1. nemendur:
Aron Heimisson + Alexander Þór Gunnnarsson + Egill Fjölnisson + Svavar Sigmundsson.
2. Útgáfuár og land:
2017 í Bandaríkjunum.
3. Flokkun: Nefnið þrjá flokka:
Hrollvekja, ráðgáta og spennutryllir.
4. Leikstjóri:
Jordan Peele.
5. Helstu leikarar:
6. Stikla:
7. Hvers vegna þessi mynd?
Ástæðan fyrir því að þessi mynd var valin var sú að einn í hópnum hafði séð hana áður og þótti hún vera mjög athyglisverð til þess að rýna í fyrir þetta verkefni. Það að hún fékk líka 7,7 á IMDB, sem þykir gott, ýtti undir það að þessi mynd yrði fyrir valinu. Þar sem þessi mynd flokkast undir hrollvekju og spennutrylli, þá setur hún sálfræði í athyglisvert samhengi þar sem mörg sálfræðileg viðfangsefni eru tækluð. Þessi viðfangsefni eru eins og t.d. rasismi, dáleiðsla og taugasálfræði. Ásamt því er þetta mynd sem leikur vel á áhorfendur, þar sem mikil ráðgáta liggur á bakvið hana, en því mun þykja athyglisvert að sjá hvort hægt sé að leysa ráðgátuna með því að rýna sálfræðilega í hana.
8. Söguþráður:
Myndin fjallar um Chris sem er að hitta fjölskyldu kærustu sinnar í fyrsta skiptið. Chris er af afrískum uppruna sem er mjög mikilvægt fyrir söguþráð myndarinnar. Hann fer að upplifa skrýtna hluti í kringum fjölskylduna þegar líður á heimsóknina, þar sem móðir kærustunnar hans notast t.d. við dáleiðslu til að handleika með hugsanir annarra. Áttar þá Chris sig á að ekki er allt með felldu og að fjölskyldan hafi einhver leyndarmál að geyma. Chris fer að finna fyrir miklu vantrausti við alla á staðnum og finnur enga undankomuleið, en þarf því Chris að beita alls konar brögðum til þess að sleppa út og vonandi lifa af.
9. Sálfræði myndarinnar:
Kvikmyndin fer inn á mörg svið sálfræðinnar sem hægt verður að rýna í, en koma fjögur sjónarhorn sálfræðinnar í huga. Það fyrsta sem verður athyglisvert að skoða er móðirin (Missy Armitage) í fjölskyldunni sem dáleiðir aðalpersónuna (Chris), en mætti því líkja henni við sálfræðing í myndinni og Chris sem meðferðaraðila. Annað sem verður athyglisvert að skoða er nálgun myndarinnar á taugasálfræði, þar sem faðirinn í fjölskyldunni (Dean Armitage) starfar sem taugaskurðlæknir og beitir sérstökum aðferðum sem þykja ómannúðlegar, svo ekki sé nú meira sagt. Þriðja sem verður athyglisvert að skoða er rasismi gegn svörtum Bandaríkjamönnum, þar sem nálgunin á honum í myndinni er fremur óljós og innbyggður í haus fólks á mjög sérkennilegan hátt. Fjórða sem verður athyglisvert að skoða er tengsl heila, sálar og líkama við fólk sem að fer inn í líkama annarra aðila, en er það mögulega það óljósasata í myndinni og því verðugt að skoða með mikilli dýpt.
10. seinni skil - Fimm spurningar:
1. Hvernig hefur dáleiðsla móðurinnar áhrif á sálræna þætti meðferðaraðila? Getur dáleiðsla verið svona áhrifarík í raunveruleikanum líkt og hjá henni?
Þegar aðalpersónan Chris er dáleidd í myndinni, þá er notast við hljóð teskeiðar að hringlast eða skella í tebolla til þess að fanga athygli hans. Eftir að hafa fangað athygli hans þá er hann látinn endurupplifa daginn þegar móðir hans dó, sem hann telur sig bera ábyrgð á, en sýnir það að móðirin reynir að finna veikan hlekk í fortíð meðferðaraðila til þess að gera þá næmari fyrir dáleiðslunni. Við það að endurupplifa dánardag móður sinnar verður Chris berskjaldaður fyrir dáleiðslunni móðurinnar, en leiðir það til þess að hann verður gjörsamlega lamaður og því getur hann ekki hreyft sig. Chris „fellur“ þá inn í stað sem kallast the sunken place, sem er endalaust tómarúm þar sem Chris verður ákveðinn farþegi í eigin líkama. Hann verður í raun fastur í sínum eigin huga og getur aðeins horft á það sem er að gerast fyrir utan án þess að hreyfa sig né tjá sig og gerir hann viðkvæmari og næmari fyrir áreitum í umhverfinu.
