ADHD

At Home with the Furys

Nemendur

Ásdís Birna Bjarkadóttir, Katharina S. Jóhannsdóttir, Telma Fanney Magnúsdóttir.

NAFN

At Home with the Furys.

FLOKKUN

Raunveruleikaþættir, heimildarþættir, íþróttir.

LEIKSTJÓRI

Tina Flintoff, Nick Hornby, Josh Jacobs, 2023, Bretland.

LEIKARAR

Tyson Fury sem hann sjálfur.

Paris Fury sem hún sjálf, eiginkona Tyson.

STIKLA

Heimild: https://www.youtube.com/watch?v=yI-jeh2qtgk&ab_channel=Netflix

HVERS VEGNA?  

Ein úr hópnum byrjaði að horfa á þættina í frítíma sínum og fannst áhugavert hvað það var komið inn á mörg sálfræðileg álitamál í þáttunum. Hinir hópmeðlimirnir höfðu heyrt um Tyson Fury og hans sögu um andleg veikindi og við áhorf fannst okkur öllum spennandi að taka aðeins öðruvísi vinkil á verkefnið með því að velja raunveruleikaþætti og greina raunverulegar persónur í staðinn fyrir leiknar persónur. Okkur fannst áhugavert að horfa á raunveruleikaþætti sem að eru ekki bara glamúr.

SÖGUÞRÁÐUR

Þættirnir fjalla um líf þungavigtarmeistarans Tyson Fury og fjölskyldu hans, í kjölfar ákvörðunar hans að stíga út úr hringnum í annað sinn. Það var ætlun Tyson að leggja hanskana á hilluna til að geta tekið meiri þátt í fjölskyldulífinu en hann og eiginkona hans Paris Fury eiga saman 7 börn. Tyson hefur áður reynt að hætta án árangurs og árið 2015 hætti hann í 3 ár og glímdi á þeim tíma við alvarlegt þunglyndi, sjálfvígshugleiðingar og ánetjaðist vímuefnum.

Í lok þáttaraðarinnar þá hættir Tyson við að hætta því hann fann sig ekki í hversdagsleikanum og sótti aftur í spennuna og athyglina sem fylgir þessum glæsta lífsstíl að vera þekktur aðili. *Fyrirvari: Eftirfarandi umfjöllun tekur einungis mið af því sem kemur fram í þáttunum þar sem við höfum ekki vitneskju um hvort það hafi verið eitthvað handrit til staðar fyrir þættina (eins og er oft raunin með raunveruleikaþætti) auk þess vitum við ekki hvað átti sér stað á milli klippa.

FJÓRAR SÁLFRÆÐILEGAR SPURNINGAR 

tvær styttri spurningar

1. Hvaða áhrif hefur það á andlega líðan Tyson þegar hann leggur hanskana á hilluna?

Andleg veikindi Tyson náðu ákveðnum hápunkti árið 2015 þegar hann reyndi fyrst að hætta að keppa því þá glímdi hann við alvarlegar sjálfsvígshugsanir og ótti hans um að sagan gæti endurtekið sig kemur nokkuð skýrt fram í þáttunum. Í upphafi þáttanna segist Tyson vera fullur tilhlökkunar fyrir því að stíga út úr sviðsljósinu, taka virkari þátt í heimilislífinu og uppeldi barna hans 6 (nú 7!). Í fyrsta þættinum segir hann: I can honestly sit here and say I don’t want to fight anymore. Eftir því sem líður á seríuna þá fer áhugi hans sífellt þverrandi og andlegri heilsu hans hrakar. Strax í þætti tvö kemur fram að Paris finnist hún vera að horfa á hann hverfa aftur niður í þunglyndi og eftir einn dag af heimilisstörfum segir Tyson: Honestly, I’d rather get punched the fuck out of me by ten world champions than stay at home for a week and have to do all these jobs, it’s hard work. Það er því deginum ljósara að þetta “nýja” líf var ekki að leggjast vel í kappann. Tyson segir að þegar að hann steig út úr hringnum í “síðasta sinn” hafi hann virkilega trúað því að venjulegt líf væri nóg fyrir hann en segir svo að boxið sé það eina sem að gefi honum tilgang í lífinu. Pabbi hans sem má segja að sé hans hægri hönd innan íþróttarinnar, tekur undir þetta og segir að hann sé: Lost without boxing. Í kjölfarið tekur Tyson ákvörðun um að hætta við að hætta og er aftur kominn á fullt í boxið.

