YATES, Andrea

Andrea Yates.

Andrea Yates.

Andrea Yates, most hated woman in the world

Helgi Tómas Helgason, Lena Lísa Árnadóttir, Steinunn Anna Svansdóttir og Þórunn Lea Sigurðardóttir

Kynning

Þetta mál er með þeim stærri sem hafa farið fram í Bandaríkjunum á þessari öld enda var Andrea Yates á allra manna vörum árið 2001 og samkvæmt sínum eigin orðum var hún kölluð: The most hated woman in the world. Andrea Yates var fædd árið 1964 og er hún frá Houston, Texas í Bandaríkjunum (Biography, 2020). Hún giftist Russel Yates og voru þau bæði mjög trúuð, öfgatrúuð má segja. Þann 20. júní 2001 hafði Andrea Yates drekkt öllum fimm börnum sínum í baðkari á heimili sínu (McLellan, 2006). Börnin voru á aldrinum sjö ára og alveg niður í sex mánaða. Hún drap þó börnin sín ekki að ástæðulausu, sagðist vera að hjálpa þeim að komast hjá því að fara til helvítis með því að taka líf þeirra á meðan þau væru enþá ung og saklaus. Í þó nokkur ár fram að morðunum hafði Andrea verið inn og út af geðspítala vegna andlegrar heilsu sinnar en aldrei fékk hún viðeigandi meðferð fyrir veikindum sínum. Líklegt er að ef hún hefði fengið almennilega þjónustu frá sálfræðingum og geðlæknum væri mögulega hægt að segja að börnin hennar væru enn á lífi í dag, 19 árum seinna. Hún var greind með alvarlegt fæðingarþunglyndi, fæðingar geðrof og geðklofa löngu áður en morðin áttu sér stað og reyndi að fremja sjálfsmorð tvisvar en fékk litla sem enga hjálp frá heilbrigðiskerfinu í Bandaríkjunum (Fisher, 2003).  Í fyrstu var hún dæmd í lífstíðarfangelsi en seinna var mál hennar tekið aftur upp og var hún þá dæmd ósakhæf og komið fyrir á geðspítala þar sem hún situr enn í dag. Aldrei neitaði hún fyrir morðin eða reyndi að koma sökinni yfir á einhvern annan.

Andrea situr enn til dagsins í dag inná geðspítala og ekki lítur út fyrir að hún sé að fara þaðan á næstunni (ABC, 2018). Hún minnist enn barna sinna og maðurinn hennar, Russel, gerir það líka. Mál hennar hafði mikil áhrif á réttarkerfið í tengslum þess við geðheilsu glæpamanna um allan heim til hins betra. Varpað var ljósi á alvarleika fæðingarþunglyndis og fæðingar geðrofs kvenna í lögfræðilegum skilningi og geðröskunum almennt í réttarhöldum.

Í augum Andreu var hún að hjálpa börnum sínum að fara upp til himna og sá í raun ekki illskuna í því sem hún hafði gert (Fisher, 2003). Eftir að mál Andreu hafði farið víða byrjaði umræðan um andlega heilsu að stækka töluvert meðal almennings í bandaríkjunum og áhættur þess ef ekki er gripið inn í nógu fljótt eða á viðeigandi hátt. Algengi og alvarleiki fæðingarþunglyndis og fæðingar geðrofs er meira en fólk gerir sér grein fyrir og það að mæður drepa börnin sín er því miður ekki of sjaldgæft.

Viðtal við Andreu: https://www.youtube.com/watch?v=dCp-U_MkSXc .

