NEMENDUR
Álfheiður Una Ólafsdóttir, Marta Bríet Aðalsteinsdóttir, Ólafur Halldórsson og Þórdís Ósk Stefánsdóttir.
NAFN
FLOKKUR
Spenna, mystería og hryllingur.
LEIKSTJÓRI, LAND OG ÁR
Alejandro Amenábar, Spánn, 2015.
HELSTU LEIKARAR
STIKLA
https://www.youtube.com/watch?v=-pBwIsVGaL4&ab_channel=RottenTomatoesTrailers
HVERS VEGNA ÞESSI MYND?
Við ákváðum að velja þessa mynd vegna þess að hún snertir á sálfræðilegum viðfangsefnum, svo sem dáleiðslu og fölskum minningum, sem og hvernig þær geta haft áhrif á meinta brotaþola og málsmeðferð þeirra. Ein í hópnum kom með hugmyndina eftir að vinkona hennar mælti með henni sem góðri sálfræðilegri mynd, þrátt fyrir að hún hafi fengið lága dóma. Allir í hópnum voru spenntir fyrir að sjá myndina þar sem áhugasvið okkar allra liggur á þessu sviði og engin okkar hafði séð hana. Einnig voru góðir leikarar í myndinni eins og Emma Watson sem er vel þekkt úr Harry Potter stór myndunum. Auk þess fannst okkur mjög áhugavert að myndin sé lauslega byggð af sannsögulegum atburðum. Myndin er afar áhrifarík og vekur upp margar tilfinningar á meðan horft er á hana.
SÖGUÞRÁÐUR
Myndin segir frá rannsóknarlögreglumanninum Bruce þar sem hann rannsakar óhugnanlegt mál tengt 17 ára Angelu, en hún hafði sakað föður sinn, John, um að hafa beitt hana kynferðislegu ofbeldi. John, hins vegar, man ekki eftir atburðinum en trúir því að dóttir hans myndi aldrei ljúga og játar því glæpnum. Með aðstoð sálfræðingsins Kenneth, er framkvæmd aðhvarfsmeðferð (e. regression therapy) á John til að ná upp fleiri upplýsingum um atburðinn. Í meðferðinni er John dáleiddur og koma þá upp bældar minningar sem gefur til kynna að meint nauðgun dóttur hans hafi verið satanískur helgisiður. Þetta bendir til þess að leynilegur sértrúarsöfnuður djöfladýrkenda hafi verið starfandi í bænum sem gerir rannsóknina enn flóknari. Eftir langa og erfiða rannsókn og fleiri aðhvarfsmeðferðir kemur í ljós að saga Angelu var tilbúningur og bældu minningarnar sem studdu við söguna voru í raun falskar.
FJÓRAR SÁLFRÆÐILEGAR SPURNINGAR
Tvær styttri spurningar
1.Greining á Angelu, mögulegir geðsjúkdómar og vondar heimilisaðstæður.
Hægt er að greina hvort Angela hafi mögulega verið með geðsjúkdóma eins og áfallastreituröskun eða PTSD sem tengist oftast áföllum og erfiðum aðstæðum, líkt og þær sem hún upplifði í sinni æsku. Hún bjó við heimilisaðstæður þar sem faðir hennar og amma áttu við mikinn áfengisvanda að glíma auk þess sem hún missti móður sína úr mögulegu sjálfsvígi við ungan aldur.
Mikilvægt er að taka það fram að saga Angelu um nauðgunina og sértrúarsöfnuðinn var tilbúningur og þarf að taka það inn í greiningarferlið. Þessi tilbúningur gæti bent til þess að Angelina hafi verið með einhverskonar persónuleikaröskun, svo sem sjálfsdýrkandi persónuleikaröskun (e. narcissistic personality disorder) en einstaklingar sem þjást af því eiga það til að ljúga til að gera sig sjálfa merkilegri og mikilvægari en þeir eru. Hún gæti einnig verið með jaðarpersónuleikaröskun (e. borderline personality disorder), en einstaklingar sem glíma við það eiga það til að framkvæma hvatvísa hegðun, eins og að búa til þetta stóra lygi af ótta við að vera yfirgefinn eða til að öðlast og viðhalda athygli. Auk þess mætti nefna Munchausen heilkenni/röskun, sem felur í sér að ljúga til um veikindi eða áföll, oft til að fá samúð eða umönnun. Fólk með þennan geðsjúkdóm fer svo langt að búa til heilan heim í kringum lygasöguna þeirra til að sannfæra fólk enn frekar. Við erum sammála að Angela hafi líklegast verið með Munchausen heilkenni, jafnvel þróað það með sér eftir áföllin í æsku, og þess vegna hafi hún búið til lygina um nauðgunina og ýtt undir það með því að bæta við sértrúarsöfnuðinum.
