What About Bob?

  1. nemendur:

Hafdís Ingimarsdóttir + Mirjam Yrsa Friðleifsdóttir + Súsanna Sól Vigfúsdóttir.

2. Útgáfuár og land:

1991, Bandaríkin.


3. Flokkun: Nefnið þrjá flokka:

Drama, grínmynd (e. comedy) og púkaleikur (e. caper).

4. Leikstjóri:

Frank Oz.

5. Leikarar:

Bill Murray sem Bob Wiley.

Richard Dreyfuss sem Dr. Leo Marvin.

Julie Hagerty sem Fay Marvin.

Charlie Korsmo sem Siggy Marvin.

Kathryn Erbe sem Anna Marvin.

6. Stikla:

7. Hvers vegna þessi mynd:

Við völdum þessa mynd vegna þess að kennari námskeiðsins benti okkur á hana.  
Okkur þykir Bil Murray vera skemmtilegur leikari og fær myndin ágætlega háa einkunn á imdb (7,0). Trailerinn gaf til kynna að myndin væri fyndin og óhefðbundin. Okkur þótti líklegt að myndin yrði bæði skemmtileg áhorfs en einnig bitastæð hvað verkefnið varðar.

8. Söguþráður myndarinnar: 

Dr. Leo Marvin er farsæll geðlæknir á toppi ferilsins. Hann er með stórt egó og þráir frægð og frama. Hann tekur við krefjandi sjúklingi, Bob, sem er m.a. með áráttu- og þráhyggjuröskun. Bob verður það háður Dr. Marvin að hann eltir hann út á land í fjölskyldufrí. Bob gerir sig heimakominn og virðist heilla alla upp úr skónum nema þó Dr. Marvin, sem reynir hvað hann getur til að fæla hann burt en án árangurs. Fagleg vinnubrögð og vit Dr. Marvin byrjar að skolast til, svo mikið að þegar upp er staðið þá er munurinn á þeim tveimur ekki lengur svo augljós.

9. Sálfræði myndarinnar:

Í myndinni er mikil áhersla bæði á geðlækninn og sjúklinginn, meðferðarsamband þeirra og ýmis vandamál. Sjúklingurinn virðist vera með áráttu- og þráhyggjuröskun (e. obsessive-compulsive disorder) og hæðispersónuleikaröskun (e. dependent personality disorder), víðáttufælni (e. agoraphobia), felmtursröskun/ofsakvíða (e. panic disorder) og heilsukvíða (e. hypochondria).

10. seinni skil - Fimm spurningar: 

1. Eru einhverjar Freudískar tilvísanir í myndinni? 

Í myndinni eru þó nokkrar lúmskar tilvísanir í Sigmund Freud. Í fyrsta lagi deila Dr. Leo Marvin og Freud nokkrum sérkennandi útlitseinkennum. Þeir eru báðir með einkennandi hvítt skegg, hárið þeirra ósköp svipað og þeir klæðast báðir gjarnan jakkafötum.

Aðrar vísanir í Freud sem koma fram í myndinni er til dæmis það að sonur Dr. Marvin sem er kallaður Siggy heitir Sigmund og dóttir hans Anna, en Freud sjálfur átti bæði dóttur og líka þekktan skjólstæðing sem hétu Anna. Þá sást glitta í styttu af Freud á skrifstofu Dr. Marvin í byrjun myndarinnar. Það sést brot af styttunni í neðra hægra horni á myndinni. Þá veitti Dr. Marvin einnig viðtalsmeðferð en Freud notaðist við og fann upp meðferðarformið sálgreiningu þar sem þungamiðjan var samtalsmeðferð.

