Nemendur
Jóhanna Rós Jóhannesdóttir, Kristrún Guðnadóttir, Steinunn Eva Hauksdóttir og Þórhildur Rán Torfadóttir.
Nafn
FLOKKUN MYNDEFNIS
Hrollvekja, rómantík, drama, spenna, ráðgáta.
LEIKSTJÓRI, LAND OG ÁR
Brad Anderson, Bandaríkin, 2014.
HELSTU LEIKARAR
STIKLA
https://www.youtube.com/watch?v=rawTSQ1RKQ0
HVERS VEGNA?
Við völdum myndina vegna þess að okkur fannst lýsing myndarinnar grípandi. Myndin gerist á geðsjúkrahúsi á tímum þegar aðferðir við meðhöndlun geðsjúkra voru oft ómannúðlegar og byggðar á ranghugmyndum um geðheilbrigði. Einnig töldum við myndina sýna breytt svið geðsjúkdóma og okkur fannst áhugavert að sjá hversu ólík nálgunin er í samanburði við það sem við þekkjum í dag. Einnig fannst okkur áhugavert að myndin var lauslega byggð á sögu eftir Edgar Allan Poe sem eru þekktar fyrir að hafa sálfræðilega dýpt í þeim.
SÖGUÞRÁÐUR
Myndin gerist á Viktoríutímanum, árin 1899 til 1900, og fjallar um ungan læknanema að nafni Edward Newgate sem kemur til Stonehearst Asylum, einangraðs geðsjúkrahúss í Skotlandi. Hann ferðast þangað til þess að hefja starfsnám sitt sem „alientist“ eða sérfræðingur í geðlækningum. Fljótlega áttar Edward sig á að ekki er allt eins og það á að vera á spítalanum, aðferðir við meðhöndlun sjúklinga er óhefðbundin og starfsfólk Stonehearst hegða sér óvenjulega. Fyrstu nóttina heyrir Edward undarleg hljóð í gegnum pípur spítalans og ákveður að kanna málið. Í kjallaranum uppgötvar hann að fólkið sem hann taldi vera starfsfólkið eru í raun sjúklingar á spítalanum og að raunverulega starfsfólkið er læst í kjallaranum.
FJÓRAR SÁLFRÆÐILEGAR SPURNINGAR
SVAR VIÐ SPURNINGU 1 OG 2
1. Á hvaða hátt gæti reynsla Dr. Silas Lamb úr hernum stuðlað að einkennum áfallastreituröskunar (e. PTSD) og hvernig komu einkenni hans fram í myndinni?
Dr. Silas Lamb var læknir í hernum þar sem hann horfði upp á fólk deyja. Lamb var lagður inn á geðspítala eftir að hafa skotið eigin sjúklinga í stríðinu. Það mikla álag sem fylgdi því að reyna að bjarga og lækna hermennina og fólkið var yfirþyrmandi fyrir hann. Hann gafst upp á að lækna fólk og taldi það eina sem væri í stöðunni væri að taka líf sjúklinga sinna og sitt eigið líf. Einkenni áfallastreituröskunar sem komu fram voru m.a. endurupplifanir af stríðinu og atvikinu, hann forðaðist að hugsa um áfallið og átti í erfiðleikum með tilfinningastjórn. Í stuttu máli virðist stríðsreynsla Dr. Lamb hafa stuðlað að PTSD-einkennum sem birtast í ómannúðlegum aðferðum hans, tilfinningalegri deyfingu og tortryggni gagnvart öðrum. Þessi einkenni móta gjörðir hans í hælinu og valda því að hann tekur upp ofbeldisfulla stjórn þar sem lækning og grimmd renna saman á ósiðferðilegan hátt.
2. Hvaða skilaboð sendir myndin um vald í geðlækningum, og hvernig skiptir kyn og valdaskipting á geðspítalanum máli í tengslum við hvernig meðferð persónurnar fá og hvernig þær upplifa sig?
