Taxi Driver

NEMENDUR

Daði Ingvason, Davíð Walter Lentz, Sunneva Ýr Sævarsdóttir og Sædís Rut Jónsdóttir.

MYNDEFNI

Taxi Driver.

FLOKKUN MYNDEFNIS

Sálrænt drama (e. psychological drama), glæpamynd (e. crime), spennumynd (e. thriller).

LEIKSTJÓRI, LAND OG ÁR

Martin Scorsese, Bandaríkin, 1976.

LEIKARAR

Robert De Niro sem Travis Bickle.

Cybill Shepherd sem Betsy.

Jodie Foster sem Iris.

STIKLA

https://www.youtube.com/watch?v=T5IligQP7Fo

HVERS VEGNA?

Við völdum Taxi Driver af því að myndin býður upp á djúpa innsýn í geðræna erfiðleika og samfélagslega einangrun einstaklings í áhugaverðu umhverfi. Bæði Travis og umhverfi hans hafa þar að auki sínar góðu og slæmu hliðar og gaf það því færi á því að túlka á margvíslega vegu hegðun hans og þá þætti sem móta hegðun hans. Myndin er einnig vel þekkt og mikið umtöluð.

KYNNING

Taxi Driver er dramatísk kvikmynd sem kom út árið 1976, leikstýrð af Martin Scorsese og skrifuð af Paul Schrader. Með aðalhlutverk fer Robert De Niro sem Travis Bickle, fyrrverandi hermaður sem starfar sem leigubílstjóri í New York. Travis sem þjáist af svefnleysi og mikilli einmanaleikatilfinningu, upplifir heiminn í kringum sig sem spilltan og óhreinan sem ýtir undir vaxandi reiði hjá honum. Í starfi sínu sem leigubílstjóri ók Travis oft fram hjá kosningaskrifstofu Charles Palantine og sér þar í gegnum gluggann Betsy (Cybill Shepherd), fallega og góða konu sem hann verður hugfanginn af. Einn daginn býður henni á kaffihús og svo á stefnumót sem endar með því að hún talar ekki við hann aftur. Eftir að hafa verið hafnað af Betsy ákveður Travis að myrða Hr. Palantine, en það mistekst. Fyrst upphaflega planið gekk ekki upp, þá beinir hann athygli sinni að ungu vændiskonunni Iris (leikin af Jodie Foster). Travis ákveður að bjarga henni úr aðstæðunum sem hún er í og endar það með ósköpum. Travis drepur melludólgana sem voru yfir Iris og ætlar svo að skjóta sig í hausinn, en kúlurnar í byssunni voru búnar. Hann endar í dái eftir þessar aðgerðir og foreldrar Iris fá dóttur sína aftur heim. Það var litið á Travis sem mikla hetju fyrir að bjarga ungu stúlkunni úr viðjum vændisins.

Myndin er þekkt fyrir áhrifamikla frammistöðu De Niro og leikstjórn Scorsese og var tilnefnd til ótal verðlauna og hlaut meðal annars Gullpálmann á kvikmyndahátíðinni í Cannes árið 1976. Á Rotten Tomato fær myndin 93% í popcornmeter sem lýsir áhorfendaskori og á IMDb fær myndin 8,2 stig af 10 og er í sæti 127 af bestu myndum allra tíma. Það má því segja sem svo að Taxi Driver standist tímans tönn.

FJÓRAR SÁLFRÆÐILEGAR SPURNINGAR

SVAR VIÐ SPURNINGU 1 OG 2

1. Hver er boðskapur myndarinnar?

Taxi Driver sýnir hvernig umhverfi og samfélagsleg einangrun geta spilað saman í að ýta undir aftengingu og geðræn vandamál einstaklinga. Hugmyndir Travis einkennast að miklu leyti af fordómum, kvenfyrirlitningu og ýktri karlmennsku. Hugmyndir sem eru öfgakenndar, en voru víða samfélagslega samþykktar á þeim tíma sem myndin átti sér stað og ásamt hans geðrænu kvillum leiða hann út í enn meiri einangrun og öfgakennda hegðun. Andlegri niðurníðslu Travis og ofbeldinu sem hann beitir er síðar fagnað af samfélaginu í lok myndarinnar þegar hann bjargar Iris. Einna helst sýnir myndin skaðleg áhrif einangrunar og mikilvægi þess að fá aðstoð við að takast á við geðræna erfiðleika, en hún sýnir einnig hlutverk umhverfis í að móta og viðhalda þáttum sem stuðla að geðrænum erfiðleikum.

