstrom, J. (e.d.). What led to serial killer Dennis ‘BTK’ Rader’s capture after he evaded authorities for more than 30 years? [bloggfærsla]. Oxygen. https://www.oxygen.com/crime-news/how-was-dennis-rader-btk-caught

  7. Tikkanen, A. (2023, 5. mars). Dennis Rader. Encyclopedia Britannica. https://www.britannica.com/biography/Dennis-Rader