Myndin sýnir skýrt valdið sem geðlæknarnir höfðu yfir sjúklingunum á spítalanum. Karlmenn gegndu læknastörfum og konur hjúkrunarstörfum og karlmennirnir höfðu fullt vald yfir lífi og meðferð sjúklinganna. Kyn og samfélagslegt vald leika stórt hlutverk í því hvernig sjúklingarnir, og þá sérstaklega kvenpersónur eins og Eliza Graves, upplifa sig innan veggja hælisins en konurnar höfðu ekkert vald né sjálfræði. Læknarnir litu niður á sjúklingana og meðhöndluðu veikindin þeirra með líkamlegum aðferðum, eins og með ísbaði og að binda þá niður. Sjúklingarnir fengu ekki virðingu né mannúðlega meðferð. Dr. Salt talaði um að brjóta Silas niður sem hluta af meðferð hans. Silas átti auðvelt með að fá sjúklingana á sitt band, hann sýndi samúð og skilning í þeirra garð og með því tókst honum að taka yfir spítalann. Í heildina sýnir Stonehearst Asylum hvernig vald í geðlækningum getur verið hættulegt þegar það er óáreitt og þegar það er notað til að kúga frekar en að hjálpa. Með því að beita valdi á sjúklinga, oft út frá kyni þeirra og samfélagslegum viðmiðum, tekst myndinni að sýna að geðlæknisfræði getur orðið stjórntæki sem stuðlar að misrétti fremur en bata.
SVAR VIÐ SPURNINGU 3 OG 4
3. Á hvaða hátt gæti lýsing myndarinnar á geðrænum kvillum og „meðferðaraðferðum“ endurspeglað fordóma 19. aldar og hvernig móta þessir fordómar gjörðir og ákvarðanir persónanna?
Lýsing myndarinnar á geðrænum kvillum og meðferðaraðferðum endurspeglar sterka fordóma og ranghugmyndir sem voru ríkjandi á 19. öld og mótar þannig viðhorf og ákvarðanir persónanna á margvíslegan hátt. Á þessum tíma voru geðsjúkdómar oft álitnir veikleikar eða siðferðisbrestir fremur en raunveruleg heilsufarsvandamál og fólk með geðræna kvilla var iðulega útskúfað og meðhöndlað með mikilli hörku, enda oft taldir hættulegir einstaklingar eða ógn við samfélagið. Þetta kemur fram í myndinni þar sem ýmsar meðferðaraðferðir eru bæði grimmdarlegar og ómannúðlegar, einkum af hálfu Dr. Silas Lamb, sem er óhefðbundinn og harðneskjulegur í aðferðum sínum. Þeir geðsjúkdómar sem koma fram í myndinni eru meðal annars taugaveiklun, ólæknandi samkynhneigð, flogaveiki, þunglyndi og móðursýki. Einstaklingar sem þjáðust af geðsjúkdómum voru lokaðir inni á geðhælum og einangraðir frá samfélaginu. Þar var gripið til ómannúðlegra meðferða sem áttu að stjórna hegðun sjúklingana frekar en að veita þeim raunverulega aðstoð eða meðferð.
Í myndinni er sýnt hvernig meðferðaraðferðirnar voru notaðar og endurspeglar þessa afstöðu sem einkenndi fordóma gagnvart geðsjúkum. Meðferðirnar sem notaðar voru í myndinni voru meira pyntingar en meðferð, en þar var meðal annars notast við spennitreyjur, sjúklingar voru hlekkjaðir við veggi og spúlaðir með köldu vatni og voru einhverjir sjúklingar geðhælisins settir í „róandi stól“ samkvæmt aðferðum Benjamins Rush og átti að róa niður sjúklingana. Sjúklingarnir voru einnig bundnir við stóla, hellt yfir þá vatni og settir í snúningsstóla í þeim tilgangi að ná stjórn á þeim. Sjúklingar eins og Eliza Graves eru settir inn á hælið fyrir það eitt að sýna hegðun sem samræmist ekki samfélagslegum eða kynbundnum normum, og það að greina hana með „hysteríu“ undirstrikar hvernig kvensjúkdómar voru oft ranglega skilgreindir sem geðrænir kvillar. Þessi meðferð byggist því á bæði kynbundnum og samfélagslegum fordómum þess tíma. Allar þessar meðferðir sýna hvernig skortur á skilningi leiddi til ómannúðlegra aðferða sem gerðu lítið annað en að pynta sjúklinga hælisins.