2. Hvað einkennir umhverfi Travis?

Myndin gerist í New York á áttunda áratug síðustu aldar, tíma hárrar glæpatíðni, fjárhagslegs óstöðugleika og félagslegra átaka. Borgin er full af reykfylltum veitingastöðum, iðandi götum, blikkandi neonskiltum og niðurníddum byggingum. Samfélagið er að takast á við afleiðingar þjóðfélagslegra áfalla og menningarlegra breytinga. Þetta er tímabil nýrra hugmynda um frelsi og réttindi en einnig tíma þar sem siðferðisleg vandamál eins og glæpir og ójöfnuður eru víða sýnileg.

SVAR VIÐ SPURNINGU 3 OG 4

3. Hvaða vísbendingar benda til þess að Travis Bickle sé með geðræn vandamál og hver gætu sú vandamál verið?

Þegar líður á myndina verður ljóst að hjá Travis leynast djúp geðræn vandamál sem hafa mótandi áhrif á hegðun hans og viðhorf. Hér skoðum við tvær geðraskanir sem við teljum líklegar til að einkenna Travis: áfallastreituröskun og geðklofalík persónuleikaröskun.

Mikilvægur atburður í lífi Travis er þegar Betsy neitar honum eftir að hann bauð henni á klámmynd á öðru stefnumóti. Þetta ýtir honum úr jafnvægi og veldur því að lífsleið hans tekur krappa beygju í slæma átt. Í stað þess að líta inn á við beinist reiði hans að konum almennt og stöðu samfélagsins. Reiði hans þróast í fantasíur um að verða einhvers konar hetja sem tekur málin í eigin hendur. Svefnleysi og félagsleg einangrun hafa mótandi áhrif á geðheilsu hans og þessi einkenni benda sterklega til áfallastreituröskunar.

Áfallastreituröskun

Við fáum að vita í upphafi að Travis er uppgjafahermaður og að hann glímir við langvarandi svefnleysi sem er algengt einkenni áfallastreituröskunar. Svefnleysið veldur honum áberandi vanlíðan og flækir fyrir allri greiningu geðraskana því erfitt er að draga ályktun um hvar afköst svefnleysisins enda.

Við sjáum að Travis einangrar sig félagslega og tekur ekki mikinn þátt í eðlilegum samskiptum. Hann sýnir viðvarandi og ýktar neikvæðar tilfinningar gagnvart heiminum. Hann sér heiminn sem spilltan og hættulegan stað. Þar að auki sýnir hann mikinn pirring og tekur til dæmis mjög óviðeigandi reiðikast þegar hann hraunar yfir Betsy í kjölfar þess að hún hafnar honum. Einnig sjáum við reiði hans í því hvernig hann talar um að „hreinsa“ borgina. Ofurárvekni er einnig áberandi hjá honum; hann er stöðugt á varðbergi fyrir því sem hann lítur á sem ógn eða hættu í kringum sig. Hann fylgist vel með umhverfi sínu og er mjög upptekinn af því. Hegðun hans er í samræmi við mörg viðmið DSM-5 á áfallastreituröskun. Þó getum við ekki fullyrt að hann uppfylli skilyrði einkennaflokks A á áfallastreituröskun samkvæmt DSM-5. Flokkur A snýr að því hvort viðkomandi hafi upplifað áfall og við fáum ekki að vita hvort hann upplifði áfall í hernum. Þar af leiðandi getum við ekki heldur ákvarðað hvort að hann uppfylli nein skilyrði í einkennaflokkum B eða C í DSM-5. Ef við lítum fram hjá því uppfyllir hann skilyrði fjögurra af átta einkennaflokkum áfallastreituröskunar (D, E, F og G). Þar á móti ef við gerum ráð fyrir að hann hafi upplifað áfall í stríðinu mætti túlka sem svo að hann uppfylli skilyrði sjö af átta flokkum. Flokkurinn sem við getum engan veginn fullyrt um að hann uppfylli er flokkur H: að „truflunin sé ekki bein lífeðlisleg afleiðing af lyfjum né annarri læknisfræðilegri ástæðu.“ Með allt þetta í huga er möguleiki að Travis sé að þjást af áfallastreituröskun en við getum ekki fullyrt um það. Í leit að betri útskýringu fundum við aðra geðröskun sem krefst töluvert minni túlkunar af hálfu okkar til að meta.

Geðklofalík Persónuleikaröskun

Vandamál sem kemur upp við þessa greiningu er að vafasamt er að álykta um geðvandamál þegar svefnvandamál eru til staðar því afköst svefnleysis flækjast inn í allt. Við höfum það í huga á meðan við skoðum möguleikann á geðklofalíkri persónuleikaröskun.

