American Psycho

NEMENDUR

Birta Georgsdóttir, Birgir Már Birgisson, Haukur Ingi Hauksson og Össur Haraldsson.

Myndefni

American Psycho.

FLOKKUN

Sálfræðitryllir, spennumynd og svartur húmor.

LEIKSTJÓRI

Mary Harron leikstýrði, Myndin var tekin í Ameríku og kom út árið 2000.

HELSTU LEIKARAR

Christian Bale sem Patrick Bateman.

Jared Leto sem Paul Allen.

Chloë Sevigny sem Jean.

Willem Dafoe sem Donald Kimball.

STIKLA

https://youtu.be/WLq4JUF-c8A

HVERS VEGNA?

Patrick Bateman aðalpersónan í American Psycho hefur öðlast nýtt líf á samfélagsmiðlinum TikTok. Notendur hafa búið til fjölda myndbanda þar sem Bateman er sýndur við ýmsar aðstæður, oft með húmorískum eða kaldhæðnum undirtón. Þessi þróun hefur leitt til þess að Bateman er nú oft tengdur við svokallaða „sigma male“ menningu. Endurvakning hans hefur einnig vakið athygli á því hvernig ungt fólk, sérstaklega karlmenn tengja sig við persónu hans. Sumir sjá hann sem tákn fyrir andóf gegn samfélagslegum væntingum, á meðan aðrir gagnrýna þessa dýrkun á persónu sem er í raun andfélagslegur og ofbeldisfullur. 

Þar sem Bateman hefur verið á margra vörum, fannst okkur tilvalið að velja þessa mynd þar sem hún er samblanda af siðblindu, persónuleikabresti og svörtum húmor. Þrátt fyrir að við vissum hver Patrick Batemann væri hafði engin af okkur séð myndina áður og fannst okkur þetta því kjörið tækifæri til að láta verða að því. Þegar við fengum leyfi frá Kristjáni til að nota þessa mynd í verkefnið ögraði hann okkur með því að spyrja okkur hvort við virkilega þorðum, þar sem þetta væri algjör hrollvekja. Með þessum orðum setti hann sko heldur betur eld á bálið.

SÖGUÞRÁÐUR

Myndin American Psycho fjallar um mann að nafni Patrick Bateman sem býr í New York og starfar sem háttsettur fjárfestir á Wall Street á níunda áratugnum. Myndin segir sögu Bateman í fyrstu persónu, þar sem hann virðist lifa fullkomnu draumalífi. Hann er vel efnaður og virðist njóta alls þess sem samfélagið telur eftirsóknarvert. Á yfirborðinu lítur allt út fyrir að Bateman lifi hefðbundnu lífi, en undir niðri býr ógnvekjandi myrkur. Hann er kaldblóðugur raðmorðingi sem felur þessa óhugnanlegu hlið fyrir samfélaginu. 

Myndin sýnir siðleysi og yfirborðskenndan lífsstíl efri stéttarinnar, þar sem græðgi og sjálfsdýrkun ráða ríkjum. Með kaldhæðni afhjúpar myndin hinn raunverulega Bateman, þar sem geðrænir kvillar og ofskynjanir skapa óskýr mörk á milli raunveruleika og ímyndunar. Myndin leyfir áhorfendum að sjá inn í myrkustu kima huga Batemans, þar sem glansmynd hins fullkomna lífs byrjar að molna og afhjúpar tómleika, siðferðisbresti og ógnvekjandi afleiðingar sjálfsdýrkunar.

FJÓRAR SÁLFRÆÐILEGAR SPURNINGAR

SVAR VIÐ SPURNINGU 1 OG 2

1. Hvernig birtist siðblinda í hegðun og samskiptum Patrick Bateman við aðra?

Siðblindan Batemans kemur fram í fullkomnum skorti á samkennd og virðingu fyrir öðrum. Hann lítur á fólk sem hluti eða tæki til að uppfylla eigin þarfir og þrá, óháð þeim skaða sem hann veldur. Hann sýnir til dæmis enga eftirsjá yfir ofbeldi sínu og lítur á aðra sem yfirborðskennda þætti í leikriti lífs síns. Þessi skortur á tilfinningalegri tengingu gerir honum kleift að fremja hryllilega glæpi án nokkurrar sektarkenndar.

