WATTS, Christopher Lee

Watts.

Watts.

Bergþóra Hrund Bergþórsdóttir, Helga Ýr Kjartansdóttir, Kristel Þórðardóttir og
Rebekka Rós Ágústsdóttir

 

A. KYNNING EFNIS

Heimurinn var skekinn af óhugnanlegum morðum sem hinn 33 ára Christopher Lee Watts framdi í Coloradoríki þann 13. ágúst 2018, er hann myrti fjölskyldu sína á hrottalegan hátt. Fórnalömb hans voru Shanann Watts, barnshafandi eiginkona hans og dætur þeirra tvær, Belle og Celeste Watts. Snemma morguns þann 13. ágúst bankaði vinkona Shanann upp á heimili Watts fjölskyldunnar og enginn kom til dyra. Er hún fékk engin svör hringdi hún áhyggjufull í Chris og lét vita að mæðgurnar væru týndar og að Shanann svaraði ekki símanum, sem væri ólíkt henni. Einnig hringdi hún í lögreglustöðina í Frederick til að tilkynna mannshvörf. Stuttu seinna mætti lögregluþjónn á heimili Watts fjölskyldunnar til að athuga hvað hafi skeð. Chris laug og þóttist ekkert vita um hvarf mæðgnanna. Daginn eftir var rannsóknarlögregla sett í málið og Chris hélt ótrauður áfram að segja að hann vissi ekkert um hvarf Shanann, Bella eða Celeste.

Giftingahringur Shanann fannst á náttborði hennar og sagðist Chris þá trúa því að hún hafi flúið vegna rifrildis sem þau áttu nóttina áður. Einnig var sími Shanann og lyf mæðgnanna enn í húsinu sem virtist grunsamlegt. Vinkona Shanann trúði því varla að hún myndi fara vísvitandi út úr húsi án þess að taka þessa mikilvægu hluti með sér. Chris kom fram í sjónvarpi til að biðla til almennings um að „leita að Shanann og stelpunum.“ Hann horfði örvæntingarfullur án þess að blikka í myndavélina og bað fjölskyldu sína að snúa aftur heim. Hann talaði til þeirra án þess að nefna nöfn þeirra og virtist hann ekki vera leiður yfir því að þær væru horfnar.

Innan sólarhrings var Chris Watts í járnum grunaður um morð á fjölskyldu sinni. Eftir töluverðar rannsóknir og yfirheyrslur sakaði Chris Shanann um að hafa orðið dætrum sínum að bana. Sú ásökun entist ekki lengi þar sem hann játaði sök sína stuttu seinna. Hann sagðist að hafa myrt þungaða eiginkonu sína og dætur þeirra tvær. Í framhaldinu af því tjáði hann lögreglu um hvar þær væru og fann lögreglan konuna hans, Shanann Watts grafna í grunnri gröf á olíuleitarsvæði þar sem Chris starfaði. Fljótandi í nálægum olíutönkum voru dætur hans, Belle og Celeste, þar sem Chris hafði troðið þeim af öllu afli í örsmáa olíutanka. Eftir að Chris játaði á sig morðin þrjú var hann dæmdur í lífstíðarfangelsi án möguleika á reynslulausn.

Rannsóknir hafa sýnt að Shanann var kyrkt af Chris og tók það langan tíma, um tvær til fjórar mínútur. Hann kæfði dætur sínar til dauða og hafði Bella bitför á tungunni sem sýnir að hún hafi barist fyrir lífi sínu. Rannsakendur hallast að því að Chris hafi myrt fjölskyldu sína því hann stóð í framhjáhaldi og vildi hefja nýtt líf með hjákonu sinni án óléttrar eiginkonu og dætra sinna. Shanann hafði lengi að reyna hvað hún gat til að bjarga hjónabandi þeirra þar sem hún skynjaði fjarlægð hans, og gerðist það vikum fyrir morðin. Heimilisofbeldi og morð því tengdu eru algeng og sjaldan ná þau að rata á forsíður heimsfrétta. Þetta mál var þó öðruvísi, það innihélt allt til að vekja athygli og rata í heimsmiðlana.

Eftir handtöku fékk Chris send fjölmörg ástarbréf á meðan hann beið dóms. Konur lýsa aðdáun sinni með hjörtum og segjast margar hverjar vera afar heillaðar að honum eftir að hafa heyrt um málið. Margar ástæður eru fyrir því að konur heillast af morðingjum, sumar eru hvattar áfram í von um frægð. Þær vilja vera í sviðsljósinu og trúa því að vera í sambandi við álíka þekktan morðingja og Chris Watts geti fært þeim viðtal í fjölmiðlum eða jafnvel bókarsamning. Einnig fá þessar konur kynferðislega örvun gagnvart mönnum sem tengdir eru ógeðfelldum glæpum og kallast það hybristophilia.