Þessi persónuleikaröskun er skilgreind í DSM-5 sem „Langvarandi mynstur af félagslegum og samskiptalegum skorti, sem markast af því að viðkomandi líður mjög illa í nánum samskiptum, ásamt minnkandi félagslegum hæfileikum. Hugrænar og skynrænar truflanir og sérkenni í hegðun, sem hefjast snemma á fullorðinsárum og viðhaldast á ólíkum sviðum, eins og meta má frá 5 (eða fleiri) af eftirfarandi:“

1. „Óeðlileg túlkun af hversdagslegum atburðum (þó án ranghugmynda).“

2. „Einkennilegar skoðanir eða galdrahugsun sem hefur áhrif á hegðun og er ekki í samræmi við viðmið menningar.“

3. „Óvenjuleg skynreynsla, þar á meðal líkamlegar skynvillur.“

4. „Einkennileg hugsun og tal (t.d. óskýr, fer í kringum efnið, táknrænn, smámunasemi eða fastmótað).“

5. „Sífelldar grunsemdir og aðsóknar (ofsóknar-) kenndar hugsanir.“

6. „Óviðeigandi eða takmarkaðar tilfinningar.“

7. „Hegðun og útlit sem er sérkennilegt, sérviskulegt eða furðulegt.“

8. „Skortur á nánum vinum eða trúnaðarvinum öðrum en blóðtengdum í fyrsta lið.“

9. „Mikil félagsleg fælni sem minnkar ekki við kunningsskap og hefur tilhneigingu til að tengjast aðsóknarhræðslu, frekar en neikvæðu mati á sjálfum sér.“

Travis sýnir merki um óeðlilega túlkun á hversdagslegum atburðum (DSM-5 atriði 1). Þetta sést þegar hann reynir við stúlkuna í afgreiðslunni í klámmyndahúsinu. Annað dæmi um þetta er hvernig hann bregst við höfnuninni frá Betsy. Hann túlkar það sem svo að allar konur séu eins í stað þess að líta inn á við og skoða hvað hann gerði mögulega rangt.

Travis hefur einkennilega hugsun og talsmáta (DSM-5, atriði 4). Við sjáum fyrst einkennilega talsmáta hans þegar hann hittir Betsy á kaffihúsinu og hvernig hann talar um tengingu þeirra í samanburði við tengingu Betsy við vinnufélaga sinn. Hann sýnir einnig óviðeigandi eða takmarkaðar tilfinningar (DSM-5, atriði 6). Þetta kemur fram í hvernig hann bregst við höfnun Betsy með einfaldri reiði. Hegðun hans er mjög sérkennileg í gegnum myndina og útlit hans verður sérkennilegra eftir því sem líður á myndina (DSM-5, atriði 7). Í lífi Travis er áberandi skortur á nánum samböndum og mætti segja að hann sé einstaklega einangraður (DSM-5, atriði 8). Með allt þetta og DSM-5 viðmiðin í huga þá teljum við hann sýna hegðun sem er í miklu samræmi við geðklofalíka persónuleikaröskun. Samkvæmt DSM-5 er viðkomandi með röskunina ef hann uppfyllir fimm skilyrði af níu. Að okkar mati uppfyllir hann að minnsta kosti fimm skilyrði (skilyrðin sem Travis uppfyllir eru 1, 4, 6, 7 og 8).

Travis er flókin persóna sem glímir við mikla innri baráttu sem veldur honum vanlíðan í gegnum myndina. Áfallastreituröskun og geðklofalík persónuleikaröskun eru báðar mögulegar skýringar á hegðun hans og atburðum myndarinnar. Forsendur áfallastreituröskunar krefjast þess að við gerum ráð fyrir áfalli sem er óstaðfest í myndinni og orsakasambandi áfallsins við hegðun hans. Þar á móti þurfum við ekki að lesa jafn mikið inn í túlkunaratriði til þess að greina hann með geðklofalíka persónuleikaröskun. Því er okkar niðurstaða að líklegri útskýringin sé sú sem krefst færri ályktana, að Travis glími við geðklofalíka persónuleikaröskun ásamt svefnvandamálum.

4. Hvað veldur því að Travis beitir ofbeldi?

Ljóst er að lífsstíllinn sem Travis viðheldur eykur enn á einangrun hans og tilfinningu um félagslega höfnun. Hann þjáist af svefnleysi og ekur á næturnar leigubíl um myrkar götur New York sem eru fullar af glæpum og volæði. Hann hefur því fyrsta flokks sjónarhorn af fátæklegu ástandi borgarinnar og telur hana vera í siðferðislegri hnignun. Að horfa daglega upp á fátækt og glæpi styrkir óbeit hans á umhverfinu. Þessi lífsstíll Travis er ekki ábætandi fyrir þegar viðkvæmt andlegt ástand hans en ýtir heldur undir geðvandamálin sem hann glímir við.

