Run

Nemendur

Amíra Sól Jóhannsdóttir, Rakel Jóna B. Davíðsdóttir og Sæunn Ýr Marinósdóttir.

FLOKKUN

Spennu- og sálfræðitryllir.

LEIKSTJÓRI, LAND OG ÁR

Aneesh Chaganty, Washington, Bandaríkin, 1991.

LEIKARAR

Móðirin/Diane leikin af Sarah Paulson, Dóttirin/Chloe leikin af Kiera Allen.

STIKLA

Heimild: https://www.youtube.com/watch?v=EoGojQE4p-8

HVERS VEGNA?

Kvikmyndin Run varð fyrir valinu þar sem hún tekur fyrir heilkennið Munchausen by proxy og er lítil umfjöllum um heilkennið í samfélaginu. Algengi heilkennisins er mjög lágt hér á landi en er mun tíðar í öðrum löndum svo sem í Bandaríkjunum þar sem er til sér teymi sem tekur á þessum vanda og kallast: The American Professional Society on the Abuse of Children’s Munchausen by Proxy Committee. Kvikmyndin nær vel utan um hversu sterk þráhyggja foreldra getur verið í garð barna sinna og hvernig gaslýsingar, lygar og einangrun geta haft áhrif á lýðheilsu barna. Því fannst okkur mjög athyglisvert að velja þessa mynd og velta fyrir okkur spurningum eins og hvernig getur foreldri eitrað fyrir sínu eigin barni, þar sem maður myndi halda að alvarleg veikindi barna væri versta martröð foreldra. Hvers vegna eiga foreldrar erfitt með að sjá börnin sín fljúga úr hreiðrinu? Vildi móðirin ekki sjá hana fara í drauma skóla sinn, kynnast nýju fólki, eignast maka og börn? Hvert var lokamarkmið hennar, ætlaði hún að halda dóttir sinni fanginni allt hennar líf? Einnig greip það athygli okkar að leikkonan Sarah Paulson hlaut verðlaun fyrir Worst Screen Mom of the Year Award árið 2021 sem við ákváðum að skoða nánar við val á kvikmynd fyrir verkefnið.

SÖGUÞRÁÐUR

Run er spennuþrungin kvikmynd frá árinu 2020 sem fjallar um unglingsstúlkuna Chloe sem hefur eytt mest megnis af lífi sínu í hjólastól vegna ýmissa heilsufarsvandamála, þar á meðal lömun, sykursýki, astma, hjartsláttartruflanir og aðra sjúkdóma. Móðir hennar, Diane kennir henni heima við og eiga þær í mjög nánu sambandi. Mæðgurnar búa í litlum bæ í Washington, þar sem móðir hennar aðstoðar Chloe við daglega athafnir. Eftir því sem Chloe eldist verður hún í kjölfarið sjálfstæðari og reiðir sig þar af leiðandi ekki jafn mikið á móður sína. Þegar líður á myndina fer Chloe að gruna að móðir hennar hafi ýmis leyndarmál að geyma og sé ekki endilega með hagsmuni hennar að leiðarljósi. Í kjölfarið byrjar Chloe að afhjúpa sannleikann varðandi fortíð sína sem og gjörðir og áætlanir móður sinnar í garð hennar sem leiðir til röð spennuþrunginna og ákafra atburða þar sem Chloe reynir að komast undan stjórn móður sinnar.

