KACZYNSKI, Ted - Unabomber

Gígja Teitsdóttir, Helga Kristín Ingólfsdóttir og Irja Gröndal

download.jpg

KYNNING EFNIS

Fjallað verður um sakamál Ted Kaczynski sem er bandarískur hryðjuverkamaður, stjórnleysingi og fyrrum stærðfræði prófessor. Árið 1978 hóf Ted byltingu gegn tæknivæðingu í Bandaríkjunum en sú bylting var í formi sprengjuherferðar og stóð yfir 17 ára tímabil. Umdeilt er hvort fórnarlömb Ted hafi verið valin af handahófi en eitt er ljóst að þau áttu það öll sameiginlegt að tengjast tæknivæðingunni á einhvern hátt. Fórnarlömb hans voru ýmist aðilar sem störfuðu innan bandarískra háskóla, hjá flugfélaginu American Airlines eða hjá flugvéla framleiðandanum Boeing. Ted sendi annars vegar sprengjur í pósti til þessara aðila eða kom þeim sjálfur fyrir í nærumhverfi þeirra. Alls sendi hann 16 sprengjur og særði með þeim 23 einstaklinga og myrti þrjá. Ted fékk viðurnefnið Unabomber innan alríkislögreglu Bandaríkjanna sem merkir ,,UNiversity and Airline BOMbing targets involved.“ Leitin að Ted er ein umfangsmesta leit í sögu Bandaríkjanna og kostaði alríkislögregluna 50 milljónir Bandaríkjadollara. Alls störfuðu 150 rannsóknaraðilar og sérfræðingar við leitina.

Uppeldi og æska Ted virtist almennt eðlileg en ungur að aldri veikist hann alvarlega og var í kjölfarið fluttur á spítala. Á meðan á spítaladvöl hans stóð var foreldrum hans nánast alveg bannað að heimsækja hann og Ted upplifði sig mjög einangraðan. Þetta hafði mikil áhrif á hann sem barn og móðir hans lýsti því sem svo að hún hafi ekki fengið sama barnið í hendurnar eftir þetta.

Foreldrar Ted lögðu mikla áherslu á að hann og bróðir hans menntuðu sig. Skólaganga Ted einkenndist af miklu einelti sem leiddi til þess að hann einangraðist félagslega. Hann var bráðklár og var einu ári á undan í skóla en honum var lýst sem miklum einfara og átti erfitt með að ná til samnemenda sinna. Á menntaskóla árum fór hann svo að sýna stærðfræði mikinn áhuga og eyddi megninu af tíma sínum einn með sjálfum sér að leysa flókin stærðfræðidæmi. Þetta hentaði honum vel þar sem sú fræði krefst lítilla félagslegra samskipta. Ted var aðeins 16 ára gamall þegar hann fékk skólastyrk til að stunda nám við Harvard háskólann, langt á undan jafnöldrum sínum.

Á meðan Ted sinnti námi sínu í Harvard komst hann í samband við sálfræðing innan skólans sem hvatti hann til þess að vera þátttakandi í rannsókn hjá sér. Ted samþykkti það en í kjölfarið tóku við þrjú átakanleg ár þar sem rannsóknin var siðferðilega röng. Þátttakendur voru beittir andlegu ofbeldi en þar sem Ted vildi ekki sýna veikleika sína hélt hann þátttöku sinni áfram án þess að gera athugasemdir um háttsemi rannsóknarinnar.

Margir vilja meina að ofangreindir atburðir í lífi Ted hafi ekki einungis mótað hann sem einstakling heldur einnig orsakað hegðun hans og gjörðir seinna meir. Á síðasta ári hans í Harvard byrjaði Ted að þróa með sér mikla andúð gagnvart tæknivæðingunni og hinum ýmsu þáttum nútímalífsins. Hann taldi iðnkerfið vera að eyðileggja samfélagið og spáði því að tölvunarfræðingum myndi takast að þróa vélar sem gætu gert allt betur en mannverur og myndu að lokum stjórna heiminum. Hann taldi því nauðsynlegt að stoppa þessa áhrifamiklu þróun og besta leiðin til þess að hans mati var að losa sig við alla aðila sem tengdust tæknivæðingunni að einhverju leyti.

Ted yfirgaf náms- og starfsferil sinn árið 1969 til að sækjast eftir einföldum frumbyggja lífsstíl. Hann flutti í kofa án rafmagns og vatns sem hann byggði úti í skógi á landi sem hann og bróðir hans áttu. Þar gafst honum tækifæri til að einangra sig enn frekar og sleit öllu sambandi við fjölskyldu sína. Í kofanum bjó hann sprengjurnar til og skipulagði byltinguna.