2. Hverjar eru greiningar Tyson?

Andleg veikindi Tysons eru svolítið eins og rauður þráður í gegnum alla seríuna en Tyson var greindur með geðhvörf (e. bipolar disorder) fyrir 6 árum síðan, auk þess er hann greindur með ADHD og hefur glímt við þunglyndi, kvíða og vímuefnavanda. Geðhvörf er alvarlegur geðsjúkdómur sem einkennist af tímabili oflætis (e. mania) og depurðar (e. depression) (Carlson og Birkett, 2021). Oflæti einkennist af uppsveiflum þar sem einstaklingar geta sýnt fyrirhyggjulausa hegðun þar sem teknar eru stórar ákvarðanir án þess að hugsa hlutina til enda, önnur einkenni eru t.d. lítill svefn, mikil hreyfing og málgleði. Aftur á móti einkennist depurð af miklum niðursveiflum þar sem fólk getur upplifað sig lítils virði, verið orkulaust og haft mikið samviskubit þó ekki sé tilefni til.

Í þáttunum er erfitt að lesa í hvort Tyson sé í niðursveiflu eða hreinlega að vera asni (e. arse). Hins vegar er það meira áberandi þegar hann er í uppsveiflu eins og til dæmis þegar hann pakkaði allri fjölskyldunni í útilegu, allt var svo fullkomið eins og hann hafði alltaf dreymt um, hann ljómaði allur og hann hugsaði ekki einu sinni um það að börnin áttu að fara í skólann daginn eftir. Einnig má nefna þegar Tyson bað konunnar sinnar í þriðja skiptið og auglýsti eftir píanókennara á Instagram-reikningi sínum þegar hann ætlaði sér að verða píanósnillingur.

Það er þó mikilvægt að hafa það bak við eyrað að við vitum ekki hversu miklar eða yfir höfuð hvort öll þau höfuðhögg sem Tyson hefur fengið í gegnum ferilinn hafa haft einhverjar afleiðingar. Það er þekkt að ítrekuð höfuðhögg geti valdið áverkaheilabilun (e. chronic traumatic encephalopathy) en þó er ekki hægt að vita það með vissu fyrr en við krufningu.

tvær stÆrri spurningar

1. Er Tyson að bera ábyrgð á andlegri heilsu sinni? 

Ekki kemur fram í þáttunum að nokkur meðferð sé að eiga sér stað, hvorki í formi lyfja né sálfræðiviðtala. Tyson lýsir því þó hvernig hann taldi sig hafa fundið “mótefnið” (e. antidote) við kvíða og þunglyndi árið 2017 með því að drekka áfengi fyrir svefninn en áttaði sig svo á því að það gat einungis losað hann undan fjötrum vanlíðunar til skamms tíma. Hann segir svo að það sem hjálpi honum með andlegu heilsuna sé að setja sér skammtímamarkmið (e. short-term goals) og hins vegar að æfa (e. exercise). Tyson telur það að æfa vera aðalatriðið og þegar hann hætti því komi mómentið sem hann fer aftur í “Hotel California.” Með þessari líkingu er hann að vitna í texta lagsins Hotel California með The Eagles: You can check out any time you like but you can never leave og líkir því við andlega heilsu sína á þann hátt að það er ekki spurning hvort honum muni líða illa aftur, heldur hvenær honum muni líða illa aftur.

Það sem við veltum þá aðallega fyrir okkur í sálfræðilegu tilliti er að ef eina bjargráð Tyson er að halda áfram að æfa til að stemma stigu við andleg veikindi sín þá er það bara skammtímalausn líkt og hann sagði um áfengið. Því einhvern tímann í náinni framtíð mun Tyson neyðast til að hætta að keppa t.d. vegna aldurs eða meiðsla og þá er fyrirséð að því muni fylgja miklar áskoranir fyrir hann og fjölskyldu hans.

Tyson virðist vera mjög meðvitaður um greiningar sínar og hvernig þær koma fram í hegðun hans gagnvart öðrum og þá sérstaklega gagnvart eiginkonu sinni þar sem hann segir í þáttunum að þegar að honum líði illa þá bitni það mest á Paris því hún sé þarna í “beinni skotlínu.” Hann segist ekki vera stoltur af því að taka vanlíðan sína út á henni en heldur svo áfram og segir að þegar honum líði illa þá sé það bara þannig og það sé ekkert sem hann geti gert í því. Það er þó alls ekki raunin, þó auðvitað geti komið upp tilvik þar sem einstaklingar með ákveðna geðsjúkdóma geti ekki haft stjórn á sjálfu sér eða leitað sér hjálpar. Aftur á móti virðist Tyson vera mjög meðvitaður um vandamál sín eins og hefur að öllum líkindum greiðan aðgang að ýmsum úrræðum og aðstoð (þar sem peningana skortir nú ekki), þá slær það mann að hann skuli nota geðsjúkdóma sína sem afsökun fyrir slæmri hegðun og framkomu við fólkið í kringum sig, með því virðist hann taka ‘’auðveldu’’ leiðina út. Tyson getur eflaust reynt að útskýra mikið af sinni hegðun með vísan í geðsjúkdóma sína en það er einmitt bara SKÝRING en ekki afsökun. Þessu mætti líkja við gerviskýringar (e. explanatory fictions) sem atferlissinninn B.F. Skinner talaði um í sínum fræðum þar sem segir gerviskýringu vera þegar fólk telur sig hafa útskýrt vandamál með vísan í andleg hugtök en þar með stoppar þekkingarleitin (A History of Modern Psychology, 2022). Skinner segir að með þessu hafi vandamálinu einfaldlega bara verið gefið nafn og þá skapast hætta á að nafngiftin verði að útskýringu, líkt og Tyson virðist oft gera með því að útskýra eða afsaka hegðun sína með vísan í geðraskanir sínar.