 

Glæpurinn

Þegar börn eru fórnarlömb í svona hræðilegum morðmálum líkt og þessu er erfitt að sýna morðingjanum einhverja miskunn fyrir gjörðir sínar. En vert er að taka tillit til andlegs ástands Andreu þar sem hún þurfti á mikilli hjálp að halda. Þann 20. júní 2001 var Andrea ein og eftirlitslaus heima hjá sér með öllum fimm börnum sínum (Fisher, 2003). Russel hafði farið í vinnuna en móðir hans átti að líta eftir Andreu þar sem hún var enn á geðlyfjum og andlega óstöðug og átti hún því að fylgjast með henni en var ekki komin. Hún fyllti baðkarið og hreinlega kallaði á börnin sín eitt á fætur öðru til þess að drekkja þeim. Það gerði hún með því að halda andlitum þeirra niðri í vatninu þangað til þau flutu hreyfingarlaus í baðkarinu. Fyrst tók hún John, fimm ára, næst Paul þriggja ára og svo Luke tveggja ára, þá verandi búin að drekkja öllum miðjubörnum sínum. Því næst drap hún aðeins sex mánaða gömlu Mary og kallaði svo á Noah elsta strákinn sinn, sjö ára, til að koma. Blasti þá við honum litla systir hans fljótandi í baðkarinu látin og tók hann þá á það ráð að flýja frá móður sinni en á endanum náði hún honum og hélt verki sínu áfram. Noah barðist um líf sitt og reyndi að ná andanum en árangurslaust varð það og fór hann sömu leið og systkini sín fjögur.

Andrea hafði drepið öll börnin sín á innan við klukkustund en í hennar augum hafði hún bjargað þeim (Fisher, 2003). Hún lagði öll líkin, enn blaut, á hjónarúm þeirra Russels og búði um þau. Því næst hringir hún á lögregluna og biður um sjúkrabíl og virðist mjög róleg í símtali við lögreglu (McLellan, 2006). Einnig hringdi hún í Russel og sagði að hann þyrfti að koma heim. Þegar komið var á staðinn spurði lögreglan Andreu hvað væri í gangi og svaraði hún strax: ,,Ég drap börnin mín.” Föt Andreu voru enn blaut eftir átökin og gekk hún þannig út fyrir framan fréttamiðla. Hún var handtekin á staðnum og tekin í gæsluvarðhald.

Fyrir dómi sagði sálfræðingur hennar að hún hafi verið í fæðingar geðrofi þegar morðin áttu sér stað en þrátt fyrir það var hún dæmd sek af kviðdómi og þurfti að afplána lífstíðarfangelsis dóm, en það eru minnst 40 ár (McLellan, 2006). Mál Andreu fór víða í fréttum og umræðan um andlega heilsu óx hratt. Vandamál innan réttarkerfa víða í heiminum hefur leitt til þess að fólk sem er virkilega andlega veikt situr inni oftar en ekki allt sitt líf, en fer ekki batnandi því það er ekki að fá hjálpina sem það þarf. Árið 2006 var mál Andreu tekið upp aftur og var hún dæmd ósakhæf vegna geðveiki og lögð inná geðspítala í Texas.

Mynd af gröf Yates barnanna: https://images.app.goo.gl/xvsg2jHpCiSoiWBb6 .

Mynd af gröf Yates barnanna: https://images.app.goo.gl/xvsg2jHpCiSoiWBb6 .

911 símtal Andreu eftir morðin: https://www.youtube.com/watch?v=oXOMW5AvGCc .

Persónan sjálf: Andrea Yates

Andrea Yates fæddist árið 1964 og starfaði sem hjúkrunarkona í átta ár og var frá Houston, Texas (McLellan, 2006). Hún og maðurinn hennar, Russel Yates áttu saman fimm börn, Noah, John, Paul, Luke og Mary og voru þau frá aldrinum sex mánaða til sjö ára að aldri. Öll börnin sóttu ekki skóla heldur kenndi Andrea þeim heima og í leiðinni sá hún um heimilishaldið, hjálparlaust. Einnig hjálpaði hún við umönnun föður síns sem var með Alzheimers heilkenni. Hjónin voru nokkuð trúuð og héldu biblíufræðslur heima hjá sér þrisvar í viku. Prestur þeirra, Michael Woraniecki, hallaðist af neikvæðu viðhorfi trúarinnar og þá sérstaklega að mótmælenda trú. Hann sagði að ,,helvíti er beint fyrir utan dyrnar hjá þér, bíðandi eftir að taka þig til sín” og að foreldrar ættu frekar að fremja sjálfsmorð í stað þess að ala börn þeirra illa upp (e. stumble) og fara þá til helvítis. Í ljósi atburða má álykta að Woraniecki hafi mögulega haft einhver áhrif á hugarástand Andreu en sjálfur tók hann ekki ábyrgð og neitaði öllum ásökunum. Hann hefur verið sagður óábyrgur og að viðhorf til trúar líkt og hans máli neikvæðan misskilning á trúnni.

