DUNTSCH, Christopher - Dr. Death

Hallveig Hafstað, Phoebe Sóley Sands, Unnur Elsa Reynisdóttir og Þórunn Guðmundsdóttir.

Christopher Duntsch.

Christopher Duntsch.

Málið um Dr. Death

Christopher Duntsch er fyrrum starfandi taugaskurðlæknir sem olli dauða og miklum skaða 33 sjúklinga sinna. Duntsch fæddist árið 1971 og ólst upp í Memphis, Tennessee. Hann átti hefðbundna æsku, fjölskyldan var af millistétt og hann var elstur fjögurra systkina. Hann gekk í þekktan, kaþólskan skóla og foreldrar hans studdu hann í gegnum súrt og sætt. Hann var með mikinn drifkraft, enda útskrifaðist hann sem taugaskurðlæknir með einkunnir yfir meðaltali. Duntsch fékk sína fyrstu vinnu sem skurðlæknir árið 2010, á spítalanum Baylor Plano í Texas. Sjúklingar sem leituðu til hans þar enduðu margir hverjir með varanlegan skaða en einn sjúklingur lést í kjölfar aðgerðar frá Duntsch.

Ásamt því að framkvæma aðgerðir á hrottalegan hátt, þá var Duntsch tekinn fyrir akstur undir áhrifum og fyrir að stela. Mistök Duntsch, ef kalla má þau það, leiddu til þess að honum var vikið úr starfi hvað eftir annað, en hann einfaldlega fékk nýja vinnu á nýjum spítala þar sem hann hafði áfram frjálsar hendur til þess að framkvæma aðgerðir sínar. Aðgerðir Duntsch voru í flestum tilfellum aðeins á smávægilegum vandamálum, og voru því ekki bráðar fyrir sjúklingana. Afleiðingar þeirra fjölmörgu aðgerða sem hann framkvæmdi voru mjög mismunandi, til að mynda dóu tveir og lamaðist einn fyrir lífstíð. Öll þau hræðilegu atvik og örlög sjúklingana af hendi Duntsch, urðu til þess að hann fékk viðurnefnið Dr. Death.

Duntsch skar upp marga sjúklinga í yfir tvö ár, og komst því alltof lengi upp með verknað sinn. Þrátt fyrir að hafa ítrekað verið fluttur á milli starfa af augljósum ástæðum og að samstarfsfólk hans og yfirmenn voru vör við hvað hafði gengið á, þá virtist enginn vilja taka á sig sök eða ábyrgð. Sem betur fer var hann sakfelldur í desember árið 2018, 7 árum eftir að hann framdi sitt fyrsta morð.

Picture 1.png

 Heimild: https://www.oxygen.com/sites/oxygen/files/2019-06/christopher-duntsch-ap.jpg .

Um glæpinn sjálfan

Christopher Duntsch er fyrsti læknirinn til að vera sakfelldur fyrir stórfelldar líkamsárasir (e. aggravated assault) við umönnun innan skurðstofu. Það sem helst einkennir glæpi hans er að þeir ollu varanlegum skaða (e. maiming), en hann var sakfelldur fyrir að skaða 33 einstaklinga, en þar af dóu tveir. Kelli Martin og Floella Brown eru þeir einstaklingar sem að létust vegna skelfilegra vinnubragða Duntsch. Dauði Martin var fyrst um sinn skráður sem læknamistök. Duntsch hafði skorið á slagæð í mænu hennar sem olli mikilli blæðingu, og það að lokum leiddi til dauða hennar. Þessi ,,mistök” urðu til þess að Duntsch var látinn víkja frá störfum en aðeins viku síðar, á nýjum spítala þar sem hann var kominn með nýtt starf, var Duntsch enn og aftur rekinn í kjölfar dauða Floella Brown og einnig fyrir að valda Mary Efurd varanlegum líkamlegum skaða. Hann hafði skorið á slagæð í hryggjalið Brown, sem varð til þess að hún fékk heilablóðfall og lést. Duntsch skipti enn og aftur um spítala, þar sem hann ranglega greindi vöðva í hálsi sjúklings sem æxli. Þetta leiddi til þess að hann skar á raddbönd sjúklingsins, skar gat á vélindað og slagæð og skildi eftir svamp í hálsi hans eftir aðgerðina. Eins og greint hefur verið frá að ofan, þá olli Duntsch verulegum skaða á 33 einstaklingum, tveir dóu en allir hinir einstaklingar lifa við varanlegan líkamlegan skaða sem mun há þau allt þeirra líf. Það sem gerir þessa glæpi svo hræðilega, er hversu auðvelt það var fyrir Duntsch að komast upp með verknaðinn, hver einstaklingur treysti honum fyrir lífi sínu og gat ekkert stjórnað þeim aðstæðum sem þau voru settir í.

