After Life

Nemendur

Bára Ýr Hafsteinsdóttir, Katrín Lilja Ármannsdóttir, Matthildur Emma Diegosdóttir og Sara Dögg Hjaltadóttir.

FLOKKUN MYNDEFNIS

Bresk grínþáttasería.

LEIKSTJÓRI, LAND OG ÁR

Leikstjóri þáttanna er Ricky Gervais og þeir koma frá Englandi. Við munum aðeins fjalla um fyrstu þáttaröðina og hún kom út árið 2019.

HELSTU LEIKARAR

Ricky Gervais sem Tony Johnson, aðalhlutverk.

Tom Basden sem Matt Bradsen, bróðir Lisu.

Kerry Godliman sem Lísa Johnson, eiginkona Tony.

Penelope Wilton sem Anne vinkona Tony.

STIKLA 

Heimild: https://www.youtube.com/watch?v=eIGGKSHMQOM

HVERS VEGNA?

Við höfum allar áhuga á þunglyndi og okkur langaði að sjá hvernig birtingarmynd þunglyndis væri í breskum grínþáttum, þar sem það er ekki algengt að sjá þunglyndi í grínþáttum.

SÖGUÞRÁÐUR

Þættirnir fylgja blaðamanninum Tony, sem missti konu sína úr krabbameini. Við upphaf seríunnar er Tony að glíma við sjálfsvígshugsanir þar sem honum finnst lífið tilgangslaust án konu sinnar. Fylgt er sorgarferli hans, þar sem hann í upphafi er mjög dapur og sjálfselskur maður en með hjálp fólksins í kringum sig nær hann að finna fegurðina í litlu hlutunum upp á nýtt.

FJÓRAR SÁLFRÆÐILEGAR SPURNINGAR

TVÆR SMÆRRI SPURNINGAR

1. Hvernig er birtingarmynd sálfræðinga í þáttunum?

Í þáttunum After Life fer Tony að leita sér hjálpar vegna andlegrar vanlíðunar, hann sækir í að fara að tala við sálfræðing. Sálfræðingurinn er vanhæfur og metnaðarlaus gagnvart starfi sínu. Þessi birtingarmynd af sálfræðing í þáttaseríunni er slæm og mjög sorgleg að horfa uppá. Í gegnum seríuna sjáum við einstakling sem er í rauninni að leita sér hjálpar hjá fagaðila og er ekki að fá viðeigandi hjálp. Í fyrsta sálfræði tíma Tony lýsti hann að góður dagur er að hann vilji ekki skjóta alla í andlitið og svo skjóta sig sjálfan í andlitið. Sálfræðingurinn hlustar á Tony en gjörsamlega hunsar það sem hann er að segja og byrjar að tala um annan skjólstæðing og talar síðar um vandamálin sín. Annað gott dæmi sem lýsir hversu áhugalaus sálfræðingurinn er gagnvart starfi sínu, er þegar Tony talar um að vilja hætta að vera sorgmæddur. Sálfræðingurinn svarar einfaldlega eins og það er ekkert mál „hættu þá að vera sorgmæddur.“ Þessi þáttasería er mjög mikið að gagnrýna sálfræðimeðferðir, þar sem sálfræðingurinn er mjög vanhæfur í starfi sínu. Í lok seríunni getum við séð að Tony er búinn að þroskast frá fyrri hugmyndum sínum og við getum séð að það er ekki sálfræðingum að þakka, heldur umhverfi hans og breytingu á viðhorfi hans gagnvart lífi sínu.

2. HVER ER MUNUR Á SORGARFERLI TONY OG ANNE?

Tony finnst lífið vera rosalega tilgangslaust þar sem hann hefur misst konuna sína. Þar af leiðandi finnst honum það skipta engu máli hvernig hann kemur fram við annað fólk eða hvað hann gerir við líf sitt. Hann reynir að fremja sjálfsmorð sem hann hættir svo við, sannfærir sig um að hundurinn hans sé eina ástæða þess að gera það ekki. Eftir það ákveður hann að lifa á sínum eigin forsendum, gera það sem honum sýnist og hefur sjálfsvíg sem varaplan.

Anne er eldri kona sem Tony kynnist í kirkjugarðinum. Þau verða fljótt vinir og hittast alltaf við grafarreit hjá eiginmanni hennar. Anne hafði lengri tíma með sínum eiginmanni heldur en Tony og Lisa, og er sorgarferli hennar öðruvísi. Anne finnst mjög mikilvægt að koma vel fram við fólk. Henni finnst mikilvægt að halda áfram að lifa lífinu. Anne segir Tony að lífið snúist ekki bara um hann og reynir að fá hann til að hugsa um aðra í lífi sínu. Að eiga góð samskipti við fólk, þrátt fyrir hvernig það komi fram, bara því það þarf kannski á því að halda. Anne finnst mikilvægt að hann sé til staðar fyrir aðra, að allt sem mannfólkið hefur er hvort annað. Henni finnst tilgangslaust að vorkenna sjálfum sér og dreifa því út frá sér, eins og Tony gerir. Maður á að syrgja ástvini sína, en það sem hann missti er það sem mun hjálpa honum að komast í gegnum sorgina. Hann ætti því að halda áfram.