Allt frá því að hún átti sitt fyrsta barn hafði Andrea átt í vandræðum með andlegu heilsu sína, byrjaði að sjá ofsjónir um hnífsstungur og var með nokkuð marga geðkvilla (McLellan, 2006). Ekki skánaði það eftir að hún átti sitt fjórða barn en þá reyndi hún að fremja sjálfsvíg með róandi lyfjum. Í kjölfarið var hún lögð inn á spítala þar sem hún fékk ófullnægjandi meðferð og var útskrifuð of snemma, aðeins með uppáskrifuð þunglyndislyf sem hún neitað að taka. Ekki leið á löngu þar til hún reyndi að fremja annað sjálfsvíg en í þetta skiptið sagðist hún hafa heyrt í röddum sem sögðu henni að ná í hníf, sem hún var svo komin með upp að hálsi sínum. Enn og aftur fékk hún ekki nógu góða meðferð og aðeins gefin listi af lyfjum sem hún átti að taka. Ástæðurnar fyrir snemmbúninni útskráningu Andreu af spítölunum var sögð vera vegna tryggingana og að þær náðu ekki yfir kostnaðinn af vist hennar.

Eftir fæðingu fimmta barns þeirra hjóna fóru einkenni Andreu að versna hratt (McLellan, 2006). Hún byrjaði að rífa af sér hárin, hélt að það væru myndavélar að fylgjast með sér og að sjónvarps persónur væru að tala við sig og var þar með sett inn á stofnun sem sérhæfði sig í fíkniefnaneyslu. Sú stofnun var vissulega ekki viðeigandi fyrir ástand Andreu en það var það sem var næst heimili þeirra og hentaði Russel því best. Þrátt fyrir það fór hún í geðrofslyfja meðferð en eins og áður var hún útskrifuð of snemma og aðeins nokkrum dögum eftir heimkomu hennar fór geðlæknir hennar að minnka lyfjaskammta hennar, aftur of snemma. Russel sendi fyrirspurn á lækninn og bað hann um einhverskonar meðferð sem hún gæti fengið þar sem einkenni hennar væru byrjuð að versna aftur. Hann neitaði honum því og sagði að það væri biðlisti af fólki sem væri með alvarlega geðsjúkdóma og að hún ætti frekar að ,,hugsa jákvætt.” Þetta samtal átti sér stað tveimur dögum áður en Andrea Yates drekkti öllum fimm börnum sínum í baðkarinu heima hjá þeim.

Andrea greindist með þó nokkuð margar geðraskanir en þær helstu voru geðklofi, alvarlegt fæðingar þunglyndi og fæðingar geðrof (Meier, 2002). Ein af hverjum tíu mæðrum upplifa fæðingar þunglyndi sem einkennast af svima, vonleysi, röskuðum svefn, litlum sem engum áhuga á barninu og ótta við að meiða barnið. Fæðingar geðrof getur komið í kjölfar fæðingarþunglyndis og einkennist það af ofskynjunum sem skipa móðurinni að drepa barnið en geta hins vegar átt sér stað án ranghugmynda. Áhættan á fæðingar geðrofi eykst um 30-50% með hverri fæðingu ef móðirin hefur átt við fæðingarþunglyndi að stríða áður.

Andrea var enn í geðrofi þegar hún var handtekin beint eftir morðin og í einhvern tíma eftir það (Fisher, 2003). Þegar búið var að dæma hana og setja í fangelsi óskaði hún eftir því að raka af sér allt hárið því að á höfði hennar átti að standa ,,666,” samkvæmt henni. Sálfræðingur hennar, sem heimsækir hana vikulega, segir einnig frá því að hún segist vera Satan sjálfur og að dauði barna hennar hafi ekki verið refsing fyrir þau heldur hana sjálfa. Þrátt fyrir að hún hafi verið á sterkum geðrofs lyfjum hafi ranghugmyndir og ofskynjanir enn verið til staðar í þó nokkurn tíma eftir morðin.

