Nemendur
Ísabel Dóra Birgisdóttir Johnsen, Kristófer Orri Svavarsson, Sveinn Gabríel Bjarnason og Valdís Ósk Gunngeirsdóttir.
Flokkun myndefnis
Spenna og drama.
Leikstjóri, land og ár
Leikstjóri myndarinnar er Gavin O´Connor. Ásamt The Accountant hefur hann til dæmis leikstýrt kvikmyndunum Warrior og Pride and Glory. Einnig hefur hann leikstýrt ýmsum þáttaröðum auk þess að vera framleiðandi enn fleiri kvikmynda og þáttaraða. Kvikmyndin The Accountant var frumsýnd í Bandaríkjunum þann 14. október 2016. Höfundur kvikmyndarinnar er Bill Dubuque.
Helstu leikarar
Stikla
Heimild: https://www.youtube.com/watch?v=DBfsgcswlYQ
Hvers vegna þetta myndefni?
Margar myndir komu til greina og vorum við opin fyrir öllum gerðum mynda. Við skoðuðum dóma á þeim myndum sem komu okkur helst til greina ásamt því að skoða hvaða leikarar voru í aðalhlutverkum og lesa stuttar lýsingar á kvikmyndunum. Eftir að hafa skoðað helstu upplýsingar myndanna sem við vorum að velja á milli ákváðum við að The Accountant yrði fyrir valinu þar sem að hún fékk góða dóma og lýsingin hljómaði mjög áhugaverð. Einnig spilaði auðvitað stóran þátt í ákvörðun okkar að goðsagnir kvikmyndaheimsins, svo sem Ben Affleck og J. K. Simmons voru meðal aðalleikara myndarinnar.
Stærsta ástæða vals okkar er þó sú að vildum skoða einhverfuna sem fjallað er um í myndinni og sambönd einhverfa einstaklingsins við fólk í hans lífi. Skoðum við líka þráhyggju- og áráttu eiginleika aðalpersónunnar, ásamt einangrun hans og einmannaleika sem hann býr við.
Söguþráður
Sagan fylgir einhverfum endurskoðenda sem er tengdur undirheiminum. Hann lendir í klandri þegar kemst upp um peningasvindl vondu karlanna sem hann átti stóran þátt í að skipuleggja.
Christian Wolff rekur litla bókhaldsskrifstofu í Plainfield, Illinois-fylki í Bandaríkjunum sem virðist sakleysisleg við fyrstu sýn. Hennar raunverulegi tilgangur er þó að hylja yfir glæpsamlega starfsemi á borð við peningaþvætti. Christian er oftast óþarflega hreinskilinn, óþýður og hastur í viðræðum sínum við aðra. Þetta gerir hann ekki af ásettu ráði en Christian er hrjáður einhverfu sem gerir honum m.a. erfitt fyrir í félagslegum samskiptum.
Allt gengur sinn vanagang þar til Christian er fenginn til að endurskoða reikninga stórs bæklunarfyrirtækis: Living Robotics. Þar uppgötvar Christian ásamt Dana Cummings, aðstoðarkonu hans, umfangsmikinn fjárdrátt í bókhaldi fyrirtækisins. Sökudólgarnir vilja helst setja þau bæði undir grænni torfu og hefjast því í kjölfarið átök upp á líf og dauða.
Samhliða þessum atburðum kemst rannsakandi á spor Christian. Með fáar leiðir færar verður Christian að velja milli þess að hjálpa Cummings eða sjálfum sér.
FJÓRAR SÁLFRÆÐILEGAR SPURNINGAR
Tvær styttri spurningar
Spurning 1 - Hvernig skoðar myndin siðferðilega tvíræðni gjörða hans Christian?
Christian er glæpamaður, hann aðstoðar glæpamenn við að meðhöndla fé og fremur sjálfur morð án nokkurra erfiðleika. Á mörgum tímapunktum í myndinni fremur Christian morð, ýmist vegna þess að aðilarnir eru sjálfir að reyna að gera honum eða öðrum mein. Það er þannig sem við getum skoðað þessa tvíræðni, því að Christian er, með gjörðum sínum, að bjarga lífi sínu eða annarra með því að drepa aðra. Einnig notar hann aur sem hann eignast við ólögleg athæfi til að styrkja félög tengd einhverfu. Christian drepur til að lifa, aðstoðar bófa til að aðstoða einhverfa.