Picture 1.png

Heimild: https://assets-c3.propublica.org/images/articles/_threeTwo400w/20181002-dr-death-neurosurgeon.jpg .

Hver var Christopher Duntsch?

Duntsch átti erfitt með að finna sig þegar hann var ungur og skipti ítrekað um skóla og íþróttir. Hann vildi vera bestur í öllu sem hann gerði en þar sem hann átti erfitt með að halda sig aðeins við eitt þá hafði hann ekki nógu mikla ástríðu fyrir neinu. Þegar hann byrjaði í háskóla var hann mikill keppnismaður í bandarískum fótbolta. Þótt íþróttin kom ekki náttúrulega til hans eins og fyrir marga aðra, þá lagði hann sig samt allan fram til þess að skara fram úr. Vinur hans og liðsfélagi benti á dæmi þar sem þjálfarinn var að kenna nýja tækni sem Duntsch átti erfitt með að ná. Eftir æfinguna hélt Duntsch áfram að æfa þessa tækni aftur og aftur og bað þjálfarann um að gefa sér hugmyndir um hvað betur mætti fara. Bráðlega var hann búinn að ná tækninni upp á tíu. Þessi sami (fyrrverandi) vinur Duntsch sagðist hafa alið upp börnin sín með Duntsch sem fyrirmynd þar sem hann var gott fordæmi um hversu miklu einstaklingur getur afrekað ef hann gefst ekki upp.

Annað dæmi um þetta hegðunarmynstur var þegar Duntsch var að tala við vin sína í síma og vinurinn segir að Duntsch gæti aldrei unnið hann í glímu. Vinurinn hélt að þetta væri venjulegt samtal milli vina að skjóta á hvorn annan, en Duntsch gat ekki sleppt því. Stuttu seinna var Duntsch mættur heim til vinar síns til þess að glíma við hann og sanna að hann gæti svo sannarlega unnið. Vinur hans tók þessu sem gríni en glímdi þó við hann aftur og aftur. Þegar ljóst var að Duntsch gat ekki unnið glímuna á móti honum fór hann að glíma við herbergisfélaga sinn. Hann ætlaði bara ekki að gefast upp.

Duntsch byrjaði í Millsaps háskólanum í bandarískum fótbolta, en var ekki nógu góður til að haldast í liðinu. Þegar honum var hent út úr liðinu skipti hann um háskóla og gekk í Colorado State háskólann en gat heldur ekki nóg í fótbolta til að halda áfram þar. Þegar ljóst varð að íþróttirnar myndu ekki skila sér eins og hann vildi þá sökkti Duntsch sér í læknisfræði við Memphis State háskóla. Síðar sérhæfði hann sig í taugaskurðlækningum og svo mænuskurðlækningum við University of Tennessee Healthy Science Center.

