Nemendur
Helga Sóley Þorsteinsdóttir, Katrín Rós Arnarsdóttir og Þórdís Lind Þórsdóttir.
Nafn
The invisible man.
Flokkur
Spennu og sálrænn tryllir.
Leikstjóri
Leigh Whannell, Bandaríkin 24. febrúar 2020.
Helstu leikarar
Stikla
Heimild: https://www.youtube.com/watch?v=WO_FJdiY9dA
Hvers vegna?
Við ákváðum að velja þessa mynd vegna þess að allir hópmeðlimir höfðu séð myndina og fannst hún mjög góð. Einnig er hún sálfræðilegur tryllir og passar því við efni verkefnisins. Margir þættir tengdir geðrænum vandamála koma fram í myndinni en allra helst áfallastreituröskun, siðblinda og sjálfhverf persónuleikaröskun eða narsissismi.
Söguþráður
Myndin er um Ceciliu sem flýr ofbeldisfullan eiginmann sinn, hann Adrian. Adrian er milljónamæringur og snjall tæknimaður. Eftir að talið er að Adrian hafi framið sjálfsmorð byrjar Cecilia að upplifa undarlega hluti. Hún finnur fyrir óþægilegri nærveru og draugagangi en fólkið í kringum hana segir hana ofsóknarfulla. Cecilia trúir því að Adrian hafi falsað dauða sinn en engin trúir henni. Adrian myrðir systur Ceciliu og lætur líta út fyrir að hún hafi framið glæpinn. Hún er lögð inn á geðspítala en þar kemst hún að því að Adrian er í raun á lífi og hafi notað ósýnilegan búning sem hann hannaði til að fela sig. Sérsveitin fer inn á heimili hans og finnur hann þar, lifandi en lokaðan inni með bundið fyrir hendur og fætur. Hann lætur líta út fyrir að sér hafi verið rænt en Cecilia veit betur. Myndin endar með kvöldverði þar sem Adrian vill fá Ceciliu aftur en hún fer í ósýnilega búninginn og drepur hann, svo það lítur út eins og sjálfsmorð.
FJÓRAR SÁLFRÆÐILEGAR SPURNINGAR
Tvær styttri sálfræðilegar spurningar
1) Hvernig kom meðferð geðlækna og geðspítalans fyrir í myndinni?
Eftir að Adrian drap systur Ceciliu og kom á hana sökina var hún sett inn á öryggis geðspítala. Cecilia streittist á móti og það þurfti fimm starfsmenn geðspítalans til að draga hana inn í klefa sinn, binda hana niður í rúmið og sprauta hana með róandi lyfjum. Á meðan þetta átti sér stað var hún að öskra að hún væri saklaus og að grátbað starfsfólkið um að hlusta á hana, sem þeir gerðu ekki. Hún var hrædd og reyndi að segja þeim að Adrian væri inn í herberginu með þeim og að hann ætlaði sér að meiða hana, en þeir gáfu henni litla huggun og hunsuðu allt sem hún sagði. Geðlæknarnir læsa hana inni, fasta við rúmið án þess að tala við hana. Það er líklegt að þeir hafi haldið að hún væri með geðklofa eða í geðrofi og trúðu henni því ekki. En það er spurning hvort að það sé siðlegt að geðlæknar festa einstaklinga niður með ólum og hunsa þá ef einstaklingar er í geðrofi eða með geðklofa, þó Cecilia var með hvorugt. Því finnst okkur geðlæknarnir og geðspítalinn koma frekar illa fyrir í myndinni. Það væri siðlegra ef þeir myndu reyna að tala við hana og hlusta á hvað hún hefur að segja ásamt því að gera henni ljóst um að henni sé óhult.
2) Hvernig á gaslýsing gagnvart Ceciliu sér stað í myndinni?