TVÆR StæRRI SPURNINGAR

1. HVERNIG ERU ÞUNGLYNDISEINKENNI TONY?

Tony á erfitt með að sætta sig við dauða konu sinnar. Sorgarferlið hjá Tony virðist virkilega erfitt og álykta má að hann hafi orðið þunglyndur vegna dauða konu sinnar. Það sést í viðhorfi Tonys við lífinu en einnig sést það í hegðun hans sérstaklega gagnvart öðru fólki.

Tony reynir að fremja sjálfsvíg vegna þess að fyrir honum er enginn tilgangur í lífinu án Lisu. En hann hættir fljótt við vegna væntumþykju hans til hundsins síns. Lisa elskaði hundinn þeirra og það ýtir því jafnvel undir að Tony vilji ekki skilja hundinn eftir. Í þáttunum sést að hann elskaði Lísu af öllu sínu hjarta og hann segir: I’d rather be nowhere with her then somewhere without her. Tony lítur á sjálfsvíg sem rökrétta leið til þess að binda enda á andlega sársaukann. Viðhorf hans til sjálfsvígs sést í samskiptum hans við Julian dópsala. Tony fann fyrir mikilli samúð með Julian vegna þess að þeir áttu það sameiginlegt að þeir höfðu báðir misst maka sinn. Tony gaf Julian pening til þess að hann hefði efni á að kaupa nógu stóran skammt af fíkniefnum og slökkva á sársauka sínum með því að taka sitt eigið líf.

Í kjölfar þess að Tony hefur misst tilgang sinn í lífinu, þá er honum alveg sama um það. Hann hefur lítinn hvata til að sjá um sjálfan sig, hann verslar nánast ekki inn mat nema fyrir hundinn sinn og tekur ekki til eftir sjálfan sig. Þegar það er ekki til mjólk á heimili hans og hvorki hrein skál né skeið, þá fær hann sér morgunkorn í vatnsglasi með vatni. Birtingarmynd þess að honum sé sama um lífið sést líka þegar tveir piltar reyna að ræna pening af honum og eru ógnandi gegn honum. Hann sýnir enga hræðslu, segir þeim bara að honum sé sama um lífið og að hann ætli ekki að gefa þeim pening. Þegar annar strákurinn ógnar honum þá lemur hann járndós í andlitið á honum og labbar rólega í burtu.

Þegar lífið er tilgangslaust þá skiptir engu máli hvernig er komið fram við fólk. Tony er tortygginn og bitur út í lífið eftir dauða konu sinnar. Því bitnar reiðin og sársaukinn sem býr innra með honum á fólkinu í kringum hann. Biturleiki og reiði Tonys brýst út í óviðeigandi hegðun hans gagnvart öðru fólki. Hann er kaldhæðinn og dónalegur í samskiptum við aðra. Lenny vinnufélagi Tonys fær að finna fyrir því. Tony gerir grín af honum á hverjum degi fyrir að vera feitur, talar um hvað hann borðar mikið og grípur í fituna aftan á hnakkanum hans. En einnig sýnir Tony talsvert meira óviðeigandi hegðun þegar hann hótar að drepa krakka á grunnskóla aldri með hamri. Tony hótar að drepa hann í svefni með hamrinum ef hann hættir ekki að leggja litla frænda sinn í einelti.

Hið minnsta áreiti og það sem flestir myndu telja sem eðlilega hegðun fer í taugarnar á Tony. Hann tjáði að maður hefði geispað fyrir framan hann og hann hefði orðið reiður vegna þess að það væri eins og maðurinn væri að fagna því að vera þreyttur. En Tony er líka sekur um að vera sjálfhverfur og hugsa einungis um sinn eigin líðan. Það birtist í samskiptum hans við Matt, yfirmann sinn og bróðir Lisu. Matt missti einnig systur sína en þrátt fyrir það er Tony neikvæður og dónalegur í garð Matt. Tony segist ætla að nýta sér góðmennsku annarra, þar á meðal Matts til að fá það sem hann vill en ef það gengur ekki þá getur hann nýtt sér varaplan sitt og drepið sjálfan sig. Hann gerir lítið úr því sem Matt segir fyrir framan hina starfsmennina og svarar honum á neikvæðan hátt þegar Matt reynir að hjálpa honum.

Tony notar aðallega áfengi til þess að reyna að deyfa sársaukann. Tony drekkur mikið og þá sérstaklega þegar hann horfir á gömul myndbönd af Lisu. Eftir að hafa kynnst Julian prófar hann einnig að reykja heróín til þess að deyfa sársaukann.

