The Act

NEMENDUR 

Birta Magnúsdóttir, Dagmar Ósk Sigurðardóttir,  Elísa Ósk Níelsdóttir og Silja Karen Sveinsdóttir.  

NAFN

The Act.

FLOKKUN MYNDEFNIS

Drama, Ævisaga (Biography), Glæpur (Crime) & Sprennutryllir (Thriller).

LEIKSTJÓRAR, LAND OG ÁR

Laure de Clermont – Tonnerre, Steven Piet, Adam Arkin, Christina Choe & Hannah Fidell, Bandaríkin, 2019.

HELSTU LEIKARAR

Joey King sem Gypsy Rose Blanchard.

Patricia Arquette sem Clauddine Blanchard (Dee dee Blanchard).

Calum Worthy sem Nick Godejohn.

STIKLA

https://www.youtube.com/watch?v=Y_5fqDZCjQo

HVERS VEGNA VAR ÞETTA EFNI VALIÐ?

Ein af stelpunum úr hópnum byrjaði að horfa á The Act sér til gamans og fróðleiks þar sem Gypsy losnaði nýlega úr fangelsi og hefur mál hennar öðlast gríðarlega aukna athygli. Það er hægt að tengja mikið þættina og í raun líf Gypsy við sálfræðilegt viðhorf þar sem þetta er mjög einstakt tilvik á milli mæðgna. Einnig völdum við þáttaröðina vegna þess að hún gefur átakanlega sýn á sálræna meðferð og misnotkun í sambandi á milli móður og dóttur, ásamt því hvernig birtingarmynd Munchausen-staðgengilsheilkenni (e. Munchausen syndrome by proxy) getur verið. Auk þess finnst okkur mikilvægt að almenningur fræðist betur um alvarleika geðraskana og hvaða áhrif þær geta haft bæði fyrir fórnarlömb og gerendur, líkt og í tilfellum Munchausen-staðgengilsheilkennis.

SÖGUÞRÁÐUR

Þættirnir byggjast á því og sýna hvernig harmleikur varð að enn meiri harmleik. Þættirnir veita innsýn inn í líf Gypsy Rose Blanchard, sem undir umsjón móður sinnar Dee Dee, er látin trúa því að hún sé alvarlega veik í mörg ár þar sem móðir hennar leit á hana sem brothætt lítið glas sem myndi einfaldlega brotna ef það yrði svo mikið sem blásið létt á það. Þessi meðferð á Gyspy leiðir að lokum til þátttöku hennar og kærastans í morðinu á móður Gypsy.

FJÓRAR SÁLFRÆÐILEGAR SPURNINGAR

TVÆR STYTTRI SPURNINGAR

1. Á hvaða hátt breytist skynjun Gypsy á raunveruleikanum í gegnum þættina?

Í byrjun þáttaseríunnar trúir Gypsy því sem mamma hennar segir um að hún sé alvarlega veik og hefur Gypsy enga ástæðu til að efast um það sem mamma hennar segir, enda hefur hún farið í margar aðgerðir, er í hjólastól og fær mat í gegnum sondu. Þegar Gypsy eldist, kemst á internetið og kynnist fólki fer hún að átta sig á að kannski er hún ekki jafn veik og hún hélt. Hún fer til dæmis að stelast inn í eldhús á nóttunni að drekka gos, stelast til að fara á internetið, og áttar sig á því að hún geti staðið og gengið og þurfi ekki hjólastól þrátt fyrir að hafa notað hjólastól í mörg ár. Eftir því sem Gypsy fer að kynnast sjálfri sér og umheiminum betur áttar hún sig á því að það sem mamma hennar er búin að gera í mörg ár er ofbeldi. Gypsy verður þá rugluð og reið þar sem hún elskar mömmu sína, en vill aftur á móti ekki þurfa að lifa í þessari blekkingu. Gypsy veit í raun ekki hvernig hún á að losna undan mömmu sinni og endar hún á því að biðja kærasta sinn, sem hún kynntist á netinu, um að hjálpa sér að drepa mömmu hennar.

2. Hvaða sálrænu áhrif upplifir Gypsy í kjölfar misnotkunar og ofbeldis af hálfu móður sinnar?

Í kjölfar misnotkunar af hálfu móður sinnar, sem þjáðist af Munchausen-staðgengilsheilkenni, upplifði Gypsy Rose margvísleg sálræn áhrif sem má tengja við það hvernig ráðskast var með hana og ofbeldið sem hún varð fyrir. Dee Dee Blanchard, móðir Gypsy, misnotaði hana með því að búa til og ýkja veikindi hjá henni. Þetta olli því að Gypsy varð óörugg og ósjálfstæð, þar sem hún vissi ekki lengur hvað var raunverulegt og hvað var rangt varðandi eigin heilsu. Þau helstu sálrænu áhrif sem Gypsy upplifði eru m.a. sjálfsmyndarvandi, lært hjálparleysi, áfallastreituröskun, og reiði. 

