Nemendur
Birta Birgisdóttir, Mist Funadóttir og Soffía Kjaran Pétursdóttir.
Nafn
Flokkun myndefnis
Drama, glæpasaga, sannsögulegt.
Leikstjóri, land og ártal
Patty Jenkins, Bandaríkin árið 2003.
Helstu leikarar
Stikla
https://www.youtube.com/watch?v=sghBNHf_gMw
Hvers vegna við völdum við þessa mynd
Við höfðum allar heyrt um þetta mál og fannst áhugavert að taka fyrir sögu glæpakvendis. Þar sem málið var okkur kunnugt fannst okkur tilvalið að velja þessa kvikmynd. Mál Aileen Wournos er sannsögulegt sem okkur þótti merkilegt. Einnig ber að nefna að Charlize Theron fer stórkostlega með hlutverk Aileen og umbreytti sér fyrir hlutverkið sem skilaði henni Óskarsverðlaunum fyrir bestu konu í aðalhlutverki.
Söguþráður
Kvikmyndin byggir á sönnum atburðum og fjallar um raunverulega konu, raðmorðingjann Aileen Wournos sem hefur hlotið nafnbótina „fyrsti kvenkyns raðmorðingi Bandaríkjanna“ eftir að hafa myrt að minnsta kosti sjö menn seint á 20. öld í Flórída. Alieen átti erfiða æsku og sneri sér að vændi þegar hún var 13 ára. Hún flutti til Flórída þar sem hún vann sem vændiskona og stundaði það aðallega við þjóðveginn þar. Myndin fjallar um tímabil í lífi hennar, á milli 1989 og 1990. Á þessu tímabili kynntist hún konu að nafni Selby og kviknar á milli þeirra mikil ást. Selby býr hjá ættingjum sínum en þau eru ekki sátt við samband Selby og Aileen. Alieen sannfærir Selby að flýja með sér eftir atburð sem átti eftir að breyta lífi þeirra beggja. Eitt kvöld var Aileen að vinna og hittir viðskiptavin. Hann keyrir hana út í skóg á afskekkt svæði þar sem hann misnotar hana og beitir hana hrottalegu ofbeldi. Til að verja sig skýtur Aileen hann, en í stað þess að tilkynna glæpinn rænir hún manninn og bílnum hans. Eftir þennan atburð ætlar hún að hætta að stunda vændi og fá sér alvöru vinnu en fáir vildu ráða vændiskonu með enga menntun eða fyrri starfsreynslu. Vegna fjárhagsvandamála neyddist hún til þess að halda áfram að stunda vændi, þar sem hún síðan myrti viðskiptavini sína og stal svo af þeim. Aileen játar fyrsta morðið fyrir Selby og hún leggst á flótta með henni. Þær lenda í slysi á bíl eins fórnarlambs Aileen og lögregluteikning þeirra kemst í fréttirnar. Þá virðist Selby átta sig, leiðir þeirra skilja og þegar Aileen er handtekin og dæmd fyrir morðin ber Selby vitni gegn henni, líklega í skiptum fyrir vægan dóm.
Fjórar sálfræðilegar spurningar
Tvær Minni spurningar
1. Hvert var eðli sambands Selby og Aileen og hvernig þróaðist það yfir myndina?
Selby og Aileen eru mjög ólíkar, en þær eiga það sameiginlegt að vera báðar einmana og þrá samþykki og tilfinningu um að tilheyra. Aileen er harðgerð götuvændiskona með langa áfallasögu, en Selby er ung kona sem glímir við höfnun frá fjölskyldu sinni, meðal annars vegna kynhneigðar sinnar. Það sem Aileen þráði mest var að einhver myndi uppgötva hana og sýna henni sömu trú og hún hafði sjálf. Í fyrstu gekk samband þeirra vel, Aileen ánægð að vera með einhverjum sem sá hana þrátt fyrir harðgert útlit og Selby heillaðist af ákveðni og sjálfstrausti Aileen. Selby leit aldrei niður á Aileen vegna starfs hennar eins og Aileen fannst allir aðrir gera. Samband þeirra komst þó fljótt í ójafnvægi eftir að Aileen sannfærði Selby um að flýja með sér. Báðar virtust þær bera vantraust gagnvart hvor annarri. Selby sakaði Aileen um að vera að nota sig fyrir pening, þegar Aileen hætti í vændinu. Þrátt fyrir að Alieen vildi hætta, sannfærði Selby hana um að hún þyrfti að halda áfram til þess að þær ættu nægan pening til að viðhalda þeim partýlífstíl sem Ailenn hafði lofað. Þegar Selby áttar sig á morðum Alieen, verður hún stressuð og hrædd um að vera samsek um glæpina. Aileen var alltaf mjög verndandi gagnvart Selby og taldi sig vera að vernda hana þegar hún framdi morðin. Hélt því fram að hún væri að gera þetta fyrir þær báðar, þ.e. að hún þyrfti að gera þetta til þess að Selby gæti fengið pening og bíl. Selby vissi af glæpum Alieen en sagði ekkert í dágóðan tíma, en hún virtist vera að upplifa mikið misræmi þar sem hún vissi að þetta væri rangt en á sama tíma var Alieen að sannfæra hana um að þetta væri nauðsynlegt fyrir þær báðar. Að lokum leitaði Selby til lögreglunnar og gerði samkomulag við hana, þar sem hún féllst á að bera vitni gegn Aileen í skiptum fyrir vægari dóm. Selby samþykkir að leyfa lögreglunni að hlera símtal hennar við Alieen. Þegar Alieen áttar sig á því í símtalinu að Selby sé með lögreglunni, játar hún glæpi sína. Henni þótti nógu vænt um hana til þess að játa og þannig vernda Selby.