Sprengjur Ted voru alltaf mjög fágaðar og báru engin sönnunargögn sem gætu komið upp um hann. Hins vegar fór hann út af sporinu þegar hann sendi frá sér svokallað ,,manifesto“ eða stefnuskrá um andúð sína á tæknivæðingunni og skaðlegum áhrifum hennar á samfélagið. Stefnuskrána sendi hann á dagblaðið New York Times en þaðan kemst stefnuskráin í hendur alríkislögreglunnar og svokallaðri ,,forensic linguistics“ tækni var beitt til að greina í málfar hennar. Þar að auki var hún birt almenningi í von um að einhverjir myndu kannast við málfar Ted. Vegna stefnuskránnar komst upp um Ted árið 1996 og hlaut hann átta lífstíðardóma án möguleika á skilorði.

Ted Ksczynski.

Ted Ksczynski.

GLÆPURINN SJÁLFUR

Ted taldi mannkynið vera ,,fanga tækninnar“ og að það þyrfti að frelsa samfélagið frá framþróun hennar. Þessi mikla andúð hans gagnvart tæknivæðingunni leiddi til þess að hann hóf byltingu með sprengjuherferð sem beindist að aðilum sem tengdust að einhverju leyti eða áttu aðild að framþróun tækninnar. Verknaður Ted stóð yfir 17 ára tímabil frá árunum 1978 til 1995 í Bandaríkjunum. Hann sendi alls 16 sprengjur víðsvegar um Bandaríkin og með þeim særði hann 23 einstaklinga og myrti þrjá. Sprengjurnar voru m.a. sendar til tölvunarfræðinga, vísindamanna, háskóla prófessora og námsmanna.

Nokkrum árum áður en Ted lét fyrst til skara skríða byrjaði hann að safna sprengiefni en gætti ávallt að því að kaupa það í litlum skömmtum svo engar grunsemdir myndu vakna. Gerð sprengjanna var mjög fáguð en Ted gætti þess vel að skilja aldrei eftir sig fingraför og aðrar vísbendingar sem gætu komið upp um hann. Hann skyldi þó vísvitandi eftir villandi vísbendingar sem gerðu leit alríkislögreglunnar erfiðari með hverri sprengjunni. Sprengjurnar voru þar að auki ólíkar og því var ekki hægt að finna mynstur í gerð þeirra til þess að rekja til einstaklingsins sem bjó þær til. Ted varði öllum stundum í kofanum sínum og á bókasöfnum að lesa sig til um gerð sprengja til þess að þróa þær og betrumbæta. Hann var með það markmið að leiðarljósi að búa til þróaðar og stórar sprengjur sem myndu verða einstaklingi að bana. Því er ekki furða að sprengjurnar hafi ekki haft sérstakt mynstur því Ted hafði enga reynslu á gerð þeirra, með hverri sprengjunni var hann sjálfur að læra. Það eina sem alríkislögreglan tengdi á milli sprengjanna var letrið FC sem grafið var í einhvern af málmbútum sprengjunnar. Í ljós kom að þessi skammstöfun stóð fyrir ,,frelsis klúbbur“ (e. Freedom Club). Þetta voru hryðjuverkasamtök sem Ted ímyndaði sér og áttu að standa fyrir því að eyðileggja nútíma iðnaðarsamfélag í öllum heimshlutum. Með þessu upplifði hann sig sem hluta af stærri hópi, þessum samtökum, sem væru að frelsa heiminn frá tækninni.

