Hanna Margrét Heimisdóttir, Snæfríður Birta Einarsdóttir og Unnur Kaldalóns
A. KYNNING EFNIS
Myndband: https://www.youtube.com/watch?v=W0LoSV9Nt7s&t=99s.
Podcast: Morðcastið, þáttur 2 (01:39 - 21:00 mín)
Dagmar Johanne Amalie Overby er einn þekktasti raðmorðingi Danmerkur. Hún framdi fjöldamorð á börnum á árunum 1913 - 1920 í Kaupmannahöfn, og er talið að hún hafi drepið um 9-25 börn á þessu sjö ára tímabili. Þessi atburður var mjög umtalaður og sorglegur þar sem öll hennar fórnarlömb voru ungabörn. Dagmar sá dagblaðaauglýsingar þar sem mæður voru að gefa upp barnið sitt og fengu þær sem tóku við börnunum gjöld fyrir. Á þessum tíma fengu mæður engan stuðning ef þær eignuðust börn utan hjónabands og voru konur fyrirlitnar ef þær eignuðust börn utan hjónabands. Dagmar ákvað því að taka fósturbörn að sér og fá greitt fyrir að hugsa um þau. Hún sagði mæðrunum að börnin myndi vera hjá henni í tvær vikur og færu svo á önnur fjölskylduheimili. Mæðurnar sem gáfu upp börnin sín töldu því að börnin yrðu ættleidd af fólki sem myndu hugsa vel um börn þeirra og að þeim myndi farnast vel í lífinu. Svo var ekki raunin þar sem Dagmar drap flest þau börn sem hún tók að sér og græddi pening í leiðinni. Mynstrið sjálft var það sama fyrir öll morðin. Dagmar var í sambandi við örvæntingarfullar mæður í gegnum dagblaðaauglýsingar, fékk greiðslu fyrir að taka að sér börnin og drap þau samdægurs. Hún framdi morðin með því að drekkja eða kyrkja börnin og ýmist grafa, brenna eða fela líkin á háaloftinu. Stundum geymdi hún einnig líkin fyrir framan rúmið sitt. Þessar ættleiðingar höfðu ekkert lagalegt gildi heldur táknuðu ólögleg viðskipti. Dagmar laug að þeim mæðrum sem komu aftur til að ná í börnin sín en hún víxlaði börnunum oft svo mæðurnar fóru heim með annað barn. Glæpir Dagmars komust þó upp vegna þess að kona að nafni Karoline vildi fá stúlkuna sína aftur. Dagmar sagði henni að barnið hennar hafi verið farið til annarrar fjölskyldu og að hún myndi ekki hvar það byggi. Karoline endaði á því að fara til lögreglunnar og því komst upp um hana þar sem bein og föt barnanna fundust í íbúðinni hennar.
Þetta mál var eitt það umtalaðasta í Danmörku á þeim tíma sem það gerðist. Einnig er málið talið mjög sögulegt þar sem málið varð til þess að lögð var áhersla á umbætur í löggjöf á umönnun barna. Sérstök áhersla var lögð á erfiða og viðkvæma stöðu fósturbarna og einstæðra mæðra, sem leiddi að lokum til breytinga á löggjöf fósturbarna. Árið 1923 samþykktu dönsk stjórnvöld ný lög varðandi fósturbörn, sem sögðu að fósturbörn ættu að vera á ríkisreknum stofnunum eða heimilum fyrir munaðarlaus börn. Þessi lög breyttust í kjölfar morðanna sem Dagmar framdi.
