Bates Motel

Bates Motel

Nemendur

Írena Björt Magnúsdóttir og Kolbrún Ýr Sigurgeirsdóttir.

Nafn

Bates Motel.

Flokkun

Sálfræðitryllir og drama.

Leikstjóri, land og ár

Það eru margir mismunandi leikstjórar fyrir hvern þátt, en dæmi um leikstjóra sem leikstýrðu þáttunum eru Tucker Gates, Tim Southman og David Grossman. Kanada. Ár: 2013.

Leikarar

Freddie Highmore sem Norman Bates.

Vera Farmiga sem Norma Bates.

Max Theriot sem Dylan Masset.

Stikla

Heimild: https://www.youtube.com/watch?v=sjMEyNtgwvc

Hvers vegna?

Við völdum að horfa á og fjalla um þessa þætti vegna þess að þeir hafa mikið sálfræðilegt gildi þar sem að tekið er á mörgum sálfræðilegum vinklum í þeim, sem dæmi; áhrif uppeldis, birtingarmynd tiltekinna geðraskana, mikilvægi þess að leita hjálpar við röskunum o.fl.

Leikararnir í þessum þáttunum eru einnig þekktir og hafa leikið í öðru efni sem okkur þótti áhugavert.

Söguþráður

Sjónvarpsþáttaraðirnar Bates Motel komu út á árunum 2013 til 2017 og voru gerðar alls fimm þáttaraðir. Þessar þáttaraðir voru innblásnar af klassísku kvikmynd Alfred Hitchcock Psycho frá árinu 1960 og virka sem eins konar forsaga þeirrar myndar. Í þessu verkefni munum við aðeins taka fyrir fyrstu þáttaröðina.

Þættirnir fjalla um Norman Bates og móður hans Norma Bates. Norma Bates ákveður að hefja nýtt líf eftir að eiginmaður hennar lætur lífið og kaupir því mótel í nýju bæjarfélagi sem þau ætla að gera upp. Í fyrstu þáttaröðinni er megin áhersla lögð á undarlegt samband þeirra mæðgina, ofverndandi uppeldisaðstæður sem Norman upplifir og það hvernig hann þróar með sér ýmsa sálfræðilega kvilla sem virka eins og nokkurs konar forboði sálrænna vandamála hans.

FJÓRAR SÁLFRÆÐILEGAR SPURNINGAR

TVÆR STYTTRI SPURNINGAR

1. Hvernig hefði móðir Normans getað gripið inn í þegar hann byrjaði að þróa með sér þessa andlegu kvilla?

Hún hefði getað farið með Norman til geðlæknis eða sálfræðings og reynt að fá aðstoð fyrir hann. Í stað þess þá reyndi hún að fela frá Norman sjálfum og öllum í kringum þau hvað hann hafði gert á þessum tímum minnisleysis sem hann upplifði. Skólinn ræddi við mömmu Norman og vildi að hann myndi hitta sálfræðing þar sem hann var farinn að sýna skrítna hegðun í skólanum. Mamma hans vildi það alls ekki, hún fór með Norman í einn sálfræðitíma til að geta sagt skólanum frá því en leyfði honum svo ekki að fara aftur. Mamma Normans reyndi aldrei að sækjast eftir hjálp fyrir hann heldur faldi hún allt frá honum sem hann gerði þegar hann var í geðrofi. Norman sjálfur vissi í rauninni ekki af því að það væri eitthvað sem gæti verið að honum þar sem hann mundi aldrei eftir því sem hann gerði.

2. Hvað í umhverfi Normans gæti hafa ýtt undir geðraskanir hans?

Í þáttunum kom fram að móðir Normans hafi orðið fyrir bæði andlegu og líkamlegu ofbeldi af hálfu pabba hans, er því hægt að gera ráð fyrir því að hann hafi upplifað heimilisofbeldi í æsku. Það að verða vitni að ofbeldi hefur gjarnan verið tengt við hegðunarvandamál og tilfinningalegan vanda barna (Margolin, 1998). Heimilisofbeldi getur haft langvarandi áhrif heilsu barna sem upplifa slíkt og geta þessi áhrif háð þeim á eldri árum (Doroudchi o.fl., 2023). Upplifun Normans í æsku hefur því ef til vill haft áhrif á geðraskanir hans. Það sem virðist í flestum tilfellum hafa orsakað geðrof hans var þegar komið var illa fram við móður hans.

