As Good as it Gets

Nemendur

Aníta Lív Þórisdóttir, Helena Sólveig Friðriksdóttir, Helga Karen Pedersen og Margrét Lilja Jóhannesdóttir.

Nafn myndefnis

As Good As It Gets.

FLOKKUN

Grín, drama og rómantík (e. comedy, drama, romance).

LEIKSTJÓRI, LAND OG ÁR

James L. Brooks, Bandaríkin, 1997.

HELSTU LEIKARAR

Jack Nicholson sem Melvin Udall.

Helen Hunt sem Carol Connelly.

Greg Kinnear sem Simon Bishop.

STIKLA

Heimild: https://www.imdb.com/video/vi384681241/?playlistId=tt0119822&ref_=tt_ov_vi

HVERS VEGNA?

Við völdum þessa mynd vegna þess að við höfðum allar heyrt um þessa mynd áður og heyrt góða hluti en aldrei horft á hana sjálfar. Þegar við sáum titilinn á þessari mynd á listanum fannst okkur við þurfa að taka hana fyrir og skoða betur þar sem hún á vel við um í þessu verkefni.

SÖGUÞRÁÐUR

Myndin fjallar um rómantíska skáldsagnahöfundinn Melvin Udall sem þjáist af áráttu- og þráhyggjuröskun. Melvin er búsettur í Manhattan og í nágrenni hans er kaffihús þar sem þjónustukonan Carol Connelly vinnur. Hún er sú eina á kaffihúsinu sem er tilbúin að standa vaktina þegar hann kemur inn vegna þess að hann á það til að vera mjög dónalegur og það er því ekki hver sem er tilbúinn að þjónusta hann. Carol er einstæð móðir sem á í erfiðleikum með son sinn, Spencer, sem er með langvarandi astma. Melvin býr einn í íbúð í fjölbýlishúsi og virðist ekki eiga vini né fjölskyldu en á móti honum býr hæfileikaríki listamaðurinn Simon Nye. Hann er núverandi stjarna í listamannaheiminum í New York og á lítinn hund að nafni Verdell. Simon á erfiða tíma í myndinni þar sem hann er rændur og barinn illa. Í kjölfarið er Simon lagður inn á sjúkrahús og á meðan verður Melvin að sjá um hundinn Verdell. Þetta verður til þess að Melvin verður umhyggjusamari en áður og veitir Carol m.a. hjálparhönd þegar Spencer veikist skyndilega mikið. Melvin játar svo fyrir henni að það sé hún sem lætur hann vilja vera betri maður (As Good As It Gets synopsis, e.d.).

FJÓRAR SÁLFRÆÐILEGAR SPURNINGAR

TVÆR STYTTRI SPURNINGAR

1. Hvaða geðrænu vandamál koma fram hjá aðalpersónu myndarinnar, Melvin?

Melvin var greindur með áráttu og þráhyggjuröskun (OCD) af sálfræðingi sínum. Mögulega er sú röskun tengd við kvíða en það kemur þó ekki fram í myndinni. Melvin sýnir þó nokkur einkenni sem hægt væri að tengja við kvíða.

2. Hver voru viðhorf fólks í garð Melvin?

Nágrönnum hans fannst hann vera reiður í skapinu, fúll og ósanngjarn. Það sem spilar inn í þar er að hann kom illa fram við nágranna sína og fólk í kringum sig yfir höfuð. Fólkið sem var á kaffihúsinu, sem hann fór alltaf á, taldi hann vera dónalegan, sjálfhverfan og háværan. Hann var ekki mikið að velta því fyrir sér hvað fólki fannst um hann og það sást á hegðun hans. Fólki líkaði almennt ekki vel við hann.

TVÆR STærRI SPURNINGAR

1. Hvernig koma einkenni Melvins fram í kvikmyndinni? Breyttist hegðunin eftir því með hverjum hann var?

Dæmi um áráttur sem komu fram hjá Melvin. Heimild: https://www.youtube.com/watch?v=0Y8EyIY-_I0

Einkenni áráttu- og þráhyggjuröskunar Melvins koma að miklu leyti fram í sýklahræðslu en hann notaði t.d. aldrei sömu sápuna oftar en einu sinni, heldur skipti hann um sápu í hvert sinn sem hann þvoði sér um hendurnar og gat aðeins notað hverja sápu í nokkrar sekúndur í einu. Hann hélt fjarlægð frá fólki á almannafæri og gat ekki hugsað sér að snerta neinn eða rekast óvart í einhvern. Hann notaði einnig hanska þegar hann fór út því hann vildi ekki snerta neitt með berum höndum. Þó koma einnig fram einkenni sem tengjast ekki sýklahræðslu en þegar Melvin kveikti og slökkti ljósin heima hjá sér ýtti hann á takkann fimm sinnum og þegar hann læsti hurðinni þegar hann kom heim þá þurfti hann einnig að læsa fimm sinnum. Hann gat ekki stigið á línur t.d. á flísalögðu gólfi eða á hellulagðri gangstétt.