Fjölskyldan saman - Shanann, Chris, Belle og Celeste Watts.

Fjölskyldan saman - Shanann, Chris, Belle og Celeste Watts.

 Heimild: https://www.youtube.com/watch?v=ep8iKiQNSrY .

B. GLÆPURINN SJÁLFUR

Þann 13. ágúst árið 2018 fékk lögreglan í Frederick, Colorado í Bandaríkjunum símtal frá Nickole Utoft Atkinson um að hún væri hrædd um vinkonu sína, þar sem hún hafði misst af vinnufundi og væri hvorki að svara símtölum eða skilaboðum hennar, né svaraði þegar hún bankaði á dyrnar hjá henni. Atkinson hringdi þá í eiginmann hennar, Christopher Watts, sem var þá staddur í vinnunni. Stuttu seinna mætti lögreglumaður til að athuga málið og í kjölfarið kom Chris. Eftir að hafa rætt við lögreglumanninn þá gaf Chris honum leyfi til að skoða húsið en þar voru engin merki um eiginkonu hans Shanann eða stelpurnar hans tvær Belle og Celeste. Fundu þau veski hennar þar sem sími hennar og bíllyklar voru ennþá í. Einnig var bíll hennar ennþá í bílskúrnum ásamt sætisstólum stelpanna. Chris fann síðan giftingarhringinn hennar á rúminu þeirra inn í svefnherbergi. Næsta dag, 14. ágúst tóku FBI og Colorado rannsóknarlið þátt í rannsókninni. Chris tjáði þeim að hann hafði ekki hugmynd hvar eiginkona og dætur sínar væru staddar og hafði ekki séð þær síðan klukkan 5 um morguninn þann 13. ágúst þegar hann fór í vinnuna. Hann gaf viðtöl í sjónvarpið þar sem hann grátbað þau að koma aftur heim þar sem húsið væri ekki eins án þeirra.

Shanann kom heim klukkan 2 um nóttina þann 13. ágúst eftir vinnuferð og fóru hún og Chris að spjalla saman um sambandið upp í rúmi. Þau stunduðu kynlíf og sofnuðu svo. Áður en hann átti að mæta í vinnuna, sem var 5 um morguninn, þá hafði hann legið andvaka síðan þau stunduðu kynlíf og var reiður út í sjálfan sig að hafa leyft því að gerast og gefa henni þessar fals vonir því hann vildi út úr þessu hjónabandi og var í raun ástfanginn af annarri konu. Chris upplifði þá eins og hann hefði haldið framhjá Nichol, sem var þá hjásvæfan hans. Fann hann þá fyrir einhverri þörf í að gera eitthvað í þessu og byrjaði þá að ræða við Shanann þar sem spjallið var á eðlilegum nótum í langan tíma og grétu þau til skiptis.

Köstuðu þau boltanum fram og til baka um hvað þau ættu að gera, Chris var mjög óviss um hvort þau ættu að vera saman eða ekki á meðan Shanann tjáði að hún vildi halda í sambandið. Í lok samtalsins þá tjáði Chris Shanann að hann elskaði hana ekki lengur. Shanann brást harkalega við þessu, sagði reið við hann að Chris myndi aldrei sjá dætur sínar aftur og bað hann síðan um að fara af sér þar sem Chris lá hálfpartinn ofan á henni. Chris fór ekki af Shanann, heldur tók hann utan um háls hennar. Hann hélt höndunum fast um háls hennar, svo hún gæti ekki andað.

Tjáði Chris í yfirlýsingunni að Shanann hefði ekkert streist á móti, hún var mjög trúuð og var hann viss um að hún hafi verið að biðja á þessu augnabliki. Hann gat ekki útskýrt af hverju hann sleppti ekki takinu á Shanann, hann sagði að eitthvað afl hafi verið í höndunum á honum sem leyfði honum ekki að sleppa. Hann vafði líkið af eiginkonu sinni í lak og dró hana út í vinnubíl hans. Chris Watts lagði eiginkonu sína á gólfið í aftursætunum. Sótti hann síðan stelpurnar sem voru sofandi inn í húsinu og kom þeim fyrir í aftursætinu í bílnum þar sem móðir þeirra lá á gólfinu og fór með þær í 45 mínútna bílferð að olíusvæði þar sem hann var að vinna. Fyrr um daginn hafði Chris hringt í yfirmann sinn og látið hann vita að hann þyrfti að koma við á olíusvæðinu til að athuga með svolítið. Þá þyrfti hann ekki að hafa áhyggjur af því ef einhver skyldi mæta á óreglulegum tíma. Yfirmanninum hans fannst það frekar furðulegt en gerði þó ekkert í því.