2. Eru einhverjar ádeilur um hlutverk heilbrigðiskerfisins hvað varðar andlega heilsu í myndinni?

Burt séð frá því að vera virkilega fyndin þá má einnig túlka hegðun Bob á töluvert sorglegri hátt. Það mætti skoða hana í því ljósi að um er að ræða einstakling sem glímir við töluverðan geðrænan vanda og reynir eins og hann getur að leitast eftir aðstoð sem virðist vanfundin. Bob verður sjúklingur Dr. Marvin í kjölfarið af  því að fyrri læknir hans virðist hafa gefist upp á honum og reynir að koma honum fyrir hjá öðrum lækni til að losna við hann. Það er fyrsta vísbendingin um að þjónusta innan heilbrigðiskerfisins gagnvart geðrænum vandamálum sé ekki upp á marga fiska. Bob fær að mæta í eitt viðtal hjá Dr. Marvin, sem að endingu sendir hann heim með bók eftir sjálfan sig og segir honum að lesa hana á meðan hann fari sjálfur í margra vikna frí. Bob glímir við stórvægileg vandamál og þarf augljóslega meira utanumhald heldur en slíka heimavinnu við lestur á bók. Hann reynir ítrekað í framhaldinu að ná tali af Dr. Marvin, með misfrumlegum leiðum. Eftir margar tilraunir bregður Bob á það ráð að þykjast vera lögreglumaður sem þarf að ná tali af Dr. Marvin vegna þess að skjólstæðingur hans (Bob) hafi fyrirfarið sér. Bob fær því ekki frekari aðstoð nema hann spili sig þeim mun veikari og geri í raun meira vandamál úr sér. Þetta kann að vera ádeila á það hversu erfitt getur verið fyrir fólk með geðrænan vanda að fá aðstoð frá heilbrigðiskerfinu.

Þá mátti einnig sjá í upphafi myndarinnar að heima hjá Bob var aragrúi lyfja sem gæti verið ábending á það að helsta lausnin við geðrænum vanda er oft að gefa lyf frekar en að veita annars konar meðferð. Myndin styður því læknisfræðilega nálgun á geðsjúkdóma. Undir lok 19du aldar fór sjónum að beinast að því sem þá var kallað geðveikrahæli og ýmsar mis-mannúðlegar aðferðir voru reyndar til að lækna geðveika. Til að nefna dæmi var notuð svokölluð insúlín dásvefns meðferð þar sem geðveikir sjúklingar voru sprautaðir með insúlíni svo þau misstu meðvitund og blóðsykurinn síðan hækkaður aftur til að vekja þau. Þetta var gert nokkrum sinnum. Þá var einnig framkvæmdur geirskurður (e. lobotomy) sem er óafturkræfur heilauppskurður þar sem skorið er á taugatengsl á sumum sjúklingum. Þeirri aðferð og öðrum svipuðum fór hrakandi þegar geðlyf urðu meira áberandi. Að vissu leyti má segja að aðferðirnar sem voru notaðar á þessum tíma hafi verið forveri nútíma lyfjameðferða sem eru í dag orðnar mun þróaðari. Þrátt fyrir að meðferðir hafi batnað til muna er alltaf svigrúm fyrir umbætur, Robert Whitaker gagnrýndi notkun þunglyndislyfja í bók sinni og sagði þau hafa jafn skaðlegar og jafnvel skaðlegri afleiðingar en geirskurður. Þá má einnig benda á það að leið Bob að bata var að miklu leyti í gegnum það sem margir myndu kalla hversdagsleg samskipti við annað fólk, þ.e. Martin fjölskylduna. Það er ekki hægt að fullyrða um það en það kann að vera að hluti af boðskapi myndarinnar hversu margir þurfi einfaldlega á mannlegum samskiptum að halda, einhvern sem hvetur þá áfram í gegnum erfið verkefni og er til staðar til að bæta líðan síðan til muna. Þess ber að geta að í mörgum tilfellum þurfa einstaklingar á meiri og  ítarlegri meðferð að halda en í tilfelli Bob, sem virtist vera einstæðingur, var eflaust nóg að fá umhyggju og stuðning frá öðrum fyrir bata.