Þótt Duntsch væri lýst sem fyrirmyndarnemanda, þá átti hann við fíkniefnavanda að stríða. Á fjórða ári í náminu var Duntsch grunaður um að vera undir áhrifum kókaíns á meðan hann var í skurðaðgerðum. Þrátt fyrir þetta var hann ekki rekinn úr náminu heldur sendur í meðferð fyrir lækna sem glíma við einhvers konar vanda sem kemur niður á starfi þeirra (e. impaired physicians program). Meðferðin virtist ekki hafa skilað sér þar sem ljóst var að Duntsch fór reglulega á rækilegt fyllerí og neytti þá mikils magns af vímuefnum, þar með talið kókaín, fyrir aðgerðir. Eitt agalegt dæmi um þetta var þegar Dunstch var búinn að sannfæra vin sinn að leyfa sér að ,,laga” gömul meiðsl sem hann hafði fengið þegar hann var að spila bandarískan fótbolta. Daginn fyrir aðgerðina datt Duntsch svo sannarlega í það og svaf í mesta lagi í nokkrar klukkustundir fyrir þessa stóru aðgerð á mjög viðkvæmu svæði. Vinur Duntsch lamaðist frá hálsi eftir aðgerðina og verður bundinn hjólastól það sem eftir er af lífi sínu.

Á meðan Duntsch var í sérhæfingarnámi í mænuskurðaðgerðum þá stofnaði hann læknisfræðilegt fyrirtæki ásamt öðrum læknum. Þótt Duntsch hafi verið einn grunnstofnenda fyrirtækisins, þá keyptu hinir aðilarnir hann út þar sem þeir töldu hann slæman viðskiptafélaga og alltaf á kókaíni. Þrátt fyrir þetta datt engum í hug að tilkynna hann.

Einhvern veginn náði Duntsch svo langt að útskrifast sem taugaskurðlæknir með sérhæfingu í mænuskurðum með undir 100 klukkustundir af æfingu í skurðaðgerðum en restinni eyddi hann í rannsóknir. Til að setja þetta í samhengi er vert að benda á að yfirleitt er lágmark að stunda um 1000 klukkustundir af æfingu í taugaskurðaðgerðum. Þetta þýðir að Duntsch hafi ekki einu sinni náð 1/10 af lágmarkskröfum. Auk þess fékk Duntsch hin bestu meðmæli um getu sína og færni á öllum sviðum. Það að honum hafi tekist að útskrifast með svona litla reynslu en samt sem áður fengið frábær meðmæli, bendir til þess að hann hafi verið mjög góður í því að ráðskast með fólk (e. manipulative). Þegar ljóst var að Duntsch hafði engan veginn næga reynslu til þess að sinna störfum, þá var hann hvorki tilkynntur né rekinn heldur beðinn um að víkja sjálfur frá störfum og honum þó gefin meðmæli svo hann gæti hafið störf á öðrum spítölum. Þetta leiddi til þess að með tímanum fór hann að starfa á spítölum í hverfum sem fólk í lægri stéttum sækist í og því lenti fátækara fólk með skelfilegan skurðlækni. Duntsch komst upp með að skaða fjölda fólks þar sem spítalar töldu það hagstæðara fyrir sig að biðja hann bara um að hætta frekar en að tilkynna hann til yfirvalda og vernda sjúklinga.

Picture 1.png

Heimild: https://www.texasobserver.org/wp-content/uploads/2015/05/Christopher-Duntsch.jpg .

Mælikvarðar

MÆLIKVARÐI 1: Stone 22

Sá mælikvarði sem við teljum að henti vel til að greina mál Dr. Death, og útskýra helstu ástæður fyrir hræðilegum verknaði hans, er Stone 22 listinn. Michael H. Stone skrásetti og flokkaði alla helstu glæpi (nauðganir, pyntingar, morð m.a.) á 22 punkta kvarða árið 2009. Glæpirnir eru í flokkum allt frá réttlátanlegu manndrápi (manndráp í sjálfsvörn) til langvarandi pyntinga, nauðgana og morða. Sá flokkur sem okkur finnst eiga best við um Duntsch er flokkur 14, miskunnarlausir, sjálfhverfir og siðblindir ráðabruggarar í flokki D, Merki um einkenni siðblindu: Morð framin með illvirki í huga (e. Psychipathic features marked; Murders show malice aforethought).