Þegar Chris kom að olíusvæðinu þá gróf hann lík eiginkonu sinnar og ófæddan son sinn í grunnri gröf skammt frá svæðinu sem hann vann á. Setti hann þá Shanann í þá stöðu að bak hennar snéri upp á við og skóflaði síðan mold yfir hana. Það er talið vera óvirðingarvert þegar lík eru jörðuð þannig að andlit snýr að jörðu. Fór hann þá aftur í bílinn þar sem dætur hans voru og tók þá yngri dótturina, Celeste sem var þriggja ára gömul og kæfði hana með teppi fyrir framan eldri dóttur sína. Þegar það var síðan komið að þeirri eldri, henni Belle sem var fjögurra ára gömul, þá var það síðasta sem hún sagði við hann „Daddy, NO!“ Hann tróð líkum dætra sinna í sitthvora olíutunnuna og þurfti hann að beita miklu afli við gjörninginn þar sem tunnurnar voru örsmáar.

Chris Watts var svo handtekinn þann 15. ágúst. Samkvæmt handtöku yfirlýsingunni þá féll hann á lygaprófi og játaði í kjölfarið að hafa myrt Shanann eftir rifrildi varðandi skilnað þeirra og myrt dætur sínar tvær, Belle og Celeste. Chris hafði þá verið að halda framhjá eiginkonu sinni og fullyrti að hann hafi beðið Shanann um skilnað.

Hér má sjá stærð olíutankanna sem Chris tróð dætrum sínum ofan í.

Hér má sjá stærð olíutankanna sem Chris tróð dætrum sínum ofan í.

Heimild: https://www.google.com/url?sa=i&url=https%3A%2F%2Fwww.pinterest.com%2Fpin%2F785878203713130156%2F&psig=AOvVaw2mc2mrYb5voQ8-I_TIS4_8&ust=1603842214674000&source=images&cd=vfe&ved=0CAIQjRxqFwoTCPDc8KK40-wCFQAAAAAdAAAAABAO .

C. PERSÓNAN SJÁLF

Christopher Lee Watts, betur þekktur sem Chris Watts fæddist þann 16. maí 1985 í Norður-Karólínu. Hann ólst upp í húsi foreldra sinna með systur sinni Jamie. Hann stamaði sem barn og er talið að áfall af einhverju tagi hafi orsakað það. Möguleiki er á að Chris Watts hafi fundist að móðir sín hafi verið að stjórna honum ófhóflega. Jamie systir hans var í sviðsljósinu í fjölskyldunni og honum leið eins og hann skipti engu máli. Chris Watts fékk litla sem enga athygli frá foreldrum sínum. Þegar hann var ungur byrjaði hann í íþróttum og var virkur í hafnabolta, körfubolta og fótbolta. Á unglingsaldri var hann duglegur í skóla, neytti ekki vímuefna og kom sér ekki í vandræði. Hann var rólegur unglingur, sem lét lítið fyrir sér fara, lenti aldrei í slagsmálum, var góður við fólkið í kringum sig og reifst nánast aldrei við vini sína né fjölskyldu.

Árið 2003 útskrifaðist hann úr Pine Forest High School í Norður-Karólínu og fékk hann ásamt einum öðrum nemanda skólastyrk fyrir framhaldsnám. Kennararnir í Pine Forest High School voru ávallt ánægðir með hann og töldu kennararnir hann vera einn gáfaðasta nemanda sem þeir höfðu kennt. Chris var því í miklu uppáhaldi hjá mörgum kennurum í skólanum. Einn kennari skólans sagði eitt sinn við Chris að ef einhver nemandi úr skólanum myndi ná árangri þá væri það hann.

Eftir útskrift frá Pine Forest High School fór Chris á vinnumarkaðinn og vann á bílasölu, aðallega við að gera við bíla. Chris hafði mikinn áhuga á því starfi og samkvæmt samstarfsfélögum hans var hann góður starfsmaður sem lagði mikið á sig. Seinna upplifði Chris Watts mikla vanlíðan sem skilgreind hefur verið sem depurð. Honum fannst eitthvað mikið vanta í líf sitt. Það gerðist svo árið 2010 að hann kynntist eiginkonu sinni, Shanann með því að senda henni vinabeðni á Facebook. Shanann var fyrstu efins með Chris og skrítið að fá vinabeiðni senda frá honum. Shanann hafði ekki áhuga á að kynnast honum en hann náði síðar að tala hana til. Chris fann það fljótt á sér að Shanann gæti veitt sér allt sem honum vantaði áður í líf sitt. Shanann veitti honum ást og eðlilegt líf, Chris fannst hún geta uppfyllt þarfir hans og minnkað vanlíðan hans töluvert.

