Flight

Nemendur

Annika Magnúsdóttir Waage, Eydís Birta Aðalsteinsdóttir, Hilma Bóel Bergsdóttir og Klara Sjöfn Gísladóttir.

Nafn

Flight.

Flokkun

Drama, trillir, ráðgáta.

Leikstjóri

Robert Zemeckis, Bandaríkin, 2012.

Helstu leikarar

Denzel Washingtonn sem Whip.

Kelly Reilly sem Nicole.

John Goodman sem Harling May.

Stikla

https://www.youtube.com/watch?v=Aqn2L6kQQt8&t=24s

Hvers vegna?

Eftir að hafa skoðað nokkrar myndir af listanum og íhugað efni þeirra, fangaði Flight áhuga okkar. Myndin virtist vera bæði áhugaverð og vakti upp spurningar sem við töldum mikilvægt að kanna nánar, þannig að við ákváðum að velja hana fyrir verkefnið.

Söguþráður

Flight (2012) er spennu- og dramamynd með Denzel Washington í aðalhlutverki sem flugstjórinn William "Whip" Whitaker. Myndin fjallar um hvernig Whitaker tekst að lenda farþegaflugvél á áhrifaríkan hátt eftir bilun í vélinni, en fljótlega kemur í ljós að hann var undir áhrifum áfengis og fíkniefna á meðan hann stjórnaði vélinni. Myndin rannsakar samspil hetjudáða hans við persónulega bresti hans og lögfræðilegar og siðferðilegar afleiðingar verknaðar hans. Myndin beinir kastljósinu að baráttu Whitakers við fíkn og leit hans að sátt og ábyrgð.

Fjórar sálfræðilegar spurningar

Styttri svör

1. Hvernig lýsir fíknin sér hjá Whip í myndinni?

Fíkn Whip lýsir sér sem stöðugri þörf fyrir áfengi og fíkniefni, sem hann notar til að ráða við kvíða, streitu og álag sitt. Hann byrjar daginn á því að neyta áfengis og nær yfirleitt ekki að stjórna neyslu sinni, þrátt fyrir alvarleika starfs síns sem flugstjóri. Það er augljóst að fíkn hans hefur lengi haft áhrif á bæði persónulegt líf hans og starfsferil.

2. Hver eru viðbrögð hans við því að takast á við afleiðingar eigin hegðunar?

Í byrjun myndarinnar neitar Whip að viðurkenna alvarleika fíknar sinnar og beitir afneitun til að forðast ábyrgð. Hann reynir að réttlæta hegðun sína með því að fagna hetjudáðinni að hafa bjargað fjölda mannslífa, en smám saman verður hann þvingaður til að horfast í augu við fíkn sína þegar lögfræðilegar og félagslegar afleiðingar hans verða óumflýjanlegar.

Lengri svör

3. Hvernig getur barátta Whip við fíkn tengst hugmyndum sálfræðinnar um ábyrgð og siðferðilega ákvörðunartöku?

Sálfræðilega séð snýst saga Whip um átök milli ábyrgðar og fíknar. Fíkn hans kemur í veg fyrir skýra hugsun og dregur úr hæfni hans til að taka siðferðilega réttar ákvarðanir. Whip upplifði mikla hetjudáð (e. heroic act) eftir atburðinn, þar sem hann bjargaði mannslífum með hæfileikum sínum sem flugstjóri. Við teljum það vera ein helstu ástæðuna fyrir því að Whip átti mjög erfitt með að taka ábyrgð á gjörðum sínum. Hann taldi sig trú um að þar sem hann bjargaði svona mörgum mannslífum og að í raun engin hefði getað lent vélinni jafn vel og hann sjálfur, væri engin ástæða til að taka ábyrgð á þeirri hegðun að hafa stýrt vélinn undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Whip á einnig erfitt með að trúa því að ákvarðanataka hans um að lenda flugvélinni og árangurinn hafi verið lituð af því að hann var undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Hann upplifði sjálfur að hann væri hetja og að hann væri með þeim betri flugmönnum landsins, en ekki að hann hafi verið að fremja glæp, en það er áframhaldandi fíkn hans í myndinni sem kemur í veg fyrir að hann axlar ábyrgð.