Hann sýnir andfélagslega hegðun sem kemur meðal annars fram í undirferli og endurteknum lygum. Hann laug að hluta til um háskólagráður sínar og þegar hann var rekinn frá einum spítala fyrir mikinn skaða á sjúklingum fór hann og fékk starf á öðrum spítala, þar sem hann hélt skaðlegri starfsemi sinni áfram. Annað sem hann gerði sem styður að hann falli vel í þennan flokk er að hann tók heiður fyrir uppgötvanir annarra, sveik út úr fólki fé og misnotaði brotið heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna.

Duntsch sýndi einnig mikinn skort af eftirsjá. Skurðaðgerðir sem enduðu í lömun, limlestingum og dauða sjúklinga virtust ekki hafa áhrif á hann og hann tók enga ábyrgð á ,,mistökum” sínum. Flestir sem óvart valda skaða á sjúklingum sínum þurfa á sálrænni aðstoð að halda og treysta sér jafnvel ekki til þess að framkvæma skurðaðgerðir aftur. Honum var alveg sama um öryggi sjúklinga sinna og mætti oft til vinnu eftir harkalegt djamm kvöldið áður og þá undir áhrifum vímuefna.

MÆLIKVARÐI 2: Dauðasyndirnar 7

Nota má kvarðann Dauðasyndirnar og þá Dauðasynd númer 7 til að greina helstu ástæðu fyrir glæpum Dr. Death. Dauðasynd 7 er stolt og andstæðan, eða höfuðdyggðin, er hógværð. Lýsing á stolti er sjálfsást sem snýst upp í hatur og fyrirlitningu á nágranna sínum. Þar sem illska kemur til vegna sjálfselskrar vanvirðingar á þörfum annarra og tilfinningum.

Eitt það sem einkennir Christopher Duntsch er að hann var sjálfselskur og stoltur af sjálfum sér, honum þótti hann sjálfur vera afburða klár og taldi sig ekki bara vera frábær taugaskurðlæknir heldur sá besti. Hann taldi sjúklingum sínum trú um það að þeir þyrftu á honum að halda og hann væri jafnvel þeirra eina von því hann væri jú einn besti taugaskurðlæknir í landinu. Duntsch hugsaði ekki um þarfir annarra, hvað þá tilfinningar þeirra. Hann hlustaði ekki endilega á sjúklinga sína heldur talaði þá í að þeir þyrftu hina og þessa aðgerð svo hann gæti framkvæmt þær á þeim. Aðgerðirnar sem hann framkvæmdi voru inngripsmiklar og oft óþarfar. Duntsch sannfærði sjúklinga um að koma í aðgerð til sín aðeins vegna sjálfselsku sinnar og stolti því honum langaði að framkvæma fleiri aðgerðir og vera sá besti.

Duntsch sannfærði til dæmis einn besta vin sinn um að koma til sín í aðgerð og að hann gæti lagað hálsinn á honum, en vinur hans hafði lent í bílslysi og var oft verkjaður og fékk stundum doða í aðra hendina. Vinur hans hefði aldrei þurft þessa aðgerð heldur hefði sjúkraþjálfun sennilega dugað til en Duntsch hélt nú ekki og ætlaði sko að ,,lækna’’ vin sinn þar sem honum var aðeins umhugað um feril sinn. Duntsch olli vini sínum varanlegum mænuskaða eftir aðgerðina og endaði vinur hans lamaður í hjólastól. Þrátt fyrir þetta var Duntsch of stoltur til að viðurkenna að hann hafi gert mistök og taldi sig hafa hjálpað vini sínum. Þetta einkenndi allar aðgerðir hans því þær misheppnuðust nánast allar en þrátt fyrir það þá var hann of sjálfselskur og stoltur til þess að viðurkenna vanhæfni sína sem taugaskurðlæknir. Þetta sýnir að hann virti ekki þarfir annarra.

Einnig má nota Dauðasynd númer 3 sem er græðgi til þess að útskýra ástæðu glæpana sem Duntsch framdi. Lýsing á græðgi er ofurást á peningum og völdum þar sem illska er tilkomin vegna yfirgangsemi, ágirndar eða þeirra ofurákveðni að komast áfram í lífinu. Þetta passar vel við Duntsch. Hann þráði ekkert heitara en að komast áfram í lífinu og stefndi á að verða einn besti taugaskurðlæknir í landinu og framdi siðlausa glæpi til þess að nálgast það markmið.

