NEMENDUR
Hafdís Anja Gunnarsdóttir, Iðunn de Bustos Martin og Sóley Lind Haraldsdóttir.
myndefni
Flokkun myndefnis
Sálfræðilegur spennutryllir.
Leikstjóri, land og ár
Richard Kelly, Los Angeles, 2001.
Helstu leikarar
Bútur úr myndinni: Donnie dáleiddur af Dr. Thurman, talar um Frank og hvað hann hefur gert af sér.
https://www.youtube.com/watch?v=YfwWMsOp5EU
Hvers vegna völdum við þessa mynd
Við völdum myndina þar sem hún fjallar um flókin sálræn viðfangsefni. Aðalpersónan, Donnie, glímir við geðræn vandamál, sem vekja upp spurningar um geðklofa og skynjun á raunveruleikanum. Myndin er sálfræðilegur spennutryllir (e. psychological thriller) sem okkur finnst vera spennandi og einnig sáum við að myndin fékk góða dóma á netinu.
Söguþráður
Myndin fjallar um sextán ára strák, Donnie Darko sem nær að flýja dauðann þegar flugvélarhreyfill hrapar á húsið hans og lendir á herberginu hans þegar hann er úti að ganga í svefni. Eftir það byrjar Donnie að heyra raddir og fá ofskynjanir af fígúru í kanínubúning sem heitir Frank. Frank segir Donnie að heimurinn muni enda eftir 28 daga. Í gegnum myndina sannfærir Frank Donnie um að gera ýmis tilviljunarkennd skemmdarverk sem seinna sýna fram á dýpri tilgang. Frank er að leiða Donnie í gegnum þá atburði sem eiga að hjálpa honum að loka á hliðstæðu veröldina (e. tangent universe) sem myndaðist þegar Donnie slapp dauðann og varð “lifandi móttakandi” (e. living receiver). Donnie hefur enga stjórn yfir Frank og þarf að fara í gegnum allt það ferli, og þær ógnvekjandi beiðnir sem Frank biður hann um til þess að koma aftur jafnvægi á raunveruleikann sem hafði tvístrast. Í lok myndar sér Donnie að hann þurfi að fórna sjálfum sér til þess að bjarga heiminum frá alheimsenda sem hefur myndast við þessa tvístrun. Við að gera það snýr hann aftur í tímann til upphafs atburðanna en er í herberginu sínu þegar hreyfillinn hrapar og hann lætur lífið.
Myndin staðfestir ekki að Donnie Darko sé með geðklofa heldur er hún uppsett til þess að leyfa áhorfendum að túlka hana á mismunandi hátt, og er spurningin í rauninni sú hvort Donnie sé með geðklofa eða hvort að í myndinni eigi sér stað yfirnáttúrulegir atburðir eins og tímaferðalög meðal annars.
Fjórar sálfræðilegar spurningar
Styttri spurningar
1.Hvernig sýnir myndin að Donnie eigi í erfiðleikum með að greina á milli raunveruleika og eigin ímyndunar og hvaða áhrif hefur það á hann?
Myndin sýnir fram á hvernig Donnie á erfitt með að greina á milli raunveruleika og ímyndunar í gegnum samskipti hans við Frank. Frank, sem enginn annar sér, hefur sterk áhrif á Donnie með því að gefa honum fyrirmæli og leiðbeina honum í átt að hegðun sem virðist vera órökrétt eða hættuleg. Þegar Donnie fer að trúa því að hann hafi verið valinn til að bjarga heiminum, missir hann smám saman tengsl við raunveruleikann og verður sífellt háðari leiðbeiningum Frank. Það að fjarlægjast raunveruleikann er dæmigerð upplifun fyrir þá sem upplifa ofskynjanir eða ranghugmyndir sem getur valdið tilfinningalegum óstöðugleika og aukinni einangrun.
2. Hvernig birtist hugmyndin um ,,skuggasjálfið” (e. shadow self) í hegðun Donnie?
Skuggasjálfið, samkvæmt kenningu Carl Jung, er sá hluti af persónuleika okkar sem við bælum niður eða reynum að forðast. Það má túlka að í tilfelli Donnie birtist skuggasjálfið í gegnum Frank, sem leiðir hann til hættulegrar og uppreisnargjarnar hegðunar. Frank dregur fram hvatir og tilfinningar sem Donnie gæti hafa bælt, sem verður leið fyrir hann til að kanna dýpri og oftast bældar hliðar á eigin persónu.
Lengri sálfræðilegar spurningar
3.Hvaða hegðun sýndi Donnie sem var einkennandi fyrir geðræn vandamál, var einhver hegðun meira áberandi en önnur og hvernig tengist sú hegðun hlutverki Franks?
Í myndinni sýnir Donnie Darko ýmsa hegðun sem tengja má við geðræna kvilla. Margt af því sem Donnie upplifir gæti verið dæmigert fyrir geðklofa, hins vegar er túlkun myndarinnar tvíræð og myndin er einnig hlaðin hugmyndum sem byggjast á vísindaskáldskapi og tímaferðalögum. Donnie upplifir m.a. sjónrænar og hljóðrænar ofskynjanir þar sem hann sér og talar við Frank, kanínufígúru sem aðeins hann sér. Frank birtist Donnie sem ógnandi vera sem fylgir Donnie og skipar honum að framkvæma tiltekin verk líkt og að flæða skóla hans og brenna hús. Í geðklofa eru sjónrænar og hljóðrænar ofskynjanir algengar og upplifir fólk oft að raddir skipi sér fyrir. Þessar ofskynjanir eru oft mjög raunverulegar fyrir þá sem upplifa þær. Frank segir Donnie að heimurinn endi eftir 28 daga. Donnie upplifir ranghugmyndir um að hann eigi að bjarga heiminum frá tortímingu og að hann eigi að þjóna sérstöku hlutverki í því. Ranghugmyndir um mikla persónulega þýðingu eða tiltekið hlutverk eru algengar meðal fólks með geðklofa. Þessar ranghugmyndir geta verið mjög sannfærandi og ráðið hegðun einstaklinga, eins og Donnie sem framkvæmir verk sem eru byggð á þessum trúarhugmyndum á meðan niðurtalningu að endalokum stendur.