2. Hver er tengingin milli sjálfsmyndar Bateman og efnislegrar græðgi hans?

Sjálfsmynd Batemans er háð því að hann tilheyri efnislegu og félagslega æðsta lagi samfélagsins. Hann mælir eigið gildi með því að safna efnislegum verðmætum og byggir sjálfsmynd sína á því að hafa það „besta“ hvort sem það er dýrasti klæðnaðurinn, glæsilegur lífstíll eða vinir. Dæmi úr myndinni eru nafnspjöld á vinnustaðnum, þar voru félagar hans að metast hver ætti flottasta nafnspjaldið. Á þeim tímapunkti gat maður séð bresti í hegðun Beatman. Þessi árátta gerir sjálfsmynd hans brothætta og veldur óöryggi sem brýst út í sífellt öfgafyllri hegðun.

SVAR VIÐ SPURNINGU 3 OG 4

3. Hvernig endurspeglar myndin áhrif félagslegra væntinga á sjálfsmynd einstaklinga og hvaða slæmu afleiðingar geta þær haft í för með sér hvað varðar andlega vellíðan?

Myndin sýnir hvernig Bateman aðlagar sig sífellt að væntingum samfélagsins um hvernig „árangursríkur“ maður á að vera, með því að feta í fótspor yfirstéttar sem virðir efnislegar eigur meira en siðferði. Þegar sjálfsmyndin er byggð á ytra samþykki og samanburði verður Bateman háður því að fegra sjálfan sig og stöðugri ímyndarsköpun, sem speglast í tómleikanum hjá honum. Slíkt álag getur leitt til sjálfseyðingarhvata, siðblindu eða geðrænna vandamála, þar sem einstaklingur missir fótanna í eigin lífi og sjálfsmynd. 

Bateman sýnir augljós einkenni sjálfhverfrar hugsunar þar sem hann sýndi algjöran skort á samkennd, yfirborðskennda sjálfsmynd og hafði sterka þörf fyrir staðfestingu annarra eins og t,.d. þegar samstarfsfélagarnir eru að sýna nafnspjöldin sín og Bateman sýnir mikla afbrýðisemi þar sem þeir voru með flottarar nafnspjald en hann sjálfur en byrgir þær tilfinningar innra með sér. Aftur á móti er hegðun og hugsanir Bateman mjög andfélagslegar og ofbeldisfullar og þar með er líklegt að hann hafi verið með fleiri geðraskanir eins og andfélagslegan persónuleika þar sem hann er mjög stjórnsamur og vildi hann stjórna bæði umhverfi sínu og fólki sem var í kringum hann, þar sem hann nýtti vald sitt og efnahag til þess eins og atriðin með vændiskonurnar. Hann nýtir sjarmerandi persónuleika sinn til að vinna fólk yfir og fela myrku hlið sína, þar sem hann breytist svo í mjög stjórnandi einstakling og notar fólkið sér til hags. Það virðist sem Bateman sýni enga samkennd né samviskubit yfir þessari hrottafengnu hegðun sinni gagnvart öðrum sem byggðist á mjög miklu ofbeldi og manndrápum, þótt að hann skilji oft hvað er rétt og hvað er rangt en ákveður frekar að hunsa það.

4. Hvernig koma mörk ofskynjunar og raunveruleika í huga Batemans fram í myndinni og hvaða þættir spila inn í sálrænt ástand hans?

Myndin notar óræðar senur þar sem Bateman virðist upplifa atburði sem gætu verið ofskynjanir eða ímyndun, sérstaklega þegar ofbeldið verður sífellt óraunverulegra. Þetta gefur okkur innsýn inn í líf hans þegar mörkin milli hans eigin hugar og raunveruleikans þurrkast út. Samkeppni og einangrun sem fylgja lífsstíl hans stuðla að því að hann missir tökin á sjálfum sér og raunveruleikanum, sem gæti ýtt undir geðrof og enn meiri siðblindu. Bateman þjáðist líklega af hugrofi þar sem hann gat ekki greint á milli fantasíu sinnar og þess sem raunverulega gerist, hann missir tengsl við raunveruleikann. Áhrif tilfinningalegrar einangrunar hans og skortur á tilfinningatengslum gera það að verkum að hann upplifir miklar ofskynjanir og sjálfsblekkingu. Það má segja að hann sé gjörsamlega ónæmur fyrir eigin tilfinningum eins og tilfinningum annarra, eins og t.d. þegar hann segir kærustunni sinni að hún skipti hann engu máli og þegar hann drepur heimilislausa manninn og hundinn hans af því hann lítur niður á hann og hefur engan áhuga á að skilja hans vandamál.

Heimildaskrá

?