A Dangerous Method

1. nemendur:

Áskell Friðriksson + Eyþór Atli Aðalsteinsson + Hugi Garðarsson + Lárus Jakobsson.

2. Útgáfuár og land:

2011, Bretland (United Kingdom).

3. Flokkun:

Ævisöguleg | Drama | Rómantík.

4. Leikarar:

Michael Fassbender sem Carl Jung.

Viggo Mortensen sem Sigmund Freud.

Keira Knightley sem Sabina Spielrein.

Vincent Cassel — Otto Gross.

Sarah Gadon — Emma Jung.

6. Stikla:

7. Hvers vegna þessi mynd?

Við völdum A dangerous method því hún fjallar um tvo frömuði sálfræðigreinarinnar; taugasérfræðinginn Sigmund Freud og geðlækninn Carl Jung. Það er vel þekkt að þeir voru vinir sem unnu að sameiginlegri hugsjón en uxu síðar meir í sundur. Freud er öllu þekktari í samtímanum og er hans minnst sem kynlífsóðum kókaínfíkli sem raðsængaði hjá skjólstæðingum sínum. Við vorum spenntir fyrir því að sjá hvernig vináttu og starfi þeirra yrði gert skil í kvikmynd, ekki síst vegna þess, að þrátt fyrir að Freud hafi smíðað mörg fræg hugtök og skilgreiningar sem enn eru við lýði í dag, hefur honum engu að síður veri aflýst (e. cancelled) af nútíma sálfræðingum.

8. Söguþráður:

Myndin einblínir að mestu á Jung og framhjáhalds samband hans við skjólstæðing sinn, Sabinu Spielrein, sem er leikin af Kieru Knightley. Í framvindu myndarinnar eru sálfræðileg hugtök vinanna að mestu afgreidd með stuttum og lafþunnum samræðum, til að mynda þegar þeir ræða spekingslega sín á milli um að þeir ætli sér að þróa “the talking method.” En það er einmitt viðtalsmeðferðin sú sem í raun yfirtekur alla myndina í formi þráhyggu-ástarsögu Jungs og Sabinu þar sem fyrst og fremst er einblínt á fjölmargar eldheitar kynlífssenur þeirra, þar sem líkami Kieru Knightley er í forgrunni. Ekki verður annað séð en að sú hættulega aðferð sem myndin dregur titil sinn af, sé í raun viðtalsmeðferðin sem leiðir hinn unga og ófaglega Jung út í tilraunakennt og hamslaust kynlíf með Sabinu.

9. Sálfræði myndarinnar:

Myndin er frá upphafsdögum sálfræðinnar sem er lituð af aðferðarfræðilegri togstreitu. Helsti sálfræðivinkillinn í myndinni er beiting Jung á viðtalsmeðferð með Sabinu sem er mikið sködduð eftir erfið uppvaxtarár. Freud, kemur fremur lítið við sögu, en þó eru stiklað á stóru hvað varðar þær hugmyndir hans, sem eru hvað mest gagnrýndar í dag.

10. seinni skil - Fimm spurningar:

1. Til hvers höfðar titilinn A dangerous method?


A dangerous method höfðar til aðferðar sem kennd er við taugasérfræðinginn Sigmund Freud. Aðferðinni var ætlað að gagnast við meðferð á líkamlegum og sállíkamlegum kvillum, þá fyrst og fremst taugaveiklun eða hysteríu, með beitingu nýstárlegs meðferðarforms; sálgreiningu. Þó sálgreining sé að mestu eignuð Freud í nútímanum, er aðferðin engu að síður nátengd hugmyndum samtímamanna Freuds. Þar má helst nefna rannsóknir Jean-Martin Charcot, kennara Freud í læknadeild, á sefasýki, notkunar Pierre Janet á dáleiðslu við meðferð og losun bældra minninga og loks samtalsmeðferða Josef Breuer við Önnu O. Sálgreining var kynnt til sögunnar, sameiginlega af Freud og Breuer, með greininni Studies in Hysteria árið 1895. Fræðileg undirstaða sálgreiningar styðst við þá grundvallar kenningu að hegðun sé undir stöðugum áhrifum ómeðvitaðra sálrænna ferla, bældra minninga, kynferðislegrar bælingar og innri togstreitu undirmeðvitundarinnar.

A dangerous method, er það þó ástarævintýri geðlæknisins Carl Jung, sem er vel giftur, prúður og agaðar fjölskyldumaður, sem er rauði þráður myndarinnar. Þar ber mest á sambandi hans við skjólstæðing sinn; Sabinu Spielrein. Sabina hafði upphaflega verið neydd í meðferð til Jungs af fjölskyldu sinni. Í fyrstu reynist hún Jung heldur stríður sjúklingur. Sabina er í meira lagi hysterísk og helst til óstýrlát. Þrátt fyrir að Jung sé augljóslega brugðið og óviss með hvaða meðferðarúrræði hæfi henni, heldur hann ró sinni og nálgast hana af varkárni. Sabina er manísk, illa haldin af áfallastreituröskun og einnig með masókisma-blæti, og er það gefið til kynna, undir rós, að það sé tilkomið vegna kynferðislegrar misnotkunar í barnæsku, af hálfu föður. Jung álítur Sabinu sem kjörið viðfang til þess að prófa sig áfram sem sálgreinanda, og bætir um betur, með því að stunda hamslaust tilraunakennt kynlíf með henni.