B. GLÆPURINN SJÁLFUR
Árið 1913 þegar Dagmar Overbye var 26 ára gömul byrjaði hún að myrða börn með því að kyrkja þau, drekkja þeim eða henda þeim í ofninn heima hjá sér. Hún fór meðal annars með börn í kerru í kirkjugarð þar sem hún batt snæri á háls barnana og skildi það eftir á bekk í kirkjugarðinum. Eitt sinn drap hún tvö börn samdægurs, hún kastaði þeim á brautarspor og hugsaði svo með sér hversu auðvelt þetta var. Dagmar setti líkin upp á loft, gróf þau í garðinum eða geymdi líkin beint fyrir framan rúmið sitt. Seinna fannst fullur skápur af beinum af fórnarlömbum hennar. Dagmar taldi sig elska nokkur börn sem hún fékk í fóstur og því drap hún ekki öll börnin sem hún fékk. Þegar hún drap börnin sem komu til hennar í fóstur falsaði hún oftast dánarvottorð þar sem stóð að barnið hafi dáið af náttúrulegum orðsökum ef einhver skildi sækja þau. Einnig tók hún oft upp á því að víxla börnunum ef einhver skildi koma að sækja þau aftur. Árið 1920 þegar Dagmar hafði verið að taka börn í fóstur og drepa þau í fjögur ár, gaf ung kona að nafni Karoline Aagesen þriggja vikna gamalt barn sitt til Dagmar Overbye. Dagmar sagði við Karoline að hún myndi finna gott heimili fyrir ungabarnið en Karoline var ekki alveg sannfærð. Dagmar náði að lokum að sannfæra Karoline og útskýrði fyrir henni að hún tæki börn að sér í viku til tvær og myndi svo finna gott heimili fyrir börnin. Karoline sá enga aðra lausn en að gefa Dagmar barnið og borgaði henni fyrir að taka við því. Stuttu seinna fór Karoline að sjá eftir þessu og vildi fá stelpuna sína til baka. Þegar hún fór aftur til Dagmar sagðist hún hafa gefið hana til annarrar fjölskyldu en sagðist hún þó ekki muna almennilega heimilisfang þeirra. Karoline kom þrisvar sinnum til Dagmar til þess að reyna að fá stúlkuna sína til baka, en hún endaði á því að fara til lögreglunnar. Þegar lögreglan mætti á staðinn fundust föt stúlkunnar þar, ásamt beinum og hauskúpu í öskju á eldavélinni. Dagmar hafði því tekið á móti barninu og drepið ungabarnið samdægurs. Lögreglan fann skápa fulla af brenndum beinbrotum í húsi Dagmars. Hún játaði að hafa drepið 16 börn en aðeins fundust líkamsleifar af níu ungabörnum svo hún var ákærð fyrir þau níu morð sem hún framdi. Í dag er talið að Dagmar hafi drepið að minnsta kosti 25 ungabörn og þar á meðal sitt eigið barn.
C. PERSÓNAN SJÁLF
Dagmar fæddist árið 1887 og voru foreldrar hennar fátækir bændur. Hún laug mikið og var talin vera bæði þurr og leiðinleg manneskja. Dagmar var misnotuð af afa sínum þegar hún var ung en einnig er talið að hún hafi verið beitt líkamlegu ofbeldi í æsku. Þegar Dagmar var ung var henni lýst sem skapmiklu og depurðar barni. Dagmar hafði lítinn sem engan áhuga á skólanámi en hafði þó áhuga á að stela og byrjaði hún 12 ára að stela frá öðrum. Foreldrar hennar sendu hana í burtu til að vinna hjá annari fjölskyldu eftir þjófnaðinn. Eftir að hafa verið hjá fjölskyldunni í einhvern tíma fór hún að stela aftur og var í kjölfarið dæmd í kvennafangelsi í 10 daga fyrir það. Dagmar eignaðist þrjú börn með þremur mönnum. Fyrsta barnið sem hún átti dó á undarlegan hátt en læknir sem skoðaði barnið sagði að það hafi verið blátt um varir sem gæti orsakast af kyrkingu, en tekið var sú ákvörðun að barnið hafi dáið úr lungabólgu. Annað barnið sem hún eignaðist gaf hún upp til ættleiðingar, en skildi það þriðja eftir á heyskafli. Dagmar opnaði sælgætisbúð í Kaupmannahöfn en reksturinn gekk þó ekki vel svo hún flutti til Nørrebro. Dagmar sá auglýsingu í blaði þar sem konur sem eignuðust börn utan hjónabands óskuðu eftir einhverjum til að taka barnið þeirra að sér, og borguðu fyrir það. Alvarlegir glæpir Dagmars byrjuðu þegar hún tók við börnunum þar sem hún drap flest þau ungabörn sem hún fékk til sín. Talið var að Dagmar hefði verið með jaðarpersónuleikaröskun (e. borderline personality disorder). Hún átti það til að vera með miklar skapsveiflur, henni fannst erfitt að vera ein og fór því oft í eitruð (e. toxic) sambönd til að forðast tómleikatilfinningu. Einnig reyndi hún að fremja sjálfsvíg þegar einn af kærustunum hennar neitaði að giftast henni. Eru þetta allt dæmi um einkenni jaðarpersónuleikaröskunar. Þegar hún var í fangelsi upplifði hún “prison psychosis” eða önnur tilgreind hugrofsröskun (e. dissociative disorder) sem kemur oft fram hjá einstaklingum sem vistaðir eru í fangelsi. Það felst í ofskynjunum, ranghugmyndum og ofsóknarbrjálæði. Andlegt ástand hennar fór versnandi í fangelsi og dó hún 43 ára að aldri.