2. HVER ER TILGANGUR LÍFSINS SAMKVÆMT ÞÁTTUNUM?

Tilgangur lífsins er að njóta hversdagleikans. Í gegnum þættina fer Tony frá því að trúa því að lífið sé tilgangslaust yfir í að finna lífsviljann í hversdaglífi sínu. Þættirnir ná að fanga fegurðina í einfaldleikanum og ekki aðeins í gegnum andlega ferli Tony, heldur líka í gegnum samskipti hans við aðrar sögupersónur, sögusviðið og spaugi.

Í byrjun þáttanna er Tony að glíma við mikla depurð og tilvistarkreppu en viðhorf hans breytist smá saman, og það er að miklu leyti vegna starfs hans og fólksins sem hann umgengist. Honum finnst hreinlega lífið vera tilgangslaust án látnu eignkonu sinnar, og talar mikið um að vilja enda líf sitt. Hann hefur margar vangaveltur um tilgang lífsins sem flestir hafa eflaust velt fyrir sér, eins og: Til hvers að lifa ef það er sársaukafullt? Í upphafi þáttanna er svar Tony við þeirri spurningu að það væri einmitt ástæðan fyrir því að hætta að lifa. Hann vinnur sem blaðamaður hjá smábæjarfréttablaði og hikar ekki við að deila skoðun sinni á hvað honum finnst fréttablaðið ómerkilegt. Fáir lesa það og lítið fréttnæmt gerist í smábænum. En samt hringja bæjarbúar í blaðið og biðja um að fá að vera í fréttum. Tony tekur viðtal við marga bæjarbúa og er hissa á hvað þeim þykir “ómerkilegustu” hlutir fréttnæmir. Einn maður hafði samband við fréttablaðið vegna þess að honum barst fjögur eintök af sama afmæliskorti. Annar hafði samband vegna þess að leki á vegg heima hjá honum leit út eins og einhver fræg manneskja. Vinna Tony er bókstaflega að skrifa um litlu hlutina í heiminum og gera þá áhugaverða. Hann vinnur í hjarta samfélagsins. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að sama þótt að lífið sé sársaukafullt þá er það þess virði að lifa. Flott lína er sögð í þáttunum sem undirstrikar þennan boðskap: A society grows great when old men plant trees, the shade of which they know they’ll never sit in.

Einnig áttar Tony sig smá saman á því að lífið snýst að miklu leyti um að gera fólkið í kringum sig hamingjusamt. Hann byrjar að gera lítil góðverk fyrir fólkið í kringum sig og þættirnir undirstrika þannig hvað litlu hversdagslegu hlutirnir skipta máli. Kat, samstarfskona Tony, á tóma snjókúlu þar sem maður ætti að setja mynd af einhverjum ástvini. Hún segist ekki hafa hitt neinn sem hún myndi vilja hafa mynd af í snjókúlunni. Tony spyr hana hvað hún elskar og hún svarar að hún elski að hlæja og hún elski grínistann Kevin Hart. Seinna setur Tony fyndna mynd af Kevin Hart í snjókúluna fyrir hana. Þetta litla góðverk sýndi þróun sögupersónu Tony á þeim tímapunkti og að hann hefur áttað sig á hvað það skiptir miklu máli að gera hluti fyrir aðra. Einnig sýndi þetta hvað maður ætti að fagna því sem gerir mann hamingjusaman, sama hvort að það sé bara einhver grínisti. Í þáttunum er þessa lína sögð: Happiness is amazing. It’s so amazing, it doesn’t matter if it’s yours or not.

Faðir Tony er með Alzheimer og býr á hjúkrunarheimili. Hann er í slíku ástandi að hann veit oftast ekki hvað er að gerast í kringum sig og Tony veltir fyrir sér hver er tilgangurinn fyrir föður sinn að lifa og fyrir fólk til að eiga í samskiptum við hann. Þegar líður á þættina áttar Tony sig á að það er alltaf þess virði að taka þátt í lífinu. Hann byrjar að hlæja með föður sínum og rifjar upp gamlar minningar með honum. Þrátt fyrir að faðir hans sé með mjög takmarkaða hugrænu getu, þá fá þeir báðir ánægju út frá samskiptunum sínum við hvorn annan.

Sögusvið þáttanna býr til andrúmsloft og umhverfi sem lætur áhorfendur týna sér í fegurð tilverunnar. Þættirnir eiga sér stað um hásumar í fallegum smábæ í Englandi. Smábærinn er lítill og náinn. Endalausi græni gróðurinn og huggulegu gamaldags húsin skapa upplífgandi blær. Sögusviðið sýnir boðskap þáttanna í hnotskurn.

Að þættirnir séu grínþættir segir sitt um skilaboð þáttana um tilgang lífsins. Sorglegustu hlutir lífsins, eins og að missa ástvin, eiga ekki að láta fólk missa getuna til þess að hlæja. Allar sögupersónurnar eru frekar fáránlegar á sinn hátt en það gerir þær líka raunverulegar. Lífið er óskiljanlegt og átakanlegt, en það er líka dásamlegt og óskaplega fyndið.

Heimildaskrá

?