Sálgreining Freuds sem meðferðarform mætti töluverðri andstöðu meðal vísindamanna þess tíma, hún þótti óvísindaleg og vera til þess fallin að geta valdið sjúklingum tilfinningalegum skaða. Sú gagnrýni, verður meðal annars, kveikjan að ágreiningi meðal Freud og Jung. En Freud snýr vörn í sókn og ásakar Jung um að rýra trúverðugleika sálgreiningar með áhuga sínum á dulsálfræði og segir að með því sé hann að stofna trúverðugleika þeirra í hættu. Hann bætir því við að sálgreining mæti þegar miklum efasemdum frá vísindasamfélaginu og megi alls ekki við meiri gagnrýni. Jung er honum ósammála og andmælir rökum Freuds harðlega og ásakar hann um vísindalega þröngsýni. Að lokum varar Freud Jung við og kemur honum í skilning um að ef verði þeir uppvísir að því halda ekki þeim kynferðislegu undirstöðunum, sem liggja að baki sálgreiningu til streitu, geti komið til þess að þeir glati alfarið trúverðugleika sínum sem vísindamenn.

A dangerous method er mynd hvers söguþráður fjallar fyrst og fremst um tvo frömuði sálgreiningar, Sigmund Freud og Carl Jung, árdaga viðtals meðferðarinnar og hugmyndafræðilega togstreitu þeirra á milli. Þær kynferðislegu áherslur sem Freud tengir þrálátt við sálgreiningu, verður þeim að endingu að falli og gjaldfellir kenningar þeirra og bindur enda á hjónaband Jung. Ætla má að boðskapur myndarinnar sé, að líkast til sé það ófaglegt og óheppilegt fyrir meðferðaraðila að nýta sér yfirburða stöðu sína, til að hafa samfarir við skjólstæðinga.

2. Hvar mætast leiðir Freud og Jung og með hvaða hætti er persónum þeirra gerð skil?

Leiðir þeirra tveggja mætast þegar Jung heyrir af nýrri aðferð við sálgreiningu sem hönnuð var af Freud. Jung beitir þessari aðferð við að lækna skjólstæðing sinn Sabinu. Eftir að hafa notað þessa aðferð fer Jung að skrifa Freud bréf. Jung og Freud skrifast svo reglulega á og síðar í myndinni sækir Jung Freud heim. Í sögunni er þeim gerð skil sem akademískum heldri mönnum, sem ganga um götur Vínarborgar með vindil í skoltinum og skeggræða snilldarlegar og framúrstefnulegar kenningar sín á milli.

3. Hvaða hlutverkum gegna Spielrein og Gross í framvindu sögunnar?

Sabina er tákngervingur syndarinnar, hvatvísinnar og dýrslegra holdlegra hvata. Otto Gross er fyrrum nemandi og skjólstæðingur Freud, sem hann segir sig hafa náð óverulegum árangri með, og vísar þ.a.l. áfram til meðferðar hjá Jung. Otto er forhertur og óskammfeilinn í öllu sínu fari, hæðist að aðferðum Freud og mælir með því við Jung að nýta sér stöðuna til að sænga hjá skjólstæðingum.

4. Hvað aðgreinir áherslur og aðferðir Jung og Freud við beitingu viðtalsmeðferðar?

Það sem aðgreinir áherslur Jung og Freud þegar kemur að viðtalsmeðferð er að samkvæmt Freud eru allir erfiðleikar skjólstæðingsins tilkomnir vegna undirliggjandi kynferðislegrar togstreitu, en Jung andmælir því með þeim rökum að það hljóti að fyrirfinnast aðrir áhrifaþættir.

5. Hvaða ágreiningsmál sem lúta að aðferð og lífssýn valda togstreitu þeirra á milli?

Þessi mynd sýnir togstreitu á milli Jung og Freud, skoðana ágreining þeirra á milli um mikilvægi kynhegðunar við sálgreiningu. Samkvæmt Freud eru það kynferðislegir þættir sem liggja að baki öllum erfiðleikum skjólstæðinga, en Jung vildi meina að það sé ekki hægt að útskýra allt út frá kynferðislegum þáttum. Eftir sem líður á myndina sjáum við hvernig samband þeirra breytist eftir því hvernig skoðanir þeirra verða ólíkari og þeir vaxa að endingu í sundur og slíta vinskap sínum.