Gerviskýringar

Inside Out

Nemendur

Ebba Kristín Yngvadóttir, Emma Sól Jónsdóttir, María Líf Magnúsdóttir, Valgerður Lilja Arnarsdóttir.

Flokkun myndefnis

Fjölskyldu og gamanmynd.

Leikstjóri, land og ár

Pete Docter, Bandaríkin, 2015.

Leikarar

Amy Phoeler = Gleði.

Phyllis Smith = Sorg .

Mindy Kaling = Andstyggð.

Bill Hader = Ótti.

Lewis Black = Reiði.

Stikla

Heimild: https://www.youtube.com/watch?v=1HFv47QHWJU

Hvers vegna?

Við völdum myndina þar sem hún er í rauninni sín eigin sálfræðileg kenning um uppbyggingu hugans. Kvikmyndin lýsir ýmsum ferlum eins og minni, uppbyggingu persónuleikans, svefni og ímyndunarafli á skemmtilegan hátt. Við höfðum allar séð myndina á sínum tíma þegar hún kom út árið 2015 en það er ennþá skemmtilegra að horfa á hana í dag með þekkingu okkar úr sálfræðinni í huga.

Söguþráður

Myndin fjallar um 11 ára stelpu að nafni Dagný og tilfinningar hennar – gleði, sorg, ótta, reiði og andstyggð og erfiðleika þeirra við að aðlagast nýju lífi eftir að hún flytur frá Minnesota og til San Francisco. Sorg snertir eina af grunnminningum Dagnýjar og gerir minninguna bláa sem leiðir til þess að Sorg og Gleði týnast úr höfuðstöðvunum með grunnminningarnar með sér. Þetta atvik veldur síðan ýmsum skapsveiflum en myndin fylgir ferð þeirra aftur til höfuðstöðvanna og sýnir mikilvægi þess að upplifa bæði sorg og hamingju á sama tíma.

FJÓRAR SÁLFRÆÐILEGAR SPURNINGAR

TVÆR SMÆRRI SÁLFRÆÐILEGAR SPURNINGAR

1. Kvikmyndin er sín eigin kenning um uppbyggingu hugans, hvaða fræðimenn sálfræðinnar væru stuðningsmenn kenningarinnar?

Að okkar mati gætu Charles Darwin, Jean Piaget og William James vera taldir stuðningsmenn kvikmyndarinnar en allir á sinn eigin hátt. Það er hægt að líkja kvikmyndinni við kenningu Darwins um tilfinningar að einhverju leyti. Darwin taldi tilfinningar vera aðskildar, stakar einingar líkt og í myndinni þar sem grunntilfinningarnar eru aðskildar fram að kynþroska. Jean Piaget myndi sennilega kunna að meta hvernig myndin lýsir vitsmunaþroska Dagnýjar og hvernig reynsla hennar endurspeglar áskoranir og framfarir á mismunandi vitsmunalegum stigum. Willam James myndi hafa áhuga á myndinni þar sem hann lagði áherslu á meðvitund og hugarferli og gæti því fundist myndin forvitnileg í því hvernig hún sýnir virkni hugans á sjónrænan hátt.

2. Kvikmyndin er sín eigin kenning um uppbyggingu hugans, hvaða fræðimenn sálfræðinnar myndu mótmæla kenningunni?

Sigmund Freud og atferlissinnar myndu vera þeir fyrstu til þess að mótmæla hugmyndum kvikmyndarinnar um uppbyggingu hugans. Sigmund Freud myndi gagnrýna myndina fyrir að einfalda tilfinningar of mikið en myndi sennilega ná að tengja búta úr myndinni við sálgreiningu. Til dæmis gæti verið að hann myndi líta á Gleði sem sjálfið og Sorg sem yfirsjálfið. Gleði stýrir langoftast hegðun Dagnýjar á meðan Sorg hjálpar henni að skilja og vinna úr dýpri tilfinningum. John B. Watson væri ekki kátur að tilfinningar séu milliliður sem stýrir hegðun en getur huggað sér við það að tilfinningarnar bregðast við áreitum frá umhverfinu. Atferlisfræðingar einbeita sér fyrst og fremst að sýnilegri hegðun sem mótast af ytri áreitum og er því lýsing myndarinnar á innri tilfinningum ekki í takt við sjónarmið þeirra og myndu þeir með öllum líkindum mótmæla því.

TVÆR Stærri Sálfræðilegar spurningar

1. Hvar lendir kvikmyndin í klassísku deilunni um erfðir og umhverfi?

Kvikmyndin tekur ekki beinlínis afstöðu í umræðunni heldur sýnir hvernig blanda umhverfis og erfða getur haft áhrif á þroska og hegðun einstaklings. Í myndinni er hegðun undir stjórn meðfæddra grunntilfinninga, þ.e. gleði, reiði, sorg, ótti og andstyggð. Þessar tilfinningar eru sambærilegar hugmyndum Paul Ekman um grunntilfinningar nema hann taldi grunntilfinningarnar vera sex og bætir við tilfinningunni ,,að vera hissa“ (e. surprise). Tilfinningarnar ákvarða hegðun einstaklings út frá því sem birtist á stórum skjá í höfuðstöðvunum sem sýnir sjónarhorn einstaklinga. Þær eru þá í rauninni að stýra hegðun út frá ytri áreitum, þ.e. umhverfi. Eftir að Sorg og Gleði koma aftur til höfuðstöðvanna með grunnminningarnar sýnir Sorg Dagnýju mikilvægi þess að upplifa bæði sorg og hamingju á sama tíma. Í kjölfarið verðu uppfærsla á tækniborðinu, minningar verða tvílitaðar og Dagný byrjar á kynþroska. Myndin er þá að einhverju leyti að segja að Dagný byrjar á kynþroska vegna grunntilfinningarinnar Sorgar en það gæti einnig verið vegna reynslu Dagnýjar að læra að upplifa tvær tilfinningar á sama tíma.