Þegar að Cecilia byrjar að finna fyrir því að Adrian sé að fylgjast með henni lætur hún vini sína vita af því. Þeir skiljanlega trúa henni ekki þar sem þeim var sagt að hann hafi framið sjálfsmorð. Þeir halda allir að hún sé í áfalli eftir ofbeldissambandið og fullvissa sig um að hún sé að sjá ofsjónir og sé ofsóknafull vegna þess. Þeir segja henni að hann sé dáinn og vegna áfallsins er hún að ímynda sér hluti. Gaslýsing er þegar aðili reynir að hagræða upplifun og tilfinningum annarra þannig þeir byrja að efast sjálfan sig og eigin geðheilsu (Johnson o.fl., 2021). Þrátt fyrir að vinir hennar héldu sjálfir að hún væri að ímynda sé þá er þessi hegðun gagnvart henni gaslýsing. Einnig notaði Adrian gaslýsingu sem oft er form af andlegu ofbeldi, en hann reyndi að telja Ceciliu trú um að hann hafi allan tímann verið haldið fanga og hafi ekki verið eltihrellir eins og hún hélt. Hann virðist þó ekki hafa náð markmiði sínu með gaslýsingunni til fulls þar sem að Cecilia trúði sjálfri sér og sínum upplifunum í gegnum myndina og hélt áfram að reyna sannfæra aðra um hana. Hægt væri að túlka ósýnilega búninginn sem tákn gaslýsingar þar sem hann hagræðir skynjun annarra.
Tvær stærri sálfræðilegar spurningar
1) Hvernig kemur geðrænn vandi Adrians fram í myndinni?
Hegðun Adrians lýsir sér líkt og sjálfsdýrkandi persónuleikaröskun (e. narcissistic personality disorder) og siðblinda. Samkvæmt DSM-5 einkennist sjálfsdýrkandi persónuleikaröskun af hugmyndum um mikilmennsku, þörf fyrir aðdáun og skort á samkennd (American Psychiatric Association, 2013). Einstaklingar með sjálfsdýrkandi persónuleikaröskun telja sig æðri öðru fólki, sem getur leitt til misnotkunar á öðrum einstaklingum. Einnig eiga þeir erfitt með að koma auga á tilfinningar annara en sjálfsmynd þeirra getur hins vegar verið viðkvæm og þeir eiga í erfiðleikum með að taka gagnrýni. Siðblinda fellur undir andfélagslega persónuleikaröskun (e. antisocial personality disorder) samkvæmt DMS-5 en einstaklingar með slíka röskun sýna hvatvísi, áhættusama hegðun, árásargirni, ábyrgðarleysi og virða ekki rétt annarra.
Þessu til stuðnings má nefna upphafsatriði myndarinnar þar sem Cecilia flýr Adrian, eiginmann sinn. Myndavélar eru víðsvegar um húsið sem hún þarf að laumast til að slökkva á eða beina þeim í aðra átt til þess að takast ætlunarverk sitt. Einnig er húsið vel girt af og til þess að flýja þarf hún að slökkva á viðvörunarbjöllum og klifra yfir háan vegg sem umlykur húsið. Þetta sýnir vel skort Adrians á samúð og hvernig hann reynir að einangra Ceciliu og hafa vald yfir henni. Einnig drap hann Emily, systur Ceciliu, m.a. til þess að tryggja frekari einangrun og skemma tengslanet hennar.
Í myndinni reynir Adrian að stjórna Ceciliu, bæði andlega og líkamlega. Cecilia segir frá því hvernig hann m.a. stjórnaði því hvernig hún leit út, hvernig hún klæddi sig, hvenær hún yfirgaf húsið og hvað hún borðað og sagði. Einnig lamdi hann hana og beitti hana líkamlegu ofbeldi. Adrian langaði í barn en Ceciliu ekki svo að hún tók getnaðarvarnarpillu en hann skipti henni út fyrir lyfleysu. Þetta er dæmi um tilhneigingu til valdastjórnunar og skort á siðferði.
Það að Adrian hanni ósýnilegan búning til þess eins að geta hryllt, elt og stjórnað Ceciliu er skýrt merki um siðblindu og narsissisma og sýnir enn og aftur skort Adrians á samkennd og skilning á því að tilfinningar annara séu til. Þegar að Cecilia flýr er hún að taka valdastjórnina úr höndum Adrians. Það brýtur í bága við hugmyndir hans um mikilvægi sitt og að allt snúist um hans þarfir, sem leiðir til notkunar á ósýnilega búningnum.
Önnur dæmi um birtingu hugsanlegrar sjálfsdýrkandi persónuleikaröskunar (e. narcissistic personality disorder) er þegar Adrian fer í ósýnilega búninginn, lemur einstakling og lætur líta út fyrir að Cecilia eigi sök. Adrian sendir einnig ljótan tölvupóst til Emily, systur Ceciliu sem átti að vera frá Ceciliu. Hann sker síðan systur Ceciliu á háls í ósýnilega búningnum og lætur blóðuga hnífinn í hönd Ceciliu, svo það líti út fyrir að hún hafi myrt systur sína. Þetta er allt gert til þess að einangra, efla valdastjórn og gaslýsa fórnarlambið í þeim tilgangi að efla eigin sjálfsmynd. Sem er merki um narsissisma og siðblindu. Út frá þessum atriðum er líklegt að Adrian sé með sjálfsdýrkandi persónuleikaröskunar (e. narcissistic personality disorder) einnig sem hann sýnir skýr merki um siðblindu.