 

MÆLIKVARÐI 3: Hare 20

Hare mælikvarðinn er gátlisti sem notaður er til að meta siðblindu einstaklinga. Listinn saman stendur af 20 persónuleikaeinkennum sem meta tilhneigingu til að sýna andfélagslega hegðun. Listinn er skoraður frá 0-40 stigum sem segir til um hvort einstaklingur sé með siðblindu og hve mikla og fyrir hvert einkenni er hægt að fá 0-2 stig. Í Bandaríkjunum þarftu að skora 30/40 stigum til þess að uppfylla greiningarviðmið siðblindu en í Bretlandi þarftu 25/40 stigum.

Okkar mat á kvarðanum er að Duntsch sýnir mörg einkenni af lista Hare. Hann er með yfirborðslega aðlaðandi persónutöfra. Það má sjá í samskiptum hans við aðra, svo sem við kúnna sem komu á klíník hans. Sjúklingarnir lýstu honum sem mjög sjarmerandi manni við fyrstu kynni og treystu honum því fyrir að framkvæma aðgerð á sér, því hann bar sig svo vel í viðtölum við þá. Annað einkenni eru mikilmennsku hugmyndir sem hann hafði um sjálfan sig en Duntsch leit á sig sem allra besta taugaskurðlæknirinn í bransanum og talaði mikið um hve vel hann stóð sig bæði í menntun og starfi. Hann var einnig sjúklegur lygari og laug til dæmis um menntun sína í læknisfræði við samstarfsfólk, vini og yfirmenn spítalanna, sem er grafalvarlegt mál. Hann laug til um starfsþjálfun sína í skurðlækningum og falsaði meðmælendabréf um hana. Hann sýnir einnig skort á iðrun, sektarkennd og samkennd. Hann hélt til dæmis áfram að framkvæma aðgerðir á fólki þrátt fyrir fyrrum algjörlega misheppnaðar aðgerðir. Hann taldi sig líka ekki hafa valdið sjúklingum sínum varanlegum skaða, honum var í raun skítsama bæði um líðan þeirra og líkamlegt ástand.

Önnur siðblindueinkenni sem hann sýndi voru að hann lifði sníkjudýrslífstíl (e. parasitic lifestyle), þar sem hann tók heiður af afrekum annarra og græddi á því, hann var mjög óábyrgur og kom sem dæmi oft til vinnu eftir kókaínsdjömm og flaug til Las Vegas beint eftir skurðaðgerðir og pældi ekki meir í sjúklingum sínum og hann sýndi einnig lausláta kynferðislega hegðun þar sem hann hélt framhjá konunni sinni með aðstoðarkonu sinni úr vinnunni.

 

MÆLIKVARÐI 4: Holmes og DeBurger

Kenning Holmes og DeBurger gengur út á að útskýra ástæðu fyrir morðum sem raðmorðingjar fremja. Þriðja tegund kenningarinnar er sjálfselskutegundin en morðingjar í þeim flokki drepa vegna þess að þeir fá eitthvað út úr því persónulega, og er sama þótt annað fólk verði fyrir skaða til að þeir geti fullnægt sínum persónulegu hvötum. Sjálfselskutegundin greinist frekar niður í fimm liði og Dr. Death fellur á sjálfselskustjórnunartegundina. Morðingjar í þeirri tegund drepa vegna þess að þeir hafa unun af því að hafa algjört vald yfir annarri manneskju og geta stjórnað því hver, hvar, hvernig og hvort viðkomandi verður drepinn. Þeir eru upplifa sig sem guð.