Persónuleiki einstaklinga samanstendur af grunnminningum sem mynda persónuleikaeyjur hvers og eins. Minningar eru ekki meðfæddar og því verður persónuleiki einstaklinga einungis fyrir áhrifum umhverfisins. Einnig sáum við hvað það hafði mikil áhrif á vellíðan Dagnýjar þegar hún flutti til San Francisco. Flutningurinn hafði í för með sér ýmis vandamál og eitt af þeim var að sumar persónuleikaeyjur hættu að starfa og hrundu niður í minnishaugana. Ef Dagný væri með meðfædda persónueiginleika frá foreldrum sínum þá myndu þeir ólíklega hrynja við það eitt að flytja. Á heildina litið spilar umhverfi mun stærra hlutverk í mótun hegðunar og þroska Dagnýjar en meðfæddu grunntilfinningarnar slá í gegn í aukahlutverki þar sem þær stýra hegðun Dagnýjar og koma henni í raun á kynþroska.

2. Hvernig lýsir kvikmyndin uppbyggingu hugans?

Myndin lýsir uppbyggingu hugans á einfaldan hátt þótt að myndlíkingin sé ólík raunveruleikanum. Hver og einn er með ákveðnar höfuðstöðvar þar sem grunntilfinningarnar starfa; gleði, sorg, ótti, reiði og andstyggð. Hver tilfinning hefur sitt hlutverk í að móta viðbrögð og hegðun einstaklinga. Til dæmis í tilfelli Dagnýjar reynir Gleði að halda henni ánægðri með því að varpa upp gömlum minningum til að reyna að fá hana til að hlæja. Sorg hjálpar henni að skilja dýpri tilfinningar, Reiði ýtir undir viðbrögð við óréttlæti, Ótti heldur henni öruggri og Andstyggð passar að hún forðist óþægilegar aðstæður eða vondan mat. Tilfinningarnar horfa á stóran skjá sem sýnir sjónarhorn Dagnýjar og nota síðan tækniborð til að stýra hegðun hennar. Tilfinningarnar eru einungis fimm hjá Dagnýju en þegar hún byrjar á kynþroska í lok myndarinnar fara tilfinningarnar að blandast saman og verða flóknari. Minningar eru táknaðar sem litríkar kúlur sem hlaðast inn í gegnum rör og eru flokkaðar í litum tilfinninganna sem Dagný upplifði við atburðinn. Í höfuðstöðvunum eru grunnminningarnar einnig geymdar. Þessar minningar eru glóandi kúlur sem geyma mikilvægar upplifanir í lífi Dagnýjar sem mynda persónuleika hennar. Persónuleikinn samanstendur af eyjum sem tengdar eru við höfuðstöðvar Dagnýjar. Eyjurnar eru fjölskyldueyja, vináttueyja, hokkíeyja, kjánaeyja og heiðarleikaeyja. Þegar Dagný fer að sofa færast minningar dagsins yfir í langtímaminnið. Langtímaminnið er stórt völundarhús af endalausum minningum en þar starfa nokkrir aðilar sem sjá um að velja þær minningar sem fara í minnishaugana þar sem minningar eru gleymdar. Frá langtímaminninu er síðan lest sem kemur með minningar til höfuðstöðvanna (e. train of thought). Lestin sýnir hvernig hugsanir og hugmyndir tengjast og er eins og einföld útgáfa af tauganeti heilans. Myndin sýnir okkur þetta hugsunarflæði á aðgengilegan og sjónrænan hátt. Í huga Dagnýjar er einnig ímyndunarland, þar sem ýmsir skapandi og hugmyndaríkir hlutir lifna við eins draumaprins Dagnýjar en ímyndunarlandið sér einmitt um framleiðslu hans. Þegar Dagný fer að sofa fara leikstjórar og framleiðendur draumanna á vakt. Draumarnir eru sýndir sem kvikmyndir sem Riley upplifir í svefni og varpa ljósi á ómeðvitað sköpunarferli hugans á meðan einstaklingar sofa. Einnig er snert örlítið á undimeðvitund en í myndinni áttu trúðar og aðrir hlutir sem Dagný var hrædd við, heima þar. Abstrakt hugsun er einnig lítið svæði í huga Dagnýjar þar sem flókin hugtök eru einfölduð. Kvikmyndin setur fram skýra og skemmtilega uppbyggingu hugans sem nær til fólks af öllum aldri. Uppbyggingin er að einhverju leyti einfölduð mynd af hefbundnum hugmyndum fólks um hugann.

Myndband til sýningar

Heimild: https://www.youtube.com/watch?v=3weU3tST3EM

Heimildir

  1. IMBD. (2015, 24 júlí). Inside Out. IMBD. https://www.imdb.com/title/tt2096673/

  2. LeDoux, J. (2015, 19. júlí). „Inside Out“ draws from Darwin’s theory of the nature of emotions -- I think he got it wrong.

  3. Salon. https://www.salon.com/2015/07/19/inside_outs_psychology_of_emotion_is_based_on_the_darwinian_tradition_but_thats_just_one_view/