2) Hvaða áhrif hafði andlega ofbeldið á Ceciliu?
Í fyrstu senu kvikmyndarinnar fáum við að sjá Ceciliu gera tilraun til þess að flýja heimili þeirra Adrian, hún er bersýnilega hrædd, taugaveikluð og kvíðin. Hvernig hún tekur skref fyrir skref á meðan Adrian sefur, segir okkur margt um sambandið í óbeinu samhengi. Einkenni áfallastreituröskunar eru breytilegar en áreita- og viðbragðs einkenni eiga hér mikið við um Ceciliu; að vera léttilega brugðið, í viðbragðsstöðu, að vera taugaveiklaður og eiga í erfiðleikum með svefn eru eitt af einkennum áfallastreituröskunar (NIMH » Post-Traumatic Stress Disorder, e.d.).
Við sjáum einkenni áfallastreituröskunar hjá Ceciliu eftir að hún kemst frá Adrian, í senunni sjáum við hana safna upp kjarki til þess að labba að póstkassanum fyrir framan húsið, þetta virðist ómögulegt fyrir Ceciliu. Þegar henni tekst loksins að labba að póstkassanum hleypur maður fram hjá og Ceciliu er svo brugðið að hún hleypur aftur inn í húsið. Cecilia tjáir tilfinningar sínar við vin sinn um hvernig Adrian beitti hana ofbeldi hvort sem það var líkamlegt eða tilfinningalegt. Við fáum að sjá hversu erfitt það er fyrir hana að tjá sig um ofbeldið og er hún greinilega ekki vön að tjá sig um þennan part af lífinu sínu og reynir að gera minna úr því sem hún varð fyrir í frásögn.
Cecilia er vænisjúk (e. paranoid) um að Adrian sé enn á lífi og sé á eftir henni, hún talar um það við vini og fjölskyldu. Vænisýki Ceciliu heltekur hana og sjáum við hana baða út höndum í auðu herbergi, kasta teppi í loftið, hella málningu og kaffibaunum yfir gólfið til að finna einhver merki um hvort Adrian sé í raun og veru þarna einhvers staðar. Það er áhugavert að sjá í myndinni hvernig fjölskylda og vinir Ceciliu gaslýsa hana óbeint. Þrátt fyrir meintan stuðning, segja þau við Ceciliu: Don´t let him win by bringing him back to life og að hann muni eltihrella hana frá dauðanum ef hún leyfir honum það. Samræður eins og þessar, við fólk sem hefur orðið fyrir ofbeldi eins og Cecilia sem er líklegast með áfallastreituröskun, getur verið túlkað sem lítillækkun og ótrúverðugleika í garð þeirra.
Þetta hafði slæm áhrif á Ceciliu og í kjölfarið hafði Adrian tekist að útiloka hana frá fjölskyldu og vinum. Vinir og fjölskyldumeðlimir Ceciliu trúa ekki vænisýkinni í henni sem endar að lokum með innlögn hennar á geðdeild. Á geðdeildinni sjáum við hvernig Cecilia missir von á því að einhver muni trúa henni.
Heimildaskrá
American Psychiatric Association. (2013). Diagnostic and Statistical Manual of Mental Disorders (5. útg.). https://acrobat.adobe.com/link/track?uri=urn%3Aaaid%3Ascds%3AUS%3A907fa51f-b6cb-494c-95b1-5cacf626fc55
Johnson, V. E., Nadal, K. L., Sissoko, D. R. G., & King, R. (2021). “It’s Not in Your Head”: Gaslighting, ‘Splaining, Victim Blaming, and Other Harmful Reactions to Microaggressions. Perspectives on Psychological Science, 16(5), 1024–1036. https://doi.org/10.1177/17456916211011963
Leigh Whannell. (Leikstjóri). (2020). The Invisible Man [Kvikmynd]. Universal Pictures.
NIMH » Post-Traumatic Stress Disorder. (e.d.). Sótt 3. nóvember 2023, afhttps://www.nimh.nih.gov/health/publications/post-traumatic-stress-disorder-ptsd