Andrea neitaði aldrei sök fyrir morðin og stóð fast á ástæðum sínum fyrir þeim (McLellan, 2006). Hún sagðist hafa hugsað um að drepa þau í um tvö ár áður en hún lét verða af því. Taldi sig vera óhæfa móður og að börnin væru ekki að þroskast siðsamlega. Einnig sagði hún að Satan sjálfur hafi átt orð við hana og að eina leiðin til að þau gætu forðast helvíti væri að drepa þau.

Endir málsins

Fyrir dómi sagði sálfræðingur Andreu að hún hafi verið í fæðingar geðrofi þegar morðin áttu sér stað árið 2001 (McLellan, 2006). Þrátt fyrir það var hún dæmd sek af kviðdómi og þurfi að afplána lífstíðarfangelsis dóm, en það eru minnst 40 ár. Hún sat í fangelsi í um fimm ár en í júlí 2006 var máli hennar aftur á móti kollvarpað vegna falsks vitnisburðar og ný réttarhöld tóku við. Var þá Andrea þar með dæmd ósakhæf vegna geðveiki og lögð inn á geðspítala þar sem hún er enn í dag.

Hún var lögð inná Kerrville State Hospital í Texas, geðspítali fyrir einstaklinga sem taldir eru hættulegir almenningi vegna geðheilsu þeirra (ABC, 2018). Þar sitja inni 202 sjúklingar og eru þeir allir með mismunandi þarfir vegna geðraskana sinna. Einstaklingum sem haldið er á Kerrville þurfa á mikilli hjálp að halda, rétt eins og Andrea. Lögfræðingur hennar, George Parnham, lítur á hana eins og dóttur sína og heimsækir Andreu reglulega. Hann telur hana vera á batavegi, enda var þetta mögulega í fyrsta skipti sem hún var að fá viðeigandi meðferð við geðrænu vandamálum sínum. George segir Andreu einnig hafa það mjög gott á spítalanum, en hún talar enn um börnin sín á hverjum degi og virðist syrgja þau mjög. Mál Andreu er tekið upp nánast árlega, en aldrei hefur henni verið gefin kostur á því að ganga laus, en samkvæmt George er þetta staðurinn sem hún tilheyrir.

Þremur árum eftir morðin sótti Russel Yates um skilnað (OWN, 2015). Hann segir þetta hafa verið mjög erfiða ákvörðun og þrátt fyrir þetta hræðilega atvik þá mun Andrea ávallt vera barnsmóðir hans og minnist hann góðu tímana sem þau áttu saman. Traust hans til hennar myndi hins vegar seint koma til baka en þrátt fyrir það þykir honum ennþá vænt um Andreu. Nokkru eftir skilnaðinn kynntist hann annarri konu og átti með henni barn.

Þegar lesið er í mál Andreu Yates er bersýnilega hægt að greina frá því að kerfið brást henni (Meier, 2002). Hún leitaði að hjálp sem hún fékk ekki, henni var ýtt út af geðspítölum og einkenni hennar lítilækkuð af geðlæknum sem leiddi til að þessi hræðilegi og hrottalegi atburður átti sér stað.

Eins og áður hefur verið nefnt að þá fór mál Andreu víðsvegar um heiminn (Fisher, 2003). Það vakti mikla athygli á geðheilbrigði og þá sérstaklega hversu algengt fæðingarþunglyndi er. Eftir að hafa verið dæmd ósakhæf þá var fæðingar geðrof tekið upp sem réttarvörn gegn barnsmorðum af hálfu móður. Bandaríska réttarkerfið hefur verið hikandi með að taka geðrænum vandamálum sem varnarþáttum í réttarhöldum og það að vera ósakhæfur vegna geðveiki er mjög sjaldgæft, þá sérstaklega í Texas. Mál Andreu hefur hjálpað umræðunni á yfirborðið og í þokkabót fleirum sem sátu inni fyrir sama glæp og hún.