2. Hver eru möguleg áhrif á fjölskylduna og hvert er framhaldið?  

Andlegir erfiðleikar Tyson virðast hafa mikil áhrif á fjölskylduna og þá sérstaklega Paris eiginkonu hans. Í fyrsta þætti segist Paris vera kvíðin að hafa Tyson á heimilinu alla daga því það hafi neikvæð áhrif á andlega heilsu hans þegar hann er ekki í rútínu eða með skýra stefnu. Þar að auki bendir hún á erfiðleikana þegar hann reyndi að leggja hanskana á hilluna árið 2015 sem hafi verið krefjandi tímabil í lífi þeirra sem hún óttast að geti endurtekið sig.

Það lítur út fyrir að Paris sé límið í fjölskyldunni og sjái til þess að fjölskyldulífið gangi klakklaust fyrir sig. Framundan var skírn hjá sjötta barninu og allt gengur eins og í sögu þar til að Adonis þriðja barnið þeirra týnist. Tyson fær sig fullsaddan af fjörinu og heimtar að fara heim, sem hann gerir að lokum þegar barnið finnst og skilur Paris eina eftir með hjörðina. Eftir þetta atvik greinir Paris frá því að skap Tyson sé mjög breytilegt því hann sé greindur með geðhvörf: Tyson moods are regular up and down, I really think it comes down to his bipolar. It's just one of these things that i have to learn to deal with. Hún segir að það getur verið erfitt að áætla fyrir fram því hugur hans getur snúist við á einni sekúndu en þetta er bara einn fylgifiskur að búa með manni sem er með slík andleg veikindi, svona er bara lífið endar hún á því að segja.

Paris afsakar hegðun Tyson ítrekað og tekur oft þátt í veikindum hans með meðvirkni sem er algeng hegðun meðal aðstandenda. Eins og í fyrrnefndu útilegunni segir Tyson við myndavélina á meðan hann græjaði hjólhýsið: She's used to my behaviour, this is not a rare thing. Það er greinilegt að Tyson sé meðvitaður um veikindin sín en samt notar hann þau sem afsökun til þess að haga sér eins og flón og niðurlægir konuna sína samtímis með þessum orðum. Paris kemst loks að því hvar hann er og mætir á tjaldsvæðið, hún reynir að koma viti fyrir hann en engin árangur berst til skila. Að lokum endar hún á því að taka þátt í útilegunni og segir: I will humour my husband in thinking this is normality when really this is madness, absolute madness! But if I don't let him have his moments he gets down and depressed and he gets upset so we just have to roll with it. Er hún kannski með þessu að horfa framhjá andlegu ofbeldi í sinn garð, því það er eina bjargráðið sem hún hefur til þess að halda heimilislífinu gangandi? 

Í gegnum seríuna koma erfiðleikarnir árið 2015 síendurtekið upp á yfirborðið en eins og fyrr greinir þá glímdi Tyson við alvarlegt þunglyndi og sjálfsvígshugsanir á þessu tímabili. Paris segir að það hafi verið erfitt að horfa upp á eiginmann sinn í rúminu í marga mánuði og ef hann stóð einhverntímann upp þá var það til að drekka áfengi. Hún hugsaði oft um það hvort hún ætti að fara frá honum en hún hræddist það að hann myndi fremja sjálfsvíg: Really at that point I wanted to leave, but I thought if I leave him, Tyson would go through with what he kept saying he wanted to do, which was to kill himself. Eru þetta eðlileg samskipti? Má sannfæra sig með þessum orðum til þess að styðja við bakið á veikum eiginmanni?

HeimildASKRÁ 

  1. Carlson, N. R. og Birkett, M. A. (2021). Physiology of Behavior, Global Edition. Pearson Higher Ed.

  2. Goodwin, C. J. (2022). A History of Modern Psychology (6th Edition). Wiley.