David Koresh og Waco

David Koresh - sértrúarsöfnuður í Waco, Texas

Karitas Birgisdóttir, María Henley Olsen og Sóley María Kristínardóttir

 

A. Kynning efnis

Hér verður fjallað um David Koresh, skírnarnafn Vernon Wayne Howell. Hann var bandarískur leiðtogi sérstúarsafnaðarins Branch Davidians sem var staðsettur í Mount Carmel, rétt fyrir utan Waco í Texas. David ólst upp við erfiðar aðstæður og leitaði huggunar í Biblíunni. Árið 1983 þegar David var enn einungis venjulegur meðlimur Branch Davidians fór hann að fullyrða að hann væri sendiboði Guðs. Fólk fór fljótlega að fylgja honum en vegna ögrandi hegðunar hans þá var honum og fylgjendum hans að lokum vísað úr sértrúarsöfnuðinum. Á þessum tíma ferðaðist David víðsvegar um heiminn og vann fylgjendur á sitt band. Þegar hann og nýir fylgjendur hans snéru aftur til Texas og fóru fram á að fá sönnunargögn frá þáverandi leiðtoga safnaðarins, sem hefði getað orðið leiðtoganum að falli, urðu mikil átök. David og sjö aðrir menn skutu í átt að leiðtoga safnaðarins, sem særðist. Í framhaldi voru David og mennirnir sjö ákærðir fyrir morðtilraun. Í réttarhöldunum voru mennirnir sjö sýknaðir en kviðdómurinn gat ekki komið sér saman um úrskurð á David þannig að mál hans var fellt niður.

Það var árið 1990 sem David breytti nafninu sínu úr Vernon í kjölfar þess að hann varð orðinn leiðtogi Branch Davidians eftir að fyrri leiðtogi safnaðarins hafði hrökklast frá. Hann valdi nafnið David því það gaf til kynna að hann væri afkomandi Davíðs konungs í Biblíunni og því væri hann næsti frelsari. Hann valdi síðan eftirnafnið Koresh því að það er Biblíunafn Siríusar, konungs Persíu, hann taldi sig vera Siríus endurfæddur.

David og fylgjendur hans fluttu inn í the Mount Carmel Center, stóra byggingu þar sem söfnuðurinn hafðist við en söfnuðurinn taldi um 85. Þar bjó fólkið við erfiðar aðstæður þar sem erfitt var að ná í vatn og mat. Þetta var óvenjulegt vegna þess að þetta var í kringum 1990 en þá bjuggu flestir við góðar aðstæður í þessum heimshluta og áttu auðvelt með að sækja sér vistir. Eftir að söfnuðurinn kom sér fyrir þá setti David reglur sem fylgjendur hans urðu að fara eftir. Samkvæmt vitnum voru reglurnar ekki strangar né alvarlegar í fyrstu en fóru síðan að þróast út fyrir siðferðisleg og lögleg mörk.

David í Mount Carmel.

David í Mount Carmel.

B. Glæpurinn sjálfur

David tilkynnti fylgjendum sínum að Guð hefði sagt sér að hann ætti að giftast og eignast börn með konunum í söfnuðinum. Aðrir menn í söfnuðinum áttu að lifa skírlífi (e. celibate) og útskýringar Davids voru þær að hann væri sá eini í hópnum með heilagt sæði og þar með urðu flest öll börnin í söfnuðinum hans. Mennirnir og konurnar þurftu að búa á aðskildum svæðum í byggingunni. Hann fór fram á að börn annarra kölluðu foreldra sína hunda og einungis sig föður. Fylgjendur hans urðu hins vegar áhyggjufullir þegar David fór að sýna ungu stúlkunum í söfnuðinum áhuga. Stúlkur niður í 10 ára fengu stjörnu Davíðs sem hafði þá merkingu að þær „hefðu ljósið“ og væru tilbúnar til þess að sofa hjá David og hann komst upp með það.

David og fylgjendur hans trúðu á Harmagedón, staðinn þar sem hin mikla úrslitaorrusta myndi standa á milli afla góðs og ills við heimsendi, og að söfnuðurinn þyrfti að undirbúa sig. Þau söfnuðu í kringum 300 ólöglegum skotvopnum og virtust vera að stofna skæruliðaher (e. militia). Þegar grunur vaknaði hjá fulltrúum Bureau of Alcohol, Tobacco, Firearms and Explosives (ATF) um að söfnuðurinn væri að stofna her, auk þess sem sögusagnir fóru á kreik um að kynferðislegt ofbeldi væri að eiga sér stað hjá söfnuðinum var hafin rannsókn á málinu. Á þessum tíma var mikil hræðsla við sértrúarsöfnuði og allt sem var á móti yfirvaldi í samfélaginu. Rannsókn ATF á söfnuðinum leiddi til leitar- og handtökuskipunar.