Þó nokkuð margar rannsóknir hafa verið gerðar á fæðingarþunglyndi, enda er það eitt og sér nokkuð harmlaust börnum og hægt að vinna úr (Fisher, 2003). Fæðingar geðrof er hins vegar ekki mikið rannsakað og getur í flestum tilfellum, ef ekki er gripið inn í, verið hættulegt bæði börnum og móður. Til að fyrirbyggja að svona atburðir tíðkist ekki yrði að halda betur utan um þær konur sem eru með sögu af geðrænum vandamálum og vera var um þá áhættuþætti sem koma að fæðingar geðrofi. Þeir þættir eru óánægja í hjónabandi, lítil félagsfærni, félagsleg einangrun, mikið álag, kvíðavaldandi lífsviðburðir og hormónabreytingar.

Umfjöllun um Andreu 15 árum eftir morðin (2016): https://www.youtube.com/watch?v=id8LTjE1wNc .

Viðtal við Russel: https://www.youtube.com/watch?v=zJXgM-mL4RM&ab_channel=OWN .

MÆLIKVARÐAR

Mælikvarði 1: Stone 22 - Flokkur 20

Einn af mælikvörðunum sem tengist máli Andreu Yates er Stone 22 listinn. Listinn var lagður fram af Michael Stone sem var menntaður læknir. Stone hafði mikinn áhuga á illsku og samdi meðal annars bók sem ber nafnið: The Anatomy of Evil. En Stone vildi skýringu á illsku, og kveiknaði því hugmyndin á mælikvarðanum. Stone byrjaði á að skrásetja mælikvarða sem var einungis 6 liðir. Mælikvarðinn var skráður í anda Dante í Hreinsunareldinum. Seinna þróaði Stone 6 liða mælikvarðann í 22 liða og varð þá til Stone 22. Stone 22 greinir glæpamenn út frá glæpum þeirra og flokkar þá niður eftir illsku frá 1 og alla leið upp í 22. Áður en einstaklingur er settur á illsku listann er bæði skoðað forsögu og ásetning viðkomandi. Flokkur 1 eru þá einstaklingar sem myrða í sjálfsvörn, hafa engar hvatir eða fyrirfram ákveðin ásetning til þess að uppfylla og eru í því ekki taldir illir. Flokkur 22 eru svo guðfeður illskunnar, þeir drepa sér til ánægju og eru raðmorðingar hvattir af pyntingum, mannáti og líkþrá (e. necrophilia). Sá flokkur sem Andrea myndi falla undir væri flokkur 20 - Pyntinga-morðingjar, með greinileg einkenni geðrofs (svo sem í geðklofa). Andrea var einmitt greind með fæðingarþunglyndi, fæðingar geðrof og geðklofa og á því þessi flokkur vel við Andreu og glæpinn hennar. Þó svo að Andrea hafi kannski ekki beinlínis pynt börnin sín til lengri tíma að þá er hægt að líta svo á að drukknun sé kvalarfullur dauði. Þar sem viðkomandi fær ekki snöggan dauða eins og með skotsári heldur tekur nokkrar mínútur fyrir börnin að drukkna og að lokum láta lífið. Það er því hægt að segja að pyntingarnar hafi verið í formi drukknunar. Það er þó að einhverju leyti skrýtið að setja Andreu svona ofarlega á listann sem illan og sjúkan glæpamann þar sem hún var veik á geði. Það var ekkert illt á bakvið gjörðir hennar.