D. ENDIR MÁLSINS
Dagmar var handtekin 12. september 1920 og var hún þá 33 ára. Hún játaði að hafa myrt 16 börn en vegna skorts á sönnunargögnum var hún einungis kærð fyrir að hafa myrt níu börn. Í ágúst árið 1921 var hún fundin sek og var hún dæmd til dauða. Í dómsal sýndi Dagmar miklar skapsveiflur. Hún fór einnig að kenna kærastanum sínum um morðin. Þegar Dagmar var spurð út í fyrsta morðið sagðist hún ekki geta talað um það, hún taldi það vera of pínlegt til að tala um. Seinna talaði hún um að hafa myrt börnin vegna trúarlegra ástæðna en Dagmar var yfirleitt undir áhrifum vímuefna þegar morðin áttu sér stað. Á þessum tíma áttu konur ekki að eignast barn utan hjónabands, og fengu konur því engan stuðning ef þær vildu eiga barn utan hjónabands. Dagmar sagðist hafa verið að gera samfélaginu greiða með því að bjarga konunum með því að taka börnin að sér. Dagmar var dæmd til dauða fyrir morð sín en var hún fyrsta konan sem fékk dauðarefsingu frá árinu 1861 í Danmörku. Konungur Danmörku á þessum tíma var hinsvegar á móti dauðarefsingum á konum og því var refsingu hennar breytt í lífstíðarfangelsi. Dagmar lést í fangelsi af náttúrulegum orsökum þann 6. maí 1929 en hún var aðeins 42 ára gömul.
mælikvarðarnir
E. FYRSTI MÆLIKVARÐINN
Mælikvarði eitt fjallar um DSM-5 en þar má finna geðröskun sem nefnist stelsýki (15.6). Stelsýki felst í því að einstaklingur getur ekki haldið aftur hvötum til að stela eignum annarra. Þessar eignir eru ekki persónunni nauðsynlegir né hafa mikið peningalegt gildi. Framkvæmd þjófnaðarins er ekki til að tjá hefnd eða reiði. Dagmar byrjaði ung að stela frá öðrum en þegar foreldrar hennar sendu hana í burt til að læra af þjófnaðinum hélt hún honum samt sem áður áfram og var því send í kvennafangelsi í 10 daga. Í raun mætti segja að hún hafi einnig stolið peningum af mæðrum sem komu með börnin sín til hennar þar sem hún drap börnin en hélt áfram að fá mánaðarleg gjöld fyrir að hugsa um þau.
F. ANNAR MÆLIKVARÐINN
Mælikvarði tvö fjallar um DSM - 5 persónuleikaraskanir. Innan persónuleikaraskana er persónuleikaröskunin Jaðarpersónuleikaröskun (e. borderline personality disorder). Jaðarpersónuleikaröskun felur í sér langvarandi hegðunarmynstur í samskiptum við aðra og slæma sjálfsmynd. Einkenni jaðarpersónuleikaröskunar er einnig hvatvísi. Hægt er að segja að Dagmar sé með jaðarpersónuleikaröskun. Hún var talin vera lygari og skapmikil frá ungum aldri, sem tengist stöðugum geðhrifum og sterkum geðsveiflum. Hún vildi aldrei vera ein og vildi alltaf hafa karlmenn nálægt sér sem tengist sífelldri tómleikatilfinningu. Einnig kenndi hún kærastanum sínum um morðin á börnunum í dómsal. Hún neitaði einnig að tala um morðin í dómsalnum þar sem henni þótti það erfitt, til að forðast að horfast í augu við morðin. Einnig reyndi Dagmar að fremja sjálfsvíg þegar kærastinn hennar neitaði að giftast henni, en það er dæmi um einkenni jaðarpersónuleikaröskunar.
Einnig má nefna það að Dagmar gæti einnig hafa verið með andfélagslega persónuleikaröskun (e. antisocial personality disorder). Undirferli t.d. lygar og að blekkja aðra til persónulegs gróða eða ánægju er eitt af einkennum andfélagslegrar persónuleikaraskanar en á ungum aldri byrjaði Dagmar að stela og ljúga. Hún byrjaði svo að fremja glæpi eins og að taka börn að sér og ljúga um að hún væri fóstra en drap svo börnin sem komu til hennar. Hún laug einnig af foreldrum barnanna þegar þau komu og báðu um barnið sitt aftur. Hún tók alltaf að sér fleiri og fleiri börn til þess að fá pening. Skortur á eftirsjá, hvatvísi og skortur áætlunargerð eru einnig einkenni sem hún sýnir sem falla undir andfélagslega persónuleikaröskun.