Fyrsta sprengjan sem hann náði að þróa til þess að drepa einstakling var árið 1985 en hún var sú ellefta í röðinni. Sú sprengja var send til eiganda tölvuverslunar í Kaliforníu sem lést í kjölfarið. Áður hafði hann sent tíu sprengjur, sjö þeirra sendi hann til prófessora, nemenda og annarra starfsmanna innan háskóla víðsvegar um Bandaríkin. Tvær þeirra voru sendar til flugfélagsins American Airlines og ein til flugvélaframleiðandans Boeing. Árið 1987 fer hann sjálfur með tólftu sprengjuna á vettvang og staðsetur hana fyrir utan tölvuverslun í Utah. Einn af starfsmönnum verslunarinnar sá til hans og í kjölfarið fer eigandinn út til þess að athuga hvað væri um að vera. Þegar eigandinn tekur upp sprengjuna þá springur hún. Eigandi verslunarinnar lést ekki en hlaut alvarlega áverka á vinstri hendi og hinir ýmsu hlutir skutust úr sprengjunni víðsvegar í líkama hans. Starfsmaður verslunarinnar var yfirheyrður eftir atvikið og út frá frásögn hans var teiknuð upp mynd af hinum grunaða, Ted (sjá mynd að ofan). Lokadrög myndarinnar voru af manni með mikið skegg, sólgleraugu og í hettupeysu með hettuna á höfðinu. Myndinni var svo dreift um Bandaríkin í von um að einhver kannaðist við hann. Í kjölfarið tók Ted sér pásu og sendi ekki sprengjur í sex ár. Alríkislögreglan taldi hann mögulega hættan þar sem þeir væru komnir nær því að finna hann en svo var ekki. Árið 1993, eftir sex ára pásu, sendi Ted sprengju í pósti til David Gelernter sem var tölvunarfræðingur við Yale háskólann. Sprengjan drap hann ekki en hann slasaðist alvarlega. Tveimur dögum seinna sendi hann fjórtándu sprengjuna og seinustu tvær sprengjurnar sendi hann á árunum 1994 og 1995 sem báðar leiddu til dauða viðtakanda. Ted var handtekinn í apríl árið 1996 í kofanum sínum úti í skógi þar sem hann hafði búið í 24 ár. Í kofanum hafði Ted búið til og þróað allar sínar sprengjur á þessu 17 ára tímabili en þar mátti finna allskonar sprengjubúnað og bækur um hvernig búa ætti til sprengjur. Einnig fundust sólgleraugun og hettupeysan sem hann var í á teikningunni. Í kofanum fannst einnig dagbók sem Ted hafði haldið yfir allt þetta tímabil og í henni mátti finna einhvers konar talnakóða sem hann notaði í stað stafrófsins til þess að skrifa um gerð sprengjanna, þróun þeirra og fórnarlömb sín.

Ein af sprengjum Teds.

Ein af sprengjum Teds.

PERSÓNAN SJÁLF

Theodore John Kaczynski fæddist 22. maí árið 1942 í Chicago, Illinois. Hann ólst upp hjá foreldrum sínum Theodore “Turk” og Wanda Kaczynski ásamt yngri bróður sínum David. Uppeldi og æska bræðranna virtist almennt eðlileg en Ted veiktist alvarlega þegar hann var aðeins 9 mánaða gamall og var í kjölfarið fluttur á sjúkrahús í 10 daga einangrun. Meðan á þessari dvöl stóð fengu foreldrar hans að sjá hann mjög takmarkað. Fyrir innlögnina var Ted lífsglatt barn en þegar hann kom heim af spítalanum var hann sagður hafa breyst mikið. Móðir hans lýsti því eins og hún hefði fengið annað barn í hendurnar og það hafi nánast ekki sést bros á vörum barnsins. Þetta atvik hafði mikil áhrif á Ted en hann átti erfitt með að treysta öðrum í gegnum lífið.

Bróðir Ted hefur sagt frá mörgum atvikum þar sem Ted sýnir gríðarlega reiði gagnvart foreldrum sínum. Hann sagði m.a. frá atviki þar sem Ted dró stól undan móður sinni sem var í þann mund að setjast niður með fangið fullt af heitum mat. Þetta varð þess valdandi að hún datt og Ted stóð hlægjandi yfir henni. Í viðtölum við yfirvöld hefur bróðir Ted einnig greint frá því að merki um hatur og fjandsamlegar tilfinningar Ted hafi komið snemma. Seinna meir hafi þessi fjandsemi breyst í ásakandi bréf til foreldra þeirra þar sem hann ásakaði þau um að hafa eyðilagt líf hans.

Ted hóf skólagöngu sína í Chicago en þegar hann var 10 ára gamall flutti hann ásamt fjölskyldu sinni til Evergreen Park, Illinois. Hann fór í nýjan skóla og sleppti sjötta bekk þar sem hann mældist með greindarvísitöluna 167. Þar komu félagslegir erfiðleikar hans í ljós en honum þótti erfitt að ná til samnemenda sinna enda voru þau árinu eldri en hann. Móðir hans íhugaði að setja hann í skóla fyrir einhverf börn vegna félagslegu erfiðleika hans en endaði með að gera það ekki. Ted var lýst sem miklum einfara sem hafði gríðarlegar gáfur en hann hélt sig töluvert út af fyrir sig og átti ekki marga vini. Á menntaskóla árum fór hann að sýna stærðfræði mikinn áhuga og eyddi miklum tíma í að leysa flókin stærðfræðidæmi. Hann var aðeins 15 ára gamall þegar hann útskrifaðist úr menntaskóla og ári seinna hóf hann háskólanám við Harvard en þaðan útskrifaðist hann með BA gráðu í stærðfræði. Hann hélt áfram að mennta sig og fékk bæði masters- og doktorsgráðu í stærðfræði frá háskólanum í Michigan.