David Koresh, Rachel Koresh og barn þeirra.

David Koresh, Rachel Koresh og barn þeirra.

Michelle, systir Rachel, sem var líka kona Davids, aðeins 14 ára gömul.

Michelle, systir Rachel, sem var líka kona Davids, aðeins 14 ára gömul.

C. Persónan sjálf

David Koresh fæddist sem Vernon Wayne Howell 17. ágúst 1959 í Texas. Móðir hans var einstæð og einungis 14 ára þegar hún eignaðist hann en föður sínum kynntist hann aldrei. Móðir hans tók saman við ofbeldisfullan drykkjumann og talið er að þá hafi David orðið fyrir ofbeldi. Þegar David var 7 ára giftist móðir hans öðrum manni og eignaðist barn með honum, Roger. David stundaði nám í Garland High School en lauk ekki námi sínu þar. Þar gekk honum ekki vel námslega. Hann var lesblindur, átti í erfiðleikum með lærdóm og þurfti á sérkennslu að halda. Jafnaldrar hans stríddu honum og í samtali við Federal Bureau of Investigation (FBI) síðar á ævinni sagðist hann hafa verið einmana í æsku. David hafði mikinn áhuga á Biblíunni og las hana alla. Hann sótti kirkju móður sinnar, the Seventh-day Adventist Church, og varð yfir sig hrifinn af dóttur prestsins. David reyndi að sannfæra prestinn um að hann hefði fengið skilaboð frá Guði um að hann og dóttir prestsins ættu að giftast. Honum var þá vísað úr kirkjunni og það var árið 1981 sem hann flutti til Waco og gekk í Branch Davidians söfnuðinn.

David Koresh.

David Koresh.

D. Endir málsins

Eftir að ATF fékk leitar- og handtökuskipun á meðlimum Branch Davidians sértrúarsafnaðarins var ákveðið að fara til Mount Carmel og handtaka þau. Þar fór allt í háaloft, mikil skothríð reið yfir og margir særðust. Enn er óvíst hvor aðilinn byrjaði að skjóta, ATF eða sértrúarsöfnuðurinn en eitt er víst að þetta var upphafið að endalokunum hjá söfnuðinum og trúarleiðtoganum David Koresh sjálfum. Eftir skothríðina tók FBI við málinu og samningaviðræður hófust í síma á milli FBI og David. Viðræðurnar gengu út á að reyna að fá söfnuðinn til að koma út úr byggingunni. Hvorki gekk né rak í samningarviðræðunum. Á endanum gáfust FBI fulltrúarnir upp á viðræðunum, þeir settu upp hátalara fyrir utan bygginguna, spiluðu háværa tónlist og ýmis pirrandi hljóð, kveiktu á stórum kösturum og lýstu inn til þeirra að nóttu til svo þau gætu ekki sofið og myndu þá vonandi gefast upp á endanum og koma út. Umsátrið stóð yfir í 51 dag og endaði á því að FBI sendi skriðdreka inn í húsið og sprautaði þar inn táragasi. Þetta varð til þess að húsið byrjaði að hrynja og fólk lokaðist inni, eldur braust út og í kringum 80 manns létust, þar á meðal börn.

Margar kenningar eru um hvernig eldurinn kviknaði, hvernig fólkið, þar með talinn David, lést. Ein kenningin er sú að einhverjir úr sértrúarsöfnuðinum hafi kveikt eldinn sjálfir en kenning safnaðarmeðlima er sú að táragasið sem FBI beitti hafi kveikt eldinn. Mjög óljóst er á hvaða hátt David lést, sumir telja hann hafa framið sjálfsmorð með því að skjóta sjálfan sig í höfuðið en aðrir telja að hann hafi beðið vin sinn, Steve Schneider, um að skjóta sig og að eftir það hafi Steve skotið sjálfan sig. Aðeins níu meðlimir safnaðarins lifðu af.

Hér í framhaldinu verður David Koresh borinn saman við nokkra mælikvarða sem meta andlega heilsu.