Dáleiðsla í raunveruleikanum er ekki jafn áhrifarík og myndin sýnir fram á. Í myndinni er Chris dáleiddur gegn sínum eigin vilja, en er það ekki raunverulegt þar sem fólk þarf að vera tilbúið að dáleiðast skyldi dáleiðsla eiga að virka. Öll myndin byggist á því að taka yfir líkama Chris en það er í raun heppni að Chris hafi verið sefnæmur því í alvörunni þá eru aðeins 5-10% af fólki í heiminum sem getur verið dáleitt auðveldlega (Sloat, 2017). Burt séð frá því, þá væri hægt að færa rök fyrir að dáleiðslan í myndinni sé dæmi um hagnýtingu á sálfræði, þar sem Armitage fjölskyldan notar þekkingu sína á sálfræði og lífeðlisfræði til þess að færa meðvitund á milli líkama. Dáleiðsluaðferðir mömmunar minna líka svolítið á hugmyndir James Braid, sem var fyrstur manna til að uppgötva það að fólk gæti orðið dáleitt með því að horfa á hlut beint fyrir ofan sjónlínu þeirra (Kafli 12). Chris gera það þegar hann horfir á bollann og teskeiðina hringlast í honum.
2. Hvaða sálfræðilegu breytingar verður hjá aðalpersónunni þegar hún kemur inn í umhverfi Armitage fjölskyldunnar?
Þegar Chris mætir til tengdarfjölskyldu sinnar byrjar hann strax að finna fyrir einhverri óþægindartilfinningu. Chris er svartur á hörund og sér að vinnufólk fjölskyldunnar er það líka, en því byrjar honum að líða eins og það sé ekki allt eins og það á að vera og að fjölskyldan sé mögulega að leyna honum einhverju. Chris fer eitt kvöldið út að reykja en þá rekst hann einmitt á tengdamömmu sína sem segjist geta fengið hann til þess að hætta að reykja með dáleiðslu. Chris vill það ekki en tengdamamma hans framkvæmir dáleiðsluna engu að síður, sem leiðir til þess að Chris vaknar morguninn eftir og líður eins og hann hafi bara verið að dreyma, þó með daufa minningu um að eitthvað skrýtið hafi gerst um nóttina. Eftir dáleiðsluna er Chris mun líklegri til þess að falla aftur í the sunken place og veldur það auðvitað miklum áhyggjum fyrir hann þar sem hann hafði rifjað upp dauða móður sinnar á meðan henni stóð, sem er mjög viðkvæm minning og gerir hann veikburða að einhverju leyti. Chris byrjar því að finna fyrir ákveðnu hjálparleysi og hefur miklar efasemdir í garð tengdafjölskyldu sinnar, en heldur þó engu að síður að kærastan hans sé til staðar og að hann sé ekki einn á báti vegna hennar.
Þær sálfræðilegu breytingar sem verða á Chris eftir þessa afdrifaríku nótt eru að Chris verður óöruggur í umhverfi sínu. Hann á erfitt með traust og fer í raun að efast um í kringum sig, en mætti því líkja hugsunarhætti hans við efahyggju Descartes (Kafli 2). Ef eitt leiðir af öðru má álykta að Chris byrji að ofhugsa hluti, sem er einmitt markmið fjölskyldunnar, þar sem ofhugsunin getur valdið kvíða og því enn meira óöryggi. Því óöruggari sem hann verður, því næmari verður hann fyrir næstu dáleiðslu skyldi hún einhvern tímann eiga sér stað, sem leiðir einmitt til þess að móðirin nær valdi yfir honum og því mun það reynast Chris mjög erfitt að losna undan klóm hennar.
3. Á hvaða hátt spilar taugasálfræði og taugafræðilegar aðferðir föðursins inn í myndina? Hvað hefur það að gera með sjálfsmynd (e. identity) þeirra sem fara undir hnífinn hjá honum?