FJÓRAR SÁLFRÆÐILEGAR SPURNINGAR

tvær styttri spurningar

1. Hvert var markmið Diane með dóttur sína?

Diane lifði í sínum eigin draumaheim þar sem hún var búin að sannfæra sjálfa sig um að hún væri móðir Chloe og að hún hafi í raun bjargað henni frá blóðforeldrum hennar. Diane taldi því að hún þyrfti á dóttir sinni að halda og að Chloe þyrfti einnig á henni að halda. Diane gæti ekki lifað af án dóttur hennar en sannfærði fólk um að hún væri ánægð fyrir hönd Chloe og að hún væri að fara fljúga úr hreiðrinu, en innst inni vissi hún að hún væri ekki tilbúin að sleppa takinu. Diane þurfti því að útfæra áætlun sem snérist um það að Chloe myndi þurfa að reiða á hana að eilífu. Chloe var orðin 17 ára á þessum tíma og það fór að styttast í að hún yrði sjálfráða. Lygarnar og gaslýsingarnar sem Diane beitti voru ekki nógu árangursríkar og hún hafði í kjölfarið ekki jafn mikla stjórn á Chloe og áður þar sem að hún byrjaði að efast um gjörðir móður sinnar. Chloe átti sér stóra drauma, en hún var afskaplega klár stúlka og þurfti fljótlega að flytja að heiman til að elta drauma sína. Diane reyndi að koma í veg fyrir það með því að fela staðfestingarbréfið frá háskólanum í Washington sem Chloe hafði  sótt um. Diane hefði því líklegast þurft að finna leið til að svipta henni sjálfræði þegar hún yrði 18 ára sem er vandasamt ferli eða gefa henni fleiri lyf til að veikja hana enn frekar. Þegar Chloe misbauð Diane eins og við sáum í lok myndarinnar eftir að Chloe tilkynnti póstsendlinum um ofbeldið, ætlaði Diane að sprauta dóttir sína með heimagerðu lyfi sem veldur eyðingu taugafrumna.

2. Hvernig breyttist upplifun Chloe á móður sinni eftir að hún komst að sannleikanum?

Flest börn líta skilyrðislaust upp til foreldra sinna og telja þá vera sín helsta fyrirmynd, sérstaklega á fyrstu árunum, en því miður ekki allir. Eftir að Chloe finnur lyfjaglas uppáskrifað fyrir móður sína sem hún kannaðist ekki við í innkaupapoka grunar hana að Diane sé að byrja á einhverjum nýjum lyfjum. Sama kvöld gefur Diane dóttur sinni þessi sömu lyf og Chloe spyr hana þá hvort þetta séu ekki hennar lyf, en þá snýr Diane út úr og segir að kvittunin hafi verið límd á lyfjaglasið. Chloe er ekki sannfærð og hún fer þá næsta morgunn að leita að lyfjaglasinu og sér að móðir hennar hafði sett nýjan límmiða á glasið ávísaður Chloe. Það kveikna enn meiri spurningar hjá Chloe sem verður til þess að hún fer að sjá móðir sína í öðru ljósi og versta er að Diane tekur einnig eftir því. Sama kvöld þykist Chloe fara að sofa en laumast svo niður í borðtölvuna til þess að leita af nýja lyfinu trioxide sem móðir hennar gaf henni. Diane hafði þá slökkt á netinu og situr í myrkrinu, innst á löngum ganginum en Chloe tekur ekki eftir henni, en þá hafði mamma hennar slökkt á nettengingunni. Chloe reynir því aðrar leiðir til þess að komast að því hvers konar lyf þetta er. Hún fær Diane með sér í bíó þar sem hún segist ætla á salernið en laumast í apótek, staðsett hinum megin við götuna. Í kjölfarið kemst hún að því að þetta sé róandi lyf fyrir dýr eftir aðgerðir og spyr lyfsalann hvað myndi gerast ef manneskja tæki þetta lyf og svarið var lömun. Chloe fer að leggja saman tvo og tvo, upplifir mikla geðshræringu og hræðslu þegar hún kemst að því að móðir hennar er beinlínis að eitra fyrir henni og fær kvíðakast.