 

Mælikvarði 2: Holmes og Deburger

Annar mælikvarði sem væri hægt að nota við greiningu á Andreu Yates er Holmes og DeBurger mælikvarðinn. Mælikvarði sem kynntur var fyrst árið 1988 af Ronald M. Holmes og James E. DeBurger og mælikvarðinn dregur því nafn sitt af þeim. Mælikvarðinn gengur út á það að finna ástæðu (e. motive) morða, og inniheldur mjög athyglisverða flokkun á ástæðu morða. Mælikvarðinn einblínir einungis á raðmorðingja. Mælikvarðanum er skipt í 3 flokka, ofsjónar, hugsjónar og sjálfselsku. Ofsjónar tegundin stafar af ranghugmyndum, þeir einstaklingar sjá og heyra einhvað sem er ekki raunverulegt, en fyrir þeim er það raunveruleikinn. Hugsjónar tegundin eru þeir einstaklingar sem myrða því þeir vilja losa heiminn við einhvern hóp af fólki, svo má segja hatursmorð. Til dæmis gæti einstaklingur einungis drepið bankastarfsmenn, því einstaklingur telur þá ógnandi og vondar manneskjur á einhvern hátt. Oftast er geðröskun þar á bakvið. Að lokum er sjálfselsku tegundin þar sem einstaklingur drepur vegna þess að hann fær eitthvað persónulega út úr því. Flokkur nr. 1, ímyndunar eða ofsjónar tegundin á því mest við um Andreu. Hann lýsir sér þannig að viðkomandi drepur vegna ranghugmynda hvort sem það eru sýnir eða raddir sem við hin sjáum eða heyrum ekki. Einstaklingurinn er ósakhæfur vegna þess að hann er með geðklofa eða glímir við einhversskonar tímabundna geðveiki. Geðveikin gæti t.d. verið til staðar vegna mikillar neyslu eða verið komið af stað af öðrum áföllum. Eins og áður hefur komið fram þá greindist Andrea bæði með geðklofa og fæðingar geðrof sem varð til þess að hún fór að upplifa ýmis ranghugmyndir. Hún sá ofsjónir um hnífstungur og sagði að Satan sjálfur hefði sagt henni að drepa börnin sín til þess að forða þeim frá helvíti. Það gefur auga leið að flokkurinn á vel við um Andreu þar sem hún uppfyllir bæði skilyrðin um raddir, ofsjónir og ranghugmyndir en er einnig greind með geðklofa.

 

Mælikvarði 3: DSM - 5 -  2.1.5 - Geðklofi

Geðklofi er alvarleg geðröskun sem er oft einfaldlega ógreind. Einkenni geðklofa eru ýmis ofskynjanir, ranghugmyndir og truflun á skapi og hegðun (Lárus Helgason, 1993). Viðkomandi verður oft einrænn og sinnulaus, lifir í eigin hugarheimi og eru ranghugmyndirnar og ofskynjanirnar tíðar og heftandi. Einkenni geðklofa skipta sér niður í jákvæð einkenni og neikvæð einkenni, Jákvæð einkenni er einhvað sem bætist við hegðun, eins og ofskynjanir, það að heyra raddir og ranghugmyndir. Neikvæð einkenni er það sem einstaklingur missir úr hegðun sinni. Fólk upplifir oft þreytu, félagsfælni og vonleysi. Í tilfelli Andreu voru einkenni hennar ofskynjanir, ranghugmyndir, sinnuleysi, lítil lífsgleði og einkennileg hegðun sem hún var búin að kvarta yfir í mörg ár, svo hún upplifði bæði dæmi um jákvæð og neikvæð einkenni geðklofa. Hún upplifði einkennin strax eftir fæðingu fyrsta barns síns og hafði verið var við þau í nokkur ár áður en morðin voru framin.  Ofskynjanir Andreu voru samskipti við Satan og sagði hún hann hafa ýtt undir morðin, með því að hóta að senda öll börn hennar til helvítis. Annað dæmi um ofskynjanir hennar eru að í eitt skipti hélt hún hníf við hálsinn á sér því það voru ókunnugar raddir sem sögðu henni að skera sig á háls. Andrea hafði þó líka ákveðnar ranghugmyndir þar sem hún taldi að persónur í sjónvarpi væru að tala við sig sem og að myndavélar væru að fylgjast með henni. Hún var sinnulaus þar sem hún hafði í raun engan áhuga á að sinna börnunum sínum, sýndi einkennilega hegðun og hafði litla sem enga lífsgleði enda var hún mjög þunglynd. Andrea Yates var formlega greind með geðklofa árið 2006 og auðvelt er því að segja að hún falli undir kafla 2.1.5 í DSM sem er geðklofi.