2. Hvernig réttlætir Selby að vera áfram í sambandi með Aileen þrátt fyrir að vita um glæpi hennar?
Eins og hefur komið fram var Selby einmanna þegar hún kynntist Aileen. Selby var að glíma við höfnun frá fjölskyldunni og fann fyrir ákveðu öryggi í kringum Aileen. Henni þótti flott að Aileen væri vændiskona, og nefnir m.a. í myndinni að það sé flott hvernig karlmenn borga fyrir að vera með henni. Eftir fyrsta morðið nær Aileen að sannfæra Selby um að flýja með sér. Alieen verður þá eini stuðningsaðili Selby sem kann að hafa haft áhrif á það hvers vegna henni þótti erfitt að yfirgefa hana. Selby trúði Aileen þegar hún sagði henni að fyrsta morðið hafi verið sjálfsvörn. Þegar morðin urðu fleiri varð erfiðara og erfiðara fyrir Selby að trúa því að þau hafi öll verið sjálfsvörn. Aileen reynir ítrekað að réttlæta glæpi sína fyrir Selby, t.d. með því að segja að hún sé að gera þetta til að tryggja að þær eigi nóg af peningum og bíl. Selby í raun fær sig til þess að trúa Aileen, mögulega því hún er hrædd við að missa hana eða er með samviskubit þar sem Aileen ítrekar að þetta sé fyrir þær báðar. Eftir því sem líður á myndina, og morðunum fjölgaði, fór þetta hins vegar að vega þyngra á Selby og hún átti sífellt erfiðara með að réttlæta þetta fyrir sér. Að lokum gefst hún upp og fer til lögreglunar.
Tvær Stærri spurningar
3. Hver eru tengsl áfallasögu og aðgerða Aileen gagnvart fórnarlömbum sínum?
Alieen átti mjög erfiða æsku. Tvö atriði þar sem hún segir frá æsku sinni í myndinni standa upp úr. Í samtali sínu við Selby segist hún hafa alist upp í ofbeldisfullu umhverfi, upplifað líkamlegt og andlegt ofbeldi, vanrækslu og skort á ást og stöðugleika. Hún hafi þurft að sjá um systkini sín en systkini hennar hafi fengið að vera hjá nágrönnunum en ekki hún. Hún segist einnig hafa orðið heimilislaus og byrjað að stunda vændi mjög ung. Við tilvonandi fórnarlamb sitt segist hún hata menn. Hún segir frá því að vinur pabba síns hafi misnotað hana þegar hún var 8 ára. Segist hafa sagt pabba sínum frá en hann ekki hafa trúað henni þannig ofbeldið hélt áfram í mörg ár. Segir síðan að pabbi hennar hafi barið hana fyrir þetta. Þessi atburður gefur til kynna að hún sé að „varpa“ reiði sinni, sem hún hefur tekið með sér úr ofbeldisfullri æsku, á fórnarlömb. Mögulega hefna fyrir allt ofbeldið sem hún varð fyrir í æsku. Trúði því að hún væri að myrða til þess að „vernda sjálfa sig“ en á sama tíma hefna sín á samfélaginu.
Fyrsta morð hennar var líka ákveðinn vendipunktur fyrir það sem átti eftir að koma. Hrottalegt ofbeldi sem hún varð fyrir af hendi viðskiptavinar hafði greinilega verið mikið áfall fyrir hana. Maðurinn ætlaði að drepa hana og sá Aileen aðeins tvö möguleika í stöðunni; að drepa eða vera drepin.
