Fractured

Nemendur

Jóhanna Lind Stefánsdóttir, Katrín Rut Kvaran, Ragna Guðrún Guðmundsdóttir og Rakel Leósdóttir.

FLOKKUN MYNDEFNIS

Drama, mystery, & thriller.

LEIKSTJÓRI, LAND OG ÁR

Brad Anderson, Bandaríkin, 2019.

HELSTU LEIKARAR

Sam Worthington leikur Ray Monroe.

Lily Rabe leikur Joanne Monroe.

Lucy Capri leikur Peri Monroe.

Adoja Andoh leikur Dr. Jacobs.

STIKLA

Heimild: https://www.youtube.com/watch?v=sCimThZW-Ew

HVERS VEGNA?

Tvær af okkur höfðu horft á myndina fyrir u.þ.b. þremur árum síðan, og héldum við að myndin snérist um dularfullan spítala. Við trúðum því sem aðalpersónan Ray taldi vera í gangi en raunin var sú að hann átti við geðrænan vanda að stríða. Þetta er mjög spennandi mynd sem er gaman að skoða í sálfræðilegu samhengi.

SÖGUÞRÁÐUR

Myndin Fractured fjallar um mann að nafni Ray Monroe. Hann er á leiðinni úr fjölskylduboði með eiginkonu sinni Joanne og dóttur sinni Peri. Þau stoppa á bensínstöð á leiðinni þar sem Ray fer að leita af spegli dóttur sinnar í bílnum en á meðan sér hún blöðru sem hún fer að eltast við. Peri sér svo hund og verður hrædd en þá er hún komin alveg upp að brún á yfirgefnu vinnusvæði sem er eins og gryfja. Ray tekur þá eftir því sem á sér stað og kastar múrsteini í hundinn í þeirri von að hræða hann í burtu. Peri verður brugðið og fellur í gryfjuna en Ray stekkur á eftir henni og reynir að grípa hana. Hann fær högg á höfuðið og sér Joanne koma hlaupandi niður í gryfjuna í uppnámi vegna Peri. Þau fara með Peri á spítala sem var í grenndinni því hún virtist vera handleggsbrotin. Læknarnir ráðlögðu þeim að fara með Peri í tölvusneiðmyndatöku, sem er á jarðhæðinni, út af höfuðhögginu og fór Joanne með henni. Læknarnir ráðlögðu Ray einnig að fara í tölvusneiðmyndatöku en hann hélt því fram að það væri óþarfi. Eftir langan tíma á biðstofunni spurði Ray fyrir um mæðgurnar í móttökunni en starfsfólkið finnur engin gögn um þær. Ray reiðist og ásakar læknana um að þeir séu að ljúga og að þær séu einhversstaðar á spítalanum. Þar sem enginn vill hjálpa honum þá brýst hann inn á lokað svæði sem var einungis fyrir starfsfólk og sjúklinga. Öryggisgæslan nær honum, spreyjar piparúða í augu Rays, sprautar hann með róandi lyfi og læsir hann inn í herbergi. Þar finnur hann adrenalín penna, sprautar sig með þremur þeirra og flýr út á bílastæði. Þar mætir hann tveimur lögreglumönnum og biður þá um að hjálpa sér. Læknarnir segja við löggurnar að Ray hafi verið meðhöndlaður vegna höfuðáverka og sé ruglaður eftir höfuðhöggið. Þeir segja einnig að Ray hafi minnst á fyrrverandi eiginkonu sína, en hún lést í bílslysi fyrir nokkrum árum síðan. Engar upptökur fundust af Peri og Joanne í öryggismyndavélum og fannst Ray hann þurfa að taka málin í sínar hendur. Hann fer sjálfur að leita af mæðgunum og endar á að komast á jarðhæðina á spítalanum. Að lokum fann hann þær og náði að koma þeim út í bíl og særði nokkra lækna sem reyndu að vera í vegi fyrir honum. Lokaatriði myndarinnar sýnir aftur á móti blákaldan raunveruleikann sem var að Ray hafi verið með ofskynjanir allan tímann. Hann hafði tekið einhvern sjúkling sem var í skurðaðgerð, haldandi að hann væru mæðgurnar og keyrði af stað með hann heim á leið. Peri og Joanne létust á vinnusvæðinu fyrr um daginn og Ray hafði sett þær í skottið á bílnum. Þær voru því aldrei með honum á spítalanum heldur var þetta allt ofskynjanir Ray.

