Beau is afraid

 Nemendur

Blær Hinriksson, Felix Már Kjartansson, Gunnar og Kári Tómas Hauksson.

Nafn myndefnis

Beau is Afraid.

Flokkun myndefnis

Tragíkómedía og hrollvekja.

Leikstjórn, land og ár

Ari Aster, Bandaríkin, 2023.

Helstu leikarar

Joaquin Phoenix sem Beau Wassermann.

Patti LuPone sem Mona Wasserman.

Nathan Lane sem Roger.

Amy Ryan sem Grace.

Stephen McKinley Henderson: Sálfræðingurinn.

Stikla

Heimild: https://www.youtube.com/watch?v=PuiWDn976Ek

Hvers vegna?

Einn af hópmeðlimunum hafði séð myndina og deildi sinni áhugaverðri upplifun á myndinni. Okkur fannst frásögnin spennandi og við féllumst á eitt að rannsaka myndina betur. Þannig Beau is Afraid var fyrir valinu.

Söguþráður

Taugaveiklaður maður að nafni Beau fær hörmungs fréttir að óvænt hafi móðir hans látist. Hann leggur af stað í tilkomumikið og súrrealískt ferðalag á heimahaga sína þar sem hann tekst á við mótlæti, ótta og æsku uppgjör.

FJÓRAR SÁLFRÆÐILEGAR SPURNINGAR

TVÆR Smærri SPURNINGAR

1: Er raunveruleg meðferð í gangi hjá sálfræðingnum?

Það má rökstyðja það að sálfræðingurinn sem meðhöndlar Beau í byrjun myndarinnar hafi í raun og veru verið með meðferð í gangi. Þar sem hann er að nota sína þekkingu til þess að spyrja Beau spurninga sem eru ekki leiðandi, og með þeirri nálgun er meðferðin betri til þess fallin að fá Beau til að segja sjálfur af eigin frumkvæði frá því sem hann finnur hjá sér tilfinningalega. Hins vegar er tilgangur sálfræðingsins vafasamur, því hann er jú vissulega í vinnu hjá mömmu Beau og er einungis með það fyrir stafni að fá játninguna um sektarkennd frá Beau í garð móður sinnar. Eftir að hafa náð játningunni frá Beu er verkefni hans lokið, en til þess beitti hann vitaskuld lögmætri meðferð.

2: Sýnir Beau einhverjar sálfræðilegar framfarir í gegnum myndina?

Stutta svarið er já. Þau dæmi sem rökstyðja það svar eru meðal annars þegar Beau tekur þá ákvörðun að eiga samfarir með konu fyrir það fyrsta, og svo í framhaldinu það að klára sig af í kynlífi. Sem er þvert á við það sem mamma hans hafði leyft honum að gera, eftir að hafa upplýst hann í æsku að bæði pabbi hans og afi hafi látist við að fá fullnægingu. Annað skýrt dæmi er þegar hann brýst úr barns-skelinni og kyrkir móður sína í stundarbrjálæði og sýnir þar í fyrsta skipti hegðun sem skýrir að honum er misboðið í garð móður sinnar.

TVÆR STærri SPURNINGAR

1: Er Beau hræddur, og ef svo er, af hverju?