Tveimur árum síðar, árið 2012, giftu þau sig og voru að mörgu leyti hamingjusöm. Síðar þegar þau komust að því að Shanann væri þunguð ákváðu þau að kaupa sér hús. Þau keyptu sér fimm herbergja einbýlishús í maí árið 2013 sem staðsett er í Coloradoríki. Þann 17. desember 2013 eignuðust þau sína fyrstu dóttur og sína aðra dóttur árið 2015 þann 17. júlí en lentu í mikilli peningaskuld. Þrátt fyrir mikla fjárhagserfiðleika leit allt út fyrir að vera fullkomið hjá Watts fjölskyldunni. Eiginkona hans lýsti manninum sínum sem hinn fullkomni eiginmaður, það var þó ekki allt sem sýndist.
            Eftir að Chris hóf samband sitt með Shanann fór hann að missa tök á mataræði sínu og hreyfði sig minna. Þegar ást hans á Shanann fór að minnka, tók hann sig á og missti tugi kílóa. Talið er Chris Watts hafi byrjað í átaki vegna þess að hann vildi fá sérstaka athygli frá öðrum konum, sem voru ekki Shanann. Í febrúar 2018 byrjaði hann að vinna fyrir Anadarko Petroleum sem stjórnandi í olíu námu og byrjaði að þéna peninga til að borga upp skuld þeirra hjóna. Vinnustaðurinn var rúmlega 60 kílómetrum austan frá heimili þeirra. Þann 11. júní 2018 tilkynnti Shanann Chris að hann væri að fara verða þriggja barna faðir. Shanann var sjálf himinlifandi yfir tíðindunum en Chris sýndi enga gleði né tilfinningar. Hann byrlaði henni verkjalyfinu Oxycodone í þeirri von um að fóstrið myndi eyðast.

Þann sama mánuð, júní árið 2018 var Chris byrjaður að halda framhjá eiginkonu sinni. Viðhaldið var Nichol Kessinger, samstarfskona hans í olíunámunni og trúði hann því að nýja sambandið myndi leysa öll þau vandamál sem hann upplifði. Chris og Nichol leyndu hittingunum sínum frá Shanann eftir bestu getu. Shanann var þó farin að gruna að eitthvað væri ekki eins og það ætti að vera. Hann sýndi eiginkonu sinni enga ást, hann vildi helst ekki kyssa hana, né njóta ásta með henni. Hún spurði hann gjarnan hvort hann væri að missa áhugann á sér og hvort hann vildi ekki vera lengur í hjónabandinu. Þá svaraði Chris henni alltaf að hún ætti ekki að hafa neinar áhyggjur, að það væri ekkert að þeirra hjónabandi. Hann hélt sambandi sínu við Nichol áfram í þónokkra mánuði og var hættur að elska Shanann. Það sem hann vildi heitast var að hefja nýtt líf með Nichol og var það helsta markmið hans. Chris var ekki lengi að grípa til aðgerða og vissi hvað hann þyrfti að gera til að ná markmiði sínu. Chris Watts byrjaði sem hinn fullkomni fjölskyldufaðir en endaði á að vera einn umtalaðasti fjölskyldumorðingi sögunnar.

Mynd af Chris eftir hann varð handtekinn.

Mynd af Chris eftir hann varð handtekinn.

Heimild: https://patch.com/img/cdn20/users/22959560/20181122/103104/styles/raw/public/processed_images/christopher_watts_mugshot-1542899210-5756.jpg .

D. ENDIR MÁLSINS

Christopher Lee Watts var fljótt grunaður um að eiga í hlut við hvarf fjölskyldu sinnar. Rannsóknarlögreglumaðurinn Tammy Lee tók viðtal og framkvæmdi lygapróf við Chris Watts. Lee hóf viðtalið snemma morguns þann 15. ágúst 2018 með því að segja að á þessu augnabliki væri aðeins ein manneskja í herberginu sem vissi sannleikann um hvarf Watts fjölskyldunnar en í lok prófsins myndu báðir aðilar vita sannleikann. Það var þetta lygapróf sem gerði það að verkum að lögreglan var stóru skrefi nær að uppgvöta hvað í hafi skorist. Chris Watts féll ekki aðeins á lygaprófinu, heldur skoraði hann fremur lágt. Þegar tekið er lygapróf og einstaklingur er að segja ósatt er eðlilegt að skora -4 en Watts skoraði -18. Honum var ekki strax sagt að hann hafi fallið á lygaprófi, en hann vissi betur og bað um að fá föður sinn í herbergið til sín. Stuttu seinna viðurkennir hann að hafa myrt eiginkonu sína. Hann var þó harður á því að hafa einungis myrt Shanann vegna þess að hún hafi myrt börn þeirra, sem reyndist svo ekki vera satt. Sama dag klukkan 23:30 var Chris Watts handtekinn fyrir grun um þrjú morð af fyrstu gráðu og þrjár ákærur, sem voru fyrir að hafa átt við líkin. Chris Watts sagði lögreglumönnum hvar hann losaði sig við líkin og þann 16. ágúst voru líkin fundin.