Vegna stöðugrar stjórnunar og kúgunar móður sinnar, þróaði Gypsy skerta sjálfsmynd. Hún hafði aldrei fengið tækifæri til að þróa eigin vilja eða taka eigin ákvarðanir, sem olli því að hún átti erfitt með að átta sig á eigin færni, getu og sjálfsvirði.  

Vegna áralangrar misnotkunar móður sinnar, bæði líkamlega og andlega, þróaði Gypsy einkenni áfallastreituröskunar, svo sem endurupplifanir, tilfinningalega vanlíðan, og erfiðleika með að treysta öðrum. Þegar Gypsy áttaði sig á því hversu alvarlegt ofbeldi móður hennar var, varð hún reið og fór reiðin vaxandi. Þessi uppsafnaða reiði og þrá Gypsy fyrir frelsi leiddi til þess að hún leitaði öfgafullra leiða til að flýja aðstæðurnar, sem endaði með því að hún fékk Nick, kærasta sinn, til að hjálpa sér að drepa móður sína.

TVÆR STÆRRI SPURNINGAR

3. Hvernig nær hegðun Dee Dee að lýsa Munchausen-staðgengilsheilkenni (Munchausen Syndrome by Proxy)?

Munchausen-staðgengilsheilkenni er flokkað sem geðsjúkdómur og í raun sérstök gerð ofbeldis. Heilkennið einkennist af því að einstaklingur veldur veikindum og ýkir einkenni veikinda, eða býr til veikindi hjá öðrum einstaklingi sem er í hans umsjón í þeim tilgangi að öðlast samúð og athygli frá þeim sem eru innan þeirra samfélags og heilbrigðisstarfsfólki. Gerandinn er yfirleitt umönnunaraðili barns og í flestum tilfellum er það móðir barns. Ekki er vitað hvað veldur því að einstaklingur þrói með sér Munchausen-staðgengilsheilkenni, en orsakavaldur er yfirleitt talinn vera að gerandinn sé einstaklingur sem hafi sjálfur verið misnotaður eða hafi sjálfur upplifað Munchausenheilkenni (Munchausen Syndrome) sem barn, þ.e.a.s. að hann hafi búið til eða ýkt veikindi hjá sér sjálfum.  

Þegar sett er Munchausen-staðgengilsheilkennið í samhengi við söguna um Dee Dee og Gypsy má sjá að Dee Dee fór langar leiðir til þess að láta Gypsy líta út fyrir að vera alvarlega veik. Þegar Gypsy var um 8 ára lýsti Dee Dee því hvernig Gypsy fékk hvítblæði og vöðvarýrnun og í kjölfar þess taldi hún að Gypsy gæti ekki kyngt mat sjálf, sem varð til þess að sett var upp næringarsondu í maga hennar með þeim tilgangi að hún gæti fengið einhverja næringu í líkama sinn. Dee Dee sagði einnig að Gypsy ætti í svo miklum erfiðleikum með að labba að hún þyrfti að ferðast um í hjólastól. Þegar líða fór á tímann byrjaði listinn yfir veikindi Gypsy að lengjast og á hann bættust flogaköst, astmi, og heyrnar- og sjónvandamál. Dee Dee hafði árum fyrr starfað sem aðstoðarkona hjúkrunarfræðings og mætti því gera ráð fyrir að hún hafi haft nokkuð góðar hugmyndir um það hver besta leiðin væri til að búa til veikindi og hvernig hún ætti að útskýra einkenni sjúkdómanna fullkomlega. Algengt er að einstaklingar með Munchausen-staðgengilsheilkenni vinni við einhverskonar umönnunarstörf; svo sem á spítölum, ýmist sem hjúkrunarfræðingar eða læknar. Dee Dee var viðstödd nánast alla læknatíma sem Gypsy fór í, en það bendir til þess að hún vildi hafa stjórn á öllum þeim aðstæðum sem gætu komið upp um hana.  

Möguleg ástæða fyrir því að Dee Dee hafi byrjað að misnota og beita Gypsy ofbeldi er sú að talið er að Dee Dee hafi sjálf verið alin upp við svipaða meðferð. Einnig gæti verið að hún hafi áttað sig á því að hún gæti öðlast mikla athygli og samúð frá samfélaginu í kringum þær mæðgur. Saga Dee Dee og Gypsy er vel þekkt dæmi um Munchausen-staðengilsheilkennið. Þetta heilkenni sýnir það hversu langt sumir eru tilbúnir að ganga til þess að fá samúð og athygli. Afleiðingarnar voru skelfilegar fyrir Gypsy, þar sem henni var í raun neitað um venjulegt líf og frelsi.