Titill myndarinnar er sú staðhæfing að titilpersónan, Beau, sé hrædd. Því er áhugavert að velta fyrir sér hvort það sé raunin í myndinni, hvers vegna, og hvort það sé einkennandi fyrir myndina. Enginn vafi er á því að Beau upplifir oft hræðslu í myndinni. Hann lendir nokkrum sinnum í aðstæðum þar sem lífi hans og líkamlegu öryggi er ógnað upp að mismunandi marki. Eitt sinn er hann beinlínis í skotsigti lögregluþjóns sem miðar á hann byssu og gerir honum skýrt að hann sé á mörkum þess að taka í gikkinn. Annað sinn er Beau hundeltur af brjáluðum fyrrverandi hermanni. Það þriðja er það að hann óttast tafarlaust dauðsfall, skyldi hann nokkru sinni fá sáðfall. Einnig lendir hann í aðstæðum þar sem hann óttast félagslegar afleiðingar og þar sem beinu líkamlegu öryggi hans er þó ekki ógnað. Dæmi um það má nefna þegar Tina, unglingsstúlkan á heimilinu þar sem Beau dvelur eftir áreksturinn og stunguárásina, hótar að birta af honum ósæmileg myndbönd og saka hann um ofbeldi, geri Beau ekki eins og hún segir. Þá óttast hann viðbrögð annarra. Einnig óttast hann bein viðbrögð og álit annarra, en skýrasta dæmið um það er e.t.v. snemma í myndinni, þegar Beau getur ekki staðið með ákvörðun sinni um að heimsækja ekki móður sína á dánarafmæli pabba síns, af ótta við að vera hafnað af móður sinni, þegar hann heyrir viðbrögð hennar við þeim hugleiðingum í símtali við hana. Þá er hann einfaldlega leikinn sem óttaslegna mannveru, jafnvel þegar orð hans, rituð á blaði, gæfu það ekki annars til kynna.

Gosling (1962) segir að lágmarksforsenda þess að gera megi ráð fyrir ótta út frá hegðun einstaklings sé að einstaklingur geti greint á milli hættulegra og hættulausra fyrirbæra, hann þurfi að hafa lært einhverja hegðun sem geti mögulega afstýrt hættu og að lokum að hann hafi öðlast tilhneigingu til að forðast hættuna án sérstakrar umhugsunar. Þessar forsendur veita okkur einhvern ramma til þess að hugsa um ótta. Beau virðist hafa verið alinn upp í ótta af móður sinni, sem hélt honum stöðugt í óvissu um stöðu sína og mögulegar afleiðingar hegðunar sinnar. Þrátt fyrir að Beau sýni ekki bara óttaviðbrögð í aðstæðum þar sem aðrir upplifðu e.t.v. ekki ótta, heldur einnig í sannarlega hættulegum aðstæðum, þá má spyrja sig hvers vegna hann sættir sig við að búa í íbúðarhúsi þar sem öryggi hans er ógnað í hvert sinn sem hann hættir sér út á götu. Velta má fyrir sér hvort Beau hafi einfaldlega þá trú á að það sé eðlilegt ástand að búa við stöðuga ógn. Rót ótta Beau virðist kristallast í hegðun og afstöðu hans sem kemur fram eftir að móðir hans læsir hann uppi á háalofti með typpaskrímslinu. Þá liggur hann á gólfinu og heldur um ökkla móður sinnar og grætur: Ó mamma, ó mamma. Fyrirgefðu, fyrirgefðu, fyrirgefðu, fyrirgefðu, ég hef verið slæmur sonur! Ég verð góður sonur! Plís! Ég geri hvað sem er til að bæta upp fyrir hegðun mína. Beau heldur áfram bónum sínum, og þarna birtist barnið í Beau, sem lifað hefur með honum alla þessa tíð, og Beau hefur skynjað heim sinn út frá, að minnsta kosti samkvæmt fræðisetningum eins og Internal Family Systems.

2: Er móðir Beau að ala drenginn sinn upp í form ödipusarduldar?

Þegar hugtakið ödipusarduld er sett í samhengi við rauða þráð myndarinnar þá má sjá ýmsa samnefnara ef vel er að gáð. Ödipusarduld er þekkt kenning sem fyrst var kynnt af Sigmund Freud sem eitt af þroskastigum mannsins. Ödipusarkenningin lýsir tilfinningum (kynferðislegum tilfinningum) barns til foreldris af gagnstæðu kyni og reiði í garð foreldri af samstæðu kyni. Til dæmis finnst strákur hann vera keppa við föður sinn um að eignast móður sína, strákurinn lítur á föður sinn sem keppinaut um væntumþykju, athygli og ásthúð móður. Freud skýrir þessa kenningu eftir persónu í gríska harmleiknum: Ödipus konungur eftir Sófókles þar sem Ödipus drepur óvart föður sinn og giftist móður sinni. Freud sagði einnig að yfirsjálfið er sá siðferðislegi þáttur sem er ríkjandi í meðvitund fullorðins einstaklings, og að hann sé lykilatriði í ferlinu til að sigrast á ödipusarduldinni. Það að yfirsjálfið þróist og geti sigrast á ödipusarduldinni eru mestu félagslegu afrek mannshugans (Britannica, T. Editors of Encyclopaedia, 2023).