Á háskóla árum sínum í Harvard tók hann þátt í rannsókn sem hafði slæm áhrif á líf hans. Rannsóknin stóð yfir í þrjú ár og var gerð af sálfræðingnum Henry Murray sem starfaði við skólann. Murray braut margar siðferðilegar reglur en í rannsókninni voru þátttakendur beittir miklu andlegu ofbeldi með meinyrðum og niðurlægingum í hverri einustu viku. Þar sem Ted leit mikið upp til Murray vildi hann alls ekki sýna honum veikleika sína og ákvað að hætta ekki þrátt fyrir að vita að þetta hafði slæm áhrif á hann og væri ekki í lagi. Eftir þátttökuna í rannsókninni tóku vinir hans og fjölskylda eftir því að hann einangraði sig enn meira en áður.

Álit Ted á konum varð mjög brenglað eftir að Ted upplifði mikla höfnun þegar hann komst að því að stúlka sem hann var mjög hrifinn af leit aðeins á hann sem vin. Hann upplifði þetta sem mikla niðurlægingu og átti aldrei í kynferðislegu sambandi við hitt kynið yfir ævina. Árið 1966 fékk Ted miklar kynferðislegar fantasíur um að verða kona og ákvað að fara í kynskiptiaðgerð. Hann skipti svo um skoðun á biðstofunni og upplifði mikla reiði gagnvart lækninum í kjölfarið og vildi drepa hann. Hann var reiður yfir því að læknirinn hafi ætlað að framkvæma aðgerð á honum sem væri drifin af óviðráðanlegum kynferðislegum hvötum Ted sem hann lýsti seinna sem ógeðfelldum hvötum. Á þessum árum byrjar Ted að skrifa um morð í dagbókina sína.

Þegar Ted var 25 ára var hann ráðinn sem aðstoðarprófessor í stærðfræði í Berkeley háskólanum í Kaliforníu. Hann var yngsti aðstoðarprófessor í sögu skólans. Ted kenndi rúmfræði og reiknivísi en að sögn nemenda hans var hann óþægilegur kennari sem kenndi beint upp úr bókum og neitaði að svara spurningum. Þegar hann hætti að kenna í Berkeley flutti hann um tíma til foreldra sinna í Lombart. Tveimur árum síðar flutti hann á afskekkt landsvæði sem hann keypti ásamt bróður sínum nálægt Lincoln í Montana. Þar höfðu þeir bræður byggt lítinn kofa sem var án rafmagns og vatns. Ted ætlaði sér að lifa þar einföldu frumbyggja lífi, verða sjálfbær og lifa af landinu. Hann var mikið á móti tæknivæðingu og vildi halda náttúrunni ósnertri. Þar sleit hann algjörlega sambandi við fjölskyldu sína og var ekki í neinum samskiptum við hana. Hann var reiður út í kerfið og ákvað að hefna sín á því, í kjölfarið fer hann að safna sprengiefni og búa til sprengjur.

Kaczynski bræðurnir (standandi).

Kaczynski bræðurnir (standandi).

ENDIR MÁLSINS

James R. Fitzgerald var einn þeirra sem vann að rannsókn Unabomber málsins og var lykilmaður þegar kom að því að leysa málið. Ted hafði sent svokallað ,,manifesto‘‘ eða stefnuskrá á New York Times dagblaðið sem kom henni svo áleiðis til alríkislögreglunnar. Fitzgerald fann upp nýja rannsóknaraðferð sem hann kallaði ,,forensic linguistics“ sem fólst í því að greina málfar einstaklinga. Hann greindi stefnuskrána í ræmur en það var ekki nóg til að handsama Ted. Lögreglan tók til þess ráðs að birta stefnuskrána í The Washington Post þar sem blaðið var aðeins selt á einum stað í Chicago. Með því að birta hana almenningi vonuðust þeir til að Ted myndi sjálfur mæta til að kaupa blaðið í þeim tilgangi að dást að sjálfum sér. Einnig héldu þeir í þá von að einhver myndi kannast við skrift hans og málfar og í kjölfarið láta vita. Þetta var ein umfangsmesta leit í sögu alríkislögreglu Bandaríkjanna. Seinni kosturinn varð að veruleika eftir að eiginkona David Kaszynski, bróðir Ted, kannaðist við málfar stefnuskránnar þar sem Ted hafði sent henni bréf áður. Hún og David höfðu því samband við lögregluna og þeim tókst loksins að leysa málið eftir að 17 ár voru liðin frá fyrstu sprengjunni.