            Christopher Duntsch myrti tvær manneskjur og telst því ekki sem raðmorðingi en ef ekki hefði komist upp um hann þá eru miklar líkur á að hann hefði myrt fleiri. Hann ætlaði sér ekki að stoppa. Skurðlæknar bera mikla ábyrgð í starfi sínu og fólk sem fer í skurðaðgerðir leggur allt sitt traust á þá. Manneskja í skurðaðgerð hefur enga stjórn á sínu lífi og öll völd eru hjá skurðlækninum. Þannig leit Duntsch að minnsta kosti á það. Hann fór óvenjulegar leiðir til að skera upp og framkvæmdi jafnvel skurðaðgerðir þegar þær voru alls ekki nauðsynlegar. Hann hafði algjört vald yfir varnarlausum sjúklingum sínum og olli varanlegum skaða á 31 þeirra og myrti tvo. Enginn heilvita einstaklingur myndi halda áfram að framkvæma aðgerðir eftir nokkrar algjörlega misheppnaðar aðgerðir.

Í tölvupósti til fyrrverandi kærustu sinnar sagði hann að hver sem þekkir hann trúir því að hann sé eitthvað á milli þess að vera Guð, Einstein og djöfullinn vegna þess að hann getur gert hvað sem hann vill og komist hjá refsingum og aldrei náðst. Hann reynir að hjálpa fólki og sýna þeim hvað í honum býr en allir bregðast honum nánast daglega, þau gleyma því eftir viku hvað hann gerði fyrir þau. Hann sagðist einnig vera tilbúinn til að yfirgefa það góða sem í honum býr og verða kaldrifjaður morðingi því honum myndi líklega vegna betur og fá meiri virðingu með því að eyðileggja heila fólks og tilfinningalega og vitsmunalega stjórna þeim frekar en að halda áfram að reyna að hjálpa þeim.

Þetta bendir til þess að hann hafi talið sig vera yfirburða skurðlæknir, þrátt fyrir nánast enga klíníska reynslu og í fyrstu hafi misheppnaðar aðgerðir hans verið óvart. Þegar fólk vaknaði eftir aðgerðir með varanlegan skaða og læknar og sjúklingar sögðu hann hafa gert verkina verri þá hafi hann fundið fyrir svo mikilli óvirðingu og vanþakklæti að hann fór úr því að reyna að hjálpa fólki í að leika sér að því að prófa sig áfram í aðgerðum og fékk unun af því að sjá hvað myndi gerast þegar sjúklingar vöknuðu eftir skurðaðgerðir.

 

MÆLIKVARÐI 5: CCM

Af þeim flokkum í CCM mælikvarðanum, þá passar Duntsch helst inn í flokk 128, Medical murders, og þá undirflokk 128.02, Pseudo-Hero Homicide. Flokkur 128 á við um morðingja sem að drepa þá sem eru nú þegar veikir eða hafa einhvern líkamlegan galla fyrir, þetta á oft við um mörg morð. Undirflokkurinn á svo sérstaklega við um glæpamenn sem að mynda lífshættulegar aðstæður fyrir fórnarlambið, og reynir svo árangurslaust að bjarga eða endurlífga einstaklinginn til þess að koma út sem hugrakki aðilinn. Dauðsfall er þá ekki endilega viljandi gert, en í flestum tilvikum þá hindra þrálát mistök ekki glæpamanninn í að endurtaka verknað sinn. Samkvæmt CCM bókinni, þá er helsta hvatning glæpamannsins sjaldnast í tengslum við samkennd eða vorkunn gagnvart fórnarlambinu. Það er talið líklegra að valdatilfinning og stjórn sem glæpamaðurinn fær í kjölfar dráps sé raunverulega hvatningin. Rannsóknir hafa sýnt fram á að slíkir glæpamenn fremja oft rað-morð (e. serial murder).

Duntsch var læknir sem að tók að sér taugaskurðaðgerðir á fólki sem hafði oft aðeins minniháttar vanda fyrir, en hann virtist vilja taka það að sér til þess að laga vandann. Eins og nefnt hefur verið að ofan, þá voru afleiðingar aðgerða hans yfirleitt á þá vegu að hann gerði illt verra, fremur en að almennilega hjálpa fólkinu. Hann hefur þó aðeins verið bendlaður við tvö dauðsföll, og því er hann ekki skólabókadæmi um þennan flokk. Óljóst er hver raunveruleg áform hans voru fyrir hvern verknað og því er flókið að staðhæfa um hvort Duntsch passi raunverulega í þennan flokk eða ekki.