 

3. Hvert er viðhorf almennings gagnvart andlegum erfiðleikum í myndinni?

Myndin gefur til kynna tiltölulega neikvætt viðhorf almennings í garð fólks með geðrænan vanda. Fólkið í kringum Bob hefur oft lítið umburðarlyndi gagnvart honum. Til dæmis fer Bob mikið í taugarnar á fólkinu sem var með honum í rútunni, svo mikið að þau klöppuðu loksins þegar hann fór út úr henni. Myndin sýnir einnig ákveðið afskiptaleysi almennings gagnvart þeim sem þurfa hjálp vegna geðræns vanda. Bob fær takmarkaða aðstoð frá öðrum þegar hann þarf á því að halda, til dæmis þegar hann stendur á bílaplani, greinilega í uppnámi að leita að Dr. Marvin þar sem enginn virðist vilja bjóða fram aðstoð sína. 

 

4. Í myndinni kemur Bob hægt og rólega út úr skelinni sinni og minna bar á röskunum hans, hvernig komst hann á þann stað? 

Raskanir Bob voru mjög hamlandi fyrir hann í daglegu lífi. Hann komst hægt og rólega út úr skelinni sinni og raskanir hans urðu minna hamlandi fyrir hannn af því að hann var í kringum fjölskyldu sem sýndi honum ást og umhyggju, hann var minna einn með sínum hugsunum. Hann var oft settur í aðstæður þar sem hann var þvingaður að komast yfir kvíða og hræðslu sína. Það átti að leggja hann inn á geðsjúkrahús sem gekk ekki þar sem að hann var búinn að draga úr kvíðanum og röskununum með hjálp fjölskyldunnar sem kom vel fram við hann og náði að neyða hann að fara út fyrir þægindarrammann.

Annað sjónarhorn á "bata" hans Bob má útskýra vegna ákveðinnar berskjöldunarmeðferðar (e. exposure therapy) sem hann beitti ómeðvitað á sjálfan sig. Með því að fá ekki þá aðstoð sem hann þurfti, þá neyddist hann til að leita Dr. Marvin uppi og í kjölfarið að gera allskyns hluti sem hann hélt að hann væri ekki fær um að gera. Til dæmis þá neyddist hann til að fara í langa rútuferð, hann hringdi úr almenningssíma, fór á bát ásamt fleiru, til að hafa uppi á geðlækni sínum og komast nær honum. Ef að það hefði ekki reynst honum erfitt að fá aðstoð, þá hefði hann sennilega ekki náð svona miklum bata. Einnig ef að Dr. Marvin hefði ekki að endingu hatað Bob svona mikið, þá hefði fjölskylda Dr. Marvin ekki tekið Bob jafn mikið að sér líkt og þau gerðu.

 

5. Hvaða greiningar var Bob með?

Bob var bersýnilega með áráttu- og þráhyggjuröskun (e. obsessive-compulsive disorder) sem að sást sérlega vel í upphafi myndarinnar, hann t.d. þurfti að opna og loka hurðum þrisvar sinnum, var með miklar áhyggjur af sýklum og að eitthvað slæmt myndi gerast (jafnvel deyja) ef hann sinnti ekki þráhyggjunni. Hafði mikinn heilsukvíða (e. hypochondria) og var hræddur við að fá allskonar sjúkdóma, en eitt áhugavert atriði var einmitt þegar hann var í viðtalstíma hjá Dr. Marvin. Hann sagði „if I fake it, I don‘t have it“ og þóttist fá hjartaáfall. Hann var með felmtursröskun/ofsakvíðaröskun (e. panic disorder) og víðáttufælni (e. agoraphobia), sem tengdist náið hinum röskunum hans. Hann var mjög ósjálfstæður og með hæðispersónuleikaröskun (e. dependent personality disorder), en hann var nánast óhæfur að taka eigin ákvarðanir án þess að fá staðfestingu frá öðrum.