Melvin borðaði morgunmat á sama kaffihúsinu, á ákveðnu borði alla morgna og hann tók með sér hnífapör í hvert sinn sem hann fór þangað að borða. Carol þjónustustúlka var sú eina sem mátti þjóna honum og sú eina sem gat tekist á við hegðun hans inni á kaffihúsinu en hann átti það til að vera ókurteis og ágengur. Eitt sinn rak hann fólk út sem sat á borðinu sem hann hafði tileinkaði sér svo að hann gæti sest þar, sem sýnir einnig ókurteisi hans við annað fólk. Þegar Simon, nágranni Melvins þurfti að fara á sjúkrahús var Melvin látinn passa hund Simons á meðan. Í fyrstu fannst honum það ómögulegt og vildi ekkert með hundinn hafa, aðallega í ljósi sýklahræðslu hans, en einnig vegna þess að það ruglaði hans daglegu rútínu. Eftir smá tíma þá fór honum hins vegar að líka vel við hundinn og vildi helst hafa hann með sér öllum stundum. Þegar nágranni Melvins kom heim af sjúkrahúsinu átti Melvin mjög erfitt með að láta hundinn frá sér. Í seinni hluta myndarinnar fór að myndast vinátta á milli Melvins, Simon og Carol og Melvin fór að verða blíðari. Vinátta Melvins og Carol þróaðist þannig að þau urðu ástfangin og undir lok myndarinnar var hann farinn að geta stigið á línur þegar hann og Carol gengu saman á gangstéttinni. Hann var einnig farinn að gleyma að læsa hurðinni, sem hann var vanur að gera endurtekið, áður en hann fór út úr húsi eða þegar hann kom heim.

2. Er þetta góð framsetning á röskuninni?

Samkvæmt Jamarie Geller, M.D., M.A. (2022) er áráttu- og þráhyggjuröskun (OCD) röskun þar sem einstaklingur hefur endurteknar, óvelkomnar hugsanir, hugmyndir eða þráhyggjur og finnst einstaklingnum hann neyðast til að gera endurteknar hegðanir. Dæmi um þessar endurteknu hegðanir sem einstaklingur gerir er endurtekinn handþvottur, til að losa sig við alla sýkla og fleira sem er tekið fram í spurningunni fyrir ofan. Þessar endurteknu athafnir geta verið hamlandi og hafa þar að leiðandi haft veruleg áhrif á daglegt líf hjá einstaklingnum. Einnig mun einstaklingurinn oft eiga erfiðara með félagsleg samskipti vegna þessa.

Fólk sem er með OCD finnst þau neyðast til að endurtaka ákveðnar athafnir og er það yfirleitt til að koma í veg fyrir að eitthvað hræðilegt gerist fyrir sjálft sig eða fjölskyldumeðlimi. Jafnvel þó þetta fólk viti að það muni ekkert gerast þá finnst þeim þau samt ekki geta sleppt þessum endurtekningum.

Oft koma fram ákveðin þemu í hegðun þeirra sem eru með áráttu- og þráhyggjuröskun. Í myndinni má sjá að Melvin er með þráhugsanir sem eru að angra hann og til þess að svara þeim, og þar að leiðandi minnka kvíða, er hann með ýmislegar birtingarmyndir. Þráhugsanir eru hugsanir sem vekja upp óþægilegar tilfinningar þ.á.m. ótta, kvíða og óróleika en þá er eitthvað ekki eins og það á að vera.

Áráttuhegðun er svo það sem lætur fólk losna við þráhugsanirnar og óþægindin. Hegðunin getur bæði verið sýnileg og ósýnileg. Í myndinni er hún sýnileg eins og kemur fram í svari við spurningu þrjú. Auðvitað er mikilvægt í mynd að hegðunin sé sýnileg svo áhorfendur sjái hvað er í gangi hjá einstaklingnum. Þráhyggjuröskun þróar því með sér vítahring svo að einstaklingurinn þarf alltaf að gera áráttuhegðun sem svar við þráhugsunum og getur þetta þ.á.m. tekið mikinn tíma úr degi eða aðstæðubundnar og þá er viðkomandi annað hvort styttra eða lengur í þeim aðstæðum þar sem þráhugsanir eru sem mestar eða minnstar. Þrátt fyrir að hafa gert áráttuhegðunina til þess að svara þráhugsuninni þýðir ekki að þeim sé þá bara létt því það kemur annað atvik eftir þetta, fólki er létt í smá tíma þar til það fer að huga að næsta atviki.

 Tilfellin í þessari mynd sýna okkur ekki beint ýkt atvik en til þess að áhorfendur myndarinnar taki eftir röskuninni þurfa þau að koma skýrt fram, en einkenni geta verið missterk hjá fólki. Einkenni hans Melvin í myndinni eru þó algeng hjá fólki sem er með áráttu- og þráhyggjuröskun í raun og veru, svo einkennin eru vel framsett í myndinni og í takt við röskunina. Þó eru ekki allir, sem eru með áráttu- og þráhyggjuröskun, eins reiðir eins og Melvin er í myndinni, en það gætu verið hans persónueinkenni sem tengjast röskuninni ekki beint.

Bataferlið gengur mjög hratt fyrir sig í myndinni þegar í raun tekur það fólk yfirleitt langan tíma að reyna að minnka þessar endurteknu athafnir og komast á það stig að hugsanir og athafnir hafi ekki hamlandi áhrif á daglegt líf hjá sér. Bataferlið í myndinni gefur því ekki góða mynd af því bataferli sem á sér stað í raunverulega lífi fólks sem glímir við röskunina.

Heimildaskrá

  1. As Good as It Gets. (e.d.), IMDB. https://www.imdb.com/title/tt0119822/

  2. As Good As It Gets synopsis. (e.d.). Sótt 27. október 2023, af https://asgoodasitgets.com/As_good_as_it_gets_the_movie/as_good_as_it_gets_synopsis.htm

  3. Jamarie Geller, M.D., M.A. (2022, október). What Is Obsessive-Compulsive Disorder? American Psychiatric Association. https://www.psychiatry.org/patients-families/obsessive-compulsive-disorder/what-is-obsessive-compulsive-disorder