Fyrir það fyrsta þá er faðir Beau aldrei inni í myndinni í hans lífi og eftir því sem hann best kemst þá er hann dáinn, miðað við það sem móðir hans upplýsir hann um. Þar af leiðandi er enginn maki í hennar lífi, og eins og fram kemur í myndinni oft og mörgum sinnum þá er ást hennar á syni sínum gífurleg. Líkt og kenningin um ödipusarduld segir til um að þá er þetta skeið sem hefst á aldrinum 3-5 ára. Það er einmitt á þeim aldri þar sem móðir hans byrjar að tákngera faðir hans sem eitthvað slæmt með því að refsa Beau með því að læsa hann uppi á háalofti, fyrir það eitt að nefna hann og spyrja um hann. Það eru fyrstu merki um aðgerðir móður Beau að formfesta son sinn í ödipusarduld, með þeirri hugmynd að Beau sé að keppa við föður sinn sem andstæðing að eignast sig.

Í framhaldi uppeldisins gerir móðir Beau honum ljóst fyrir að hann geti ekki átt sér þann kost fyrir hendi að stunda kynlíf með nokkurri konu þar sem dauðdagi föður hans, og afa hans var að fá fullnægingu í kynlífi, og því muni sagan enda eins ef hann gerði það sama. Með þessari óttastjórnun er móðir hans að setja syni sínum þær skorður að geta ágirnst nokkra aðra konu, og í leiðinni ýtir hún undir það að hann muni þurfa að beina kynlöngun að sér sjálfri þar sem ekkert annað stendur til boða. Þannig kemur hún syni sínum enn betur fyrir í sinni formfestu á honum í ödipusarduldinni.

Í allri uppbyggingu uppeldisins hagar hún háttum þannig að Beau komi út sem ósjálfstæður, undirgefinn og fjarri því að vera fullorðinn einstaklingur. Að því sögðu fær hann aldrei möguleikann á því að þroskast á eðlilegan hátt og standast þau viðmið sem annars yrðu gert hjá einstaklingi sem fengi eðlilegt uppeldi. Það má því renna sterkum stoðum undir það að hans yfirsjálf hafi aldrei fengið tækifæri á að fullmótast, og er það ekki af ástæðulausu ef ætlun móður hans var sú að njörva hann niður í form ödipusarduldarinnar. Samkvæmt kenningunni er það að öðlast yfirsjálf lykilforsenda þess að sigrast á henni, og því er það uppeldissigur móður hans að hafa tekist að halda honum í þeim skefjum ef ætlunarverk hafi reynst það sem við teljum.

Þegar allt er tekið saman er myndin í heild því holdgervingur ödipusarduldarinnar þar sem móðir Beau ræktar hann inn í það form með sínum uppeldisháttum. Aftur á móti er niðurstaðan sú að allt gekk eins og skyldi hjá henni þangað til Beau snerist upp á móti henni. Það gerði hann með því að sofa í fyrsta skipti hjá, og átta sig á því að það hefði ekki alvarlegar afleiðingar í för með sér. Einnig kristallaðist það þegar hann kyrkti móður sína og sýndi þar svart á hvítu að henni hefði mistekist. Þessi misheppnaða tilraun er sett fram í byrjun myndar með komu Beau úr móðurkviði og skyldi engan undra að táknmynd þess að sigla aftur inn í móðurkvið með því að fara í gegnum ílangan helli væri sá staður sem Beau liti í síðasta skipti dagsins ljós.

Heimildaskrá

  1. Gosling, J. (1962). Mental causes and fear. Mind, 71(2), 289-306.

  2. Britannica, T. Editors of Encyclopaedia (2023, July 3). Oedipus complex. Encyclopedia Britannica. https://www.britannica.com/science/Oedipus-complex