Spurning 2 - Að hvaða leyti hefur einhverfa Christians haft áhrif á uppeldi hans og hæfileika? Væri “neuro-typical” einstaklingur í sömu stöðu, betur eða verr settur?
Einhverfa Christians hafði áhrif á uppeldi hans þar sem að pabbi hans þurfti að finna leiðir til að hann gæti lifað „venjulegu“ lífi. Leiðirnar sem pabbi hans tók til að hjálpa honum með einhverfuna voru strangar en taldi pabbi hans að það væri eina leiðin til að hann myndi þrífast í samfélaginu með einhverfu. Faðir hans lét hann fara yfir gamalt ljóð um Solomon Grundy: Born on a Monday, Christened on Tuesday, Married on Wednesday, Took ill on Thursday, Grew worse on Friday, Died on Saturday, Buried on Sunday, that was the end of Solomon Grundy.
Hægt væri að segja að Christian væri góður í ákveðnum hlutum vegna einhverfu hans. Eins og fram kom í myndinni var hann góður í reikningi og leit það út fyrir að einhverfan hjálpaði honum að einbeita sér að hlutverkinu. Sama væri hægt að segja með hversu nákvæmur hann var þegar kom að því að vera leigumorðingi.
Einhverfir eiga það til að sýna tilfinningar öðruvísi en fólk sem ekki er með einhverfu. Einstaklingur sem ekki er með einhverfu myndi örugglega ekki koma eins út úr þessu uppeldi sem Christian fékk. Einstaklingurinn myndi líklegast enda í verri kantinum með andlega heilsu sína.
Við teljum því að einstaklingur sem væri neurotypical væri verr settur í þessum aðstæðum sem Christian ólst upp við, þar sem einstaklingurinn myndi enda harðlyndur og ekki kunna að tjá tilfinningar sínar eða hafa stjórn á skapi sínu. Hægt væri að taka dæmi um hvernig bróðir hans Christian endaði eftir að hafa alist upp í sama umhverfi og með sömu aðferðum. Bróðir hans endaði með mörg vandamál og endaði sjálfur líka sem leigumorðingi og hafði litla sem enga samúð með fólki.
Tvær stærri sálfræðilegar spurningar
Spurning 1 - Christian Wolff notast við ýmsar aðferðir til að takast á við yfirþyrmandi áreiti. Hvernig geta þessar aðferðir, eins og útsetning fyrir björtu ljósi og háværu hljóði haft jákvæð áhrif á einhverfuna?
Myndin gefur til kynna að æska Christian hafi ekki verið auðveld. Hann var vinafár og honum strítt í skóla. Ekki bætti úr skák þegar móðir hans ákvað að yfirgefa fjölskylduna. Faðir Christian gafst þó ekki upp, heldur var staðráðinn í því að gera son sinn hæfan til þess að taka sjálfur á vandamálum sínum með því að gera hann að bardagamanni. Honum tókst til verka en var skotinn til bana í jarðarför fyrrverandi eiginkonu sinnar. Christian gleymdi þó aldrei lexíum föður síns og beitir ýmsum aðferðum til að fást við vandamál sín. Christian vinnur á einhverfu sinni með því að viljandi áreita sjálfan sig með því sem hann er næmur fyrir, líkt og björtu ljósi og háværu hljóði. Á hverjum degi 20 mínútur í senn lokar hann sig inni í svefnherbergi og setur háværa tónlist og flöktandi ljós í gang. Þar að auki strýkur hann kökukefli við sköflung sinn til frekari áreitis.
Margt er í líkingu við aðferð Christian og útsetningarmeðferða (e. exposure therapy) á sviði sálfræðinnar. Markmið útsetningarmeðferða er að draga úr ótta og kvíða með sjálfviljugri útsetningu einstaklingsins fyrir því sem orsakar kvíðann og óttann. Hjálpsemi útsetningarmeðferða ber einna helst á sér þegar verið er að fást við fóbíur eða áfallastreituröskun (e. PTSD). Sjúkdómseinkenni þeirra sem þjást af slíkum röskunum eru leifar og minningartákn tiltekinna atvika sem hafa valdið sálrænum áföllum. T.a.m. er fælni fyrir lyftum tiltölulega algeng. Til að læknast af fælninni er skjólstæðingurinn fenginn af fúsum og frjálsum vilja til að nálgast lyftuna. Næst er hann aftur fenginn til að nálgast lyftuna en í þetta skiptið fer hann aðeins nær en síðast. Eftir nokkrar umferðir (eða margar) getur skjólstæðingurinn staðið inni í lyftunni án þess að finna fyrir yfirþyrmandi hræðslu. Að lokum öðlast hann öryggi í kringum lyftur og þá er fælnin farin.