2. Hvers vegna voru allir svo auðtrúa um að djöfladýrkendur væru viðriðnir máli Angelu þrátt fyrir engar sannanir fyrir því?
Í myndinni urðu sögupersónurnar afar auðtrúa á að djöfladýrkendur væru tengdir máli Angelu vegna tíðarandans í Bandaríkjunum á níunda og tíunda áratug síðustu aldar. Þá gekk sá orðrómur að djöfladýrkandi sértrúarsöfnuðir væru á hverju strái og væru ástæða alls þess sem aflaga fór. Sú hræðsla, eða fyrirbæri, betur þekkt sem ,,Satanic panic,” skapaði ákveðið andrúmsloft þar sem órökstuddar ásakanir voru ítrekað teknar upp sem sönnunargögn. Myndin á að gerast 1990 og því ekki furða hve fljótt sögupersónurnar voru sannfærðar um aðild djöfladýrkenda í málinu. Yfirlýsing Angelu um að faðir hennar og amma væru meðlimir í sértrúarsöfnuði var ekki dregin í efa, jafnvel þótt vísbendingar bentu annað og engin haldbær sönnunargögn til staðar.
Tvær lengri spurningar
3. Er hægt að beita freudísku sjónarhorni á atburði myndarinnar?
Hægt er að skoða atburði myndarinnar í ljósi freudískrar sálfræði, sem leggur meðal annars áherslu á bælingu, áföll í bernsku og Ödipusarduld. Angela sagði frá því að faðir hennar hafi beitt hana kynferðislegu ofbeldi en síðar kom í ljós að það reyndist ekki rétt. Freud vildi meina að börn ættu það til að ljúga um ofbeldi af höndum foreldra sinna vegna ómeðvitaðra tilfinninga, oft kynferðislegra.
Eitt af þekktum hugtökum Freuds er bæling, en hann taldi að einstaklingar gætu bælt sársaukafullar tilfinnigar eða minningar og þá sérstaklega tengt kynferðislegum hvötum eða áföllum. Þær gætu síðan komið upp seinna á óbeinan hátt sem falskar minningar (Sigmund Freud, 1900/1997). Þegar litið er á hegðun Angelu út frá freudísku sjónarhorni mætti segja að áföllin sem hún upplifði í æsku, þar á meðal drykkjuvandamál föður hennar og ömmu, auk dauða móður hennar hafi valdið því að hún bjó til söguna um ofbeldið af hendi föður hennar og sértúarsafnaðarins.
Annað hugtak frá Freud sem má tengja við myndina er Ödipusarduldin, en hún felur í sér kynferðislegt samband eða togstreitu milli foreldra og barna. Samkvæmt Freud upplifa börn bæði aðdáun og afbrýðisemi gagnvart foreldrinu af gagnsæðu kyni, á meðan þau eru í stöðugri samkeppni við foreldrið af sama kyni (Sigmund Freud, 1905/1962) Angela gæti því hafa þróað með sér kynferðislegar tilfinningar gagnvart föður sínum, sem leiddu til ásakana hennar gagnvart föður sínum. Tilfinningarnar gætu hafa komið upp á yfirborðið eftir að móðir hennar dó, en þá var hennar helsta samkeppni ekki lengur til staðar. Lygin gæti þá verið birtingarmynd bældra tilfinninga, eins og stendur hér fyrir ofan, og þó svo að hún hafi vísvitandi logið um ofbeldið hafi hún ekki gert sér grein fyrir kynferðislegu löngunum gagnvart föður sínum. Einnig má nefna tilfinningar hennar gagnvart Bruce sem leiddu til þess að hún smellti kossi á hann. Tilfinningar hennar gætu hafa stafað af því að hún sá hann sem föðurímynd og var því einnig með kynferðislegar tilfinningar gagnvart honum, hugsanlega vegna þess að hennar eiginn faðir hafði ekki verið nógu mikið til staðar fyrir hana í æsku.