Ted bjó á afskekktum stað úti í skógi í Montana og þangað mætti lögreglan ásamt sérsveitinni og handtók hann þann 3. apríl árið 1996. Í kjölfarið var kofinn rannsakaður og fundust þar sönnunargögn eins og sprengiefni og dagbækur sem lýstu nákvæmt gerð sprengjanna og hvað Ted var að plana hverju sinni. Hann var kærður vegna 10 ákæruliða, þar á meðal fyrir að draga 3 einstaklinga til dauða. Í réttarhöldunum reyndu lögfræðingar Ted að telja hann ósakhæfan vegna geðveiki til að komast hjá dauðarefsingu. Ted tók það hins vegar ekki í mál því hann taldi það draga úr afrekum hans. Þetta varð til þess að Ted rak lögfræðinga sína og vildi fá nýjan verjanda sem skildi hann og hans sjónarmið betur. Þeirri beiðni hans var hafnað og endaði á því að Ted reyndi að svipta sig lífi þann 9. janúar 1997. Vegna þessa var hann í kjölfar greindur af geðlækni með ofsóknargeðklofa, ofsóknarpersónuleikaröskun og geðklofalíka persónuleikaröskun. Síðar sagði Ted að tveir sálfræðingar hefðu heimsótt hann í fangelsið og að honum hafi fundist þessar greiningar algjört bull. Þar sem þetta kom frá honum sjálfum þá var það ekki talið áreiðanlegt. Í janúar 1998 taldi dómarinn Ted vel hæfan til áframhaldandi réttarhalda þrátt fyrir geðklofagreininguna. Saksóknarar vildu dæma hann til dauða en hann komst hjá því með því að játa á sig allar sakir daginn eftir að réttarhöld hófust. Hann hlaut átta lífstíðardóma án möguleika á skilorði en reyndi svo að draga játninguna til baka með þeim rökum að hún hafi verið ósjálfráð og að hann hafi ekki vitað hvað hann væri að gera. Dómarinn hafnaði þessari beiðni hans og staðfesti ákvörðun sína formlega, átta lífstíðardómar. Kofinn hans var fluttur í heilu lagi til Kaliforníu sem sönnunargagn þar til hann var svo settur á safn.

Það birtir alltaf upp um síðir en eftir að Ted var dæmdur þá stakk dómarinn Garland Ellis Burrell Jr. upp á því að hlutir úr kofa Ted yrðu seldir á uppboði og að ágóðinn myndi renna til fórnarlamba Ted og fjölskyldna þeirra. Alls söfnuðust 15 milljónir. Í dag er Ted í eina ,,supermax’’ öryggisfangelsinu í Bandaríkjunum í Colorado og er sagður fara nánast aldrei út úr klefanum sínum. Hann heldur sér uppteknum með því að skrifa en hans berst fjöldinn allur af bréfum frá aðdáendum í hverri viku.

Myndband: https://www.youtube.com/watch?v=w_qHP7NL0vo.

MÆLIKVARÐAR

Mælikvarði 1:

Fyrsti mælikvarðinn sem við völdum er Holmes & DeBurger. Þar passar lýsingin á hugsjónategundinni best við Ted. Morðingjar af þessari tegund drepa vegna þess að þeim finnst þeir þurfa að losa heiminn við ákveðna tegund fólks. Ted varð mjög snemma andvígur tæknivæðingunni á öfgafullan hátt. Eins og hann orðaði það sjálfur var mannkynið orðið að ,,fanga tækninnar” og því yrði að breyta áður en það yrði of seint. Eins og fram hefur komið sendi hann sprengjur í pósti en umdeilt er hvort aðilarnir sem tóku við þeim hafi verið valdir af handahófi eða ekki. Það var þó ljóst að allir þessir aðilar áttu það sameiginlegt að tengjast tæknivæðingunni að einhverju leyti. Sprengjurnar voru m.a. sendar til tölvunarfræðinga, vísindamanna, háskóla prófessora og námsmanna en þessa einstaklinga taldi Ted ýta undir tæknivæðinguna á einn eða annan hátt. Með því að senda sprengjurnar til þessara aðila eða koma þeim fyrir í þeirra nærumhverfi er líklegt að tilgangurinn hafi verið að vekja fólk til umhugsunar um skaðleg áhrif tækninnar á nútímasamfélög. Þetta er einnig líkleg ástæða fyrir útgáfu hans á stefnuskránni en í henni kemur hann sinni skoðun á þessu málefni til skila. Enn þann dag í dag heldur Ted að hann hafi gert heiminum greiða og lítur á sjálfan sig sem hetju og því miður er fólk sem ýtir undir það með því að senda honum aðdáendabréf.