G. ÞRIÐJI MÆLIKVARÐINN
Kenning Hare sem er mælikvarði númer átta skiptist í tvennt, geðhrif (e.affect) og lífsstíl (e. lifestyle). Geðhrifa þátturinn talar um yfirborðslegan sjarma, stórkostlegar tilfinningar um eigin sjálfsmynd, lygar, ráðskast með aðra, skortur á sektarkennd og samkennd, tilfinningar sem ekki virðast raunverulegar og að taka ekki ábyrgð á eigin gjörðum. Hægt er að tengja Dagmar við flest alla þessa hluti. Dagmar sýnir þennan yfirborðslega sjarma með því að ráðskast með fólk. Hún nær að sannfæra mæður eða fjölskyldur að skilja börnin þeirra eftir hjá sér með sjarma sínum. Hún byrjaði ung að ljúga og stela, og laug hún einnig að fólkinu þegar hún tók við börnum þeirra að hún myndi finna annað heimili fyrir þau. Hún þurfti alltaf að vera í sambúð með manni en átti þó aldrei kynferðislegt samband með þeim. Dagmar þurfti að hafa einhvern mann sér við hlið, svo hægt er að tengja það við tilfinningar sem ekki virðast raunverulegar. Einnig sagði Dagmar í dómsal hún hafði ekki verið að hugsa um peningana þegar hún tók við börnunum heldur væri hún mikil barnakona. Hún sýnir með þessu tilfinningar sem ekki virðast raunverulegar þar sem hún drepur flest þau börn sem hún fær til sín og myndi það seint teljast vera kona með mikla ástríðu fyrir að sjá um börn. Hún sýnir einnig skort á eftirsjá þar sem hún hugsaði með sjálfri sér þegar hún drap börnin hve auðvelt þetta væri. Þrátt fyrir að Dagmar hafi játað morðin á börnunum byrjaði hún að kenna kærastanum sínum um morðin, því mætti segja að Dagmar taki ekki ábyrgð á eigin gjörðum.
Þrátt fyrir að geðhrifa þátturinn passaði betur þá væri einnig hægt að segja að snemm hegðunarvandarmál sem er í lífstíls þættinum, tengist einnig hegðun Dagmar. Hún byrjaði ung að stela og ljúga, og byrjaði einnig ung að drepa þar sem talið er að hún hafi drepið fyrsta barnið sitt sem hún eignaðist á unglingsárum.
H. FJÓRÐI MÆLIKVARÐINN
Upphafskenning Mindhunter þríeykisins er fjórði mælikvarðinn okkar. Þríeykið sem samanstendur af Douglas, Ressler og Burgess, nefnir tíu atriði sem einkenna raðmorðinga. Nokkur atriði passa við Dagmar. Fyrsta atriðið sem þeir nefna passar ekki við Dagmar, nema sem undantekning þar sem hún var kona. En annars eru flestir raðmorðingjar einhleypir, hvítir karlmenn. Henni gekk mjög vel í skóla þó henni hafi ekki fundist gaman í skólanum. Hún var snillingur í að láta allt líta mjög vel út og gat logið mikið, sem mætti segja að sé dæmi um atriði tvö þar sem hún var klár, mjög snjöll í því að láta allt líta mjög vel út og mjög flink í að ráðskast með fólk (e. manipulative). Atriði þrjú passar einnig við hana, þar sem henni leiddist í skóla og einbeitti sér lítið að skólanum. Hún flakkaði mikið á milli vinnustaða og var oft í láglauna störfum, til dæmis vann hún sem gengilbeina og einnig sem vinnukona hjá fjölskyldu þar sem hún fékk aðeins 10 dollara fyrir mánuðinn. Atriði númer fjögur passar einnig við hana en Dagmar kom frá fátækri fjölskyldu sem vissi ekki hvernig ætti að tækla hegðun hennar. Dagmar var misnotuð af afa sínum bæði kynferðislega og líkamlega þegar hún var ung og því passar atriði sex við hana. Má segja að það hafi haft slæm áhrif á líf hennar og upplifði hún niðurlægingu og hjálparleysi í kjölfar þess. Atriði átta passar við Dagmar þar sem hún var með jaðarpersónuleikaröskun. Einnig gæti hún hafa verið með hegðunarröskun sem barn og með andfélagslega persónuleikaröskun á fullorðinsárum. Dagmar var gjörn á að ljúga og beita blekkingum í lífi sínu. Einnig var henni lýst sem skapmiklu barni og byrjaði hún mjög ung í afbrotum. Hún fór tvisvar í fangelsi á lífstíð sinni, fyrst sem ung kona fyrir þjófnað og seinna í lífstíðarfangelsi fyrir morðin sem hún framdi. Atriði níu fjallar um einangrun einstaklinga og sjálfsmorðshættu. Dagmar var mikið ein og reyndi hún að forðast tómleikatilfinningu með því að vera stöðugt í samböndum við ýmsa karla. Einnig reyndi hún að fremja sjálfsvíg þegar einn af hennar kærustum neitaði að giftast henni, þó henni hafi ekki tekist það. Ekki hafi verið merki um atriði 10 hjá Dagmar nema að það fundust myndir af nöktum börnum eftir að hún var handtekin.