 

Mælikvarði 4: CCM: Crime Classification Manual

John E. Douglas, Robert Ressler og Burgess hjónin gáfu út mælikvarðann CCM: Crime Classification Manual árið 1992 því þau töldu DSM kerfið ekki vera nægilegt til að flokka niður og einfaldlega skilja morðingja og aðra glæpamenn. Árið 2006 var mælikvarðinn gefinn aftur út, þar sem bætt var við 155 blaðsíðum með nýjum upplýsingum sem höfðu komið í ljós yfir árin. Mælikvarðinn inniheldur marga kafla en sá flokkur sem hentar best er undir kafla sjö, Persónulega orsakað manndráp (e. personal cause homicide), og er það flokkur 126 eða Ósértækt-hvatningar morð (e. nonspecific-motive murder) sem ætti vel við um glæpinn hennar Andreu. Ósértæk-hvatningar morð eru morð sem eiga sér stað útaf andlegri heilsu morðingjans. Til dæmis getur einstaklingur verið að kljást við alvarlegan geðsjúkdóm þar sem einkenni eru ofsjónir eða hann skynjar raddir sem eru ekki raunverulegar. Þetta er dæmi um geðklofa og er því fullkomið dæmi um morð Andreu á börnum sínum. Jafnvel gæti undirkafli 126.1 átt við um hana Andreu, morð af trúarlegum ástæðum (e. nonspecific religion-inspired homicide). Flokkur 126.1 er í raun það sama og 126 nema bara af trúarlegum ástæðum. Þar sem hún Andrea var alin upp af nokkuð trúuðum foreldrum sínum sem sóttu kirkju reglulega. Eins og áður kom fram var prestur kirkjunnar fyrir mótmælenda trú. Mögulegt er að raddir Satans sem sagði henni að hún þyrfti að drepa börnin sín ef hún vildi ekki að þau færu til helvítis eigi rætur sínar að rekja þangað. Hún taldi að guð væri líklegri til að taka við þeim ungum og saklausum. Ef hún hefði fengið hjálpina sem hún þurfti á að halda og reyndi að sækja sér til fjölda ára hefðu morðin mjög líklega ekki átt sér stað. Svo öruggt er að segja að geðheilsa hennar sé ástæðan fyrir morðunum og fellur hún því mjög vel undir flokkinn.

 

Mælikvarði 5: Þekktu sjálfan þig - Soundness of mind

            Hugtak sem notað er í lögfræðilegum tilgangi við sakhæfingu á einstakling spyr að andlegu ástandi hans fyrir dómi (e. being of sound mind). Til þess að einstaklingur sé talinn vera í góðu andlegu ástand þarf hann að vera meðvitaður um það hverjar gjörðir hans eru og vita hver ábyrgðin af gjörðum sínum er. Hann þarf að geta greint frá hvað sé raunverulegt og hvað sé rétt og rangt. Ef viðkomandi uppfyllir öll þessi skilyrði er hann þar af leiðandi talinn sakhæfur. Andrea myndi því falla undir andstæðu þess að vera í góðu andlegu ástandi og myndi teljast andlega vanheil (e. unsound mind). Hún var í raun ekki tengd raunveruleikanum þegar hún framdi þessi hrottalegu morð þar sem hún var svo djúpt sokkin í sína slæmu andlegu heilsu. Ekki er hægt að segja að einstaklingur sem upplifir ofsjónir og heyrir raddir reglulega sé meðvitaður um hver munurinn sé á raunveruleika og óraunveruleika.  Hún hringdi sjálf á lögregluna og viðurkenndi morðin strax á staðnum fyrir lögreglunni en virtist alls ekki sjá hvað var rangt í því sem hún hafði gert og virtist mjög róleg þegar hún gekk út úr húsinu, stuttu síðar eftir morðin þar sem hár hennar og föt voru enn blaut. Eins og áður hefur komið fram þá var hún í fyrstu dæmd sakhæf árið 2001 af kviðdómi þar sem ekki tókst að sýna fram á slæmu andlega geðheilsu hennar. En við endurupptöku máls hennar árið 2006 var hún dæmd ósakhæf sökum geðveiki og sett á viðeigandi stofnun.