Taugasálfræðin kemur fram í myndinni þegar verið er að undirbúa Chris fyrir heilaígræðslu, þar sem færa á heila/meðvitund hins gamla og blinda Hudsons yfir í líkama Chris. Vísindin á bakvið heilaígræðsluna eru ekki fullkomin, nánast ómöguleg ef eitthvað er, en þarf fyrst að dáleiða fórnarlambið svo að hún geti verið framkvæmd. Eftir að dáleiðslan hefur verið gerð þá getur aðgerðin fyrst byrjað, þar sem heilinn hjá fórnarlambinu er skorinn úr en passað er upp á að skilja eftir hluta af honum svo að viðkomandi láti ekki lífið. Þó það sé aldrei sagt þá er það líklegast heilastofninn sem er skilinn eftir til að viðhalda flóknum tengingum heilans við miðtaugakerfið (Canadian Cancer Society, e.d.), sem skilur takmarkaða meðvitund eftir hjá fórnarlambinu þar sem hann lifir í the sunken place. Með þesssu verður fórnarlambið í raun farþegi í sínum eigin líkama, þar sem maður getur ekki tjáð sig heldur bara fylgst með því sem er að gerast í umhverfi hans, bíðandi eftir því að komast út eða get out. Ljósa-flass virðist vera eina leiðin til að koma fórnarlömbum frá „the sunken place,“ en þannig geta þau náð tímabundinni stjórn yfir líkamanum eins og sjá mátti í myndinni. Engar upplýsingar eru að finna um hvaða ástæður liggja að baki þessu, en það er hægt að álykta að flassið eigi að tákna uppljómun eða það að taugafrumurnar ofvirkist við flassinu líkt og gerist hjá flogaveikum. Þetta býr því til tækifæri fyrir fórnarlamb að komast til meðvitundar og stjórna eigin líkama, þrátt fyrir að heilinn sé ekki til staðar.
Þegar allt er dregið saman, þá hafa taugafræðilegar aðferðir föðursins þau áhrif að heili þess aðila sem græddur er í fórnarlambið stjórni líkama þess, en því hefur líkaminn fengið nýja meðvitund sem verður svo fyrir áhrifum annarar meðvitundar þegar flass úr ljósi kemur til sögunnar.
4. Hvert er viðhorf fjölskyldunnar og fylgimönnum þeirra gegn svörtu fólki í Bandaríkjunum? Hvernig er það viðhorf sérstakt miðað við týpískan rasisma?
Það telst nokkuð augljóst að Armitage fjölskyldan, ásamt þeirra fylgimönnum, líti á svart fólk sem kynstofn sem þau geta nýtt sér, s.s. þræla eða eitthvað því um líkt. Myndin tekur það vel til greina með uppboðssenunni þar sem verið er að bjóða upphæðir í Chris, sem var seldur þeim sem bauð mest. Þetta höfðu þau gert í einhvern tíma og í öllum tilfellum var notast við svart fólk í uppboðunum. Fólkið nýtti sér blökkumennina í þessar mjög svo ljótu aðgerðir sem við höfum fjallað um og er hægt að flokka þessi tilvik sem þrælkun í sinni grófustu mynd.
Að sjálfsögðu er þessi þrælkun dæmi um rasisma og fyrirlitningu en það sem er áhugavert við þennan rasisma er að hann er öðruvísi en margur. Hinn týpíski rasismi í garð svartra er kannski á þann hátt að hvítir telja svarta óæðri sér eða einhver óútskýranleg fyrirlitning á sér stað. Það er einmitt þess konar rasismi sem átti sér stað hér á árum áður og kom t.d. í veg fyrir starfstækifæri blökkumanna í Bandaríkjunum. Þrælkunartímabilið hafði einmitt skapað þann hugsunarhátt meðal hvítra Ameríkana að svartir væru þeim óæðri (A History of Modern Psychology, Kafli 6, bls. 143). Það sem á sér stað í þessari mynd er kannski algerlega andstætt þeirri hugsun um að blökkumenn séu óæðri, þar sem hægt að færa rök fyrir því að ákveðin öfund eigi sér stað. Hvíta fólkið nýtir sér líkama blökkumannanna og hlýtur það að vera vegna yfirburða þeirra, þá sérstaklega erfðafræðilegra. Myndin sýnir því áhugavert viðhorf gegn svörtu fólki sem má þá jafnvel flokka sem öfundsverðan rasisma.
5. Þegar hugur fólks færist yfir í líkama annarra, eins og t.d. hjá ömmunni og afa fjölskyldunnar, hvað stýrir því hvernig fólk hagar sér: sálinn, líkaminn eða heilinn? Er hægt að tengja þessa athyglisverðu pælingu við tvíhyggju Decartes eða eitthvað annað heimspekilegt viðhorf?
Get Out er í heild sinni mjög táknræn og víðtæk kvikmynd þegar hún er sett í sálfræðilegt samhengi, þar sem farið er inn á mörg mismunandi svið sálfræðinnar. Notast er við aðferðir eins og dáleiðslu og heilaígræðslu, en má því færa rök fyrir að myndin leggji sérstaka áherslu á hugfræði (tengt sálfræði) og taugasálfræði (tengt líffræði). Þetta er togstreita af einstöku tagi og ætlum við að gera grein fyrir því hvort þessara sálfræðisviða eigi meira við myndina, og með því, útskýra hvort heilinn, sálin eða líkaminn stjórni hegðun fólks eftir að það er búið að færa hug þeirra yfir í annan líkama.