Þann 21. ágúst klukkan 10:00 voru haldin réttarhöld í Greeley í Coloradoríki. Margir mættu til að sýna Shanann, Bellu, Celeste og Nico stuðning. Í réttarhöldunum höfðu fjölskyldur Shanann og Chris Watts tækifæri á koma fram. Faðir Shanann, Frank Rzucek lýsti yfir sorg sinni og reiði gagnvart Chris. Hann sagði hann vera tilfinningalausan vondan mann sem fór með dóttur sína og barnabörn eins og rusl. Hann bætti því við að Chris viti ekki hvað ást er, því ef hann hefði vitað það þá hefði hann aldrei gert það sem hann gerði. Bróðir Shanann, Frankie Rzucek Jr. sagðist hafa séð eftir því að eyða tíma í skrif textans sem lesinn var upp í réttarhöldunum vegna þess að Chris Watts var ekki tímans virði. Hann segir einnig að hann biðji fyrir því að Chris muni aldrei hafa stund til að hvílast. Móðir Shanann, Sandra Rzucek byrjar á því að þakka réttarkerfinu fyrir góða vinnu og segir að Chris hafi brotið traust þeirra allra en hún óskaði ekki eftir dauðarefsingu. Hún segist ekki vilja hann dauðann, hún segir að líf hans sé á milli hans og Guðs og biður fyrir því að Guð sýni honum miskunn. Foreldrar Chris, Cindy Watts og Ronnie Watts segjast fyrirgefa syni sínum og að þau muni elska hann sama hvað.

Hinn grunaði var ákærður fyrir fimm morð af fyrstu gráðu, morðið á þunguðu eiginkonu hans og tveimur dætrum. Þar sem dætur hans voru yngri en 12 ára þá fékk hann tvo dóma að auki sem eins voru morð af fyrstu gráðu. Chris var einnig ákærður fyrir ósamþykkt meðgöngurof á ófædda syni þeirra, Nico Watts og fékk hann þrjár ákærur fyrir að hafa átt við líkin. Í fyrstu var honum neitað um tryggingu en síðar var tryggingin sett við 5 milljón Bandaríkjadala. Þann 6. nóvember 2018 var hann dæmdur sakhæfur og kom dauðarefsing ekki til greina samkvæmt hæstaréttadómara. Dómur hans var óskilorðsbundinn og var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald.

Chris Watts var sendur í fangelsi í Coloradoríki, þar sem hann var búsettur og framdi morðin á fjölskyldu sinni. Þann 3. desember 2018 var hann færður til Dodge Correctional Institution í Waupun, Wisconsin. Það fangelsi er með hámarksöryggis aðstöðu og mun hann klára lífstíðardóm sinn þar. Ástæða flutninganna var vegna öryggis Chris. Algengt er að menn eins og hann sem sitja í fangelsi lendi í uppákomum við aðra fanga, vegna morða á börnum sínum. Önnur ástæða flutninganna var öryggi fangavarðanna sem þyrftu að vera í nálægð hans. Chris fékk send mörg bréf frá aðdáendum sínum og voru það aðallega konur sem sögðust vera hrifnar af honum. Þar sem hann hafði ekki mikið við tímann sinn að gera þá ákvað hann að skrifa þeim til baka og í kjölfarið eignaðist Chris ófáa pennavini, sem hann er enn í samskiptum við í dag.

Heimild: https://www.youtube.com/watch?v=Cd0hXHVUZYY  (MYNDBAND).

 

MÆLIKVARÐAR

E. Fyrsti mælikvarðinn

DSM5 - Andfélagsleg persónuleikaröskun. Þetta eru einstaklingar sem misnota, finnast þeir vera sterkir og annað fólk veikt. Þeir ráðast á og plata aðra.

Chris Watts er með andfélagslega persónuleikaröskun, ýmis einkenni í fari hans sýna fram á það. Chris virti ekki réttindi fjölskyldu sinnar, hann er árásagjarn, hefur stuttan þráð,  hefur enga iðrun á gjörðum sínum og hann sveik fjölskyldu sína þegar hann hóf nýtt ástarsamband, með Nichol Kessinger. Chris Watts var sjarmerandi á yfirborðinu, en það sem gerðist innan veggja heimilisins gátu hjónin lengi falið fyrir umheiminum.

