Room

NEMENDUR

Anastasía Tryggvadóttir, Karen Guðmundsdóttir og Yrsa Tryggvadóttir.

NAFN MYNDEFNIS

Room.

FLOKKUN MYNDEFNIS

Spenna og drama.

LEIKSTJÓRI, LAND OG ÁR

Lenny Abrahamson, Bandaríkin, 2015.

HELSTU LEIKARAR

Brie Larson sem Joy Newsome.

Jacob Tremblay sem Jack.

Sean Bridgers sem gamli Nick.

STIKLA

https://www.youtube.com/watch?v=E_Ci-pAL4eE 

HVERS VEGNA?

Helsta ástæðan fyrir því að við völdum myndina Room er að okkur fannst áhugavert að sjá hver áhrif þess yrðu að vera innilokaður án tengsla við umheiminn í heil 7 ár. Okkur fannst myndin henta vel í verkefnið þar sem hægt er að túlka og skoða myndina út frá mörgum mismunandi sálfræðilegum sjónarhornum. Einnig völdum við þessa mynd af því að hún er byggð á sönnum atburðum sem gerir hana enn áhrifaríkari.

SÖGUÞRÁÐUR

Myndin fjallar um Joy Newsome, konu sem haldið var föngum í sjö ár af manni sem kallaður var gamli Nick. Hún var aðeins 17 ára þegar henni var rænt og haldið í pínulitlum og lokuðum skúr sem þau kölluðu ,,room” eða herbergið. Í haldi var henni endurtekið nauðgað af Nick sem svo leiddi til tilveru sonar hennar Jack. Fyrstu fimm ár af lífi Jacks var eytt í herberginu án nokkurrar vitneskju um heiminn. Þrátt fyrir slæmar aðstæður skapaði Joy mjög gott og nærandi umhverfi fyrir Jack, fullt af sköpun og ást. Þegar Jack verður fimm ára ákveður Joy þó að nú sé tími til þess að flýja þaðan. Blessunarlega séð tekst þeim það og tók þá við gríðarlegt aðlögunartímabil. Frá tilveru þeirra í herberginu yfir til raunverulega heimsins þar sem þau standa frammi fyrir þeim ýmsum áskorunum þegar þau aðlagast nýju lífi og umhverfi.

FJÓRAR SÁLFRÆÐILEGAR SPURNINGAR

Tvær styttri sálfræðilegar spurningar

1. Hverjar eru hugsanlegar ástæður fyrir gjörðum gamla Nick?

Það er ósköp lítið sem við vitum um Nick þar sem við kynnumst honum aðeins í gegnum það sem hann gerði Joy þegar hann rændi henni, hélt henni fanginni og braut á henni ítrekað. Maður veltir því þá fyrir sér hvað í ósköpunum fær fólk til þess að fremja slíkan glæp. Hvernig einhver getur brotið svona gríðarlega á mannréttindum annarra einfaldlega fyrir sinn eigin ávinning. Svar við þessari spurningu fer líklega út fyrir skilning flestra þar sem erfitt að ímynda sér slíka grimmd. Einnig er líklega margvíslegur munur sem aðgreinir hvern mannræningja og því erfitt að segja til nákvæmar ástæður á bak við gjörðir þeirra. Mannræningjar upplifa eflaust ekki sektarkennd og bera ekki tilfinningar til annarra. Einnig skortir þá verulega samkennd sem sýnir sig í hvernig þeir geta hunsað allt sem fórnarlömb þeirra ganga í gegnum. Mögulega er þetta vegna persónuleikaröskunar eins og siðblindu eða andfélagslegrar persónuleikaröskunar en líklegt er að annað spili einnig inn í. Þetta getur verið hegðun knúin af ýmsum hvötum sem líklega eiga rætur að rekja til æsku. Til dæmis gæti verið að Nick hafi átt erfiða eða ofbeldisfulla æsku sem leiðir til þess að hann þráir völd og yfirráð.

2. Hvers vegna hafnaði Robert Jack?

Í myndinni er sýnt frá hvernig Robert, faðir Joy, á í verulegum erfiðleikum með endurkomu hennar og tilvist Jack. Viðbrögð hans eru flókin og einkennast af tilfinningalegri fjarlægð og reiði gagnvart aðstæðum. Ljóst var að hann var ekki búinn að vinna úr sýnum tilfinningum eftir hvarf Joy. Skiljanlega finnst honum óhugsanlegt að ímynda sér hvað dóttir hans gekk í gegnum á þessum sjö árum og finnst honum Jack líklega stöðug áminning um það.