Til að minna á hvernig hugur fólks færist yfir í annan líkama í myndinni, þá er fyrst framkvæmd dáleiðsla til að koma þeim sem fjarlægja á heilann úr, betur þekktur sem farþeginn, í máttlaust eða sefjandi ástand. Því næst er hægt að koma þeim inn á skurðstofu, þar sem heilinn er fjarlægður þó hluti af honum sé skilinn eftir, og nýjum heila úr leiðtoganum er komið fyrir. Með þessu er gengið út frá því að líkami aðilans sem búið er að græða nýja heilann í sé undir stjórn einhvers annars, en er því hægt að draga þá ályktun að heilinn sé að stjórna hegðun farþegans (Franz Joseph Gall, Kafli 3) fremur en sálin eða líkaminn þar sem það er eina breytingin á manneskjunni sem virðist hafa átt sér stað, þ.e. búið er að skipta um heila. Því er líklegast ekki hægt að segja að hugmyndir Descartes um tvíhyggju eigi við hugmyndafræði myndarinnar (Descartes, Kafli 2), þar sem líkaminn samsvarar stjórnunarkerfi heilans og sál er ekki meginhugtak sem kvikmyndapersónur ræða um. Burt séð frá þessu þá reynist þó óhjákvæmilegt að líta fram hjá einstaka sálrænum hugtökum, eins og t.d. meðvitundinni og sálinni (Sigmund Freud, Kafli 12), enda er þessi heilaígræðsla og afleiðing hennar engan veginn raunveruleg og því hlýtur eitthvað sálrænt einnig að spila inn í hvernig fólk hegðar sér. Þaðan kemur þessi togstreita um hugfræði og taugasálfræði, eða í stóra samhenginu: sálfræði vs. líffræði.
Líffræðin virðist hafa yfirhönd í þessari deilu, en viljum við engu að síður reyna að útskýra hvernig sálin getur haft áhrif á hegðun fólks sem verður fyrir heilaígræðslunni, enda er hlutverk sálfræðingsins að reyna að finna lausnir sem eru óháðar líffræði. Því viljum við fyrst og fremst byrja á að tala um dáleiðslu, en á hún stóran sess í myndinni og er skilgreind sem „sálfræðilegur undirbúningur“ fyrir þá aðila sem fjarlægja á heila úr og setja nýjan í. Þegar heilaígræðslunni er svo lokið, þá virðist dáleiðslan verða að langvarandi ástandi, þar sem það eina sem getur bundið enda á hana er skært ljós eða „flass“ sem stendur í ekki nema nokkrar sekúndur. Eftir það, líkt og talað var um í spurningu 3, þá kemst farþeginn til meðvitundar þar sem litla heilasvæðið af viðkomandi sem skilið var eftir virkjast og nær stjórn yfir líkamanum. Þetta er stór hluti af togstreitunni og mikið deilumál því ef litið er til líffræðinnar, þá er ekki nokkur möguleiki á því að allar minningar, tilfinningar og vitsmunir manneskjunnar séu geymdir í þessum litla heilabút sem skilinn var eftir í líkamanum við ígræðsluna. Því viljum við meina að í því ástandi sem farþeginn kemst til meðvitundar, að þá sé sálin að stjórna hegðun leiðtogans fremur en heilinn. Þessa ályktun drögum við þar sem dáleiðslan af hendi móðurinnar fór inn á sálræna þætti aðalpersónunnar, þ.e. hún bældi sálina niður, en er sálin því ákveðinn kjarni sem verður eftir af manneskjunum þegar þær fara undir hnífinn og af sama skapi ákveðinn bjargvættur úr the sunken place. Því mætti segja að sálin tákni hið sanna eðli manneskja í myndinni, sem að yfirtekur völd heilans þegar brýn þörf er á.
Okkar niðustaða er því sú að hegðun fólks sé breytileg eftir því hver hefur vald yfir líkamanum, þar sem heilinn ræður för þegar farþeginn hefur litla sem enga meðvitund, en sálin ræður för þegar farþeginn kemst til meðvitundar. Því mætti segja að að taugsálfræði eða líffræði eigi meira við hugmyndafræði myndarinnar, á meðan hugfræði eða sálfræðin hefur yfirhöndina í stóra samhenginu og er því meira heilsteypt fyrir vikið.
Heimildaskrá:
Canadian cancer society (e.d). The brain and spinal cord. Sótt af https://cancer.ca/en/cancer-information/cancer-types/brain-and-spinal-cord/what-is-a-brain-or-spinal-cord-tumour/the-brain-and-spinal-cord
Goodwin, J. (2015). A History of Modern Psychology (5. útg.). Wiley.
Sloat, S. (2017). What “Get out” gets wrong and right about hypnotism. Sótt af https://www.inverse.com/article/29531-get-out-hypnosis-spoon