Hægt er að ímynda sér að hann hafi farið út svið taugalækninga því hann leit stórt á sig og trúði því raunverulega að hann gæti gert heiminn betri og að hann yrði hetjan. Þetta gæti bent til þess að markmið hans að afreka og mikið sjálfsöryggi hans gæta hafa tekið yfir og skyggt á dómsgreind hans þegar hann framkvæmdi hrottalegan verknað sinn. En ábyrgðarleysi hans og skortur á eftirsjá vekur miklar áhyggjur. Ef svo er að áform hans voru að leika sér að því að skaða fólk og jafnvel drepa, þá passar Duntsch ekki endilega í þennan flokk. Þó er hann ekki skilgreindur sem raðmorðingi, en áhugavert er að hugsa til þess að ef hann hefði til lengri tíma komist upp með verknaðinn og ekki verið handtekinn strax, að þá eru töluverðar líkur að hann hefði valdið fleira fólki dauða, og því passað í þennan flokk að einhverju leyti.

 

MÆLIKVARÐI 6: DSM-5 Persónuleikraskanir

Sjálfhverf persónuleikaröskun. Christopher Duntsch var mjög sjálfhverfur maður. Hann var með mikilmennsku hugmyndir um sjálfan sig og taldi sig vera yfirburðar taugaskurðlæknir, sá allra besti. Í tölvupósti frá Duntsch til fyrrum kærustu, sem nefndur var að ofan, þá er að sjá að hann leit á aðra sem óæðri honum sjálfum. Hann bjó yfir persónutöfrum sem lét fólki líka mjög vel við hann við fyrstu kynni en það breyttist fljótt þegar það kynntist honum betur. Honum var lýst sem hrokafullum af öðrum læknum sem unnu með honum, en sem dæmi þá lýsti hann því yfir við aðra taugaskurðlækna að flestar mænuaðgerðir sem framkvæmdar voru í Dallas væru gerðar á rangan hátt en hann ætlaði að sjá til þess að koma því í lag. Hann sýndi enga eftirsjá þegar sjúklingar hans hlutu varanlegan skaða eftir aðgerðir hans og viðurkenndi aldrei að hann átti sök þar á.

Andfélagsleg persónuleikaröskun. Christopher Duntsch sýnir langvarandi hegðunarmynstur vanvirðingar en hann braut ítrekað á réttindum annarra. Hann er mjög undirförull sem sjá má á því að hann laug að hluta til um háskólagráður sínar en á ferilskrá hans stóð að hann hafi lokið doktorsnámi í örverufræði hjá St. Jude Children’s Research spítalanum með hæstu einkunn en þegar haft var samband við skólann var þeim tjáð að ekki væri boðið upp á svoleiðis prógramm hjá skólanum á þessum tíma. Í sérnámi sínu tók hann þátt í minna en 100 skurðaðgerðum sem er langt frá því að vera nóg til að verða fullgildur taugaskurðlæknir. Einnig tók hann heiðurinn af uppgötvunum sem hann átti nær engan þátt í og bjó til heimasíðu þar sem hann fékk leikara til þess að búa til ummæli um sig, að hann væri einn besti taugaskurðlæknir sem fyrirfinndist.

Margar sögur eru um að Duntsch hafi mætt til vinnu daginn eftir kókaín- og fyllirísdjömm og jafnvel tekið þátt í skurðaðgerðum, drukkið í vinnunni og verið í sama sjúkrahúsfatnaðinum marga daga í röð án þess að þvo þau, þrátt fyrir að hafa tekið þátt í skurðaðgerðum þessa daga. Honum var því alveg sama um öryggi sjúklinga sína. Hann varð mjög pirraður þegar bent var á í aðgerðum að hann væri að gera eitthvað rangt og vildi ekki viðurkenni mistök sín. Annað einkenni andfélagslegrar persónuleikaröskunar er að sýna sífellt óábyrga hegðun en hann hélst ekki í vinnu í langan tíma vegna margra misheppnaðra aðgerða í röð en þá færði hann sig bara yfir á næsta spítala. Einnig átti hann í fjárhagsvanda og lýsti yfir gjaldþroti vegna fyrirtækis sem hann átti þátt í að stofna, árið 2015.