Það þarf þó að hafa í huga að Angela var í raun að ráðskast með alla sem komu að rannsókninni og þar á meðal Bruce og föður sinn. Hún laug um ofbeldið til að komast í burtu frá sorglegum heimilisaðstæðum hennar og öðlast samúð frá almúganum. Hún notfærði sér hræðslu almúgans gegn djöfladýrkendum og náði þannig að koma öllum á sitt band. Það má halda því fram að hún hafi haft yfirhöndina meðan hún var að ráðskast með fólkið í kringum hana, en þó má einnig færa rök fyrir því að hennar innri hvatir, bældar minningar og kynferðislegu tilfinningar hafi verið að stjórna henni allan tímann.
4. Hvaða sálfræðimeðferð notaði sálfræðingurinn í myndinni, hvernig lýsir hún sér og hver er helsta gagnrýnin á hana?
Sálfræðingurinn sem aðstoðaði Bruce rannsóknarlögreglumann við rannsókn á meintu kynferðisofbeldi gagnvart Angelu notaðist við aðhvarfsmeðferð sem er dáleiðslumeðferð til þess að endurheimta minningar úr undirmeðvitundinni. Í myndinni dáleiddi hann John, föður Angelu og bróður hennar á þann veg að hann setti taktmæli fyrir framan þá, lét þá horfa á lóðið sveiflast og leiddi þá aftur í tímann til þess að endurheimta bældar minningar. Við dáleiðslu á John lét sálfræðingurinn Bruce lesa texta til þess að koma honum í aðstæðurnar. Textinn var þó mjög leiðandi og var til þess fallinn að hafa mótandi áhrif á hugrenningar Johns og því mótuðust líklega þær fölsku minningar sem hann greindi frá.
Aðhvarfsmeðferð (e. regression therapy) er eins og fyrr segir dáleiðslumeðferð til þess að kalla fram og vinna með sér í lagi bældar minningar og leysa úr flækjum sem þær hafa valdið í lífi þess sem hlýtur meðferðina. Að fá aðgang að undirmeðvitundinni, ná fram oft erfiðum minningum og sleppa tökum á áhrifum og tilfinningum tengdum þeim. Meðferðin er, af þeim sem praktísera hana, talin vera sérlega góð fyrir þá sem orðið hafa fyrir ofbeldi í æsku, í nánum samböndum og almennt þá sem hafa orðið fyrir áföllum (Brittany Loggins, 2023).
Mikil gagnrýni hefur verið í gegnum tíðina á aðferðir sem þessar sem hannaðar eru til þess að endurkalla bældar minningar. Hætta á myndun falskra minninga, sér í lagi vegna áhrifa frá dáleiðanda hefur verið háværasta gagnrýnin sem beinst hefur að aðhvarfsmeðferð. Áhrif frá dáleiðanda geta helst verið leiðandi spurningar eða frásagnir sem eru til þess fallnar að leiða þann sem þiggur meðferðina á braut falskra minninga (Brittany Loggins, 2023).
Öll myndin byggðist í raun á því að þessi helsta gagnrýni á meðferðina raungerðist. Í takt við þann tíðarandann um hræðsluna við djöfladýrkendur spannst sú saga upp að Angela væri þolandi djöfladýrkandi sértrúarsöfnuðar. Rannsóknin á máli hennar fór á þessa leið vegna upplýsinga sem fengust með því að dáleiða og kalla fram ,,bældar minningar” hjá bróðir Angelu og föður. Í bland við lygar Angelu varð því megináhersla rannsóknarinnar að reyna að komast á snoðir um sértrúarsöfnuðinn.
Dæmið í myndinni er gott dæmi um skaðsemi aðhvarfsmeðferðar. Höfundar þessa verkefnis eru þó ekki til þess fallnir að dæma um það hvort að aðferðin sé í öllum tilvikum skaðleg eða léleg. Það má vel vera að ef rétt er haldið á spöðunum sé aðhvarfsmeðferð og aðrar dáleiðslumeðferðir hjálplegar, en við getum þó dregið þá ályktun að meðferðin sé varhugaverð ef fyllstu varúðar er ekki gætt.
MYNDBAND AF MEÐFERÐINNI
https://www.youtube.com/watch?v=SH6SScMZIUg&ab_channel=Alfheidur
HEIMILDASKRÁ
Brittany Loggins. (2023, 27. nóvember). What is Regression Therapy?. Very well mind. https://www.verywellmind.com/what-is-regression-therapy-5194495#toc-what-regression-therapy-can-help-with
Sigmund Freud. (1997). The interpretation of dreams (þýð. Abraham Arden Brill). Wordsworth Editions. (Fyrst útgefin 1900)
Sigmund Freud. (1962). Three essays on the theory of sexuality (þýð. James Strachey). Basic Books. (Fyrst útgefin 1905)