Tvær stærri sálfræðilegar spurningar

3. Hvaða breytingar urðu á lífi Joy eftir að hún losnaði og hvaða afleiðingar hafði dvölin í för með sér?

Joy var aðeins 17 ára þegar Nick rændi henni eftir að hún hjálpaði honum á förnum vegi. Á augabragði var öllu kippt undan henni og líf hennar varð aldrei eins aftur. Hann læsti hana inni í litlum skúr og beitti hana síendurteknu kynferðislegu ofbeldi. Tveimur árum seinna verður hún ólétt og eignast son sinn Jack. Þrátt fyrir hræðilegar aðstæður nær Joy að sinna móðurhlutverkinu með miklum sóma. Jack gaf henni sennilega auka styrk til þess að halda í vonina um að einn daginn kæmust þau út úr þessum aðstæðum. Það sést á Joy að hún var oft á tíðum uppgefin og nálægt því að missa vonina. Henni fannst erfitt að líf Jacks þyrfti að vera svona. Til að mynda þurfti Jack alltaf að sofna inn í skáp þangað til Nick væri búinn að sinna sínu gagnvart Joy. Aðstæður þeirra mæðgina er eitthvað sem erfitt er að ímynda sér og eitthvað sem enginn ætti að þurfa upplifa.

Þegar Jack er orðinn 5 ára ákveður Joy að nú sé kominn tími til að reyna að flýja. Sem betur fer tekst það og þau voru loks frjáls úr þessu litla herbergi sem Joy hafði búið í síðastliðin 7 ár. Þau fara í læknisskoðun en Joy afþakkar svo alla frekari aðstoð sem henni er boðið. Aðstoð sem hefði verið mjög mikilvæg fyrir hana þar sem áföllin sem Joy lendir í eru mörg og þeim fylgja mismunandi afleiðingar. Henni var rænt, beitt miklu kynferðislegu ofbeldi, varð ólétt og þurfti að eignast barnið við óvenjulegar aðstæður og svo að sinna barni sínu í algjörri óvissu og vanlíðan. Joy virðist ekki alveg átta sig á alvarleika málsins. Hún stóð frammi fyrir risastóru verkefni því slík áföll skilja eftir sig djúp sár sem krefjast mikillar vinnu.

Það líður ekki á löngu þar til Joy byrjar að sýna allskonar einkenni áfalla. Á sama tíma og henni var létt að vera laus þá reyndist aðlögun Joy að nýju lífi erfið. Hún sýnir einkenni kvíða og þunglyndis og fann fyrir sektarkennd og skömm. Hún skiptist á milli þess að vera hljóðlát og einangruð yfir í að snöggreiðast. Henni fannst erfitt að vera í kringum fólk og virtist ekki vilja opna sig neitt frekar um hvað hafði gengið á. Hægt og rólega eyðir hún minni og minni tíma með Jack og andlega heilsa hennar fer hrakar. Á endanum leið henni svo illa að hún reyndi að taka sitt eigið líf. Í kjölfarið er hún lögð inn og móðir hennar og stjúpfaðir sjá alfarið um Jack.

Samhliða allri þeirri vanlíðan sem fylgir áföllum þurfti hún að reyna aðlagast breytta lífinu sínu upp á nýtt. Áður en Joy var rænt lifði hún nokkuð venjulegu lífi eins og hver annar unglingur. Það voru þó mikil viðbrigði fyrir hana að koma inn í sitt gamla umhverfi og sjá hverju hún hefði misst af og hvað hafði breyst. Til dæmis fannst henni mjög erfitt að sjá myndir af vinkonum sínum og foreldrar hennar höfðu skilið í millitíðinni.

Það er nokkuð ljóst að Joy er að kljást við áfallastreituröskun. Það er geðröskun sem getur komið fram hjá fólki eftir að hafa upplifað stórt áfall eða áföll. Einkennin eru mörg og það er ljóst að Joy sýnir afar mörg af þeim. Talað er um að fyrsta hjálp hjá fólki með áfallastreituröskun sé að ná stjórn á óreiðunni og koma fólki í öryggi. Síðan er fólk sent í viðeigandi meðferðir þar sem hugræn atferlismeðferð er meðal annars nefnd og svo eru mögulega gefin lyf ef það er talin þörf á því. Það besta sem Joy hefði getað gert, bæði fyrir sjálfan sig og fólkið í kringum hana, hefði verið að þiggja þá aðstoð sem henni var boðið eftir síendurtekin áföll og þá hræðilega lífsreynslu sem hún varð fyrir. Það hafði mikil áhrif á aðlögun Joy að eðlilegu lífi á ný og því miður munu þau sennilega hafa áhrif á hana það sem eftir er.