Samkvæmt sálfræðilegum kenningum um ábyrgð, sem byggja á hugmyndum um frjálsan vilja og siðferðilegar skyldur (e. moral obligations), væri hægt að líta á Whip sem einstakling sem er fastur í hringrás afneitunar og ekki viljugur til að viðurkenna ábyrgð. Þetta tengist líka kenningum um siðferðilega réttlætingu (e. moral justification) þar sem einstaklingur réttlætir siðlausa hegðun sína með því að leggja meiri áherslu á jákvæðu afleiðingarnar heldur en skaða af siðlausum verkum.

Samt sem áður er þetta saga um endurlausn (e. redemption) þar sem Whip að lokum viðurkennir ábyrgð sína og horfist í augu við afleiðingar fíknarinnar, sem er lykilatriði í sálfræðilegum bataferlum eins og í hugrænni atferlismeðferð og 12 spora kerfinu. Fyrsta skrefið í þessum meðferðum er að viðurkenna vandamál sitt og taka ábyrgð á eigin hegðun. Það tók Whip langan tíma að viðurkenna vandamál sitt, og það sem þurfti til var að vinkona hans, sem starfaði sem flugfreyja í fluginu og lét lífið, var ásökuð um að hafa neytt áfengis og fíkniefna um borð í vélinni.

4. Hvaða áhrif hefur samband Whip við aðra (t.d. Nicole og Harling May) á bataferli hans, og hvernig gæti þetta samband endurspeglað kenningar um félagslegt stuðningskerfi og hlutverk þess í meðferð fíknar?

Samband Whip við Nicole og Harling May hefur veruleg áhrif á bataferli hans í myndinni Flight. Nicole, sem einnig glímir við eigin fíknivanda, tengist Whip vegna sameiginlegrar reynslu þeirra af fíkn. Í fyrstu reynir Nicole að vera stuðningsrík og hvetur Whip til að leita sér hjálpar. Hún hvetur hann til að koma með sér á AA fundi, en þegar kemur að því að hlusta á anað fólk deila reynslu sinni virðist sem Whip eigi erfitt með að heyra það og flýr hann aðstæður. Þegar Whip neitar þar með að taka ábyrgð á hegðun sinni og viðhalda edrúmennsku (e. sobriety), fjarlægist Nicole hann. Í lok myndarinnar má þó sjá aðeins frá tíma Whip í fangelsi og er þá sýnt frá því hversu mikill stuðningur Nicole var fyrir hann eftir að hann hætti að neyta áfengis og fíkniefna.

Harling May á hinn bóginn, er vinur Whip sem virðist styðja hann, en í raun styður hann áframhaldandi fíkn hans með því að bjóða honum áfengi. Þessi neikvæði stuðningur hindrar Whip við að horfast í augu við vandamál sín og viðhalda edrúmennsku (e. sobriety). Harling May er einnig alltaf með fíknuefni á sér sem eru Whip tilbúin til notkunar, en í myndinni má sjá hversu slæm áhrif það hefur á edrúmennsku hans (e. sobriety).

Sálfræðilegar kenningar um stuðningsnet leggja áherslu á mikilvægi félagslegs stuðnings við endurhæfingu (e. rehabilitation). Félagslegur stuðningur hjálpar einstaklingum að takast á við erfiðleika, hann veitir tilfinningalegan stuðning, en einnig eykur hann sjálfstraust og viljann til þess að breyta hegðun (Moos & Moos, 2007). Á hinn bóginn getur skortur á heilbrigðum stuðningi, eða neikvæð áhrif frá fólki í kringum einstakling, valdið frekari vanlíðan og hindrað árangur í bataferli (Beattie & Longabaugh, 1999). Þetta sjáum við í sambandi Whip við bæði Nicole og Harling May – þar sem Nicole reynir að veita jákvæðan stuðning en fjarlægist Whip þegar hann tekur ekki ábyrgð, á meðan Harling May veitir honum neikvæðan stuðning og hindrar bataferlið hans. Að lokum er það skortur á stuðningi og einangrun sem neyðir Whip til að horfast í augu við sjálfan sig og viðurkenna ábyrgð sína.

Heimildir

  1. Beattie, M. C., & Longabaugh, R. (1999). General and alcohol-specific social support following treatment. Addictive Behaviors, 24(5), 593-606.                        https://doi.org/10.1016/S0306-4603(98)00120-8

  2. IMDb. (e.d.) Flight. Sótt frá:  https://www.imdb.com/title/tt1907668/

  3. Moos, R. H., & Moos, B. S. (2007). Protective resources and long-term recovery from alcohol use disorders. Drug and Alcohol Dependence, 86(1), 46-54. https://doi.org/10.1016/j.drugalcdep.2006.04.015