TVÆR STYTTRI SPURNINGAR

1. Hvaða geðsjúkdóma gæti Norman Bates verið með?

Þó svo að geðsjúkdómar hans séu ekki beinlínis greindir í þáttunum, þjáist Norman eflaust meðal annars af röskun sem nefnist rofinn persónuleiki (e. dissociative identity disorder), einnig þekkt sem margfaldur persónuleiki (e. multiple personality disorder) eða hugrofssjálfsmyndarröskun, sem er eitt afbrigði Hugrofsraskana. Norman lendir reglulega í því að hann framkvæmir hluti sem hann er ekki meðvitaður um, t.d. drap hann pabba sinn án þess að muna eftir því. Einnig sá Norman stundum ofsjónir, sem dæmi fannst honum mamma sín hafa beðið sig um að brjótast inn til lögregluþjónsins í bænum, sem var kærasti hennar, en áttu þessar samræður sér aldrei stað. Hugrofspersónuleikaröskun einkennist af  tveim eða fleiri persónuleikum hjá sama einstakling, sem hafa áberandi og einkennandi eiginleika. Persónuleikarnir hafa aðskilið minni, og persónuleikinn sem hefur oftast stjórn á líkamanum upplifir oft tímabil minnisleysis (Kluft, 1984). Þessir ólíku persónuleikar koma oftast fram í varnarlegum tilgangi. Norman breytist í aðra persónu í aðstæðum þar sem verið er að ógna móðir hans á einhvern hátt. Þá sýnir hann oft ofbeldishegðun og man svo ekki eftir á hvað hafði gerst, sem styður þá tilgátu að hann gæti verið með hugrofspersónuleikaröskun.

2. Hvernig hefur uppeldi Norma Bates mótandi áhrif á son hennar Norman Bates og sálrænan vanda hans?

Norma skiptir sér mikið að lífi Norman og virðist hún hafa mikil áhrif á hans ákvarðanir og stundum einnig skoðanir. Í fyrsta þætti hvetur kennari Norman hann til þess að skrá sig í hlaupalið skólans, þegar hann segir móður sinni frá því telur hún það ekki góða hugmynd þar sem hún mun þá þurfa að sjá alfarið um það sjálf að koma mótelinu á fót. Einnig bjóða nokkrar stelpur Norman að “læra” með sér seinni part dags, en aftur Norma telur það ekki góða hugmynd þar sem hún segir hann þurfa að hjálpa sér að taka upp úr kössum. Þau flytja mikið og virðist Norma alltaf finna ástæðu fyrir því að hann myndi ekki tengingar við jafnaldra og fólk almennt. Með þessum dæmum má sjá að hún virðist einangra hann töluvert frá samfélaginu og geri honum erfitt fyrir að kynnast fólki sem getur haft gríðarlega mótandi áhrif til lengdar. Vinátta á unglingsárum er mikilvæg þar sem hún styður meðal annars við þróun samkenndar, umhyggju og þá tilfinningu að tilheyra. Einnig ýtir hún undir sálrænan og og geðrænan þroska (Youniss & Haynie, 1992). Samband við aðra jafningja er einnig mikilvægur hluti þess að mynda sjálfsmynd utan fjölskyldu. Í þáttunum má sjá ýmis atvik sem gætu einnig haft mótandi áhrif á viðhorf Normans og skyggt töluvert sýn hans á það sem á að teljast eðlilegt. Hann sér t.d. móður sína stinga mann til bana, Norman leggur til að þau hringi á lögregluna, en hún segir honum að gera það ekki. Þegar foreldrar ofvernda börnin sín og einangra þau getur það haft skaðleg áhrif á þroska barnsins í átt þess að verða sjálfstæður einstaklingur (Wehmeyer et al, 2023).

Norman gerir allt til að passa upp á mömmu sína, pabbi hans beitti hana ofbeldi og eitt skipti þegar Norman varð vitni af ofbeldinu þá réðst hann á pabba sinn sem varð til þess að hann lést. Eldri bróðir Norman kallaði einnig mömmu þeirra í eitt skipti “tík” og þá réðst Norman á bróðir sinn. Hann mundi síðan eftir hvorum þessum atvikum.

Heimildaskrá

  1. Doroudchi, A., Zarenezhad, M., Hosseininezhad, H., Malekpour, A., Ehsaei, Z., Kaboodkhani, R., & Valiei, M. (2023). Psychological complications of the children exposed to domestic violence: A systematic review. Egyptian Journal of Forensic Sciences, 13(1), 26. https://doi.org/10.1186/s41935-023-00343-4

  2. Kluft, R. P. (1984). An introduction to multiple personality disorder. Psychiatric Annals,       14(1), 19-24.

  3. Margolin, G. (1998). Effects of domestic violence on children. Í P. K. Trickett & C. J. Schellenbach (Ritstj.), Violence against children in the family and the community. (bls. 57–101). American Psychological Association.https://doi.org/10.1037/10292-003

  4. Youniss, J., & Haynie, D. L. (1992). Friendship in Adolescence. Journal of Developmental & Behavioral Pediatrics, 13(1), 59.

  5. Wehmeyer, M. L., Palmer, S. B., Ruh, A. B., & Yilmaz, E. (2023). Parenting styles and practices in enhancing self-determination of children with intellectual and developmental disabilities: AJMR. American Journal on Intellectual and Developmental Disabilities, 128(4), 282-301. doi:https://doi.org/10.1352/1944-7558-128.4.282