Eldurinn í Mount Carmel.

Eldurinn í Mount Carmel.

Myndband frá Waco Siege: https://www.youtube.com/watch?v=Liyvr0rlNVw.

MÆLIKVARÐAR


Fyrsti mælikvarði
: DSM-5: Persónuleikaraskanir

Sjálfhverf persónuleikaröskun einkennist af langvarandi hegðunarmynstri mikilmennsku, þörf fyrir aðdáun og skorti á hluttekningu (e. empathy), sem byrjar við upphaf fullorðinsára. Við teljum að David gæti mögulega hafa verið með sjálfhverfa persónuleikaröskun þar sem fimm einkenni hennar ættu vel við um hann. Fyrsta einkenni hennar sem ætti vel við um David er ofvaxið sjálfsálit en hann ætlaðist til þess að söfnuðurinn viðurkenndi hann sem yfirburðarmann án sönnunar á að hann væri það í raun. Annað einkennið er að vera upptekinn af draumórum um ótakmarkaðan árangur en David var upptekinn af því að stækka söfnuðinn og vera við völd. Þriðja einkennið er að þarfnast ýktrar aðdáunar og þetta á vel við David þar sem hann var sífellt í leit að aðdáun annarra, hann vildi að fólk myndi líta á hann sem æðri þeim, hlusta á hann og fólkið dáði hann í raun því það trúði því að hann væri tengiliður þeirra við Guð. Fjórða einkennið er að hafa of miklar væntingar um sjálfkrafa hlýðni annarra við sínar eigin væntingar. David hafði miklar væntingar um að fólkið í söfnuðinum myndi hlýða sér og vitni sögðu að hann hafi refsað þeim sem óhlýðnuðust honum. Fimmta einkennið er skortur á hluttekningu, David vildi engan veginn viðurkenna tilfinningar og þarfir fólksins í söfnuðinum, til dæmis þeim sem vildu yfirgefa hann og hann leyfði þeim því ekki að fara.

Annar mælikvarði: Dauðasyndirnar sjö

Dauðasyndin græðgi (e. greed) einkennist af illsku vegna yfirgangssemi, ágirndar eða þeirri ofurákveðni að komast áfram í lífinu, á kostnað annarra. Græðgi gæti hafa átt við um David Koresh þar sem hann sýndi ofurást á valdi. Hann fór yfir mörk annarra og notfærði sér völd sín til að ná fram því sem hann vildi. Hann hafði allar konurnar út af fyrir sig með því að banna öðrum mönnum safnaðarins að stunda kynlíf með þeim. Þar með var hann það gráðugur að hann fór á móti boðorðunum „þú skalt ekki girnast konu náunga þíns.“

Þriðji mælikvarði: DSM-5: Geðraskanir

Við teljum að David Koresh hafi líklega verið haldinn barnahneigð (e. pedophilia). Skilgreiningin á barnahneigð er að a) á minnst 6 mánaða tímabili, endurteknir og sterkir kynórar og kynhvatir, sem fela í sér kynlíf með barni sem ekki hefur náð kynþroska (yfirleitt 13 ára og yngri), b) persónan hefur svalað þessum hvötum, eða finnur til verulegrar þjáningar vegna þeirra og c) persónan er minnst 16 ára gömul og minnst 5 árum eldri en barnið eða börnin í lið a). Stúlkurnar sem David braut á höfðu ekki endilega allar náð kynþroska og því hefði kynlíf með þeim ekki þjónað þeim tilgangi að búa til barn. David hefur því greinilega haft sterka kynóra og kynhvatir gagnvart ungu stúlkunum og svalað hvötunum oft. Stúlkurnar sem hann braut á voru 10-14 ára en hann var 31-34 ára þegar brotin áttu sér stað.