Eftir árásina fannst Aileen réttlætanlegt að grípa til róttækra aðgerða til þess að vernda sjálfa sig en hún horfði á næstu morð sem hefnd á mönnum sem misnota konur. Vantrauststilfinning hennar jókst mikið eftir þennan atburð, og ofsóknarbrjálæði. Hún var alltaf að búast við því versta og tilbúin að svara fyrir sig. Í næsta morði hennar var óljóst hvort ásetningur hafi legið að baki eða hvort hún hafi tekið með sér byssu til að „verja sig“ þar sem hún var svo ótrúlega tortryggin og ör eftir fyrri árás kúnnans. Hún virkaði mjög taugaóstyrk og andaði hratt allan tímann í bílnum. Þegar hann byrjar að klæða sig úr er eins og hún endurupplifi atburðinn, verður hrædd og skýtur manninn.
Í næstu morðum sneri hún vændi sínu upp í það að þeir væru kynferðisafbrotamenn sem hún gæti réttlætt að drepa. Seinasta morðið sker sig út frá hinum og viðbrögð hennar eftir það einnig. Giftur eldri maður pikkaði hana upp og í stað þess að kaupa vændi bauð hann henni far eða gistingu í gestaherbergi sínu. Hún ætlaði út úr bílnum og virtist ekki ætla að drepa hann en þegar hann sá byssuna hennar sá hún ekkert annað í stöðunni en að losa sig við þetta vitni, skaut hann í köldu blóði. Að þessu loknu brotnaði Aileen alveg niður og markaði það lok sambands hennar og Selby, hún virtist ekki geta réttlætt fyrir sér þennan glæp á sama hátt og hina. Hún viðurkenndi fyrir Selby og sjálfri sér að hún hafi gert gríðarleg mistök og bað hana um fyrirgefningu því hún gat ekki fyrirgefið sjálfri sér.
4. Hverjar eru mögulegar geðraskanir Aileen?
Hin raunverulega Aileen Wuornos var talin vera sakhæf í réttarhöldum sínum en geðlæknar Flórída-fylkis sögðu hana mæta viðmiðum DSM-IV eða Flokkun geðraskana (útgáfu 4.) fyrir bæði andfélagslega og hambrigðapersónuleikaröskun. Morð hennar voru víst ekki vegna kynbundins kvalalosta heldur til að ræna og útrýma vitnum. Samansafn tengslaskerðinga í æsku, áfallasaga og persónuleikaraskanir hafa að öllum líkindum átt þátt í glæpum hennar (Myers o.fl., 2005).
Andfélagsleg persónuleikaröskun
Fimmta útgáfa Diagnostic and Statistical Manual of Mental Disorders (DSM-V; American Psychiatric Association) skilgreinir andfélagslega persónuleikaröskun sem langvarandi mynstur hegðunar og innri reynslu sem er virkilega frábrugðin því sem við mætti búast í samfélagi, t.d. ólöglegt athæfi. Röskunin lætur fyrst kveða á sér í æsku og heldur áfram fram á fullorðinsár. Röskunin getur gengið í erfðir og getur fjölskyldusaga um andleg veikindi berskjaldað einstaklinga fyrir henni. Félagshagfræðilegir og samfélagsþættir eins og fátækt hafa áhrif á algengi og ofbeldi eða misnotkun í æsku geta haft áhrif á tilkomu persónuleikaraskana (American Psychiatry Associaton [APA], 2013).
Einstaklingar með andfélagslega persónuleikaröskun eiga það til að vera uppstökkir, árásargjarnir og ábyrgðarlausir. Einstaklingar gætu tekið þátt í áhættusamri kynferðislegri hegðun eða vímuefnanotkun sem hafa oft mjög skaðlegar afleiðingar (APA, 2013). Aileen er vissulega uppstökk og þarf lítið til að koma henni úr jafnvægi. Aileen hafði stundað vændi í áratugi en ekki eru dæmi um vímuefnanotkun í myndinni aðra en áfengis- og nikótínneyslu. Í DSM-V kemur fram að þessa einstaklinga skorti iðrun á afleiðingum gjörða sinna og eru skeytingarlausir gagnvart yfirborðskenndum réttlætingum á gjörðum sem hafa á einn eða annan hátt farið illa með aðra. Einstaklingarnir eiga það til að áfellast fórnarlömb sín og gera lítið úr gjörðum sínum (APA, 2013). Aileen sýnir mörg þessara einkenna en hún hafði litla eftirsjá og gat haldið glæpum sínum áfram í heilt ár frá fyrsta morði (30. nóvember 1989 – 19. nóvember 1990).