Í gegnum myndina fáum við að sjá þrjú ólík sjónarhorn á meðferð geðsjúkdóma. Dr. Benjamin Salt heldur þeirri skoðun að best sé að finna það sem sjúklingurinn óttast mest til að ná stjórn á honum og beitir pyntingaraðferðum í samræmi við þann ótta. Dr. Silas Lamb trúir á óhefðbundnar og agalausar leiðir. Hann setur ekki takmarkanir og leyfir sjúklingunum að vera þeir sem þeir vilja vera. Hann hefur sterkar siðferðislegar skoðanir og ákveður að taka yfir hælið vegna grimmra aðferða fyrrum yfirlæknis. Þrátt fyrir óvenjulegar aðferðir þá virðist hann hafa hjálpað sumum sjúklingum. Dr. Edward Newgate sýnir mannúðlegri nálgun þar sem hann reynir að mæta sjúklingunum af virðingu og samkennd sem endurspeglar betri skilning á geðrænum kvillum.
Þessi þrjú viðhorf til meðferða sýna hvernig mismunandi hugmyndir um siðferði og læknisfræði móta aðstæður sjúklinga og undirstrika hversu ómannúðlegar geðlækningar voru á 19. öld. Myndin sýnir þessa fordóma vel og sérstaklega hvernig vanþekking og skortur á samkennd geta leitt til misnotkunar meðferða. Þrátt fyrir umhyggju Edwards þá er greinilegt að fordómarnir eiga sér rætur og hafa áhrif á alla ákvarðanatöku. Myndin sýnir vel hversu mikil áhrif þær ákvarðanir hafa á sjúklingana og læknana sjálfa.
4. Hvernig tengist barátta Elizu við „hysteríu“ nútíma skilningi á andlegri heilsu og hvað gæti persóna hennar sagt um samfélagslegar kröfur á hegðun kvenna, bæði í sögusviði myndarinnar og í dag?
Eliza er í hjónabandi með manni sem beitir hana miklu ofbeldi sem leiðir til þess að hún þróar með sér áfallastreituröskun og einkenni hennar sjást þegar karlmenn snerta hana, hún frýs í viðbrögðum, titrar og verður skelfilega hrædd. Með þessari hræðslu koma fram ósjálfráða viðbrögð af því að hræðslan er svo djúpstæð og jafnvel ofbeldisfull viðbrögð til þess að verja sig. Eliza slasaði eiginmann sinn alvarlega þegar hún varð fyrir ofbeldi hans, hún var í aðstæðum þar sem hún var að verja sig og ósjálfráða viðbrögðin tóku yfir. Vegna þessa atviks var Eliza sjálf merkt sem geðveik og var lögð inn á geðsjúkrahúsið frekar en að samfélagið sýndi skilning á aðstæðum hennar. Þetta endurspeglar bæði samfélagslega og læknisfræðilega viðhorfið á þeim tíma, þar sem konur sem brugðust við með sjálfsvörn gegn ofbeldi eða sýndu óhefðbundna hegðun voru oft greindar með einhvers konar geðræn frávik og lokaðar inni fremur en að fá réttlæti eða meðferð fyrir áföllin sín.