4. Hvernig má útskýra hegðun Gypsy Rose Blanchard út frá kenningum um áfallastreituröskun?

Hegðun Gypsy Rose eins og hún birtist í þáttunum má útskýra út frá kenningum um áfallastreituröskun. Áfallastreituröskun er geðröskun sem á sér stað í kjölfar einhverskonar áfalls. Áfall er skilgreint sem atburður þar sem viðkomandi gæti átt í hættu að deyja, lífi hans er ógnað, einstaklingur meiðist alvarlega eða verður fyrir einhverskonar ofbeldi. Á meðan á áfallinu stendur upplifa einstaklingar mikla hræðslu, hrylling eða vanmátt. Sem dæmi um einkenni áfallastreituröskunar má nefna endurupplifun á atburðinum, forðunarhegðun, tilfinningalegur óstöðugleiki, neikvæðar breytingar í hugsun og hegðun, og jafnvel svefnerfiðleikar. Í þáttunum The Act sjá áhorfendur að Gypsy Rose upplifir ýmis af þessum einkennum sem eru nefnd hér að ofan.  

Gypsy leitar gjarnan eftir ýmsum leiðum til þess að flýja þann raunveruleika sem hún býr við og sýnir þar af leiðandi forðunarhegðun. Hún gerir þetta til að mynda með því að nota internetið til þess að mynda tengsl við hinn raunverulega heim, þar sem hún reynir að flýja þær aðstæður sem hún lifir við undir stjórn Dee Dee. Við sjáum gott dæmi um þetta þegar Gypsy fer á netið og kynnist þar strák að nafni Nick. Það má því segja að internetið sé staður þar sem að Gypsy getur verið sú stúlka sem hún vill í rauninni vera án þess að hafa áhyggjur af öllu sem er í gangi í hennar lífi. Þessa hegðun má útskýra með því hvernig einstaklingar með áfallastreituröskun reyna oft að komast hjá því að takast á við áföllin sín og þess í stað leita skjóls þar sem þau geta verið frjáls í öðrum veruleika.  

Gypsy Rose sýnir einnig merki um tilfinningalegan óstöðugleika og neikvæðar breytingar í hugsun og hegðun í þáttunum. Við sjáum dæmi um þessi einkenni áfallastreituröskunar þegar Gypsy tekur þá ákvörðun að myrða Dee Dee, móður sína. Hún hvetur Nick, kærasta sinn, til þess að framkvæma morðið og virðist ekki upplifa nein sterk tilfinningaleg viðbrögð við þessari ákvörðun. Tilfinningalegur óstöðugleiki meðal einstaklinga með áfallastreituröskun einkennist oft af því að einstaklingar verða ófærir um að tengjast og upplifa tilfinningar vegna langvarandi áfalla eða ofbeldis, líkt og Gypsy glímdi við. Í þáttunum er ljóst hvernig áföllin sem Gypsy hefur orðið fyrir hafa haft í för með sér neikvæðar breytingar í hugsun hennar og hegðun og gert hana að hluta til ófæra til þess að taka rökréttar ákvarðanir.  

Svefnerfiðleikar eru eitt af einkennum áfallastreituröskunar, til dæmis erfiðleikar við að sofna, upplifun martraða á nóttunni, og ósamræmdur svefn. Í þáttunum The Act má sjá að Gypsy glímir við svefnerfiðleika nánast hverja einustu nótt. Hún á erfitt með að sofna og hún vaknar oft á nóttunni við martraðir og ótta og sýnir þar með einkenni mikillar streitu. Það er algengt að einstaklingar sem glíma við áfallastreituröskun þjáist af svefnerfiðleikum, sem er partur af þeim líkamlegu einkennum sem röskunin veldur. Einstaklingar með áfallastreituröskun geta upplifað stöðuga hræðslu sem veldur því að þeir eru ávallt á varðbergi, einnig á meðan þeir eru sofandi, líkt og við sjáum hjá Gypsy Rose í þáttunum.

HEIMILDIR

  1. American Psychiatric Association. (2013). Diagnostic and statistical manual of mental disorders (Vol. 5). American Psychiatric Publishing.

  2. Comer, R., & Comer, J. (2022). Fundamentals of abnormal psychology (International, Vol. 10). Worth publishers.

  3. Clermont, L; Piet, S; Arkin, A; Choe, C; Fidell, H (Leikstjórar). (2019). The Act [þáttur]. Hulu.

  4. Herzog, K (2024, 2.janúar). How The Act´s Actors Compare to Their Real – Life Counterparts. Vulture. https://www.vulture.com/article/the-act-the-true-story-of-gypsy-rose-and-dee-dee-blanchard.html 

  5. Munchausen syndrome by proxy: Medline Medical Encyclopedia. (2023, 5.ágúst). https://medlineplus.gov/ency/article/001555.htm#:~:text=Munchausen%20syndrome%20by%20proxy%20is,like%20the%20child%20is%20sick.

  6. News, A.B.C. (2018, 4.janúar). How a young woman forced to used a wheel chair, treated for several illnesses ended up in prison for her mother´s murder. ABC News. https://abcnews.go.com/US/young-wheelchair-bound-woman-treated-illnesses-ended-prison/story?id=52138979