Vegna áhrifa Frank framkvæmir Donnie hvatvís, hættuleg og skaðleg verk. Hann meðal annars flæðir skólann sinn, skemmir eignir og brennir hús. Í myndinni virðist hegðunin stundum órökrétt og tilgangslaus en fyrir Donnie er hún í rauninni vegna “hlutverks” hans. Einstaklingur með geðklofa á oft erfitt með að halda í hvað er eigin hugsun og hegðun og hvað ekki. Einnig er oft mikið misræmi á milli hugsunar og hegðunar sem getur verið öðrum óskiljanleg. Donnie upplifir misgreiningu á raunveruleikanum vegna birtingu Franks, þessi misgreining verður til þess að hans upplifun af tilverunni klofnar. Hann fer að trúa á nýja “hliðstæða veröld” og tímaferðalög. Donnie aðskilst veruleikanum sem er eitt að megineinkennum geðklofa. Einstaklingar eiga erfitt með að greina á milli þess sem er raunverulegt, ímyndað eða yfirnáttúrulegt. Að lokum sýnir Donnie mikil einkenni þunglyndis og vanlíðunar. Tilfinningalegur óstöðugleiki getur verið áberandi fyrir einstaklinga með geðklofa, vegna geðrofs og misskilnings á raunveruleikanum. Frank er lykilþáttur í geðrænum einkennum Donnie. Hann er í raun ofskynjanir hans og ranghugmyndir. Sú óraunverulega vera sem telur Donnie trú um að hann hafi verið valinn til að bjarga heiminum.
Frank ýtir Donnie dýpra í stórhugmyndir um tíma og örlög sem valda Donnie mikilli vanlíðan og fjarlægir hann frá raunveruleikanum. Frank er táknrænn fyrir afleiðingu af mögulegu geðrænu ástandi og sem áhrifavaldur á söguþráð myndarinnar. Þegar á allt er litið má segja að hegðun Donnie gefi sterklega til kynna einkenni geðklofa, þótt myndin skilji eftir rúm til að túlka atburði sem hluta af yfirnáttúrulegum hlutum.
4. Brjóta fagaðilar einhverjar siðareglur í meðferð Donnie og hvernig meðferðir voru notaðar við kvillum hans. Hjálpar sálfræðingurinn Donnie?
Í einum sálfræðitíma hjá Dr. Lilian Thurman stingur Dr. Thurman upp á dáleiðslu við Donnie, sem hann samþykkir að gera. Thurman notar dáleiðsluna til þess að komast að undirmeðvitund Donnie, og koma þannig í veg fyrir að Donnie geti varið hugsanir sínar og hegðun með því að ljúga eða draga úr alvarleika málsins. Með þessum hætti gat Dr. Thurman komist að bældum hugsunum sem Donnie hefði mögulega ekki sagt frá þar sem hann átti oft erfitt með að koma hugsunum sínum í orð. Í myndinni er Donnie með uppáskrifuð lyf fyrir geðklofa og taldi Dr. Thurman að þau ættu að koma jafnvægi á skap Donnie og draga úr þeim ofskynjunum sem Donnie lýsti fyrir Thurman, og þá sérstaklega samskiptum Donnie við Frank. Jafnvel þó svo að Donnie haldi áfram að taka lyfin sín samviskusamlega hélt hann áfram að sjá og heyra ógnvekjandi hluti, hvort sem það var Frank að birtast honum og tala til hans, eða yfirnáttúrulegir hlutir að gerast í umhverfinu. Þetta bendir til þess að lyfin sem hann var að taka henti ekki fyrir Donnie, eða hreinlega virki ekki. Undir lok myndarinnar þegar Donnie er búinn í seinasta sálfræði tímanum sínum hjá Dr. Thurman, segir Dr. Thurman Donnie að hann geti hætt að taka lyfin sín þar sem þau voru bara lyfleysa, pillur fylltar með vatni. Dr. Thurman vildi reyna að hjálpa Donnie en vildi ekki setja hann á lyf sem gætu gefið honum slæmar aukaverkanir. Það gæti einnig verið að Dr. Thurman hafi verið að reyna að meta hvort einkenni og hegðun Donnie ráðist af því að hann haldi að hann sé að taka lyf, eða hvort lyfin sjálf myndu gera gagn.
Á meðan Dr. Thurman meinar vel og vill Donnie aðeins það besta þá eru nokkur vafasöm atriði sem gætu talist brot fagaðila á siðareglum. Dæmi um þetta gæti verið það sem nefnt var áður með lyfin hans Donnie. Dr. Thurman var meðvituð um hversu slæmt áhrif einkenni Donnie hefðu á hann, en ákvað samt að gefa honum lyfleysu. Einnig voru foreldrar Donnie ekki meðvitaðir um að lyfin væru lyfleysa. Annað dæmi gæti verið að þegar Dr. Thurman ákvað að dáleiða Donnie, þá var hann ekki almennilega upplýstur um hvað dáleiðsla fæli í sér. Donnie virkar frekar ómeðvitaður um afleiðingar dáleiðslunnar þar sem hann vaknar alltaf mjög skelkaður og finnur fyrir mikilli vanlíðan.