I. FIMMTI MÆLIKVARÐINN
Kenning Holmes og DeBurger reynir að útskýra ástæðu morða (e. motive) hjá raðmorðingjum. Kenningin flokkar þrjár ástæður sem eru ofsjónir, hugsjónir og sjálfselska. Við teljum að Dagmar flokkist sem hugsjóna-tegundin, en þeir drepa vegna ákveðinna hugsjóna t.d. að losa heiminn við ákveðinn hóp fólks (e. mission). Þessar týpur eru oft á mörkunum að teljast sakhæfar eða ósakhæfar þar sem þeim fylgja oft mikil geðræn vandamál. Líkleg ástæða fyrir morðum hennar er oft talin vera sú að Dagmar taldi það vera sitt hlutverk að taka þessi óvelkomnu börn að sér og losa sig við þau. Þá þyrftu mæðurnar ekki að lifa í þeirri skömm sem fylgdi því á þessum tíma.
J. SJÖTTI MÆLIKVARÐINN
Við teljum að Dagmar falli undir flokk númer 15 á Stone 22 mælikvarðanum. Undir flokkinn falla: “psychopathic, cold-blooded, spree or multiple murderers”, semsagt siðblindir og kaldrifjaðir æðismorðingjar eða fjöldamorðingjar. Þessir morðingjar eru rólegir þegar þeir fremja morðin, í hennar tilfelli var það einmitt þannig þar sem hún leit í rauninni á morðin sem verkefni eða vinnu. Hún drap börnin til að fá pening og til að “hjálpa” mömmunum og samfélaginu. Þessir morðingjar eru siðblindir, og hvöt (e. motive) þeirra sömuleiðis. Við sjáum mörg ummerki um siðblindu hjá henni en hún sér ekkert að því að drepa þessi börn og fá pening fyrir það, og sýnir enga eftirsjá. Kannski er það vegna þess að hún vill eða getur ekki horfst í augu við raunveruleikann, sem er einmitt einkenni hjá þessum hópi morðingja.
Heimildir
Brief case. (2018, 10. desember). The Horrifying Case of Danish Serial Killer | Dagmar Overbye [myndskeið]. Youtube. https://www.youtube.com/watch?v=W0LoSV9Nt7s.
Dagmar Overbye (e.d.). Killer.cloud. https://killer.cloud/serial-killers/show/146/dagmar-overbye.
Malocco, D. (2015, 23. apríl). Serial killer - Dagmar Johanne Overby (1887-1929). David Mallocco. Worldpress. https://davidmalocco.wordpress.com/2015/04/23/serial-killers-dagmar-johanne-overbye-1887-1929/.
Rose, T. (E.d). Women Who Kill: Dagmar Overbye. Taramrose.medium. https://taramrose.medium.com/women-who-kill-dagmar-overbye-e38986868975.
The death of Dagmar Overby, baby farmer. (2019, 6. maí). Horrorhistory.net. https://horrorhistory.net/2019/05/06/the-death-of-dagmar-overby-baby-farmer/.
The Heinous Crimes Of Dagmar Overbye — The Baby-Burning Serial Killer (2018, 11. apríl). All that is interesting. https://allthatsinteresting.com/dagmar-overbye.
Unnur Borgþórsdóttir. (þáttastjórnandi). (2019, 11. apríl). Morðcastið (nr. 2) https://pardus.is/podcasts/detail/SduQZfx4eifqFh7XeYqX.