 Hann sýnir einnig skort á eftirsjá. Skurðaðgerðir sem enduðu í lömun, limlestingum og dauða sjúklinga virtust ekki hafa áhrif á hann og hann tók enga ábyrgð á ,,mistökum” sínum heldur kenndi, sem dæmi, einu dauðsfalli um ofnæmi fyrir fentanýli en augljóst var að viðkomandi blæddi til dauða vegna mistaka hans. Flestir sem óvart valda sjúklingum sínum alvarlegum skaða þurfa á sálrænni aðstoð að halda og treysta sér jafnvel ekki til þess að framkvæma skurðaðgerðir aftur en hann fór bara á milli spítala og hélt áfram að valda sjúklingum sínum skaða.

Endir málsins

Eftir að hafa starfað á tveimur mismunandi spítölum og í klíník þar sem hann drap tvo sjúklinga og skaðaði um 30 aðra var Duntsch loksins tilkynntur. Þrátt fyrir tilkynninguna fékk hann aðra vinnu sem taugaskurðlæknir hjá University Dallas Hospital, þar sem hann skaðaði sjúklinga enn frekar. Taugaskurðlæknarnir Dr. Kirby og Dr. Henderson ýttu gríðarlega undir það að Duntsch væri stórhættulegur, en þeir höfðu þurft að bjarga ótal sjúklingum frá mistökum hans. Þetta leiddi til þess að læknisleyfi Duntsch var tekið til skoðunar en á meðan því stóð yfir var Duntsch handtekinn fyrir ölvunar akstur, þjófnað og var tekinn í sálfræðilegt mat.

            Í mars 2014 höfðu þrír mismunandi sjúklingar Duntsch kært fyrsta spítalann sem hann vann á (Baylor Plano) á þeim grundvelli að honum hafi verið leyft að starfa sem skurðlæknir þrátt fyrir augljósa vanhæfni og fjölmörg alvarleg mistök. Það var samt ekki fyrr en í júlí 2015 sem að Duntsch var kærður fyrir sex alvarlegar líkamsárásir með bannvænu vopni, fimm alvarlegar líkamsárásir sem að leiddu til alvarlegra líkamlegra meiðsla og einni kæru af meiðslum gagnvart aldraðri manneskju (einn sjúklingur hans var yfir 65 ára). Þar sem að seinasta kæran var talinn alvarlegust í þessu fylki var lögð rík áhersla á hana; Duntsch fengi lífstíðardóm ef fundinn sekur.

            Samkvæmt lögfræðingunum Duntsch, þá gerði hann sér ekki grein fyrir hve hræðilegur skurðlæknir hann væri fyrr en saksóknari taldi það upp. Lögfræðingarnir bentu á að námið hafði ekki haldið utan um hann nægilega vel og auk þess höfðu spítalarnir sem hann vann á átt að grípa inn í. Þrátt fyrir þetta fékk Duntsch lífstíðardóm í fangelsi þann 20. febrúar, 2017 og mun hann ekki geta sótt um skilorð fyrr en árið 2045, eða þegar hann er orðinn 74 ára. Allir fjórir spítalarnir sem réðu Duntsch til starfa hafa einnig verið kærðir af ríkinu.

Heimild: https://www.youtube.com/watch?v=r2UmO2igYIg

Heimildir

  1. Beil, L. (þáttastjórnandi). (2018). Dr. Death [hlaðvarp]. Wondery.

  2. https://wondery.com/shows/dr-death/ .

  3. Goodman, M. (2016). Dr. Death: Plano surgeon who Christopher Duntsch left a trail of bodies. The shocking story of a madman with a scalpel. D Magazine Partners.

  4. https://www.dmagazine.com/ .

  5. Wikipedia. (2020, 12. október). Christopher Duntsch.

  6. https://en.wikipedia.org/wiki/Christopher_Duntsch.