Fjórði mælikvarði: Hare 20 mælikvarðinn

Hægt er að setja David Koresh á Hare mælikvarðann. Þar skiptist siðblinda í tvo þætti (e. factor), og hver þáttur skiptist í tvo undirþætti (e. facet). Við teljum David falla undir undirþáttinn interpersonal sem er undir fyrsta þætti, interpersonal / affective. Einkenni interpersonal undirþáttarins eru glibness / superficial charm sem David hafði svo sannarlega, þar sem allir í söfnuðinum litu mjög upp til hans og margir sögðu að þegar þeir hlustuðu á hann tala urðu þau sem dáleidd af honum. Síðan er það einkennið grandiose self worth sem hann hafði þar sem að hann leit á sig sem æðri, og sem sendiboða Guðs. Þriðja einkennið er pathological lying en honum var tamt að ljúga, þó hann tryði jafnvel öllu sem hann sagði sjálfur þá var hann í raun og veru að ljúga að fylgjendum sínum. Síðasta einkennið er conning / manipulative, við teljum David hafa notfært sér fylgjendur sína með því að segjast hafa talað við Guð. Hann lét konurnar giftast sér, sofa hjá sér og eignast börn sín, en bannaði öðrum að sofa hjá af því að það væri synd. Samt sem áður mátti hann það að eigin sögn vegna þess að það væru skilaboð frá Guði.

Ofangreind einkenni eiga vel við um David en þau eru fjögur af tuttugu atriðum á lista Hare yfir siðblindu. Önnur einkenni á þeim lista sem eiga vel við hann eru promiscuous sexual behavior, irresponsibility, lack of remorse or guilt, parasitic lifestyle, callous / lack of empathy og failure to accept responsibility for actions. Tíu atriði af tuttugu á lista Hare passa við David. Nokkrum þessara einkenna hefur verið lýst áður en öðrum verður lýst þegar David er borinn saman við lista Cleckley sem mælikvarði Hare er byggður á.

Fimmti mælikvarði: Cleckley 16 mælikvarði

Fyrsta atriðið á lista Cleckley er yfirborðssjarmi og góð greind. Flestir sem hittu David Koresh sögðu hann hafa útgeislun og hafa vakið hrifningu þeirra á honum, eins og einn maður sagði: When he’s talking, it’s like something comes over you and you get swept up with it. Ekki er vitað nákvæmlega hversu greindur David var en hann var lesblindur og gekk ekki vel í skóla. Annað atriðið á lista Cleckley er að engin merki séu um geðrof. Geðrof einkennist af ranghugmyndum, án innsæis í sjúkleika þeirra, og skipulagslausu tali eða hegðun. Ranghugmyndir voru greinilega til staðar hjá David þar sem hann trúði að hann væri endurfæddur konungur Persíu og merkilegasti sendiboði Guðs allra tíma. Hins vegar sýndi David ekki skipulagslaust tal eða hegðun. Þriðja atriðið á lista Cleckley er að ekkert stress né taugaveiklun sé til staðar. Þetta á vel við um David, hann var yfirvegaður og hefði líklegast skorað lágt á taugaveiklunarprófi. Fjórða atriði listans er óáreiðanleiki. David var mjög óáreiðanlegur fylgjendum sínum þar sem hann hafði öruggi þeirra ekki í forgangi, og stofnaði lífi þeirra í hættu.

Fimmta atriðið er ósannsögli og óheiðarleiki. David lýgur stöðugt að fylgjendum sínum, til dæmis þegar hann fullyrðir að hann sé sendiboði Guðs, að Harmagedón nálgist og að Guð hafi tekið ákvörðunina um hvaða kona ætti að vera eiginkona hans. Sjötta atriðið er skortur á eftirsjá eða skömm. Þegar umsátrið var farið að nálgast endalok þá virtist David ekki sjá eftir neinu né skammast sín. Það gæti verið að hann hafi trúað því að það sem hann var að gera væri það eina rétta í stöðunni eða að hann hafi haft of mikið stolt til að játa sig sigraðan. Sjöunda atriðið er ástæðulítil andfélagsleg hegðun. Allt í einu, þegar David var í samningaviðræðum við FBI, sagðist hann hafa fengið „upplifun“ eða skilaboð frá Guði um að hann ætti að endurskrifa The Seven Seals og gerði hann það með litlum ávinningi og hvatvísi sem er eitt af einkennum andfélagslegrar hegðunar. Áttunda atriðið er fátækleg tilfinningaviðbrögð. Eins og áður hefur komið fram þá var David yfirvegaður og sýndi ekki miklar tilfinningasveiflur í samtali við FBI svo að þetta atriði á vel við um hann.