Barátta Elizu við það sem var kallað hystería endurspeglar hvernig geðrænir kvillar kvenna hafa oft verið rangtúlkaðir, vanmetnir eða notaðir til að réttlæta bælingu og kúgun. Á Viktoríutímanum var hystería algeng greining á hegðun kvenna sem fóru á móti við samfélagslegar væntingar og var hún oft notuð til að réttlæta innilokun þeirra eða skelfilegu meðferðina sem þeim var beitt til að gera þær að samfélagslega viðeigandi konum. Konur sem sýndu einkenni andlegra erfiðleika voru oft merktar hysterískar vegna þess að sjúkdómurinn var talinn tengjast óstöðugleika í kvenlegum eiginleikum. Þau einkenni sem þær sýndu voru kannski viðbrögð við áföllum, ofbeldi eða breytingar á andlegum líða vegna álags sem fylgdi daglegu lífi á þessum tíma. Í nútímasamhengi eru þær konur eins og Eliza táknmynd fyrir hvernig skilningur á andlegri heilsu hefur þróast. Það sem áður var talið eðlilegt álag eða fyrir fram ákveðið hlutverk er ekki eitthvað sem gengur upp í dag. Ofbeldi inn á heimilum og eignarhald gagnvart konum er í dag skilgreint sem heimilisofbeldi og samfélagið lítur niður á það. Ef kona glímir við áfallastreituröskun, kvíða, þunglyndi eða einhverja aðra andlega kvilla getur hún leitast eftir meðferð og henni er mætt með stuðningi og samkennd en ekki einangrun eða fordæmingu. Það sem var einu sinni kallað hystería er nú betur skilgreint sem réttmæt viðbrögð við raunverulegum aðstæðum, svo sem heimilisofbeldi eða áföllum.
Samfélagslegu kröfurnar sem settar voru á þessum tíma á konur eiga enn þá við um konur í dag að mörgu leiti, Eliza er dæmd fyrir að verja sig gegn eiginmanninum sínum og fær þá yfir sig skömm og sektarkennd frá samfélaginu því hún sýnir ekki undirgefni, hún fer á móti kynhlutverkum. Þetta viðhorf er enn þá til staðar í dag í öðrum birtingarmyndum. Konur mæta þessum sömu gömlu fordómum frá samfélaginu en í nýjum búning. Þegar það er brot á kynhlutverkum, sjálfsvörn í ofbeldissamböndum eða kynferðisofbeldi sem kemst í fréttirnar er ekki óalgengt að sjá í kommenta-kerfunum mikla neikvæðni og skömm frá fólki beint að konunum sem sögðu frá en ekki manninum. Jafnvel þegar fólk í samfélaginu talar sín á milli setur það skömmina yfir á konurnar, af hverju var hún með svona manni, hún hefði átt að vita betur eða ég þekki til fjölskyldunnar og þessi strákur myndi aldrei gera neitt svona. Svo er líka þegar konur upplifa að þær þurfa að fara í hlutverk og sýna ákveðna hlýju og samheldni, jafnvel á eigin kostnað til að halda öllum góðum og ánægðum af því samfélagið setur þessa pressu á þær að koma vel fyrir.
Hvert samfélagið er komið í dag gagnvart frelsi og andlegri heilsu kvenna er auðvitað töluvert betra en það sem Eliza og konur á þessum tíma þurftu að ganga í gegnum en það er enn þá margt sem þarf að berjast fyrir að verði betra, vinna að því sem ein heild að konur og aðrir einstaklingar hafi frelsið og öryggið til að segja frá sínu, leita réttar og koma skömminni yfir á rétta aðila þegar það kemur að ofbeldismálum.
Myndbútur fyrir kynningu
https://youtu.be/OkThdJyDGKE?si=ndtBmC0DaAPh4Yht
Heimildir
Anderson, B. (Leikstjóri). (2014). Stonehearst Asylum [Kvikmynd]. Icon Productions; Sobini Films.
Goodwin, C. J. (e.d.). A History of Modern Psychology (6. útg.). Wiley.