FJÓRAR SÁLFRÆÐILEGAR SPURNINGAR

TVÆR STYTTRI SPURNINGAR

1. Var Ray greindur með einhverja sálfræðilega kvilla?

Það var ekkert sem kom fram í myndinni nema að hann væri óvirkur alkóhólisti.

2. Samhliða kenningum Freud hvað myndum við halda að hafi gerst hjá Ray þegar að mæðgurnar látast?

Samhliða kenningum Freuds myndum við telja að Ray hafi notað varnarhætti til þess að vernda sjálfið frá erfiðum tilfinningum og minningum. Varnarhættir eru þær leiðir sem sjálfið getur notað til þess að verja sig gegn kvíða og horfast ekki í augu við vandann. Við teljum að Ray hafi notað bælingu, afneitun, frávarp, tilfærslu og réttlætingu. Þegar eiginkona hans og dóttir deyja þá horfist hann ekki á við raunveruleikann heldur bælir hann niður, í þeirri von um að vernda sjálfið og tilfinningar sínar. Hann hefur fært þá erfiðu upplifun að þær séu báðar látnar niður fyrir meðvitund og afneitað raunveruleikanum, að mæðgurnar væru látnar. Það kemur svo fram í myndinni að hann hafði átt aðra eiginkonu sem var þunguð af barni þeirra fyrr á lífsleiðinni sem höfðu einnig dáið. Þær dóu í bílslysi þar sem hann var að keyra undir áhrifum. Það má álykta að hann hafi notað sömu aðferð þar til þess að vernda sjálfið gegn vondum tilfinningum og sektarkennd og afneitað því hann hafi verið sekur fyrir því að eiginkona hans og dóttir hafi dáið. Þegar hann lendir svo í því sama aftur þá mögulega kvikna upp gamlar tilfinningar úr undirmeðvitundinni sem verður til þess að seinna áfallið verður of mikið til þess að bera á herðum sér og hann algjörlega missir stjórn á tilfinningum jafnt og hugsunum sínum. Frávarp er tegund af varnarhætti þar sem einstaklingur eignar öðrum neikvæða eiginleika eða vandamál hjá þeim sjálfum. Ray notar því líka frávarp. Í myndinni þá eignar Ray spítalanum og starfsfólkinu þar sitt eigið vandamál þar sem að það var hann sem að drap mæðgurnar en ekki fólkið á spítalanum. Þá er hann að kasta eigin vandamálum yfir á starfsfólk spítalans til þess að vernda sjálfið. Tilfærsla er svo þegar neikvæðum tilfinningum er beint að öðrum en þeim sem að vöktu þær. Í myndinni beinir Ray neikvæðum tilfinningum sínum að spítalanum og starfsfólki þess í stað þess að takast á við þær og átta sig á því að þessar neikvæðu tilfinningar voru vegna áfalla og mikillar sorgar. Að lokum þá notar Ray réttlætingu þar sem hann réttlætir hegðun og líðan sína með öðrum skýringum. Hann tekst ekki á við gjörðir sínar heldur réttlætir þær fyrir sér með því að búa til aðrar skýringar og sökudólga.

TVÆR STærRI SPURNINGAR

1. Hvaða sálfræðilegu þættir gætu hafa valdið hegðun Rays í myndinni?

Margir þættir gætu hafa spilað inn í það hvernig Ray hagaði sér og upplifði hlutina. Atvikið á bensínstöðinni var annað stórt áfall í lífi hans. Það fyrra var bílslys sem gerðist nokkrum árum áður. Ray hafði þá verið að keyra undir áhrifum áfengis sem leiddi til þess að hann, ásamt þáverandi konu sinni sem var ólétt af barninu þeirra, lentu í bílslysi. Konan og fóstrið létust en Ray lifði af. Seinna áfallið var svo á bensínstöðinni þegar Peri datt í gryfjuna, sem endaði á að hún lést vegna fallsins. Ray stökk á eftir henni til að reyna að grípa Peri en endaði á að fá höfuðhögg sjálfur og varð frekar vankaður. Ray fer svo að ranka við sér og sér þá Joanne í uppnámi út af Peri. Joanne verður mjög æst og Ray ýtir henni frá sér, sem leiðir til þess að hún lendir með höfuðið á oddhvössu stáli og deyr í kjölfarið. Hér höfum við því tvö risastór áföll þar sem Ray missir fjölskyldu sína á svipaðan hátt í bæði skiptin. Ray er því líklegast með áfallastreituröskun. Henni getur fylgt mikil hræðsla, breyting á tilfinningalífi fólks og fólk getur upplifað sig einangrað frá öðrum.