Níunda atriðið er ástleysi og að vera sjúklega sjálfmiðaður. Þetta atriði á best við um David þar sem hann sýndi enga ást gagnvart fylgjendum sínum og beitti þá ofbeldi. Hann var einnig sjúklega sjálfmiðaður þegar hann neitaði beiðni FBI um að gefa börnum safnaðarins frelsi. Tíunda atriðið er léleg dómgreind og að læra ekki af reynslunni. David hafði lélega dómgreind og sýndi það meðal annars þegar hann fórnaði lífi fólksins í söfnuðinum frekar en að ganga til samninga við FBI. Hann virtist aldrei læra af reynslunni því að hann beitti andfélagslegri hegðun og ofbeldi allt til lífsloka. Ellefta atriðið er skortur á innsæi en David sýndi mikinn skort á innsæi þegar kom að líðan og löngunum fylgjenda hans, hann gerði þeim til dæmis mjög erfitt með að yfirgefa söfnuðinn. Tólfta atriðið er lítil félagsleg svörun sem á ágætlega við David þar sem hann lætur óskir annarra sig ekki varða og lætur ekki undan félagslegri pressu frá söfnuðinum.

Þrettánda atriðið er fjarstæðukennd og óumbeðin hegðun. Þetta á við um David sem sýndi oft af sér ótrúlega hegðun sem var alveg úr takti við það sem þótti eðlilegt utan safnaðarins. Fólk sagði hann til dæmis tala óþægilega mikið um kynlíf, jafnvel við börn. Þá átti hann margar konur og braut kynferðislega á börnum. Fjórtánda atriðið er að sjálfsmorð sé sjaldan framkvæmt. Miðað við hvað David fyllir vel í atriði lista Cleckley mætti því leiða af því líkum að hann hafi látist af völdum árásar en ekki vegna sjálfsmorðs. Hafi hann tekið líf sitt sjálfur þá á fjórtánda atriðið lista Cleckley ekki við um hann. Fimmtánda atriðið er lítið og ópersónulegt kynlíf. Þetta atriði á hluta til við um David þar sem kynlífið var ópersónulegt en hann svaf hjá mörgum eiginkonum sínum. Margar þeirra vildu ekki sofa hjá honum en gerðu það vegna trúar sinnar á að þetta væri skylda þeirra. Öðrum nauðgaði hann með valdi. Það má því leiða að því líkum að þarna hafi jafnvel meira verið um ofbeldi heldur en kynlíf að ræða. Sextánda og síðasta atriðið er að fylgja ekki neinni lífsáætlun. Þetta atriði listans á sennilega síst við um David þar sem hann fylgdi lífsáætlun sinni að mestu leyti.

Sjötti mælikvarði: Holmes og Deburger mælikvarði

Númer 3.d. á mælikvarða Holmes og DeBurger er Stjórnunar / vald tegundin (e. control type). Þeir einstaklingar sem falla undir stjórnunar / vald tegundina hjá Holmes og DeBurger drepa vegna þess að þeir hafa unun af því að sýna vald sitt og algjöra stjórn (e. control) á annarri manneskju. Þeir ákveða hver, hvar, hvernig og hvort einhver verður drepinn, þeir eru Guð. David trúði og fékk aðra til að trúa því að hann væri sendiboði Guðs, að Guð talaði við fólkið í gegnum sig. Hann lét fólk trúa að hann væri æðri öðru fólki. David hefur aldrei verið grunaður um manndráp en eins og fram hefur komið þá hafði hann vissulega unun af því að sýna vald sitt yfir öðru fólki eins og til dæmis ákveða hvaða kona svaf hjá honum og hvenær, þeim var refsað sem hlýddi honum ekki. Þetta er klassískt dæmi um einstakling sem stjórnast af valdi en ekki er þó vitað til þess að hann hafi gengið svo langt að drepa aðra manneskju.

Heimildir

  1. Frontline. (e.d.). Biography: David Koresh. https://to.pbs.org/3mLDdXq.

  2. Los Angeles Times. (2000, 7. júlí). Davidian compound had huge weapon cache, Ranger
    says
    . https://www.latimes.com/archives/la-xpm-2000-jul-07-mn-49078-story.html.

  3. Manners, K. A. (2018). Waco. The Weinstein Company.

  4. Myers, L. (1995, 20. júlí). Girl tells of molestation by Koresh. Chicago Tribune.

  5. https://www.chicagotribune.com/news/ct-xpm-1995-07-20-9507200155-story.html.

  6. Rimer, S., Verhovek, S. H. (1993, 4. maí). Growing Up Under Koresh: Cult Children Tell of
    Abuses.
    The New York Times. https://nyti.ms/34NLRyw.

  7. Waco siege. (2020). Wikipedia. https://bit.ly/35S0xfo.