Mælikvarði 2:

Annar mælikvarðinn er dauðasyndirnar 7. Þar á fimmta dauðasyndin sem er reiði hve best við en í henni er reiði lýst sem ást á réttlæti sem snýst upp í hefnd og illgirni. Þar er illska vegna skapofsa, hefnigirni eða ofbeldislegrar gremju einkennandi. Ted var með sterka sýn á heiminn og honum var ávallt lýst sem einstaklingi með sterka samfélagskennd og var með sterkar skoðanir á tæknivæðingu heimsins. Hann var reiður út í margt og marga en þessi mikla reiði hans byrjaði líklega snemma og verður sérstaklega áberandi þegar hann stundaði nám í Harvard. Á þeim tíma hélt hann úti dagbók og skrifaði um það að drepa fólk sem hann var reiður út í og byrjaði að lýsa þessari miklu reiði sem hann fann innra með sér í dagbókarskrifum sínum. Reiði hans jókst svo með árunum og beindist aðallega að kerfinu og tæknivæðingu heimsins en hann upplifði einnig mikla reiði gagnvart fjölskyldu sinni sem hann sagði hafa eyðilagt líf sitt. David bróðir hans lýsti mikilli reiði Ted gagnvart foreldrum sínum í viðtölum við alríkislögregluna og minntist m.a. á bréf sem Ted hafði skrifað til foreldra sinna þar sem hann tjáði þeim að hann gæti ekki beðið eftir að þau myndi deyja. Það var hins vegar þessi mikla reiði hans gagnvart kerfinu og tæknivæðingunni sem má segja að sé uppspretta glæpa hans og þessarar þarfar hans fyrir að hefna sín. Hann vildi hefna sín á kerfinu og telur sig vera ábyrgan fyrir því að bjarga heiminum frá tæknivæðingunni og beinir því sprengjum sínum að fólki sem stuðlaði að framþróun tækninnar eins og fram kemur að ofan. Ted segir í bréfi til bróður síns að hann hafi haft löngun í að myrða marga en ástæðan fyrir því að hann hafi ekki látið verða að því var vegna þess að hann hafði verið heilaþvoður af samfélaginu.


Mælikvarði 3:

Þriðji mælikvarðinn er hringkenningin sem er í níu þrepum. Fyrsta þrepið er vænting höfnunar sem felst í því að viðkomandi er hræddur við að verða fyrir höfnun. Ted upplifði mikla höfnun á sinni lífsleið en sem dæmi upplifir hann fyrst höfnun 9 mánaða þegar hann var lagður inn á spítala í einangrun frá fjölskyldu sinni. Næsta þrep eru særðar tilfinningar sem er í raun afleiðing af fyrri hræðslu og einangrun. Hjá Ted var það afleiðing höfnunar og erfiðra atvika sem hann lenti í á lífsleið sinni en hann upplifði sig sem mikið fórnarlamb. Þetta leiddi til þess að hann einangraði sig alltaf meira og meira. Þriðja þrepið er dulin neikvæð sjálfsmynd sem lýsir sér þannig að einstaklingurinn kennir öðrum um það sem illa fer. Þetta sást betur hjá honum sem barn og unglingur en þegar hann eldist týndist þetta svolítið í mikilmennskubrjálæði. Fjórða þrepið er óheilbrigð aðlögun þar sem morðinginn heldur fyrri þrepum leyndum fyrir öðrum. Ted vildi ekki sýna veikleika sína, þetta kom m.a. fram við þátttöku hans í siðferðilega röngu rannsókn Henry Murray í Harvard. Ted leit mikið upp til Murray og hætti ekki þrátt fyrir mikið andlegt ofbeldi. Fimmta þrepið eru frávikskenndar fantasíur. Grunnástæða þessa þreps er meðal annars leit eftir athygli, hefnd og annarra ástæðna sem gefa honum afsökun fyrir morðunum. Hann lítur á sig sem ,,frelsara” sem eigi að frelsa íbúa jarðar undan tækninni. Með árásum sínum var hann að hefna sín á kerfinu. Sjötta þrepið er þjálfunarferlið en flestir morðingjar nást á þessu stigi þar sem þetta er fyrsta stigið sem er sýnilegt öðrum. Það má segja að Ted náist í öðru þjálfunarferli sínu þegar hann gefur út stefnuskrá sem hann vildi að yrði tekin í gildi af stjórnvöldum og snerist í raun um að stoppa af tæknivæðingu heimsins. Ted fer ekki nægilega varlega þar sem hann skilur eftir sig fjölda vísbendinga sem leiddu til þess að hann náðist. Sjöunda þrepið er glæpurinn sjálfur og er afleiðing af því sem undan er komið. Þegar hann byrjar að þróa sprengjurnar kaupir hann lítið sprengiefni í einu yfir nokkurra ára tímabil, hann undirbýr sig vandlega í nokkur á og þróar svo sprengjurnar á meðan á glæpunum stendur. Í fyrstu eru sprengjurnar ekki nógu öflugar og slasa því aðeins fórnarlömbin. Svo má segja að markmiði hans sé náð þegar hann sendir elleftu sprengjuna því með henni fremur hann fyrsta morðið. Áttunda þrepið er tímabundin eftirsjá en fyrir Ted er fólkið sem hann drepur ekki fólk heldur fulltrúar tæknivæðingarinnar sem hann vildi útrýma. Níunda og síðasta þrepið er réttlæting. Ted fannst hann vera að gera þjóðinni greiða og taldi sig vera bjargvætt fórnarlamba tæknivæðingarinnar.