Ástæða þess að Chris dróst að Shanann, eiginkonu sinni var vegna þess að hann trúði því að hún gæti uppfyllt þarfir hans, meðal annars veitt honum ást og eðlilegt líf. Hann vissi að hann gæti ekki upplifað þessar tilfinningar einsamall og trúði því að Shanann gæti hjálpað honum, vegna þess að hún lét Chris trúa því að hann ætti hið fullkomna líf. Þetta virkaði fyrir Chris í ákveðinn tíma en eftir erfiðleika, bæði fjárhags- og fjölskyldu erfiðleika, þá áttaði hann sig á því Shanann gæti ekki gefið honum allt sem hann þurfti.
            Chris hætti að elska Shanann og fór því að halda framhjá með samstarfskonu sinni. Hann trúði því að nýja sambandið við viðhaldið myndi leysa öll vandamál sem hann upplifði. Einnig kenndi hann Shanann um neikvæðar tilfinningar sínar og hélt að ef hann myndi losna við eiginkonu sína, myndi það leysa allt. Það eina sem skiptir hann máli eru hans eigin þarfir og hans hamingja. Allir og allt sem stóðu í vegi fyrir að hann fengi að upplifa þessar tilfinningar voru hindranir, hindranir sem hann vildi losna við. Hann leit því á fjölskyldu sína sem hindrun og hluti frekar en manneskjur. Hann trúði því að hann myndi komast upp með morðin og einnig trúði hann því að hann ætti skilið frelsi eftir allt sem hann þurfti að þola í gegnum árin. Eftir morðin sýndi Chris hvorki iðrun né tilfinningar gagnvart Shanann, Belle eða Celeste. Í fangelsinu, þar sem hann er staddur núna finnst honum hann fá þá athygli, þá dýrkun sem hann telur sig eiga skilið.

 

F. Annar mælikvarðinn

Stone 22 - Flokkur 11 - Fully psychopathic killers of people “In The Way”. Þetta eru morðingjar sem ná fullri skilgreiningu fyrir andfélagslegum persónuleika, sem drepur fólk sem er á einhvern hátt fyrir þeim (e. “In the way”).

Eins og áður kom fram var Chris Watts fjölskyldufaðir sem þjáist af andfélagslegri persónuleikaröskun. Watts var giftur Shanann Cathryn Watts og áttu þau saman tvö börn. Shanann var ólétt af þeirra þriðja barni og var mjög spennt fyrir komandi tímum. Chris var þó ekki eins traustur fjölskyldu sinni eins og fólk hélt. Hann átti í ástarsambandi með samstarfskonu sinni, Nichol Kessinger. Sumir vilja meina að Nichol hafi verið viðhald Chris á meðan aðrir vilja meina að þau hafi verið í ástarsambandi. Chris og Nichol hófu samband sitt, ef svo má kalla, árið 2018 og sagði Chris að Nichol hafi sýnt sér meiri virðingu heldur en hans eigin fjölskylda. Hann naut þess að fá loksins virðinguna sem hann átti, að hans mati skilið. Chris var orðinn þreyttur á því að hafa ekki meiri völd á heimilinu, enda var það Shanann sem tók flestar ákvarðanir sem áttu sér stað innan veggja heimilisins.

Chris Watts vissi að hann þyrfti að taka málið í sínar hendur til þess að fá allt það sem hann átti skilið. Til þess að það myndi takast þyrfti hann að byrja á því að losa sig við allt og alla sem fyrir honum voru. Hann vissi að hann þyrfti einnig að losa sig við þá aðila sem komu í veg fyrir það líf sem hann vildi á einhvern hátt. Chris tók þá upp á því að myrða fjölskyldu sína þann 13. ágúst árið 2018. Að hans mati myndi það leysa flest hans vandamál, hann væri laus við fólkið sem væri fyrir honum og hann myndi loksins fá alvöru völd. Chris hélt að hann gæti verið með Nichol Kessinger í friði, án truflana. Hann vildi því lifa fullkomnu lífi með henni í friði. Þetta var það líf sem hann taldi sig eiga skilið og líf sem hann myndi njóta til fulls.

 

G. Þriðji mælikvarðinn

Holmes & DeBurger - Flokkur 3.C: Sjálfselsku þægindi. Þetta eru morðingjar sem drepa vegna þess að þeir hafa gagn (e. Comfort) af því.

Chris Watts myrti konu sína og börn og hafði hann gagn af því. Hjónaband Chris og Shanann hafði átt við ýmsa erfiðleika að stríða, bæði fjárhagslega og andlega. Hjónaband þeirra var í hættu og það skýrðist enn frekar þegar Chris hóf ástarsamband við Nichol. Samband þeirra hófst rúmum þremur mánuðum áður en morðin áttu sér stað. Chris trúði því að nýja sambandið við Nichol myndi gera hann hamingjusamari, að honum myndi líða betur andlega og að öll hans vandamál myndu leysast. Hann óskaði þess að geta hafið nýtt líf með Nichol en það var fremur erfitt þar sem það voru fáeinar hindranir, og sú stærsta var fjölskylda hans.