Rétt eins og útsetningaraðferðin getur hjálpað til við að fást við fælni, getur hún hjálpað Christian við að eiga við kvíðann og næmnina sem stafar af einhverfunni. Christian sjálfviljugur áreitir sig af því sem honum þykir óþægilegt og öðlast þol. Sum einkennin meira að segja hverfa, líkt og tilhneiging Christian í æsku til að rugga sér fram og til baka.
Ólíkt fælni og áfallastreituröskun hins vegar, er einhverfa meðfædd og því getur útsetningaraðferðin ekki lagað flest einkennin, sérstaklega þau sem tengjast félagslegum samskiptum.
Spurning 2 - Er einhverfu rétt lýst í þessari mynd? Er hann dæmigerður einstaklingur með einhverfu?
Eins og áður var tekið fram er Christian einhverfur. Einkenni einhverfu eru mjög misjöfn eftir einstaklingum. Þau eru einnig mis alvarleg en oft hafa einkennin mikil áhrif á líf manneskjunnar og gerir þeim oft daglegt líf erfiðara (CDC, 2022). Einkennin geta til dæmis lýst sér á eftirfarandi hátt; einstaklingurinn forðast eða heldur ekki augnsambandi, endurtekur orð eða orðasambönd aftur og aftur (kallað echolalia), fer í uppnám við smávægilegar breytingar og verður að fylgja ákveðnum venjum.
Einkenni Christian voru til dæmis þau að hann hafði venjur sem hann fylgdi daglega, hann skorti félagslega færni og átti í erfiðleikum með að sýna tilfinningar sínar með svipbrigðum. Hann var næmur fyrir ljósi og hljóði og vann á kvíða sínum með því að áreita sjálfan sig með kökukefli.
Því er haldið fram að hann sé dæmigerður einstaklingur með einhverfu er í raun og veru setning sem ekki er hægt að fullyrða þar sem að einkenni einstaklinga með einhverfu eru svo mismunandi, enginn einhverfur einstaklingur er nákvæmlega eins (Pagán, 2022). En þó er auðvitað hægt að segja að hann hefur einkenni á einhverfuskalanum og eru einkenni hans það sem oftar en ekki myndi falla undir staðalímynd á fólki með einhverfu.
Það sem að okkur fannst athyglisvert við framsetningu höfundar á einhverfu Christian var að hann var gerður frekar tilfinningalítill og eins og hann hefði ekki samkennd og samúð. Þetta er mjög algeng staðalímynd á fólki með einhverfu og hlaut myndin nokkra gagnrýni fyrir þetta. Í raun hefur einhverft fólk alveg jafn miklar tilfinningar, samúð og samkennd og við, eini munurinn er að stundum eiga einhverfir erfiðara með að sýna það. Það er vert að taka fram að þeir einstaklingar sem eiga erfitt með að skilja tilfinningar eru oftast með greiningu sem kallast alexithymia og í 50% tilfella einhverfu hafa einstaklingarnir einnig alexithymia. Því eru oft einkenni þess tengd við einhverfu, þegar í raun eru þetta tvær ólíkar greiningar (Brewer og Murphy, 2016).
Þannig er því ekki hægt að segja að Christian sé dæmigerður einstaklingur með einhverfu þar sem að tilfelli hvers og eins einhverfs einstaklings eru misjöfn en þó vissulega hefur hann mörg algeng einkenni einhverfu. Á sama tíma má þó setja út á hvernig myndin sýnir sum einkenni hans sem eiga að benda til einhverfu hans sem eru í raun ekki einkenni einhverfu.
Myndband til umræðu
Heimildaskrá
Brewer, R. og Murphy, J. (2016, 13. júlí). People with Autism Can Read Emotions, Feel Empathy. Scientific American. https://www.scientificamerican.com/article/people-with-autism-can-read-emotions-feel-empathy1/
CDC. (2022, 28. mars). Signs & Symptoms of Autism Spectrum Disorder. Centers for Disease Control and Prevention. Sótt 23. október 2023 af https://www.cdc.gov/ncbddd/autism/signs.html
Pagán, C. (2022, 18. janúar). Conditions & Disorders with Symptoms Similar to Autism.
WebMD. https://www.webmd.com/brain/autism/autism-similar-conditions