Þegar Travis kynnist Betsy líður honum eins og hann hafi fundið eitthvað gott og hreint til að fylla upp í tómarúmið í lífi sínu. Hann verður hugfanginn af henni og fer að sjá hana sem leiðina að „eðlilegu“ lífi. Þegar Betsy síðan hafnar honum eftir misheppnað stefnumót, vex reiði Travis og vanmáttarkennd. Í stað þess að endurskoða hegðun sína kennir hann umheiminum um eigin óhamingju og höfnunartilfinningu.

Travis virðist vera ófær um að líta inn á við og gerir sér ekki grein fyrir rótum vandamála sinna eða af hverju honum líður svona illa. Þess í stað upplifir hann sig sem útskúfaðan einstakling í spilltu samfélagi sem hefur ekki pláss fyrir hann og þessi tilfinning eflir þörf hans til að „hreinsa“ umhverfi sitt. Eftir höfnun Betsy fjarlægist Travis raunveruleikann enn frekar og ranghugmyndir hans eflast. Hann verður heltekinn af þeirri trú að hann þurfi að láta til skarar skríða gegn þeim sem hann telur bera ábyrgð á hnignuninni í samfélaginu. Hann beinir því reiði sinni að Palantine, sem hann sér sem holdgerving hins spillta valdakerfis sem hefur útskúfað og hafnað honum.

Hugsanir Travis verða sífellt dekkri og ofbeldisfyllri og í dagbókarfærslum sínum lýsir hann fyrirlitningu sinni á „úrhrökum“ (e. scum) borgarinnar og lítur á sjálfan sig sem eins konar varðmann sem þarf að bjarga borginni. Tilgangsleysið sem hafði einkennt tilveru hans hverfur þegar hann tekur að sér þetta nýja hlutverk og hann verður manískur í framgöngu sinni.

Fantasían eflist enn frekar þegar hann kynnist Iris sem hann sér sem táknmynd fórnarlambs þeirrar illsku og spillingar sem hann telur sig þurfa að berjast gegn. Ranghugmyndir hans fá nú nýjan farveg í hlutverki bjargvættar ungu stúlkunnar.

Á endanum verður ákvörðun Travis um að beita ofbeldi afleiðing af áralangri einangrun, höfnun og óleystum áföllum. Höfnun Betsy hefur ýtt honum yfir strikið eftir langan aðdraganda. Þar sem Travis er ófær um að horfa inn á við og takast á við eigin vandamál missir hann tökin á raunveruleikanum og leitar að utanaðkomandi orsökum vanmáttar síns og sálarkvala. Í þeirri afmynduðu sjálfsmynd sem hann byggir upp setur Travis sig í hlutverk bjargvættar þess sem hann álítur hreint og gott. Í gegnum þessa fantasíu réttlætir hann ofbeldishegðun sína gagnvart þeim sem hann telur standa í vegi fyrir sér og möguleikanum á „eðlilegu“ lífi.

Spurningin sem við viljum svara er: Hvað veldur því að Travis beitir ofbeldi?

Til að byrja með kemur Travis úr stríðsaðstæðum þar sem að dráp og ofbeldi viðgangast sem eðlilegir hlutir. Þau andlegu sár sem hann ber þaðan tekur hann síðan með sér inn í lífstíl sem viðheldur svartsýni hans á heiminum. Sem leigubílstjóri á næturnar í New York verður hann vitni að fátækt, glæpum og óreiðu sem trufla hann verulega.  Meðal annars fær hann inn í bílinn til sín mann (leikinn af leikstjóranum Martin Scorsese!) sem lýsir því hvernig hann ætlar að myrða konu sína fyrir það að halda framhjá honum. Travis gaf ekkert svar við því sem hann sagði, en hann lítur meira áhugasamur en hneykslaður út yfir yfirlýsingu mannsins. Það er mögulegt að á þessum tímapunkti hafi Travis verið orðin nægilega ónæmur og aftengdur til þess að íhuga það alvarlega að beita ofbeldi sjálfur.

Áður en sú sena á sér stað var Travis einnig hafnað af konunni sem hann varð hugfanginn af, sem hefur af öllum líkindum ýtt undir aftengingu og reiði Travis. Eftir senuna fer hann svo og reynir að tala við kunningja sinn um ranghugmyndir sínar.