Ray er líklegast í einhvers konar geðrofi þar sem hann upplifir ofskynjanir og er að aftengjast raunveruleikanum á vissan hátt. Hann virðist vera með ákveðin einkenni sem geta komið fram í geðrofi. Hann upplifði ofskynjanir þar sem hann sá Joanne og heyrði hana stanslaust segja honum að gera eitthvað í málunum, þegar hún var í raun ekki til staðar. Ofskynjanirnar komu einnig fram þegar hann var kominn á jarðhæðina, sem var í raun skurðdeild spítalans. Þar sá hann lækna vera að ganga með vagn sem innihélt líffæri mannfólks. Hann sá einnig opna líkama án líffæra sem voru í raun bara sjúklingar nýbúnir í skurðaðgerð. Að lokum sá hann svo dóttur sína sem var í raun bara sjúklingur í miðri aðgerð.

Ranghugmyndir komu fram á þann hátt að honum fannst allir vera á móti sér, læknarnir lugu að honum og lögreglan trúði honum ekki. Hann var einnig með hugmyndir um mikilmennsku sem flokkast undir ranghugmyndir, þar sem hann ætlaði sér að verða hetja og bjarga konu sinni og barni frá þessu hræðilega spítala.

Í myndinni kemur einnig fram að Ray hafi verið að glíma við áfengisvandamál áður fyrr, sem olli því einmitt að hann ásamt fyrrum fjölskyldu sinni lentu í bílslysinu. Eftir seinna áfallið kemur einmitt sena þar sem hann fær sér áfengi sem getur tengst mikilli vanlíðan sem Ray er að upplifa. Það getur tengst áfallastreituröskun að misnota vímugjafa.

Höfuðhöggið gæti einnig haft áhrif þar sem skemmdir eða skaði á heila getur leitt til þess að hegðun okkar breytist. Læknarnir sögðu hann líklegast vera að ná sér eftir höfuðhöggið og að hann væri bara ringlaður, en þegar á botninn er hvolft spilar þetta líklegast allt saman.

2. Hefðu læknarnir geta farið öðruvísi að hlutunum gagnvart Ray?

Læknarnir sem tóku á móti Ray fyrst hefðu líklega ekki geta farið öðruvísi að hlutunum þar sem þau höfðu engin gögn um fortíðina hans eða gögn sem sögðu að hann gæti mögulega verið í geðrofi. Þau bjuggu um sárið á höfði Rays og buðu honum að fara í frekari rannsóknir út af höfuðhögginu en hann sagði að það væri óþarfi. Þegar líða tók á daginn þá grunaði hjúkrunarfræðingunum og læknunum að það væri eitthvað meira en bara höfuðáverki sem orsakaði hegðun Ray. Það getur verið erfitt fyrir lækna að sjá og greina hvort að einstaklingur sé búinn að missa tengsl við raunveruleikann þar sem að einstaklingurinn í því ástandi getur verið mjög trúverðugur. Þegar læknarnir áttuðu sig á því að Ray væri með ofskynjanir höfðu yfirlæknarnir tveir fljótt samband við geðlækninn Dr. Jacobs. Hún kom og fékk Ray til að tjá sig um fortíðina, fór með hann á yfirgefna vinnusvæðið og grunaði miðað við viðbrögð Ray að hann hefði drepið mæðgurnar. Að öllum líkindum má álykta að næsta skref hennar var að leggja Ray inn á geðdeild. Ray var aftur á móti fyrri til og náði með ótrúlegum hætti að taka byssuna af löggunni og sannfærði alla viðstadda að fara inn á bensínstöðina þar sem hann síðan læsti þau inni. Ray fór til baka á spítalann og bjargaði mæðgunum út af þessum drungalega spítala, sem reyndist svo vera einhver sjúklingur. Læknarnir hefðu vissulega getað gripið fyrr inn í og gefið Ray þá hjálp sem að hann þurfti. Eðlilega voru þau þó ráðavillt þar sem að hann var mjög æstur og átti það til að reiðast þegar þau reyndu að segja honum raunverulegan sannleikann. Einnig erum við ekki vissar um að Ray hafi verið í því ástandi að það væri skynsamlegt að taka hann aftur að vinnusvæðinu þar sem slysið átti sér stað. Það að fara aftur á slysstaðinn rifjaði upp tilfinningar og reiði Ray sem varð til þess að hann missti stjórn á sér og læsti alla inni. Mögulega hefði verið skynsamlegast að ná honum strax inn á geðdeild þar sem hefði verið hægt að gefa honum viðeigandi lyf og róa hann niður svo hann hefði verið í meira jafnvægi þegar farið var með hann að slysstaðnum.

Heimildaskrá

?