Mælikvarði 4:

Fjórði mælikvarðinn sem var notaður var CCM og stendur fyrir Crime Classification Manual. Í þeim mælikvarða notuðum við flokk númer 127 til þess að greina verknað Ted betur. Þann flokk má finna í níunda kafla mælikvarðans en sá kafli nær yfir flokka sem standa fyrir ,,Extremist and Medical Homicide“. Flokkur 127 á vel við Ted en sá flokkur skilgreinir morð m.a. sem öfgakennd morð sem eiga sér stað vegna öfgakenndrar hugmyndafræði. Hugmyndafræðin hvetur einstakling eða hóp til að fremja morð til að efla markmið og hugmyndir tiltekins einstaklings eða hóps. Eins og fram hefur komið þá var andúð Ted gagnvart tæknivæðingunni mjög mikil, hann taldi hana vera að eyðileggja samfélög um allan heim. Hann sá fyrir sér framtíðina fulla af vélmennum sem væru búin að taka yfir. Í ljósi umræða í dag þá eru þessar áhyggjur hans að mörgu leyti skiljanlegar en lausn hans á vandamálinu segir okkur hve sterk og öfgakennd hugmyndafræði hans um tæknivæðingu var. Hann bjó einnig til hryðjuverkasamtök sem kölluðust ,,Freedom Club” og markmið þeirrar hreyfingar var að frelsa samfélagið frá tæknivæðingunni og þróun hennar. Þetta voru ímynduð samtök en hann upplifði sig hluta af hópi sem fylgdi sömu hugmyndafræði og studdu hann í ákvörðunum sínum.
            Einn af undirflokkum ofangreinds flokks kallast ,,Socioeconomic Extremist Homicide“ og er númer 127.03. Sá undirflokkur lýsir því að orsök morðsins séu gjald eða hefnd vegna mikillar andúðar á öðrum eistaklingi sem stendur fyrir einhvern tiltekinn hóp eða málefni. Eins og ljóst er þá hafði Ted mikla þörf fyrir því að koma af stað byltingu til þess að berjast fyrir málefnu sínu og það gerði hann með því að herja á alla þá aðila sem hann taldi standa fyrir framþróun tækninnar. Bróðir Ted lýsti gjörðum hans sem einhvers konar hefnd fyrir öllu því sem hann lenti í á lífsleið sinni og þessari öfgakenndu hugmyndafræði hans um framtíð tækninnar.