Chris hafði því gagn af því að myrða fjölskyldu sína. Morðin þýddu að Chris gat hafið nýtt líf með Nichol og yrði laus við eiginkonu sína og börn. Hann trúði því að ef að fjölskylda hans yrði á lífi gæti hún ónáðað nýja ástarsambandið á einn eða annan hátt. Chris Watts taldi að með því að setja morðin upp eins og hann gerði, myndi enginn komast að því að hann myrti fjölskyldu sína. Frekar myndi fólk halda að Shanann hafði flúið með dætur þeirra eftir rifrildi þeirra sem gerðist nóttina örlagaríku. Þann 13.ágúst myrti Chris fjölskyldu sína og það leið ekki langur tími þar til hann var settur í fangelsi. Eftir að Chris hafði verið dæmdur sekur, lýsti hann því yfir að eina ástæðan fyrir því að hann myrti Watts fjölskylduna var vegna ást hans á Nichol Kessinger. Hann segist aldrei hafa elskað neinn meira en hann elskaði Nichol og er hann enn að hugsa um hana í fangelsinu í dag. Chris Watts sýnir enga iðrun á gjörðum sínum en hann hefur mikla eftirsjá að hafa verið gómaður. Einnig sér hann mikið eftir Nichole, sem sleit samskiptum á milli þeirra eftir morðin. Ef Chris Watts hefði komist upp með morðin, væri hann að lifa sínu fullkomna lífi með Nichole, án nokkurra vandamála. Börnin hans og eiginkona væru ekki að ónáða þeirra líf og Chris gæti byrjað lífið upp á nýtt.

 

H. Fjórði mælikvarðinn

Cleckley 16 – Flokkur 5: Ósannsögli og óheiðarleiki. Þessi einstaklingur lýgur um allt undir öllum kringumstæðum, stundum horfist hann í augu við afleiðingarnar með heiðarleika, æðruleysi og karlmennsku.

Chris Watts var lygalaupur og sagði ósannindi við fólk í sínu lífi en þá sérstaklega að Shanann eiginkonu sinni og Nichol hjásvæfu sinni. Chris hélt framhjá Shanann með Nichol í um það bil þrjá mánuði og laug að Shanann um hvar hann væri þegar hann var með Nichole. Hann sagðist oft vera að fara í vinnuferðir, þegar það var ekki raunin. Hann sagði við Shanann að hann vildi laga hjónabandið, sendi henni smáskeyti en í þeim sem stóð “Sorry for the way I’ve been acting” og “It’s just been in my head and I haven’t been right at all”. Chris sagði Shanann að hann gæti ekki beðið eftir að fá þriðja barn sitt í heiminn og hann sagðist elska barnið heitt. Allt voru þetta lygar þar sem Chris átti í ástarsambandi við Nichol og hafði engan áhuga á að laga hjónabandið með Shanann. Þar sem hann hafði engan áhuga á að verða faðir barnsins reyndi hann að láta Shanann missa fóstrið með því að byrla henni verkjalyfinu Oxycodone.

Chris laug til dæmis að Nichol að hann og Shanann væru aðskilin og að skilnaðurinn væri á leiðinni í gegn. Hann sagði einnig að hann og Shanann bjuggu einungis saman og sváfu í sitt hvoru herberginu, svo hann gæti séð um dætur sínar tvær. Chris uppljóstraði því ekki við Nichol að hann ætti von á sínu þriðja barni með Shanann en komst hún fljótt að óléttunni. Nichole spurði því Chris út í hana en tjáði hann fyrir henni að hann hafi ekki vitað að Shanann væri ólétt og að hann væri ekki faðir barnsins.

Þegar morðin voru búin að eiga sér stað laug Chris að alþjóð, hann kom fram í sjónvarpsviðtali þar sem bað hann Shanann og dætur sínar að koma aftur heim en Chris vissi vel hvar þær væru. Hann sagði lögregluþjóni að hann hafi séð Shanann um fimm leytið að nóttu til áður en hann fór í vinnu. Hann sagðist ekki hafa hugmynd um hvort Shanann hafi flúið í burtu með dætur þeirra eða hvort einhver hafi tekið þær mæðgur. Þegar það komst upp um Chris reyndi hann að sannfæra lögregluna um að Shanann hafi drepið dætur þeirra og þá hafi hann í hefndargirni myrt hana. Seinna játaði hann að hafa myrt ólétta eiginkonu sína og tvær dætur þeirra einungis til að losna við dauðarefsingu.

I. Fimmti mælikvarðinn

CCM - Flokkur 107: Insurance-Related Death. Fórnarlamb er myrt vegna trygginga eða erfða. Undirflokkurinn sem Chris Watts flokkast undir er einstaklingsávinningur (e. Individual profit). Einstaklingsávinningur er skilgreindur sem sá að morðinginn gerir ráð fyrir að hagnast fjárhagslega við andlát fórnarlambsins. Dæmi um þessa tegund glæpa eru morð á „svörtu ekkjunni“, manndráp við rán eða fjölmörg morð sem fela í sér tryggingar eða velferðarsvindl.

