1. nemendur:
Alexandra Marín Sveinsdóttir + Baldur Ingi Ólafsson + Heba Ragnheiður Hinriksdóttir + Rannveig Karlsdóttir.
2. Útgáfuár og land:
2014, Austurríki.
3. Flokkun: Nefnið þrjá flokka:
Drama, sálfræðitryllir, hryllingur.
4. Leikstjóri:
Veronika Franz og Severin Fiala.
5. Helstu leikarar:
7. Hvers vegna þessi mynd?
Við vildum ekki velja hefðbundna sálfræðilega mynd. Þessi mynd, ólíkt flestum, sýna okkur jafn mikið og einstaklingurinn með andlegu veikindin sér. Við sjáum frá þeirra sjónarhorni og svo í enda myndarinnar komumst við að sannleikanum. Annað dæmi um svona mynd er: A Tale of Two Sisters frá Suður Kóreu.
8. Söguþráður:
Í kjölfar áfalls og mögulegs slyss, kemur móðir tveggja tvíburadrengja heim eftir dvöl á spítala. Segir myndin sögu fjölskyldunnar eftir heimkomuna. Drengjunum finnst ekki allt vera með felldu og grunar að konan sé ekki raunveruleg móðir þeirra vegna skrýtinnar hegðunar hennar gagnvart þeim sem og sárabinda sem hylja ásjónu hennar.
Hegðun móðurinnar gagnvart öðrum tvíburanna ýtir undir þá tilgátu þeirra að hún sé ekki raunveruleg móðir þeirra, hún hundsar annan þeirra á meðan hún beitir hinn andlegu og líkamlegu ofbeldi.
Tvíburarnir grípa til þess ráðs að frelsissvipta konuna og þvinga hana til frásagnar í von um að fá upplýsingar um hvar raunveruleg móðir þeirra sé eða sanna að hún sé raunveruleg móðir þeirra.
9. Sálfræði myndarinnar:
Myndin: Ich seh, ich seh fjallar nánar um geðröskunina Dissociative identity disorder (DID), Capgras ranghugmyndir og ofskynjanir vegna DID. Horfandinn veit ekkert meira en Elias, sem sagt að mamma þeirra beggja hefur breyst, er orðin ofbeldisfull, og hunsar Lukas og hans þarfir. Það áhugaverða við þessa mynd er að hún er að mestu leyti sögð frá sjónarhorni Eliasar sem, vegna Capgras, heldur að mamma sín hafi verið skipt út fyrir svikara eftir aðgerðina sína. Auk þess, hefur Elias ofsjónir af tvíburabróðir sínum Lukas, sem sannfærir Elias um að beita “svikarann” ofbeldi og hóta henni til þess að finna “alvöru” mömmu sína. Vegna alvarleika geðraskana Eliasar er svo ekki hægt að segja honum sannleikann, þar sem samspil DID og Capgras veldur aukinni ótrú á því sem mamma hans segir honum. Eftir dauða “svikarans” sjáum við Elias ganga í burtu ásamt bróður sínum og móður, sem við getum gert ráð fyrir að sé önnur ofskynjun Eliasar.
10. seinni skil - Fimm spurningar:
Hafa Elias og mamman fengið einhverskonar meðferð eftir ,,slysið’’?
Það kemur ekki beint fram að einhver hafi fengið nokkra aðstoð, hins vegar er hegðun móðurinnar á þann veg að henni hafi verið uppálagt að ýta ekki undir ofsjónir og ímyndanir Eliasar.
Undir lok myndarinnar ætlar mamman að spila með aftur eins og Lukas sé enn á lífi en þá er það orðið um seinan að tala um fyrir Eliasi og því fer sem fer. Sú hegðun móðurinnar er tilkomin vegna frelsissviptingar og pyntinga af hendi Eliasar.
2. Hefur skilnaður foreldra hans í kjölfar bróðurmissis haft áhrif á það hvernig Elias meðtók aðstæðurnar?
Við teljum að skilnaður beint í kjölfar bróðurmissis hafi lagst mjög þungt á Elias og hugsanlega ýtt undir myndun geðraskana (rofinn persónuleiki, capgras).
Elias er í einhverri merkingu yfirgefinn af bróður sínum þegar hann fellur frá, einnig fer pabbinn eftir skilnaðinn og er Elias líka yfirgefinn af honum. Þar hverfa tvær af hans mikilvægustu manneskjum úr lífi hans á stuttum tíma og hann upplifir sig yfirgefinn og svikinn.
Hann þróar þá með sér rofinn persónuleika sem viðbragð við öllum missinum sem hann upplifði. Það má því segja að umhverfið hafi spilað stærsta hlutverkið við þróun geðraskana Eliasar. Áföllin urðu honum um megn og hann fékk enga aðstoð við úrvinnslu þeirra aðra en þau tilmæli sem mamman reynir að vinna með.
3. Er mamman að glíma við þunglyndi/fíkn?
Það er auðveldlega hægt að draga þá ályktun að móðir tvíburanna glími við annað hvort eða bæði þunglyndi og fíkn.
Fyrst þegar hún kemur fyrir sjónir, er hún fjarlæg, fámál, með sárabindi á höfðinu sem hylur andlit hennar og virðist hún eiga í erfiðleikum með að eiga samskipti við og tengjast börnunum.