Mælikvarði 5:

Fimmti mælikvarðinn er DSM 5 persónuleikaraskanir. Læknirinn Dr. Park Dietz taldi Ted ekki vera geðveikan heldur með geðklofalíka persónuleikaröskun. Ted fann fyrir höfnun allt sitt líf og var ekki mikið fyrir að vera í samskiptum við annað fólk né hitt kynið eftir því sem hann eldist. Á hans yngri árum hafði hann þó einhverjar kynferðislegar langanir og var forvitinn um hitt kynið en var alltaf hafnað sem leiddi til mikillar reiði. Bróðir Ted talar um að þegar Ted var yngri hafi hann alltaf verið rosalega hræddur við höfnun af einhverju tagi. Eins og fram hefur komið þá átti Ted í miklum félagslegum erfiðleikum allt sitt líf, nágrannar hans þekktu hann ekki vel og hann hélt sér út af fyrir sig. Þegar einstaklingur á í svona miklum erfiðleikum með félagsleg samskipti er ekki óeðlilegt að sú hugsun komi upp að fólk skilji viðkomandi ekki og að hann skilji ekki aðra. Miðað við viðhorf Ted í garð annarra og gjarðir hans er líklegt að þessi hugsun hafi verið til staðar. Fjöldi sálfræðinga um allan heim hafa greint hann með geðklofalíka persónuleikaröskun án þess þó að hafa hitt hann en hún einkennist m.a. af þessari miklu félagslegu einangrun og því erfitt að meðhöndla hana.

Mælikvarði 6:

Sjötti og síðasti mælikvarðinn sem við notuðum er DSM 5 mínus persónuleikaraskanir. Vísbendingar benda til þess að Ted sé með geðklofa en hann hefur fengið slíka greiningu frá geðlækni. Ted telur sig þó ekki vera með geðklofa og hefur ítrekað neitað því. Ted sýndi merki um neikvæð einkenni geðklofa þar sem hann einangraði sig mikið félagslega með því t.d. að flytja langt frá fjölskyldu sinni og einangraði sig frá vinum sínum úr skólanum.

Ted þjáðist einnig af ástandi sem er algengt meðal geðklofasjúklinga og kallast líkamstúlkunarstol (e. anosognosia). Líkamstúlkunarstol er það að sjúklingur gerir sér ekki grein fyrir því að hann er með sjúkdóm og leitar sér þar af leiðandi ekki hjálpar og ástandið versnar í kjölfarið. Þetta útskýrir að hluta til hvers vegna Ted harðneitaði þegar lögfræðingar hans vildu senda hann í geðklofa greiningu sem hefði geta nýst honum í vörn sinni. Fjölskylda hans hafði gert sér grein fyrir veikindum hans en á þeim tímapunkti gátu þau ekki fengið meðhöndlun fyrir hann þar sem lög í Montana kveða á að einstaklingar verði að vera orðnir veikari og hættulegir sjálfum sér eða öðrum til að geta fengið aðstoð. Vissulega hafði enginn hugmynd á þessu tímabili hvað myndi gerast ef hann fengi ekki hjálp.

Eftir því sem leið á fór mikilmennskubrjálæði hans, sem er eitt einkenni geðklofa, að gera vart við sig þar sem Ted fannst hann þurfa að vera sá sem bjargaði heiminum frá tæknivæðingunni og trúði því að hann gæti það. Bróðir Ted hefur staðfest þessar upplýsingar og vill meina að ef Ted hefði fengið viðeigandi hjálp hefði verið hægt að koma í veg fyrir hræðilegu sprengjuherferð hans. Hann sagði einnig að fjölskyldan gæti ekki tekið til baka það sem hefði gerst en þau gætu reynt að fá fólk til að skilja það betur.

Heimildir 

  1. Mosk, M. og Ross, B. (2011, 10. janúar). Lone Wolf Killers: Unabomber’s Brother Sees Isolation, Mental Illness as Key to Tucson Tragedy. ABC News. https://abcnews.go.com/Blotter/unabombers-brother-sees-parallels-accused-tucson-shooter-jared/story?id=12589889.

  2. Kaczynski’s Schizophrenia. (1998). Los Angeles Times. https://www.latimes.com/archives/la-xpm-1998-jan-31-me-14026-story.html.

  3. Unabomber: Too Ill to Recognize Ilness. (2016). Treatment Advocacy Center. https://www.treatmentadvocacycenter.org/fixing-the-system/features-and-news/3081-unabomber-too-ill-to-recognize-illness.

  4. Ted Kaczynski. Wikipedia. https://en.wikipedia.org/wiki/Ted_Kaczynski.

  5. Urquhart-White, A. (2017, 15. ágúst). The FBI Is Faced With A Huge Decision In This ´Manhunt: Unabomber´Sneak Peek. Bustle. https://www.bustle.com/p/what-does-fc-mean-in-manhunt-unabomber-the-initials-stand-for-ted-kaczynskis-deadly-mission-76633.

  6. Lat, C. E. (1997, 2. nóvember). Kaczynski: Childhood of rage. SFGATE. https://www.sfgate.com/news/article/Kaczynski-Childhood-of-rage-3091103.php.