tvær stærri spurningar

1. Hvaða geðheilbrigðisvandamál má sjá í persónunum Diane og Chloe?

Persónan Diane Sherman sem leikin er af Sarah Paulson sýnir þó nokkur merki um geðheilbrigðisvandamál. Augljósasti geðræni vandinn sem Diane glímir við er Munchausen heilkenni staðgengils en það er geðsjúkdómur samkvæmt ICD-10 og DSM-5, þar sem umönnunaraðili býr til eða framkallar veikindi hjá aðila sem hann/hún hugsar um, oftast barni sínu. Sjúkdómurinn er algengari meðal kvenna og eru greiningarviðmiðin út frá konum (Criddle, 2010). Þessir aðilar eru duglegir að leita hjálpar en skipta oft um lækna svo það komist ekki upp um lygar þeirra. Talið er að þessum einstaklingum líki athyglin og sú vorkunn og samkennd sem þau fá vegna veikinda barna þeirra, eins og sést hjá Diane. Við teljum að Diane hafi gert Chloe viljandi veika þótt hún hafi líklegast ekki séð neitt athugavert við það. Í lok myndarinnar fáum við að sjá að Diane ætlar sér að gera dóttur sína enn veikari þar sem Chloe er búin að uppgötva það að móðir hennar hafi verið að gera hana veika en hún sést leita að household neurotoxins á internetinu. Með þessum upplýsingum ályktum við svo að Diane veit nákvæmlega hvað hún er að gera, og þjáist af Munchausen by proxy heilkenninu. Það er hægt að velta því fyrir sér hvort áfallið sem hún varð fyrir vegna andláti nýbura hennar hafi leitt hana í einhverskonar geðrof og að það hafi orðið til þess að hún rænir öðru heilbrigðu barni á spítalanum og gerir það veikt, mögulega vegna mikillar afneitunar og til þess að líkja við barnið hennar sem lést. Chloe finnur mynd af sér frá eins árs afmælisdegi sínum þar sem hún sést gangandi eða hlaupandi. Diane er óhóflega verndandi gagnvart dóttur sinni Chloe að því marki að hún er mjög stjórnandi og yfirþyrmandi. Það að hún sé svona gríðarlega ofverndandi getur gefið til kynna að hún sé haldin áráttu um að stjórna umhverfi sínu. Diane gaslýsir og lýgur stöðugt að Chloe til þess að hafa enn meiri stjórn á lífi hennar. Ásamt því einangrar hún dóttur sína verulega þar sem hún kenndi henni heima við og takmarkaði félagsleg samskipti en þetta er einnig dæmi um geðræn vandamál þar sem þetta getur verið vegna ótta við umheiminn eða þörf fyrir mikilli stjórn. Að lokum má nefna þann skort á samkennd sem Diane sýnir gagnvart dóttur sinni hvað varðar andlega líðan hennar, en skortur á samkennd getur verið merki um einhverskonar persónuleikaröskun.

Persónan Chloe Sherman, leikin af Kiera Allen sýnir einnig merki um geðræn vandamál. Uppeldið og umhverfi hennar á líklegast mestan hlut í þeim vandamálum, þá sérstaklega svikin og gaslýsingin sem hún upplifði frá móður sinni fram á 17 ára aldur. Chloe er mjög einangruð frá umheiminum þar sem móðir hennar kennir henni heima við og er þar af leiðandi í mjög takmörkuðum félagslegum samskiptum við annað fólk sem getur leitt til þunglyndis og félagskvíða. Einnig glímir hún við mörg líkamleg heilsufarsvandamál vegna ýmis athafna móður sinnar sem er mjög andlega erfitt og leiðir til mikillar streitu og kvíða hjá Chloe. Þar sem Chloe hefur allt sitt líf verið gríðarlega háð móður sinni og treystir algjörlega á hana hvað varðar daglegar athafnir er hún með lélega sjálfsmynd þar sem hún telur sig vera mjög ósjálfstæða. Líkt og við sjáum í myndinni upplifir Chloe mikinn ótta, kvíða og vænisýki vegna krefjandi aðstæða hennar sem getur leitt til kvíðaraskanna og áfallastreituröskunar (PTSD).

2. Hverjir eru líklegastir til þess að þróa með sér Munchausen by proxy heilkennið?

Að greina Munchausen by proxy getur reynst mjög erfitt vegna óheiðarleikans sem fylgir heilkenninu. Heilbrigðisstarfsmenn verða fyrst að útiloka líkamlega sjúkdóma og orsakir þeirra sem einkenna oftast barnið. Læknar notast við margvísleg greiningarpróf og aðferðir áður en þeir byrja að íhuga greiningu á fullorðnum umönnunaraðila. Erfitt getur verið að greina Munchausen by proxy því algengt er að þessir aðilar skipta oft um sjúkrahús og flytji jafnvel milli fylkja (í Bandaríkjunum) eða á milli landa. Ef læknisfræðilegar ástæður finnast ekki fyrir líkamlegum veikindum og læknum fer að gruna að allt sé ekki með felldu er sjúkrasaga barnsins endurskoðuð og jafnvel sjúkrasaga umönnunaraðila líka. Það er fullorðin eða umönnunaraðilinn sem er greindur með Munchausen by proxy en ekki barnið, sem er fórnarlamb í aðstæðum sem þessum.