Helst vill hún loka sig af, vera inni í myrku svefnherberginu. Í þau fáu skipti sem hún kemur fram, þá er það yfirleitt til að fara beint inn á salerni og loka sig af þar. Börnin eru afskipt og ná litlu sambandi við hana. Einnig er hægt að álykta að mamma þeirra glími við þunglyndi, hún beitir Elias stundum ofbeldi, bæði andlegu og líkamlegu. Manneskjur sem glíma við þunglyndi eiga það til að beita fjölskyldu sína bæði andlegu og líkamlegu ofbeldi.
Í nokkrum atriðum sést hvar hún tekur töflur, hvort þær séu vegna þunglyndis eða verkja kemur ekki fram.
Einnig er sena þar sem hún æðir út á akur í miklu rigningaveðri og klæðir sig úr öllum fötunum, það virðist þó vera draumur hjá Eliasi.
Hún verður aftur á móti töluvert léttari og hressari eftir að hafa tekið inn töflurnar og nær að eiga samskipti við drengina.
Þegar líður á myndina, tekur móðirin sárabindin af og viðhorfið snar breytist hjá henni gagnvart drengjunum.
Nokkrar senur í myndinni benda til þess að mamman sé að glíma við líkamsskynjunarröskun sem tengist oft öðrum röskunum, til dæmis þunglyndi, félagsfælni, þráhyggju-árátturöskun, og fíkn. Hún vill ekki sjá drykki eins og kók á heimili sínu og borðar í laumi sem er mjög algengt hjá fólki sem glímir við líkamsskynjunar eða átröskun.
Í þeim senum sem hún er búin að fjarlægja sárabindin, er hún mun glaðlegri, sem gæti verið vegna ánægjunnar sem hún upplifir eftir að hafa séð sitt nýja útlit.
Auk einkenna þunglyndis og fíknar, er hægt að færa rök fyrir því að innilokun hennar eftir aðgerðina og neitun félagsskapar sé tilkomin vegna félagsfælni. Svo birtast nokkur einkenni þráhyggju-árátturöskunar sem er hægt að sjá í myndinni eins og óhófleg þrif, og tengingar við fyrrnefndar raskanir.
4. Voru Elias og Lukas í raun tvíburabræður eða var Lukas ímyndun Eliasar allan tímann?
Þeir voru alvöru tvíburabræður, Lukas lést í byrjun myndarinnar þannig að í hvert sinn sem við sjáum Lukas eftir það er hann ímyndun Eliasar. Mamma tvíburanna veit einnig af láti Lukasar.
5. Hvaða þýðingu hafa kakkalakkarnir í myndinni?
Elias átti og geymdi kakkalakka í búri. Mömmuna dreymdi að kakkalakki hefði skriðið upp í munn hennar en ein túlkun á því í draumum getur þýtt slæm samskipti eða misskilning og þar sem erfiðlega gæti gengið að koma í veg fyrir það er skynsamlegt að hugsa fyrir mótvægisaðgerðum.
Einnig dreymdi Elias að mamman væri full af kakkalökkum, í draumum þýðir það yfirleitt að þú sért hluti af ósætti innan fjölskyldu eða vinnu. Því er ráðlagt að leysa þetta ósætti hið fyrsta til að takmarka þann skaða sem þó kominn er.
Kakkalakkarnir eru Eliasi sem gæludýr og eru þeir frægir fyrir þrautseigju sína og seiglu. Stundum er talað um að ómögulegt sé að drepa kakkalakka og að þeir lifi allt af. Kakkalakkarnir gætu því táknað líf Lukasar og að hann muni ekki deyja í huga bróður síns heldur lifa sem ímyndun hans.
Eins og kom fram í fyrirlestri K12, bls. 18: Draumaráðning. Í draumum læðast erfiðar minningar fram því þá er dulvitund ekki á verði (er hún þá sofandi?), en draumar eru samt duldir og táknrænir.
6. Hvað tákna grímurnar í myndinni?
Grímurnar tákna hvernig rofinn persónuleiki Eliasar stigmagnast. Þegar þeir eru með grímurnar er erfiðara og nánast ómögulegt að greina þá í sundur. Lukas verður þá meiri partur af Eliasi í stað þess að vera eitthvað hliðarsjálf eða áhorfandi á hliðarlínunni. Einnig er hægt að túlka fatnað bræðranna á þennan hátt í myndinni.
Fyrri part myndar er Lukas alltaf í dekkri klæðnaði en Elias og þannig er auðveldlega hægt að greina þá í sundur en þegar líður á myndina klæðast þeir nákvæmlega eins dökkum fatnaði. Þessa breytingu er hægt að túlka á þann þátt að Elias sökkvi sífellt dýpra í rofna persónuleikann (DID) og að persónuleiki Lukasar renni saman við persónuleika Eliasar. Þeir eru þá ekki sitthvor manneskjan lengur með sínar eigin gjörðir og hugsanir heldur sameinast í einn persónuleika þar sem Lukas verður partur af Eliasi og Elias partur af Lukasi.
7. Hver er ástæða fyrir lýtaaðgerðinni sem mamman fer í?
Í nokkrum senum er hægt að sjá mömmuna horfa á og rannsaka andlit sitt og líkama í spegli, og sýnist vera óánægð. Sú hegðun gefur til kynna að hún eigi mögulega við líkamsskynjunarröskun að glíma. Svo má einnig færa rök fyrir því að lýtaaðgerðin hafi verið tilraun hennar til þess að takast á við dauða sonar síns og hjónabandið sem fór í vaskinn.
Hún hafi með því viljað byrja nýtt líf með nýju andliti og skilja allt það gamla eftir í fortíðinni, m.a. útlitið.