 

Mælikvarði 6: DSM - 5 - 18.1.1 Aðsóknar Persónuleikaröskun

Það væri hægt að greina Andreu með ofsóknar persónuleikaröskun. Röskunin getur byrjað snemma á fullorðinsárunum og lýsir sér þannig að einstaklingur hefur langvarandi tortryggni í garð annarra og vill meina að hegðun þeirra sé ógnandi eða lítillækkandi. Einstaklingar með persónuleikaröskunina eiga erfitt með að treysta öðrum og þróa því oft með sér félagsfælni og kvíða. Þetta gerir einstaklinginn oft að auðveldu skotmarki, og oft eru börn sem kljást við röskunina lögð í mikið einelti (Psychology Today, 2019). Ofsóknar röskun er aðeins greind ef viðkomandi sýnir fjögur af sjö einkennum. Andrea uppfyllir því greiningarviðmið þar sem hún sýndi meirihluta einkenna. Dæmi um einkenni væru að hvatir annarra eru túlkaðar sem slæmar og án nægilegra sannana grunar einstaklingum að aðrir séu að notfæra, meiða eða plata sig. Viðkomandi treystir öðrum ekki fyrir hugmyndum sínum þar sem hann telur þá nota þær gegn sér. Merkingar eða saklausir atburðir eru túlkaðir sem ógnandi þegar þeir eru það í raun ekki. Viðkomandi finnst hann verða fyrir aðsókn eða árásum af hálfu annarra sem leiðir til þess að hann bregst við með reiði eða gagnsókn. Ef skoðuð eru dæmi um einkennin og þau sett í samhengi við hegðun Andrea má sjá að hún taldi djöfulinn sjálfann vera að spilla börnunum sínum með því að láta þau haga sér illa og að eina leiðin til að bjarga þeim væri að myrða þau og Satan hafi því fengið hana til fremja þennan hrottalega glæp, trúarlegur bakgrunnur Andreu gæti verið útskýringin á bakvið þessar hugsanir. Hún treysti engum til þess að hjálpa sér hvorki manninum sínum Russel né öðrum fjölskyldumeðlimum og félagslega einangraði sig og fór mjög sjaldan út úr húsi. Hún túlkaði það að myndavélarnar og sjónvarpspersónurnar væru á eftir sér og taldi þær því ógnandi. Að lokum ef allar hennar upplifanir eru settar saman þá bregst Andrea við með gagnsókn eða morðunum.

 

Heimildir

  1. ABC. (2018). Where is Andrea Yates now? A peek inside her life in a state mental hospital. Sótt 26. október 2020 af https://abc13.com/where-is-andrea-yates-who-what-did-do-drowned-family-in-clear-lake/1980992/ .

  2. Biography. (2020). Andrea Yates biography. Sótt 26. október 2020 af https://www.biography.com/crime-figure/andrea-yates .

  3. Fisher, K. (2003). To save her children's souls: Theoretical perspectives on Andrea Yates and postpartum-related infanticide. Thomas Jefferson Law Review, 25(3), 599-634.

  4. Lárus Helgason. (1993). Geðklofi. Geðvernd 1993, 24(1), 5-11.

  5. McLellan, F. (2006). Mental health and justice: The case of Andrea Yates. The Lancet, 368(9551), 1951-1954.

  6. Meier, E. (2002). Andrea yates: Where did we go wrong? Pediatric Nursing, 28(3), 296-297, 299.

  7. OWN. (2015, 27. apríl). Why Rusty Yates Struggled with Whether to Divorce Andrea | Where Are They Now | OWN. [myndskeið]. Youtube. https://www.youtube.com/watch?v=zJXgM-mL4RM&ab_channel=OWN .

  8. Psychology Today. (2019). Paranoid Personality Disorder. Sótt 27. október 2020 af https://www.psychologytoday.com/us/conditions/paranoid-personality-disorder .