4. Hvernig mótaði dvölin í herberginu uppeldi Jack og hvaða áhrif hafði hún á þroska hans?

Það að alast upp í einungis einu herbergi er veruleiki sem fæstir þurfa að upplifa. Hins vegar var það raunveruleiki Jack í 5 ár. Fyrstu ár barna eru gríðarlega mikilvæg þegar kemur að tilfinningalegum og félagslegum þroska. Það er mjög mikilvægt að börn fái viðeigandi örvun til þess að þroskast á sem bestan hátt. Joy reyndi allt sem hún mögulega gat til þess að gera líf Jack eins skemmtilegt og eðlilegt og hægt var. Hún kenndi honum að lesa, teikna, spila og syngja ásamt því að kenna honum á lífið og tilveruna. Hins vegar sagði hún honum ekki allan sannleikann varðandi heiminn hinum megin við veggi herbergisins. Hún sagði honum að sjónvarpið væri sér heimur þar sem annað fólk væri ekki raunverulegt og fyrstu árin vissi Jack ekki að það væri til líf fyrir utan herbergið. Sú staðreynd að Joy náði að sannfæra hann um að þetta væri lífið og að svona virkaði heimurinn sannar á áhugaverðan hátt hversu auðtrúa börn eru. Eins og John Locke hélt fram fæðumst við sem óskrifað blað sem upplifanir, skynjanir og nám fylla.

Myndin Room sýnir hvernig reynsla skiptir höfuðmáli þegar kemur að uppeldi. Því þrátt fyrir allt náði Joy að skapa verndandi og öruggt umhverfi fyrir Jack þar sem hann var virkur þátttakandi í sínum eigin þroska. Með ímyndunaraflið sem hjálpartæki náði Joy að búa til heim þar sem hann gat upplifað ævintýri þrátt fyrir veraldlegar takmarkanir. Sú staðreynd gerði það að verkum að Jack var að mestu eins og hver annar 5 ára strákur og sýndi í raun gríðarlega góða félagslega færni og vitneskju miðað við aðstæður. Tilfinningagreind hans var hins vegar ekki eins góð og hann átti það til að taka reiðiköst og eiga erfitt með að stjórna skapi sínu. Þess má þó geta að hann var aðeins 5 ára gamall og er það algeng hegðun á þeim aldri.

Ef við lítum á þroskastig Piaget var Jack á forstigi rökhugsunar þegar þau flúðu herbergið. Það stig á sér stað frá aldrinum 2-7 ára og einkennist af því að börn eru mjög auðtrúa, sjálflæg og eiga erfitt með að setja sig í spor annarra. Þessi einkenni rýma öll við hegðun Jack þar sem hann trúði nákvæmlega því sem mamma hans sagði honum og átti erfitt með að skilja þegar henni leið illa. Einnig skildi hann ekki til fulls hvernig fólkið í sjónvarpinu væri á lífi í öðrum heimi. Þetta gæti verið ein af skýringum þess að áfallið og aðlögunin fór eins vel og raun bar vitni, hann var það ungur að hans heimsmynd var ennþá meðfærileg. Hann var ekki kominn með þá gagnrýnu hugsun sem kemur á síðasta þroskastiginu, formleg hugsun.

Þegar Jack fór að eldast gerðist það sem gerist við flest börn, hann varð forvitinn. Hann fór að spyrja mömmu sína fleiri spurninga, velta fyrir sér hinum ýmsu málum og á endanum ákvað Joy að segja honum frá raunveruleikanum. Í fyrstu átti hann erfitt með að trúa því sem hún sagði og virtist hræddur og örlítið vonsvikinn. Allt sem hann vissi var í raun og veru lygi. Smám saman fór hann að skilja það sem hún sagði og þá breyttist óttinn yfir í forvitni. Loks þegar  hann hafði áttað sig á raunveruleikanum sá Joy tækifæri til þess að flýja, með hans hjálp.

Þegar þau komust út var Jack tiltölulega fljótur að venjast nýjum lífsstíl. Hann þurfti smám saman að mynda sína eigin sjálfsmynd og læra að vera hluti af samfélagi. Hægt og rólega fór hann að átta sig á því að hann er einstök manneskja með sínar skoðanir og áhugamál. Þá er einnig athyglisvert að skoða hvernig Joy þurfti að finna jafnvægi á milli þess að vernda hann og leyfa honum að blómstra sjálfur. Room gefur góða innsýn inn í það hvernig umhverfi, aðstæður og foreldrahlutverk hafa áhrif á þroska barna. Þó svo að um sé að ræða óeðlilegar aðstæður, varpar myndin ljósi á mikilvægi öryggis og ástríkrar umönnunar á uppeldi barna.

Heimildir

  1. Læknablaðið (2001). Áfallastreituröskun. Læknablaðið, 2001(4). https://www.laeknabladid.is/2001/4/fraedigreinar/nr/842

  2. Schultz, D. P., & Schultz, S. E. (2012). A history of modern psychology (6th ed.). Cengage Learning.

  3. Slater, A., & Bremner, J. G. (Eds.). (2017). An Introduction to Developmental Psychology (3rd ed.). Wiley-Blackwell.