Chris seldi fjórhjólið sitt fyrir minna en hann skuldaði af því, og því vildi Shanann ekki láta hann sinna fjármálum þeirra. Það er ljóst að Chris tók enga ábyrgð á sínum eigin fjármálum sem gerði það að verkum að Shanann sá alfarið um þau, það gerði þó fátt betra. Fjölskyldan varð gjaldþrota og voru heilt yfir ávallt í miklum skuldum og áttu í miklum erfiðleikum með fjármál fjölskyldunnar. Skuldin náði í hátt um 70.000 Bandaríkjadala mest megnis vegna námslána þeirra hjóna og yfirdrátt á heimild kreditkorta.

Chris Watts hélt framhjá Shanann eiginkonu sinni með Nichol Kessinger. Nichol var samstarfsmaður Chris þegar hann vann hjá Anadarko Petroleum Co. Þau byrjuðu að eiga í nánu sambandi þremur mánuðum áður en Chris myrti Shanann og dætur þeirra tvær. Chris laug að Nichol að hann og Shanann væru skilin að borði og sæng, hann var einungis enn á heimilinu svo hann gæti hugsað um dætur sínar, Belle og Celeste.

Chris ræddi oft við Nichol varðandi ferðalög þeirra saman um heiminn og hversu gott líf þeirra yrði. Chris setti hús Shanann rakleiðis á sölu eftir að morðin áttu sér stað, líklega til að fá pening, lækka skuldir sínar  og til að geta haldið áfram nýja ástarsambandinu með Nichol án nokkurra fjárhagserfiðleika.

J. Sjötti mælikvarðinn

Hare 20 - Endanlegi listinn. Flokkur 14: Hvatvísi (e. impulsivity). Þetta er fólk sem er hvatvíst og á í erfiðleikum með að halda aftur af sér. Það talar oft án þess að hugsa, framkvæmir það fyrsta sem í hugann kemur án þess að íhuga hverjar afleiðingarnar gætu orðið. Eins og við sjáum hér fyrir ofan er Chris Watts með andfélagslega persónuleikaröskun og eru einstaklingar sem bæði hafa þá röskun og flokkast einnig með hvatvísi, kallaðir „sociopaths“.

            Það er auðveldlega hægt að flokka Chris Watts í flokkinn um hvatvísi. Í handtöku yfirlýsingunni eftir að Chris játaði á sig morðin sem hann framdi, þá útskýrir hann afhverju hann kyrkti konuna sína, Shanann. Hann tjáði rannsóknarlögreglumönnunum sem tóku fyrir yfirheyrsluna að hann gæti ekki útskýrt afhverju hann sleppti ekki takinu. Chris sagði að eitthvað afl hafi verið í höndunum á honum sem leyfði honum ekki að sleppa takinu á hálsinum hennar. Þessi framkvæmd og hugsun sem Chris glímir við er fullkomið merki um hvatvísi.

            Einnig drap hann dætur sínar tvær, Belle og Celeste, af hvatvísi. En þær afleiðingar urðu vegna morðsins á móður þeirra, Shanann, þar sem Chris vissi í raun ekki hvað ætti að gera við þær tvær þar sem þær voru vitni af Chris drepa móður sína.

            Því má segja að Chris hafi ekki hugsað út í afleiðingarnar á þeirri stundu sem hann framdi morðin þrjú og keyrði með þær mæðgur í rúmar 45 mínútur að olíusvæði þar sem hann gæti losað sig við líkin. Mögulega hélt hann að hann væri laus allra mála og spenntur fyrir nýju upphafi með hjásvæfu sinni, Nichol. En svo virðist raunin ekki þar sem hann var gómaður aðeins tveimur dögum eftir að morðin áttu sér stað. Sem sýnir okkur hvatvísina sem brast innra með honum þegar hann framdi hrottaleg morð á sinni eigin fjölskyldu og hugsaði í raun ekkert út í þær afleiðingar sem skyldu bíða hans.

Heimildir:

  1. Inga Kristjánsdóttir. (þáttastjórnandi). (2019). Illverk. [Hlaðvarp]. https://illverk.is/

  2. Popplewell, J. (leikstjóri). (2020). American Murder: The Family Next Door. [heimildarmynd]. USA: Netflix.

  3. https://www.womenshealthmag.com/life/a34144668/where-is-chris-watts-now/ 

  4. https://www.crimerocket.com/tag/chris-watts-childhood/ 

  5. https://www.youtube.com/watch?v=MbGl8r5MzUI.