Andlegir og líffræðilegir þættir eru taldir vera helstu þættirnir sem eiga hlut í að fólk þróar með sér heilkennið. Ásamt því getur ofbeldi, vanræksla eða foreldramissir í æsku verið áhættuþættir. Einnig hafa verið skoðuð áhrif áfalla sem geta ýtt undir að fólk fær einkenni Munchausen by proxy heilkennisins (Cleveland Clinic 2021). Það að Diane hafi misst nýfædda barnið sitt aðeins tveimur klukkustundum eftir fæðingu þess gæti verið hugsanleg orsök þess að hún hafi þróað með sér Munchausen by proxy. Það að missa barn hefur varanleg og alvarleg áhrif á geðheilsu hvers sem lendir í því, mögulegt er að hún hafi farið í afneitun að barnið sitt hefði dáið og rænt Chloe til að fylla í rótgróna sárið sem myndaðist þegar barnið sem hún fæddi sjálf lést.

Munchausen by proxy hefur verið tengt við aðrar geðraskanir sem geta aukið líkur á að fólk þrói með sér heilkennið. Einstaklingar með jaðarpersónuleikaröskun eiga það til að sýna hvatvísa hegðun, tilfinningar þeirra eru grunnar og sveiflast hratt í báðar áttir og eiga þar af leiðandi í óstöðugum samböndum við aðra og þeirra helsti ótti er að fólk yfirgefur það. Orsakir jaðarpersónuleikaröskunnar eru samspil erfða og umhverfisáhrifa, þar með talið reynsla í æsku. Lágt sjálfsmat getur einnig haft áhrif á það að einstaklingar leitast eftir staðfestingu og samúð með að búa til veikindi og meiðsli. Einnig getur aukin einmanaleiki og mikil einangrun knúið einstaklinga að leitast eftir félagsskap og umönnun (Koru 2023).

Meðhöndlun á Munchausen by proxy felur í sér aðgerðir sem taka bæði undir gerandann og fórnalambið. Þegar það er búið að greina vandann er mikilvægt að fórnalambið sé fjarlægt úr umsjá gerandans af barnaverndarnefnd. Mikilvægt er að fórnarlambið fær þá læknis-og sálfræðiaðstoð sem það þarfnast til að leiðrétta þann skaða sem það hlaut við ofbeldið. Meðferð gerandans getur verið fólkin sérstaklega þegar hann er ennþá í afneitun en til þess að ná árangri í meðferð er mikilvægt að gerandinn fyrst og fremst viðurkennir vandamálið sitt. Þeir sem eru sakaðir um ofbeldi gegn börnun geta átt von á fangelsisdóm og munu eiga í erfiðleikum að endurheimta forsjá barnsins (George Krucik og Ann Pietrangelo 2017).

Heimildaskrá

  1. Cleveland Clinic. (2021, 18. október). Factitious Disorder Imposed on Another (FDIA). https://my.clevelandclinic.org/health/diseases/9834-factitious-disorder-imposed-on-another-fdia

  2. Criddle, L. (2010). Monsters in the Closet: Munchausen Syndrome by Proxy. Critical Care Nurse, 30(6), 46–55.https://doi.org/10.4037/ccn2010737

  3. George Krucik og Ann Pietrangelo. (2017, 9. júlí). Munchausen Syndrome by Proxy. Healthline. https://www.healthline.com/health/munchausen-syndrome-by-proxy#treatments

  4. Koru (2023, 8. september). What is Munchausen Syndrome? What Causes It? https://www.koruhastanesi.com/what-is-munchausen-syndrome-what-causes-it-3912-5

  5. Sousa, D. de, Kanomata, E. Y., Feldman, R. J. og Maluf, A. (2017). Munchausen syndrome and Munchausen syndrome by proxy: a narrative review. Einstein (São Paulo), 15, 516–521. https://doi.org/10.1590/S1679-45082017MD3746

Myndbútur fyrir kynningu kjallara sena