Hin raunverulega Aileen Wuornos hélt því fram eftir handtöku að öll morð hefðu verið framin í sjálfsvörn, sem er yfirborðskennd réttlæting á gjörðum sínum og einkenni andfélagslegrar persónuleikaröskunar en kvikmyndin fer mjög lítið og grunnt í réttarhöldin. Hún taldi öll sín fórnarlömb vera illmenni sem áttu skilið að deyja. Þar spilar einnig inn í sýn hennar og viðhorf til karlmanna sem og samfélagsins.
Hambrigðapersónuleikaröskun
Jaðarpersónuleikaröskun eða hambrigðapersónuleikaröskun er alvarlegasta persónuleikaröskunin og er hennar grundvallareinkenni tilfinningalegur óstöðugleiki og áberandi mynstur óstöðugrar sjálfsmyndar og hvatvísi sem kemur fram snemma á fullorðinsárum.
Samkvæmt DSM-V eða Flokkun geðraskana, gera einstaklingar með hambrigðapersónuleikaröskun örvæntingarfullar tilraunir til að forðast brotthvarf (e. abandonment) annarra, hvort sem það er raunverulegt eða ekki. Þeir upplifa mikinn ótta við brotthvaf og óviðeigandi reiði þegar þeir standa gegn tímabundnum aðskilnaði eða þegar óumflýjanlegar breytingar verða á áætlunum. Þessir einstaklingar eru því mjög viðkvæmir gagnvart umhverfisaðstæðum. Þeir telja brotthvarfið vera merki eða gefa í skyn að þeir sjálfir séu slæmir. Þeir eru snöggir að tengjast umönnunaraðilum og ástvinum en geta snúist gegn þeim hratt ef þeim finnst þeir ekki fá næga ást eða að ástvinir séu ekki nógu mikið til staðar (APA, 2013). Í myndinni tengjast Aileen og Selby mjög hratt, gista eftir þeirra fyrstu kynni og hlaupast örfáum sólarhringum eftir það á brott saman sem er í takt við einkenni röskunarinnar. Samskipti við aðra eru ruglingsleg, óreiðukennd, hávær, ófyrirsjáanleg og óstöðug sem samsvarar samskiptum Aileen og Selby en þær áttu fleiri en eitt samtal þar sem þær fara hratt hátt upp og koma svo niður, mikil öskur og virðast þær oft á tíðum mjög óvissar um tilfinningar sínar. Þær bera augljóslega mikla ást til hvor annarrar en erfitt er að segja til um hvað í samskiptum þeirra sé tilkomið vegna hambrigðaröskunar Aileen eða óvissu hennar um þeirra samband. Þrálát tilfinning tómleika getur þjakað einstaklinga með hambrigðapersónuleikaröskun og eiga þeir oft erfitt með að hafa stjórn á tilfinningum sínum. Aileen á það til að snöggreiðast og einstaklega líklegt að hún hafi upplifað tómleika þar sem hún eyddi löngum tíma úti á þjóðvegum að harka.
Líkamlegt og andlegt ofbeldi, vanræksla, erfiðir ágreiningar og snemmur foreldramissir er algengur í æsku þeirra sem síðar greinast með hambrigðapersónuleikaröskun og er hún algeng fylgiröskun annarra persónuleikaraskana (APA, 2013). Í æsku upplifði Aileen andlegt ofbeldi af hálfu föður síns og líkamlegt/kynferðislegt ofbeldi bæði af nánum fjölskylduvin og sem svona ung vændiskona. Einnig var hún vanrækt í æsku, útskúfuð af systkinum sínum en þurfti samt á sama tíma sjá um þau. Erfiðir ágreiningar eru næstum óumflýjanlegir í hennar starfsumhverfi og með þetta veika stuðningsnet sem hún hafði. Í myndinni var ekki minnst á móður Aileen en fram kom að faðir hennar hefði stytt sér aldur í fangelsi.
Heimildir
American Psychiatry Association [APA]. (2013). Diagnostic and Statistical Manual of Mental Disorders (5. útg.). https://doi.org/10.1176/appi.books.9780890425596
Myers, W. C., Gooch, E. og Meloy, J. R. (2005). The role of psychopathy and sexuality in a female serial killer. Journal of forensic science, 50(3), 652-657.
https://pubmed.ncbi.nlm.nih.gov/15932102/